Morgunblaðið - 24.04.1993, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 24.04.1993, Blaðsíða 30
30 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. APRÍL 1993 Útgefandi Framkvæmdastjóri Ritstjórar Fulltrúar ritstjóra Fréttastjórar Ritstjórnarfulltrúi Árvakur h.f., Reykjavík Haraldur Sveinsson. Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Björn Jóhannsson, Árni Jörgensen. Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst Ingi Jónsson. Björn Vignir Sigurpálsson. Kringlan 1, 103 Reykjavík. Símar: Skiptiborð 691100. Auglýsingar: 691111. Áskriftir 691122. Áskriftargjald 1200 kr. á mánuði innan- lands. í lausasölu 110 kr. eintakið. Aðlögun að minnk- andi þjóðartekjum Að vanda komu fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar um stöðu þjóðarbúsins í ræðu Jó- hannesar Nordals, formanns bankastjórnar Seðlabankans, á ársfundi bankans fyrr í vikunni. í umfjöllun sinni um árið 1992 kall- aði Jóhannes það „ár vonbrigða, en þó vamarsigra, í þjóðarbúskap íslendinga“. Spár um afturbata í heimsbúskapnum hefðu brugðizt, en efnahagslægðin í Vestur-Evr- ópu, mikilvægasta markaðssvæði íslendinga, dýpkað. Óhagstæð skilyrði hefðu verið í öllum helztu útflutningsgreinum íslendinga. „Sjávarútvegurinn átti bæði við lækkandi útflutningsverðlag og minnkandi botnfiskafla að glíma, en mjög lágt verð var á útflutningi orkufreks iðnaðar; áli, kísiljárni og kísilgúr. Afleiðingin varð 3,7% samdráttur landsframleiðslu, en vegna versnandi viðskiptakjara lækkuðu þjóðartekjur um 4,5% sem jafngildir 5,4% samdrætti í þjóðar- tekjum á mann,“ sagði Jóhannes. Við höfum engu að síður unnið nokkra varnarsigra: „Þrátt fyrir þessi óhagstæðu skilyrði tókst að halda þjóðarútgjöldum í skefjum þannig að viðskiptahallinn dróst saman og meiri stöðugleiki náðist í verðlagi en um áratuga skeið. Alls nam lækkun þjóðarútgjalda 5,7% á árinu, sem var 1,2% um- fram samdrátt þjóðartekna, og kom það fram í lækkun viðskipta- hallans úr 4,7% af landsframleiðslu árið 1991 í 3,1% á síðasta ári. Lækkun varð á öllum þáttum þjóð- arútgjalda. Þannig dróst einka- neyzlan saman um 4,7% og stafaði það bæði af minni ráðstöfunartekj- um og minni skuldasöfnun heimil- anna. Enn meiri lækkun varð í fjár- festingu, eða 13,3%, og varð lækk- unin mest í fjárfestingu atvinnu- veganna og raforkuframkvæmd- um. Varð hlutfall fjárfestingar af þjóðarframleiðslu aðeins 17,6%, en svo lágt hefur það ekki verið í hálfa öld. Samneyzla dróst aðeins saman um 0,4%, sem eru þó veru- leg umskipti, því að útgjöld ríkis og sveitarfélaga til samneyzlu hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár að því er virðist óháð tekjuþróun þjóðarbúsins. Þannig hefur sam- neyzla vaxið um 4% á ári að jafn- aði undanfarinn áratug eða tvöfalt hraðar en þjóðartekjur." Af þessari upptalningu má sjá, að þrátt fyrir allt hefur okkur á mörgum sviðum tekizt að laga út- gjöld okkar að minnkandi tekjum og komast hjá því að eyða um efni fram. Samdráttur neyzlu og íjár- festingar hefur ekki farið framhjá hinum almenna borgara, sem þurft hefur að herða sultarólina á undan- fömum árum. Tekjurýmun þjóðar- búsins hefur heldur ekki látið fyrir- tæki ósnortin, sem þurft hafa að halda að sér höndum í fjárfesting- um og skera niður rekstrarkostn- að. Öðru máli gegnir hins vegar um hið opinbera. Þótt það sé auðvitað góðs viti að samneyzlan skuli hafa dregizt saman í fyrsta sinn í ára- tug, helzt þróun hennar engan veginn í hendur við þróun þjóðar- teknanna. Enn sem fyrr er opin- beri geirinn tornæmari fyrir sveifl- um í efnahagslífinu en heimili og fyrirtæki. Þrátt fyrir 0,4% sam- drátt í samneyzlunni er Ijóst að ríkissjóður verður rekinn með yfir 10 milljarða króna halla á þessu ári. Jóhannes Nordal gerði ríkis- sjóðshallann