Eimreiðin - 01.05.1906, Blaðsíða 31
111
föðurskylduna. Hreppstjórinn kom svo eitt sinn með þau tíðindi, að for-
eldrum móðurinnar —- jafnvel systkinum hennar — bæri að lögum að
annast um barnið. Ur þessu varð þras, síðan mál og dómur, og var
foreldrum stúlkunnar dæmt skylt að uppala barn þetta. — K. Kristjáns-
son, sá er síðar varð amtmaður norðanlands, mun hafa dæmt mál þetta.
Foreldrarnir urðu sárgröm úrskurði þessum. hann þá útslitinn heilsulítill
maður, enda voru flestir á því, að dómur þessi væri ósanngjarn og
óréttur. Þegar lögtak átti fram að fara hjá foreldrum mínum, til fram-
færis barni þessu, þá skárust góðir menn í leikinn og komu á samning-
um, en faðir minn beið þess aldrei bætur. Þegar svo veslings móðirin
var búin að vinna fyrir barni sínu í io ár, þá datt það af hestbaki í
ársprænu og druknaði.
Flest það, sem ég hef hér að framan frá sagt af högum okkar og
háttum, eru minningar frá fyrri hluta bernsku minnar. Þegar ég var 9
ára, 1866, fluttum við á aðra jörð í sömu sveit. Þar var mikið betur
húsað og þar kyntumst við miklu meira háttum annarra manna en í af-
dal okkar, enda leið þá ekki á löngu áður en við krakkar gjörðum
uppreist móti heimilisstjórninni, brutum venjur ýmsar á bak aftur og inn-
leiddum nýja siði, enda var þá efnahagurinn orðinn svo, að hann þoldi
vel að dálitlu meiru væri til kostað. Þegar við komum á bæ þennan,
hafði baðstofan aldrei verið þvegin, var þó öll þiljuð og sæmileg. Eins
höfðum við það nokkur ár, en svo þegar nýjungafárið greip okkur, þá
var það eitt með öðru, að við vildum ræsta gólfið. Þann dag man ég,
sem það komst á, að hreinsa baðstofuna, og svo sigurgleðina mína um
kveldið, hana man ég líka. Á því gólfi voru óhreinindin orðin svo þvkk,
að hvergi sá til fjala. Eftir að breytingin fór að komast á hjá okkur,
kom það í ljós, hvað móðir mín var hreinlát að náttúrufari. Að svo mjög
var áfátt með það áður, kom af venjufestu, fátækt og annríki hennar.
í elli sinni þvoði hún iðulega líkama sinn allan og mátti ekki blett á
nokkru sjá, svo varla var hægt að gjöra henni til hæfis með það. Eftir
það að við krakkar komum stjórnarbyltingunni á hjá okkur, leið ekki á
löngu áður en við komumst á álíka menningarstig eins og aðrir kringum
okkur; en það stig var að vísu ekki hátt, og minna vissi ég á ferm-
ingaraldri, en ég veit dæmi til síðan um fullvita fólk. Með þann undir-
búning undir lífsbaráttuna lagði ég áleiðis út í mannlífið, nítján vetra
gömul.
Ólöf Sigurðardóltir