Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1992, Side 79
BJARNI F. EINARSSON
ATHUGASEMD VIÐ ATHUGASEMD
ORRA VÉSTEINSSONAR
Rýmisins vegna mun ég aðeins koma inn á örfá atriði í gagnrýni Orra á
grein mína. í stuttu máli má þó segja að inntakið í gagnrýni Orra sé fyrst
og fremst vantrú hans á aðferð mína („hafi lítið með vísindi að gera"), og að
ég gefi mér of margar forsendur að byggja á í rökfræðinni. Svar mitt við
athugasemdum Orra gæti í stuttu máli hljóðað svo: Ekki gera tilgátur mín-
ar að kenningum. Gefum fornleifafræðinni aðeins meiri möguleika þó að
hún sé takmörkum háð, eins og allar aðrar greinar vísinda.
Orri segist á einum stað eiga erfitt með að trúa því að eitt tré eða fjall fái
hann til að hegða sér á einn eða annan hátt og áttar sig því ómögulega á
gagnsemi þess að hafa hugtak um að einhver atferli eigi sér stað í um-
hverfinu. Orri er eins og aðrir, afurð af umhverfi sínu, fjallasýnin, tré-
leysið, urðirnar og hafið móta hann. Umhverfi þetta stýrir honum eins og
öðrum lifandi verum t.d. í vali á búsetusvæði, hvar hann gengur o.s.frv.
Þó að hann skynji þetta ekki er ekki þar með sagt að atferlið sé ekki til og
þar með engin þörf á hugtakinu. Ég fer reyndar ekki mjög út í þessa sálma
í þessari grein, en í stuttu máli er það skoðun mín að maðurinn stjórnist af
umhverfi sínu, og hafi ætíð gert, hvort sem hann gerir sér grein fyrir því
hverju sinni eða ekki.
Orri segir afdráttarlaust að fornleifafræðin eigi ekki að nota sömu hug-
tök og mannfræðin, vegna þess að „ályktanir sem við getum dregið af forn-
leifaheimildum um slík mál (þ.e. trúarleg mál, mín ath.) hljóta alltaf að verða
annars eðlis og umfangs en t.d. mannfræðingar geta leyft sér." Ef öll hugtök í
fornleifafræði, sem sótt hafa verið til mannfræðinnar, væru tekin út úr
fornleifafræðilegri umræðu stæðj lítið eftir. I sumum löndum er jafnvel
gengið svo langt að staðhæfa að ef fornleifafræði er ekki mann(félags)-
fræði, þá er hún ekkert. Sömu hugmyndir virðist Orri hafa um notkun fél-
agssálarfræðilegra hugtaka í fornleifafræði, vegna þess að „grunnurinn er
annar". Hvaða grunnur? Ein af megin forsendum þeim sem ég gef mér í
minni umræðu er að manneskjan hafi ákveðið hegðunarmunstur sem sé