að umræðuefni í sam- bandi við skuldastöðu þjóðarbús- ins, en hlutfall erlendra lána af landsframleiðslu hefur aldrei verið hærra en nú; 54,7%. „Meginhluti skuldasöfnunarinnar síðustu árin hefur í raun farið til að greiða hallarekstur ríkissjóðs og þannig haldið uppi hærra neyzlustigi í þjóðfélaginu en efni hafa verið til, samtímis því sem dregið hefur úr fjárfestingu í arðbærum atvinnu- rekstri," sagði seðlabankastjóri. Hann lét jafnframt svo um mælt að þótt ríkissjóðshallinn hefði rrtinnkað á árinu 1992 væri fjár- hagsstaða ríkissjóðs áhyggjuefni „enda hefur verið umtalsverður halli á ríkisrekstrinum samfellt síð- astliðin átta ár og nema skuldir ríkissjóðs nú tæpum 40% af lands- framleiðslu og munu hækka enn á þessu ári. Vegna hinna miklu skulda þjóðarbúsins út á við er óhjákvæmilegt að halda áfram þeirri stefnu að fjármagna meiri hlutann af lánsfjárþörf ríkissjóð á innlendum markaði. Á meðan svo er ástatt í ■ríkisfjármálunum og skuldasöfnun heimilanna heldur áfram, að verulegu leyti fyrir milii- göngu hins opinbera húsnæðis- lánakerfis, er ólíklegt að vextir lækki nægilega til þess að hafa æskileg áhrif á hagvöxt og at- vinnustig". í ljósi þessa er furðulegt að t.d. aðilar vinnumarkaðarins skuli enn róa á mið ríkissjóðs í leit að kjara- bótum. Sama máli gegnir um for- svarsmenn opinberra starfsmanna, sem ekki vilja gera kjarasamninga við stjórnvöld af því að þeir óttast samdrátt í samneyzlunni. Jafn- framt ættu upplýsingar um tregðu hins opinbera hluta hagkerfisins til að bregðast við aðstæðum í þjóð- arbúskapnum að ýta undir að áfram verði unnið að einkavæðingu opinbers rekstrar. Viðbrögð heimila og fyrirtækja við kreppunni, sem einkennt hefur efnahagslíf okkar undanfarin ár, bera vott um aðlögunarhæfni og gefa góðar vonir um að okkur tak- ist að vinna okkur hraðar upp úr kreppunni þegar ástæður batna að nýju en ella hefði orðið. Við höfum enn sem komið er ekki fallið í ýmsar þær gryfjur, sem t.d. hafa orðið á vegi Færeyinga og Finna og þeir ekki komizt upp úr. Hins vegar er ástæða til að vara við því að tregðulögmálið í ríkisrekstrin- um stefni árangri í voða. Með orð- um Jóhannesar Nordals: „Bætt staða ríkissjóðs er ... bæði lykill- inn að Iægra vaxtastigi og sterk- ari stöðu þjóðarbúsins út á við.“ MORGUNBLAÐIÐ,LAUGARDAGUB,24- APRÍL 1993 ; 3>1 Jóhannes guðspjallamaður í upphafsstaf Tveggja postula sögu í Skarðsbók postulasagna (SÁM 1) frá þriðja fjórðungi 14. aldar. eftir Stefán Karlsson Fyrir nokkrum árum ákvað hið íslenska Biblíufélag að ráðast í nýja þýðingu Gamla testamentisins og hefur fengið til þess ijárhagsstuðn- ing frá íslenska ríkinu í tilefni af því að brátt verða liðin þúsund ár frá kristnitöku hér á landi. Þýðingarstarfið er samstarfsverk- efni Biblíufélagsins_ og Guðfræði- stofnunar Háskóla íslands. Nokkrir þýðendur og málfarsráðunautar hafa verið fengnir til verksins, en auk þess kjörin þýðingarnefnd til þess að hafa umsjón með þýðingunni, fara gaumgæfilega yfír texta og ganga frá þeim. Á síðastliðnu hausti buðu þeir aðilar sem að þýðingunni standa til málþings með nokkrum áhugamönn- um um þetta efni, og sú grein sem hér birtist er í meginatriðum það sem höfundur hafði þar til málanna að leggja. Góðvilji og velþóknun Guðfróður miðaldagrúskari, Hall- dór Laxness, birti í Tímariti Máls og menningar 1970 ritgerð sem hann nefndi „Hnýsilegir staðir í fornkvæð- um“ og þessi ritgerð var endurprent- uð í ritgerðasafninu Yfirskyggðir staðir árið eftir. Einn kafli ritgerðar- innar ber heitið „Lúkas í Sonator- reki“ og fjallar um síðari helming síðasta erindis þessa kvæðis sem lagt er Agli Skallagrímssyni í munn í sögu hans: skal eg þó glaður með góðan vilja og óhryggur heljar bíða. Halldór Laxness benti á það með gildum