Dagblaðið Vísir - DV - 23.07.1987, Blaðsíða 23
FIMMTUDAGUR 23. JÚLÍ 1987.
23
Dægradvöl
„Ráðlegg öllum
aö skella sér“
Jón Mímir Einvarðsson, sem er 17
ára, var í þann mund að leggja upp
í sitt fimmta flug. Hann var kominn
inn í klefann, búinn að setja á sig
öryggisbeltið og beið ásamt kennar-
anum sínum, Sigurbjarna Þór-
mund,ssyni, eftir togflugvélinni.
„Mér finnst mun skemmtilegra að
fara upp með spilinu, þá fer maður á
meiri hraða og nærri því beint upp
í loftið,“ sagði Jón sem er 17 ára og
er búinn að læra í viku. „Ég hef
mjög mikinn áhuga á öllu flugi og
reyni að fylgjast vel með á því sviði.
Ég fæ far hingað uppeftir og ég ætla
að fara svona oft á meðan ég á pen-
inga fyrir því.“
- Finnst þér þetta dýrt áhugamál?
„Nei, nei, þetta er alveg sanngjarnt
verð og mun ódýrara heldur en vél-
flugið en ég ætla að láta það bíða
betri tíma. Ég ráðlegg öllum tví-
mælalaust að fara í flug, þetta er
svakalega skemmtilegt."
Seinna um daginn, er Dægradvölin
fór að tygja sig heim, sást til Jóns
þar sem hann hoppaði í annað sinn
upp í sviffluguna og fór í sitt sjötta
flug. Með sama áframhaldi verður
hann ekki lengi að ljúka 30 flugtím-
um sem þarf til að fá að taka sóló-
prófið.
Jón Mímir Einvarðsson tilbúinn í slaginn ásamt kennara sínum, Sigurbjarna Þórmundssyni, sem bar honum vel
söguna sem nemanda.
Sigurður Hilmar Ólafsson fékk bakt-
eriuna þegar hann sem smápatti sat
á öxlum pabba síns og horfði á flug.
Nú er hann búinn að fljúga i 50 ár.
Svifið í 50 ár
í þann mund sem blaðamaður var
að leggja í loftið dreif að gamlan
Trabant á fleygiferð. Út úr honum
steig Sigurður Hilmar Ólafsson, elsti
svifflugmaður íslands og einn af
stofnendum Svifflugfélagsins. Hann
var gripinn glóðvolgur og spurður
spjörunum úr. Hann var með flug-
bókina sína með sér og kíkti í hana
til að sjá hvenær hann flaug fyrst.
„Jú, það var 16 júní 1937, fyrir rétt
rúmlega 50 árum,“ sagði Sigurður.
„Það var fyrsta og líklega stysta
flugferðin mín. Þá var flogið í Vatns-
mýrinni og vélunum var skotið á
loft með teygju. Teygjan slitnaði í
þessari fyrstu ferð minni og náði ég
því engri hæð og kom brátt siglandi
niður aftur. Það er margt sem hefur
breyst frá því þetta byrjaði allt sam-
an. Nú er þetta í föstum skorðum,
gott húsnæði og aðstaða og kennari
sem leiðbeinir byrjendum."
Flýgur á hverju kvöldi
- Hvenær fékkst þú áhugann á
flugi?
„Ég er nú eiginlega búinn að vera
viðloðandi flug allt mitt líf. Fyrsta
sem ég man var þegar ég var í Dan-
mörku og sat á öxlunum á pabba sem
var mikill flugáhugamaður og horfði
á flugmenn æfa sig á vélflugvél."
Sigurður sagðist núorðið koma upp
á Sandskeið á hverju kvöldi ef skil-
yrðin væru góð.
„Bót fyrir giktina
„Þetta er svo mikil bót fyrir gikt-
ina. Þegar ég kemst upp í vissa hæð
þá lagast hún. Ég held að þrýstingur-
inn geri það að verkum að æðarnar
þenjast svolítið út og þá losast um
óhreinindi og uppbyggjandi efni eiga
greiðari aðgang."
- Hvað er svona gaman við svif-
flugið?
„Að þurfa að glíma við loftið, nýta
uppstreymið. Þetta er íþrótt og mikil
list og kúnst og ég ætla að fljúga
þangað til ég get það ekki lengur af
heilsufarsástæðum. Sem betur fer
eru engin merki um að það sé á
næstu grösum því ég er alveg fíl-
hraustur fyrir utan giktina sem
skánar bara af þessu,“ sagði Sigurð-
ur að lokum.