Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1992, Page 141
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR OG MJÖLL SNÆSDÓTTIR
SEL, BEITARHÚS EÐA AFBÝLI?
Hugleiðingar um bókina:
Farm Abandonment in Medieval and Post-Medieval Iceland: an
Interdisciplinary Study (Oxbow Monograph 17).
Höfundur: Guðrún Sveinbjarnardóttir.
Útgefandi: Oxbow Books, Oxford 1992.
Unnendur íslenskrar fornleifafræði kætast þegar út koma ný rit sem
hana snerta. I þeirri grein hefir margt gott verið gert síðan Hið íslenska
fornleifafélag var stofnað 1879, en mikið verk er óunnið, ekki síst í því er
lýtur að skráningu fornra mannvistarleifa í landinu. Við könnun árið 1981
töldust friðlýstar minjar á fornleifaskrá vera á 721 stað hérlendis. Ljóst er
því að óskráðar fornleifar hljóta að vera býsna víða og margar til í landinu
og brýn nauðsyn að skrásetja hið bráðasta leifar fornra mannvirkja hvar
sem þær teljast vera. Bókin sem hér verður fjallað um er mikilvægt fram-
lag til fornleifaskráningar og verður því meðal grundvallarrita um íslenska
fornleifafræði í framtíðinni, fyrsti áfangi á langri leið sem fara skyldi til
þess að kanna hvar vænlegast er að bera niður til þess að láta rústir lands-
ins segja sér sögu.
Markmið rannsóknarinnar sem birt er í bók Guðrúnar Sveinbjarnar-
dóttur er að leita svara við því á hvern hátt sóttir, loftslagsbreytingar til
hins verra, náttúruleg landeyðing og efnahagur höfðu áhrif á byggð á Is-
landi. Leitast er við að skýra þróun byggðar og kanna hvenær fyrst var
byggt á hverjum stað og hvenær þar fór í eyði. Höfundur spyr í inngangi
hvað hafi valdið því að norræn byggð hér á landi hlaut ekki sömu örlög
og byggð norrænna manna á Grænlandi sem orðin var auðn um 1500.
Svara er leitað með því að samtvinna vitnisburði sagnfræði og fornleifa-
fræði og reynt að tímasetja byggðaleifar með stuðningi af gjóskutímatali
og fornpöddufræði. Leitað er heimilda um íslenska byggðasögu í áþreif-
anlegum minjum: tóttum bæja, útihúsa, fornum túnum og garðlögum án
þess þó að grafið sé í jörðina að marki. Rannsóknarsvæðin heyra öll undir
eyðibyggðir en þar sem svo er komið sögu er ávallt hægara um vik að at-
huga mannvistarminjar, því að þar sem byggð er fyrir verða eldri manna-