rökum „að góður vilji“ sem hér er nefndur væri sú „bona volunt- as“ sem um getur í jólaguðspjallinu í Lúk. 11,14 í almennu latnesku bibl- íuþýðingunni sem Hieronymus kirkjufaðir gerði um 400 og nefnd er Vulgata: „in terra pax hominibus bonae voluntatis". Þetta þýddi Hall- dór „friður til handa þeim mönnum sem eru með góðan vilja (eða hafa góðan vilja)“, en hann nefndi ekki þýðingar þessa biblíuvers í gömlum norrænum textum. Óvíst er að hann hafi þekkt þær, eða munað eftir þeim, þó að hann væri vel lesinn í slíkum bókmenntum, enda var þá í fárra manna höndum bók norska guðfræðingsins Jóhannesar Bels- heims, Af Bibelen paa norsk-islandsk (norröna) í Middelalderen, sem Giss- úr sonur hans hafði efnað til og kom út í Kristjaníu 1884, og mun ræki- legri bók Ians J. Kirbys prófessors, Biblical Quotation in Old Norse-Ice- landic Religious Literature, kom ekki út fyrr en 1976-80 í tveimur bindum á vegum Stofnunar Árna Magnús- sonar á íslandi. í norskum og íslenskum miðalda- ritum birtast „homines bonæ volunt- atis“ með mismunandi orðalagi, en sameiginlegur þeim öllum er „góður vilji“ í einhverri mynd. Elsta handrit- ið sem varðveitir jólaguðspjallið á norrænu máli er Norska hómilíubók- in frá því um 1200 og þar stendur „friður á jörðu mönnum er gott vilja“, í Maríu sögu „á jörðu verði (sé) friður með mönnum þeim sem með góðum vilja eru“, í Stjóm „á jarðríki sé friður þeim mönnum sem góðviljugir eru“, og í Messuskýring- um „á jörðu sé friður mönnum guðs vilja“ (sem án efa er misritun fyrir „góðs vilja“). í Nýja testamenti Odds Gott- skálkssonar 1540 er enn „góðvilji" en í nýju samhengi, „friður á jörðu og mönnum góðvilji", og utanmáls er þýdd skýring Lúthers á því hvað sé „góðvilji“ („wohlgefallen" í texta Lúthers). Texti Odds er óbreyttur í Guðbrandsbiblíu 1584 og með frá- vikinu „góður vilji“ fyrir „góðvilji" í Þorláksbiblíu 1644, Vajsenhúsbiblíu 1747 og Hendersons-biblíu 1813, en í Steinsbiblíu 1728 er hér sem víðar Titilsíða Guðbrandsbiblíu 1584. vikið frá biblíumálshefðinni 1540- 1813, því að þar er orðalagið „friður á jörðu, á meðal mannanna ein vel- þóknan“. í Bessastaðaþýðingunni á Nýja testamentinu 1827, er breyt- ingin enn meiri, „blessan eryfir jörð- unni og guðs velþóknan yfír mönn- um“, en textinn var færður heldur nær hefðinni í Viðeyjarbiblíu 1841, „friður á jörðu og (guðs) velþóknan yfir mönnunum". Hér var „guðs“ haft í svigum til skýringar og eins í útgáfunni 1859, en fellt niður 1866. í Biblíunni 1908 birtist ný túlkún textans, „á jörðu friður meðal manna sem velþóknun er á“, sem breytt var 1912 í „friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á“, og eins er textinn í Biblíunni 1981 nema hvað ábendingarfornafn- ið „þeim“ hefur verið fellt niður. Þar sem ég er fákunnandi í grísku og guðfræði, ætla ég ekki að reyna að leggja mat á hver þessara þýðing- arkosta muni vera réttastur, þó að ég geti ekki neitað því, að mér finnst eftirsjá að mönnum með góðan vilja. Góður grískumaður, Eyjólfur Kol- beins, hefur sagt mér að venjulegur grískur texti muni vera tvíræður á þessum stað, þannig að hvor tveggja skilningurinn, skilningur Vúlgötu, sem íslenskir miðaldaþýðendur fylgdu, og sá sem birtist í 20. aldar biblíum okkar, fái staðist, en að texti Odds, sem var ríkjandi hér í þijár aldir og styðst við túlkun Lúthers, sé í samræmi við eitt afbrigði gríska textans. Kirkjumál á fyrstu öldum íslenskrar kristni Halldór Laxness nefndi „góðan vilja“ í Sonatorreki til marks um að kvæðið — og sér í lagi þessi vísupart- ur — gæti ekki verið ort af Agii og reyndar ekki fyrr en „löngu eftir kristnitöku", eins og hann komst að orði. Hvað sem hlutdeild Egils líður, þarf biblíuorðfæri ekki að vera ungt, því að elstu varðveitt handrit'okkar frá því