Eimreiðin - 01.05.1896, Síða 32
112
en henni, þó að jeg hafi ekki verið henni góður« — og nú rann
út í fyrir honum. »Mjer stendur alveg á sama um allt annað, ef
hún bara lifir. — Þjer lofið mjer kannske að vera hjá henni, þetta
sem jeg á eptir, ef hún lifir? •—Haldið þjer ekki, hún lifi?«
Læknirinn viknaði við að sjá, hvernig sorgin hafði breytt
þessu harðlynda gamalmenni í barn. Hann klappaði blíðlega á
öxlina á honum og sagði:
»JÚ, jeg held það. Ef jeg hjeldi það ekki, þá væri jeg nú
eins á mig kominn eins og þjer eruð, friðlaus og ekki mönnum
sinnandi. Því að mjer finnst ekki heldur, jeg geti lifað án hennar.
Reynið þjer nú að vera vongóður og leggjast út af og sofna.«
Svo fylgdi hann Sigvalda inn að rúminu hans og breiddi ofan
á hann eins og barn. Sigvalda var nú einhvern veginn orðið
miklu hughægra en áður. Hræðslu- og hryggðarofsinn var um
garð genginn, hafði eytt sjálfum sjer. Karlinum hafði orðið kalt,
svona fáklæddum, frammi í herberginu, en þar hafði hann ekkert
vitað af því. Nú varð hann þess var, og hann gat notið þægind-
anna við að láta sjer hlýna undir yfirsænginni. Svo fór hann
aptur að biðja guð, en með miklu meiri stilling og auðmýkt en
áður um nóttina. Hann bað hann að fyrirgefa sjer syndirnar og
lofa sjer að halda Margrjeti. Hann útlistaði einstaklega nákvæm-
lega fyrir guði, eins og skaparanum væri það allsendis ókunnugt,
hvað dæmalaust óendanlega innilega sjer þætti vænt um hana, hvað
ómögulegt sjer væri, gömlum manninum, að lifa án hennar, og
hvað góður hann skyldi ævinnlega vera henni. Og svo sofnaði
hann vært og draumlaust.
Jeg ætla ekki að þreyta menn á að orðlengja um leguna —
hvernig Sigvaldi læddist fram og aptur með rúminu dag eptir dag,
og þorði varla að draga andann, þegar mók rann á Margrjeti, og
hvernig hann drakk í sig hverja einustu svipbreyting, sem hann
þóttist sjá á andlitinu á lækninum. Nje heldur um batann •— því
að Margrjeti batnaði eptir langa mæðu —, hvernig faðir hennar var
stundum hálf-lamaður af fögnuði, þegar hann vissi, að hún var úr
allri hættu, og gat lítið talað, en var þess á milli ofsakátur, —
hvernig hann fór að elska lækninn fyrir umönnunina og heppnina
— og hvernig hann spurði Margrjeti á hverjum einasta morgni,
hvort hún væri nú ekki dálítið frískari en i gær. Allt þetta mun
lesarinn geta gert sjer í hugarlund.