Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1992, Qupperneq 75
ATHUGASEMDIR VIÐ GREIN BJARNA F. EINARSSONAR
79
hætta á að menn láti hugtökin blekkja sig til að tala um hluti sem ekki er
hægt að tala um. Þannig virðist Bjarni halda, eftir að hafa upplýst í inn-
gangi að trúarbrögð séu einn þáttur mannlegrar hegðunar (sem er hárrétt
og gagnleg athugun), að hann geti sagt eitthvað um trúmál þeirra Grana-
staðamanna - sem er allt annað mál. Það getur ekki verið nein önnur
ástæða fyrir því, að hann telur sig geta sleppt því að rökstyðja afhverju
herbergi I á að vera trúarlegt eldhús, og að hann telur sig geta gefið í skyn
að það að engar byggingar séu milli herbergis 1 og kumlsins, hafi einhverja
merkingu. Við verðum auðvitað að gera ráð fyrir að Bjarni hafi eitthvað til
síns máls, það mun t.d. væntanlega koma fram í lokaskýrslu um uppgröft-
inn að herbergi I og hús 9C hafi gegnt sínum eldhúshlutverkum á ná-
kvæmlega sama tíma, og að kljásteinarnir/snældusnúðarnir í húsi 9C
bendi til þess að þar hafi aldrei neitt annað farið fram en eldamennska.
Það hefði margfaldað gildi athugana Bjarna um þessi mál hefði hann haft
fyrir því að rökstyðja hvernig hægt er að setja fram svona kenningar, en
eins og þær standa er lítil ástæða til að taka þær alvarlega.
Meiri samúð er hægt að hafa með þeim vanda sem felst í að þýða erlend
hugtök yfir á íslensku, slíkt er ekki einnar nætur verk, einkanlega þegar
erlendu fyrirmyndirnar hafa ekki sérlega skýrar merkingar. Það hefði hins-
vegar átt að verða Bjarna tilefni til að ræða og skýra betur þau hugtök sem
hann notar, en úr því hann lætur það hjá líða, þá verðum við að skilja það
sem áskorun um að íslenskir fornleifafræðingar fari að sinna nýyrðasmíð
og margefli með sér kennilega umræðu. Ég auglýsi t.a.m. eftir dæmi um
„umhverfisbundið atferli". Ég á nefnilega eftir að hitta það tré eða fjall
sem fær mig til að hegða mér á einhvern ákveðinn hátt, og ég átta mig
ómögulega á gagnsemi þess að hafa hugtak um að einhver atferli eigi sér
stað í umhverfi (frekar en einhvers staðar annars staðar?). Einnig er mér
stórlega til efs, jafnvel þó að íslenskir fornleifafræðingar vilji örugglega
vera þekktir fyrir kímnigáfu og léttlyndi, að hugtakið „atferli í rúmslegu
samhengi" muni þykja tækt í fornleifafræðilegri umræðu til lengdar.
Subbuskapur í meðferð hugtaka getur aldrei þjónað markmiði vísindanna
og getur aðeins orðið til þess að rýra gildi annars athyglisverðra rann-
sókna.
Hin hliðin á þeim vanda að nota aðferðir félagsvísinda í fornleifafræði-
legri greiningu og umræðu hefur lítið með vísindi að gera, heldur er hann
sprottinn af því sem Bjarni myndi kalla „fræðibundið atferli". Það er, að
svoleiðis aðferðir virðast mönnum oft þvílík töfratæki, að þeir halda að
það sé nóg að beita einhverri slíkri aðferð og þá muni snilldarlegar niður-
stöður framkallast, og/ eða menn halda að góð og skynsamleg aðferð geti
einhvernveginn aukið gildi léttvægra niðurstaðna. Þetta er gildra sem auð-