um eða fyrir 1200 birta ís- lenskt kirkjumál með svo þroskuðu orðfæri og þjálfuðum stíl að óhugs- andi er að þar séu byijendur á ferð að túlka nýjan hugmyndaheim fyrir löndum sínum. í Fýrstu málfræðiritgerðinni, sem er talin samin nálægt miðri 12. öld, eru „þýðingar helgar" taldar meðal þess sem „nú tíðist“ „að ríta og lesa“ „á þessu landi“, en „þýðingar" eru hér varla í okkar venjulegu nútíma- merkingu, heldur mun átt við útskýr- ingar án tillits til þess hvort um þýðingar úr öðru máli er að ræða. Samkvæmt Landnámu kom tölu- verður hluti landsnámsmanna frá Bretlandseyjum, og þetta fólk hefur án efa flest verið kristið. Enda þótt afkomendur sumra þeirra hafi kast- að kristni, verður að telja ólíklegt að landið hafi verið „alheiðið nær hundraði ára“, eins og segir í Land- námu. Kristnitakan árið 1000 verður a.m.k. skiljanlegri ef gert er ráð fyr- ir að kristni í iandinu hafi þá átt sér eldri lifandi rætur en þær sem hafa sprottið af kristniböðsfræjum rétt fyrir aldamótin. Augljóst er að kaþólskt kristni- hald án presta og latínubóka hefur verið óhugsandi og ekki síður kristni- boð án þess að frumatriði kristins dóms væru útskýrð fyrir fólki á máli sem það skildi; „talaði Þorvald- ur trú fyrir mönnum, því að biskup undirstóð þá ei norrænu", segir í Kristni sögu um kristniboð þeirra Þorvalds víðförla og Friðriks biskups af Saxlandi. Nýr siður kallaði reyndar á nýtt orðfæri. Ný orð vóru að hluta fengin úr alþjóðlegu máli páfakirkjunnar, latínu, sem hafði sótt margt þeirra orða til grísku, en tökuorð af þessum toga tengdust flest starfsheitum kirkjunnar ellegar kirkjubygging- unni og guðsþjónustunni. Þessi grísk-latnesku orð hafa a.m.k. sum komið inn í norræn mál með önnur germönsk mál að millilið, einkum fomsaxnesku og engilsaxnesku, enda barst kristni til Norðurlanda frá þeim þjóðum sem þessi mál töluðu. Fleiri orð sem tengdust kristninni vóru tekin upp úr þessum málum og aðlöguð norrænu málkerfí. En að lang-mestu leyti hefur kristin kenning þó frá upphafí verið sett fram með orðfæri af íslenskum toga, sumpart gömlum orðum í nýjum hlutverkum og sumpart tökuþýðing- um latneskra orða. Mikil fróðleiks- náma um það hvernig ýmis latnesk orð á þessu sviði hafa verið þýdd í elstu bókmenntum er bók Emst Walter prófessors í Greifswald, Lex- ikalisches Lehngut im Altwestnord- ischen. Untersuchungen zum Lehn- gut im ethisch-moralischen Wort- schatz der friihen lateinisch-altwest- nordischen Úbersetzungsliteratur (1976). Að sjálfsögðu hafa kirkjunnar menn fyrstir ritað móðurmál með latínuletri hér á landi, en hve snemma þeir hafi farið af stað verð- ur ekki fullyrt. Það fyrsta sem vitað er með vissu um að íslenskt mál hafí verið fest á bókfell er að byijað var að skrá lög á Breiðabólstað í Vesturhópi veturinn 1117-18, en óhugsandi má telja að það hefði gerst nema menn hefðu áður haft reynslu af slíku verki. Líklegt hefur þótt að tíundarlögin hafi verið skráð um leið og þau vóru sett 1096 eða ’97 og óvíst að það hafi verið upphaf- ið. Hvað sem því líður er víst að elstu varðveitt handrit kirkjulegra texta eru ekki frumrit, þannig að þessir textar hafa ekki orðið til síðaj en á 12. öld og sumir e.t.v. fyrr. í elstu handritunum er um að ræða prédik- anir (m.a. í íslensku hómilíubókinni), kvæði (drápu með heiðnum kenning- um um kristna riddarann Placidus) og kennslubók í kristnum fæðum (Elucidarius, en sú bók var reyndar ekki samin á latínu fyrr en á önd- verðri 12. öld). Óhætt er að fullyrða að íslending- ar hafi ekki í annan tíma brugðist jafn-myndarlega við stórfelldum ér- lendum menningaráhrifum og á fyrstu öldum kristni í landinu, en skylt er að hafa í huga að Noregur og nýbyggðir Norðmanna vóru þá enn eitt málsvæði, sem hefur verið einn bókamarkaður, a.m.k. eftir