Eimreiðin - 01.05.1906, Blaðsíða 22
102
æfinlega sjálfsagður, en einhver okkar systra fékk hann stundum, ef hann
var ekki útslitinn eftir árið. Þessi varningur kom æfinlega upp úr pok-
unum, þegar farið var að leysa »trússin«; en svo kom líka stöku sinn-
um, alveg flatt upp á alla, enginn vissi hvaðan, rauð- og gulskræpóttur
kollhettuklútur, sem einhver okkar ungfrúnna eignaðist, og var það undir
okkur sjálfum komið, hver hlaut hann sem verðlaun dugnaðar eða dygða
sinna, enda nærri sami fögnuðurinn hver sem fékk, því unaðarins af að
sjá þetta skræpótta litarskraut, hans urðum við aðnjótandi allar, hvernig
sem við svo höfðum hagað okkur það árið. En einu sinni henti það, að
upp úr einhverju »trússinu« kom tvisttau, sem elzta systir mín átti að fá
í sparisvuntu. þá greip fyrsta öfundin mig, held ég hafi verið. Einu
sinni iá ég veik, þegar farið var í kaupstað. Þá var mér leyft að biðja
um eitthvað fyrir unglambsskinn. Eg bað um vasaklút. Allir urðu hissa
á þeirri heimsku. Vænt þótti mér um klútinn minn þann, svona fann-
hvítan og mjúkan, sem enginn átti á heimilinu nema ég. Eg fékk að
iáta hann liggja ofan á mér, mér til ánægju, meðan ég var veik. Þá
var ég yfir 12 ára. Árið sem ég var fermd fór ég fyrst í kaupstað.
Það er sú ákafasta tilhlökkun, sem ég hef orðið fyrir á æfinni, tilhlökk-
unin til þeirrar ferðar. Vakti nóttina alla áður en farið var af stað,
borðaði auðvitað ekkert, settist upp í djúpa söðulinn, íklædd brúðar-
kjólnum hennar móður minnar sem reiðfatnaði. — Hann var úr svörtu
vaðmáli með þremur saumum á baki, með vaðmálsmiðseymi í saumunum,
samfast pilsið við treyjuna og svo þröngt, að ég gat svo sem ekkert í
því gengið. Treyjan svo þröng, að mér fanst ég ekki geta náð and-
anum, var ekki þröngum fötum vön. Næstum heil 6 dægur vakti ég og
var nær dauða en lífi, þegar heim kom af þreytu og vökum. Hin, sem
vön voru þessu ferðalagi, sváfu hjá farangrinum, meðan áð var, og varð
ekkert um. Eitt lambskinn var mér gefið til að kaupa fyrir, það þótti
mér alveg nóg. Fyrir það keypti ég þann hlutinn, sem ég sá fallegastan.
í’að var látúns-nálhús með öllum skærustu regnbogans litum. það á ég
enn. Átta skildinga, minnir mig, að skinnið mitt væri virt. Okkur var
árlega gefið lambskinn til að kaupa úr kaupstað fyrir, eftir það að við
vorum komin undir fermingu, og datt engum í hug að þykja það lítið.
Kind eignuðumst við stúlkur ekki fyr en 16—17 vetra, drengirnir miklu
fyr. 1 kaupstað vildi ég ekki koma í mörg ár eftir þessa fyrstu ferð,
þótti hún bregðast vonum mínum. Móðir mín fór oft framan af í kaup-
stað me'ð bónda sínum, til að hjálpa honum með lestina; stundum fór hún
með einhvern drenginn, en aldrei keypti hún neitt til sinna þarfa, fremur
en þó hún færi ekki.
Skreiðarferð fór faðir minn »vestur undir Jökul« — Snæfells-
jökul — um nokkur vor. Hann fór með skinn og tólg, fékk harðfisk
og þorskhausa fyrir. Skelfileg stærð var á þeim þorskhausum, enda
fiskurinn stór líka! Um hálfan mánuð —- kannske þrjár vikur — var
hann í leiðangri þessum. Fór skömmu fyrir slátt, kom aftur til að svíða
koiin. Lítið var farið út af heimilinu nema þessar kaupferðir og til kirkju.
Einu sinni á ári með leigur og landskuld, sem var smjör, ull og tólgur.
þvottabalar smáir né stórir voru engir til á heimilinu okkar.
Sápu og sóda sá ég fyrst næstum því fulltíða. Fatnaður allur var þveg-
inn úr heitri keytu — samansöfnuðu, geymdu þvagi — og vatni á eftir.