að erkistóll var settur í Niðarósi 1152. Um einstaka kirkjulega texta, eink- um meðal þeirra elstu, vitum við ekki hvort þeir eiga uppruna sinn hér á landi eða annars staðar á norsku málsvæði, jafnvel þó að þeir séu flestir einvörðungu varðveittir í íslenskum handritum. Nokkrar þeirra prédikana sem í íslensku hóm- ilíubókinni standa er þó jafnframt að finna í þeirri norsku sem er frá svipuðum tíma en með ofurlítið ung- legri málsvip. Biblíuþýðingar á þjóðtungu Á síðmiðöldum var biblían öll þýdd á nokkrar evrópskar þjóðtungur, þ. á m. þýsku og ensku, en það vóru einkum þrír hlutar biblíunnar sem vóru þýddir snemma á móðurmál — guðspjöllin, Davíðssálmar og sögu- legar bækur Gamla testamentisins. Engar líkur eru á því að til hafí verið á kaþólskum tíma þýðing á biblíunni allri á íslensku eða norrænu — og með norrænu á ég hér við sameiginlega tungu norska mál- svæðisins, sem ekki fór að greinast að marki fyrr en á síðari hiuta 14. aldar. Samfelldasti hluti biblíunnar, sem er varðveittur í íslenskum hándritum frá miðöldum, er fyrsti hluti Gamla testamentisins; þessi norræni texti. hefur verið nefndur Stjóm. Þarna er þó eiginlega um þijú rit að ræta, sem ekki em varðveitt öll saman nema í einu handriti. Fyrsta ritið er yngst og lengst, en nær þó ekki nema rétt aftur fyrir miðja II. Móse- bók. Samkvæmt formála hefur það verið sett saman fyrir orð Hákonar konungs Magnússonar, sem ríkti yfir Noregi og skattlöndunum 1299- 1319. Það er í rauninni skýringarrit við þann hluta biblíunnar sem þar er tekinn upp, og skýringarnar eru sóttar í ýmis erlend rit, einkanlega þó eftir tvo franska lærdómsmenn, þá Petrus Comestor á 12. öld og Vincentius frá Beauvais á 13. öld. Annar hluti Stjórnar er að heita má hreinn biblíutexti, en töluvert stytt- ur. Hann tekur til þar sem fyrsta hluta sleppir og nær til enda Móse- bóka. Óvíst er um aldur þessa texta, en ekki er ósennilegt að hann sé frá fyrri hluta 13. aldar, og hann hefur án efa í öndverðu tekið til Mósebók- anna allra. Þriðji hluti Stjórnar hefur að geyma framlíaid af sögu gyðinga frá Jósúa og fram til herleiðingarinn- ar og innan um textann em skýring- argreinar, þó að þær séu ekki nánd- ar nærri eins miklar að vöxtum og í fyrsta hlutanum. Hér hefur e.t.v. verið að verki Brandur ábóti Jóns- son, sem var Hólabiskup 1263-64. Davíðssálmar em ekki varðveittir í heilli norrænni þýðingu frá miðöld- um, en þó er til þýðing sálmanna að miklu leyti, sem hefur verið skrif- uð skömmu eftir siðbreytingu á milli Iínanna á mun eldra saltarahandriti með latneskum texta, sem nú er í þjóðarbókhlöðunni í Vínarborg (Der Wiener Psalter, útg. Heiko Uecker (1980)). Þýðingin er trúlega frá því fyrr eða um 1500, en hér er ekki um að ræða þýðingu í venjulegum skilningi, heldur hjálpartæki við lat- ínunám, þar sem þýðingar — ekki alltaf samfelldar — hafa verið skrif- aðar milli línanna nemenda eða kennara til hægðarauka. Oddur Gottskálksson og eldri biblíumálshefð Um íslenska miðaldaþýðingu á guðspjöllunum er ekki kunnugt, néma ef nefna skyldi Fjóra guð- spjallamenn Jóns biskups Arasonar, en um það rit er flest á huldu. Á það hefur hins vegar verið bent að Oddur Gottskálksson hafi í þýðingu sinni stuðst við eldri texta, og eink- anlega sýndi Jón Helgason í bók sinni, Málið á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (1929), fram á náin orðalagslíkindi með texta Odds og póstum í Jóns sögu baptista (sögu Jóhannesar skírara) eftir Grím prest Hólmsteinsson frá ofanverðri 13. öld, en Ian Kirby taldi hins vegar þessi líkindi fremur vera vitnisburð um að þeir Grímur og Oddur hefðu báðir notað sömu norrænu þýðing- una á guðspjöllunum, sem nú væri glötuð. Ein nánasta samsvörunin er í til- vitnun Jóhannesar skírara til Jesaja í Lúk. 3.5, þar sem segir í Jóns sögu: „Hver dalur mun fyllast, en fjöll og hálsar munu lægjast." Hvert orð er hér eins hjá Oddi néma hvað hann hefur „og öll fjöll" þar sem er „en fjöll“ í Jóns sögu, en þar hefur Grím- ur hlaupið yfir „omnis“ í Vúlgötu sinni ellegar skrifari hlaupið yfír „öll“ i uppskrift. Þetta orðalag er okkur kunnuglegt, þó að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á því í aldanna rás, einkum í biblíunum 1728 og 1908/12, en í báðum tilvik- um var horfíð aftur nær eldri texta í næstu biblíu á eftir. „Fjöll og háls- ar“ urðu „fjall og hæð“ 1728, en síðan aftur „fjöll og hálsar“ þangað til „hæð og hóll“ tóku við 1908, en „feíl og hálsar“ 1981. Mestum breyt- ingum hefur „dalur“ tekið („vallis“ í Vúlgötu); hann varð „dalverpi“ hjá Bessastaðamönnum, „lægð“ 1908 og „gil“ 1981. Fáeinum versum aftar, í Lúk. 3.9, lætur Oddur Jóhannes skírara segja: „Oxin er nú sett að rót trésins, og Stefán Karlsson „Til sanns vegar má færa það sem sagt hefur verið um málið á þýð- ingunni, að það væri sérstök íslenska, „kirkjuíslenska“, sem aldrei hefði verið mælt mál, og það tel ég til lofs en ekki lasts. Biblíutexta hæfir ekki hvunndagsmál.“ hvert það tré sem eigi færir góðan ávöxt mun af höggvast og í eld kast- ast.“ Hér hefur Oddur ekki haft sam- bærilegan texta hjá Grími Hólm- steinssyni, en í miðaldabroti úr 20. guðspjallahómilíu Gregóríusar er texti þessa vers fjarska líkur: „Nú þegar er öx reidd að rótum trés. Hvert tré er eigi gjörir góðan ávöxt verður upp höggvið og í eld orpið.“ E.t.v. má lita á þessa nánu sam- svörun texta Odds við texta tveggja ólíkra miðaldarita sem vísbendingu um að öll þijú ritin hafi stuðst við það fjórða glatað, þýðingu guðspjall- anna. Ekki er það þó tryggt. Segja má að hið einfalda orðfæri guðspjall- anna, ásamt stöðugleika íslenskrar tungu, kunni að hafa kallað fram sömu orðin í huga margra þýðenda. í annan stað má búast við því, að nokkur festa hafi fremur komist á orðalag í períkópunum en á öðrum hlutum biblíutextans, sem sjaldnar var farið með. í því sambandi má nefna að Bald- ur Jónsson dró fram dæmi um það í grein sinni „Guðspjöll og pistlar í Vídalínspostillu" (Afmælisrit til dr. phil. Steingríms J. Þorsteinssonar (1971)) að biblíutextar í handbókum kirkjunnar gátu lifað sínu sjálfstæða lífi, óháðir breytingum á texta biblíu- útgáfna. Svipað kom í ljós í athugun minni, „Drottinleg bæn á móður- máli“ (Studia Theologica Islandica 4 (1990)): Bænin er ekki alveg eins í neinum tveimur biblíuútgáfum, þó að lang-flest orðin séu þau sömu í þeim öllum og eigi sér rætur þegar í elstu kirkjulegum textum á móður- máli. Eins og séra Arngrímur Jóns- son hafði bent mér á, reyndist texti bænarinnar í handbókum hins vegar heita má óbreyttur frá Guðspjallabók Ólafs Hjaltasonar 1562 til þessa dags. En það var ekki fyrr en með Biblíunni 1981 að Faðirvortexti bibl- íunnar, þ.e.a.s. í Mattheusarguð- spjalli, varð orðrétt eins og í hand- bókunum og um leið í fullu samræmi við bænahefð Islendinga um aldir. Hér að framan hef ég lítið gert að því að fylgja biblíumálshefð frá siðabreytingu til okkar daga, og hér á eftir verður drepið á fátt eitt. Saga biblíuþýðinga, var rakin í megin- dráttum í grein Steingríms J. Þor- steinssonar, „íslenzkar biblíuþýðing- ar“ (Víðförli 1950), og í bókinni Bibl- íuþýðingar í sögu og samtíð í ritröð Guðfræðistofnunar (Studia Theo- logica Islandica 4) fjölluðu nokkrar ritgerðir um þetta tímabil, einkum þýðingar á öldinni sem leið og um aldamótin, en vissulega væri þörf á mun meiri rannsóknum á þessu efni. Eg hef þó fremur kosið að rekja fáeina þræði aftur á miðaldir, og með því hef ég viljað leggja áherslu á það sem mér fínnst stundum ekki dregið nógu skýrt fram, að án lif- andi bókmennta- og biblíumálshefð- ar hefðu Islendingar alls ekki eign- ast biblíu á móðurmáli jafn-snemma og raun varð á. Guðbrandsbiblía og afkvæmi hennar Eins og kunnugt er gaf Guðbrand- ur biskup Þorláksson út biblíuna alla á Hólum 1584. Þar tók hann upp Nýja testamentið eftir þýðingu Odds Gottskálkssonar með mjög óveruleg- um breytingum og lítt breytta þýð- ingu Gissurar biskups Einarssonar á Orðskviðum Salómons og Jesú Sír- aksbók. Um þýðingar annarra bóka Gamla testamentisins er fátt vitað með vissu og heldur ekki hveijar þeirra Guðbrandur hefur þýtt sjálfur. Þetta afrek íslenskra siðbreyting- armanna, að þýða og gefa út prent- aða bilíuna alla, var mikið, og texti Guðbrandsbiblíu hélst lítt breyttur um aldir, allt fram til Viðeyjarbiblíu 1841. Fyrir þann tíma eru mest frá- vik í biblíu Steins biskups Jónssonar 1728, en í ftestum tilvikum var text- anum breytt aftur til fyrra horfs í næstu útgáfu, Vajsenhúsbiblíu 1747, e.t.v. einkum vegna þess að mörgum hefur þótt orðalag Steinsbiblíu vílqa um of frá kunnuglegu biblíuorðfæri. I Viðeyjarbiblíu (og undanfara henn- ar Nýja testamentinu 1827) var text- anum breytt mjög verulega, ekki síst að því leyti að íjölda tökuorða var rutt úr honum og tekin upp eldri orð íslensk, einkumjiau sem enn lifðu á vörum fólks. Áhrifa þeirrar mál- hreinsunarstefnu sem hefur verið ríkjandi á íslandi síðustu tvær aldirn- ar gætir m.a. í því, að mörg margt í orðfæri og setningagerð Guð- brandsbiblíu 1584 (og undanfara hennar, Nýja testamentis Odds Gott- skálkssonar 1540) er nútímafólki framandlegt, m.a. fjölmörg þýskætt- uð tökuorð sem eru orðin úrelt og hafa sum e.t.v. aldrei verið í mæltu máli almennings. Frá Guð- brandsbiblíu til nútímans er samt óslitin biblíumálshefð, þó að mörgu hafí verið breytt vegna nýs skilnings og breytts málsmekks, en stundum að þarflausu og jafnvel til hins verra. Guðbrandur biskup vildi lagfæra, eins og hann komst að orði, „dönsku- blandaðar útleggingar og brákað mál“, en þrátt fyrir það er margt í orðfæri Guðbrandsbiblíu framand- legra nútímafólki en orðalag í eldri textum. Sem dæmi má nefna að í Davíðssálmum er „munus“ þýtt „gáfa“ í Guðbrandsbiblíu, þar sem er „gjöf“ í Vínarsaltara, „cogitatio" „þanki“, en „hugsan" í Vínarsaltara, ,justus“ „réttferðugur“ en „réttlát- ur“ í Vínarsaltara, „conservare" „bívara“ en „varðveita" í Vínarsalt- ara og „incurvare" er „niðurþrykkja" hjá Guðbrandi, en „beygja“ í Vínar- saltara. í öllum þessum tilvikum og fleiri er sama orðið í sama versi í okkar biblíu nú og í Vínarsaltara, en það hefur gerst án stuðnings af Vínarsaltara; í báðum tilvikum hafa þýðendur einfaldlega valið algeng- ustu íslensku orðin sem til greina komu. Þessi venjulegu íslensku orð hafa komið upp missnemma í biblíu- útgáfum, sum þegar í Steinsbiblíu, sem annars hefur ekki þótt einkenn- ast af hreintungustefnu, en þýskætt- uðu tökuorðin úr Guðbrandsbiblíu og Þorláksbiblíu vóru tekin upp aftur í Vajsenhúsbiblíu og héldu sum velli allt fram að þýðingunni 1908. Aldamótaþýðingin Um aldamótin síðustu unnu Har- aldur Níelsson og samverkamenn hans að biblíuþýðingu sem kom út 1908 og með nokkrum breytingum 1912. Það er sá biblíutexti, lítt breyttur, sem íslendingar hafa haft um hönd síðan — að því fráskildu að í Biblíunni 1981 birtist ný þýðing guðspjallanna og Postulasögunnar. Þegar unnið var að þessari þýð- ingu var um hana talað sem „endur- skoðun biblíunnar", en á titilblaði er hún kölluð „ný þýðing úr frum- málunum". Hún er þó vissulega ekki „ný“ í þeim skilningi að þýðendur hafi þýtt sína biblíutexta án þess að huga að því sem áður hafði verið gert. Grundvöllurinn hefur að sjálf- sögðu verið Viðeyjarbiblía, en jafn- framt hafa þýðendur án efa gefíð gaum að orðalagi í eldri biblíum. Auk þess hafa þeir átt þess kost að kynna sér norræn miðaldarit með biblíutextum og biblíutilvitnunum, því að þessi rit vóru einmitt flest gefin út á tímaskeiðinu milli Viðeyj- arbiblíu og Biblíunnar 1908: Barlams saga og Jósafats kom út 1851, Norska hómilíubókin 1864, Elucidar- ius 1858, Biskupa sögur 1858-78, Stjórn 1862, Tómas saga 1869, Maríu saga 1871, íslenska hómilíu- bókin 1872, Postula sögur 1874, Heilagra manna sögur 1877, Leifar fornra kristinna fræða íslenska 1878, Gyðinga saga 1881 og íslensk ævintýri 1882. Lok birtist biblíutil- vitnanabók Belsheims 1884. Ég hygg því, að auk þess að þýðendur aldamótabiblíunnar hafa leitast við að fylgja frumtextum sínum á þann hátt sem þeim þótti réttast hafi þýð- ing þeirra sameinað margt það besta í íslenskri biblíumálshefð. Til sanns vegar má færa það sem sagt hefur verið um málið á þýðingunni, að það væri sérstök íslenska, „kirkjuís- lenska“, sem aldrei hefði verið mælt mál, og það tel ég til lofs en ekki lasts. Biblíutexta hæfir ekki hvunn- dagsmál. Um einstök atriði má þó deila, og ekki er við því að búast að alltaf hafí tekist jafn-vel til. Dæmi má taka úr texta boðorðanna í 2. Mós., 20. kap.: í Viðeyjarbiblíu leysti Grá- gásarorðið „Ijúgvætti" af hólmi „falskan vitnisburð“, sem Guðbrand- ur hafði á þessum stað, enda þótt hann notaði „ljúgvitni“ annars stað- ar í biblíu sinni, og 1908 var „ljúg- vætti“ breytt í „ljúgvitni", sem er það orð sem haft er í öllum varðveitt- um miðaldatextum boðorðsins. Þarna vóru tvímælalaust breytingar til bóta, en lítum á 5. boðorðið: í Guðbrandsbiblíu og afkvæmum hennar var textinn „Þú skalt ekki í hel slá“, sem í Viðeyjarbiblíu var breytt í „Þú skalt ekki mann vega“ í samræmi við miðaldatexta, en nýtt orðalag tekið upp 1908, „þú skalt ekki morð fremja“, sem ég fæ ekki séð hvað hefur fram yfír endurvak- inn miðaldatextann, hátíðlegan en hveijum læsum íslendingi vel skilj- anlegan. Ný biblíuþýðing Nú er unnið að „nýrri þýðingu" Gamla testamentisins, en í því felst ekki að hún þurfí að vera gjörólík fyrri þýðingum. Hver ný þýðing kall- ar þó á breytingar, sumpart vegna framfara í rannsóknum frumtext anna sjálfra og skilningi á þeim. Að öðru leyti er festa í orðfæri mikilvæg og ástæðulítið að hrófla við texta sem biblíulesendur hafa vanist, enda rekur engin nauður biblíuþýðanda til að víkja frá orðalagi eldri þýðinga nema því eins og það geti misskilist ellegar þá að orðalag hennar sé mjög stirt eða klaufalegt. Þá getur þurft að grípa til lagfæringa á orðfæri, málsgreinagerð og orðaröð. í slíkum tilvikum má stundum sækja fyrir- myndir lengra aftur í biblíumálshefð- ina, ekki síst til fommálsins sem að mörgu leyti stendur nær nútímamáli en mál lærðra manna á 16., 17. og 18. öld gerir, enda hefur íslensk málstefna mótast af íhaldssemi, mið- að að því að halda tengslum við gamalt málfar og forna texta. Ég teldi því illa farið ef í nýrri þýðingu biblíunnar yrði bylt þeim texta sem íslendingar hafa vanist nær alla þessa öld og að mörgu leyti varðveitir það besta úr biblíumáls- hefð okkar. Því fer þó fjarri að með þessu sé ég að halda því fram að ný þýðing biblíunnar sé óþörf. Ýmsu þarf ugglaust að breyta, sumpart til þess að koma merkingu bestu texta eins vel til skila og unnt er, og víða má líka færa málfar nær mæltu máli án þess að hátíðleiki stílsins og ellifegurð málsins bíði tjón af. En bylting á orðfæri textans, sem hvort tveggja í senn gerði hann framand- legan biblíukæru fólki og fjarlægði hann til muna frá „kirkjuíslensku" aldamótaþýðingarinnar, held ég að yrði menningarslys. Þá gæti sprung- ið sá hornsteinn tungunnar í þúsund ár, sem íslenskt kirkjumál hefur ver- ið. Höfundur er handritafræðingur. 1“
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.