Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1985, Blaðsíða 21

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1985, Blaðsíða 21
kvonfang. En kynni þeirra Guðríðar voru ekki orðin löng, þegar honum varð ljóst, að hann var á hennar valdi og hún hans og að eitt varð yfir bæði að ganga. Það var 16 ára aldursmunur á þeim, hún 38 ára, hann 22. Guðríður var metin til mikils verðs í Alsír. Hallgrímur galt þó hærra verð fyrir hana. Hún varð þyngri á metum hans en allar framavonir, álit og veraldargengi. Hann fer með henni til íslands vorið 1637. Vil égnú víst til sanns vitja míns föðurlands íþínu nafni aleina, almættis tignin hreina. Jesús mérfylgi ífriði með fögru englaliði. Þau fylgdust að heim um vorið, áttu ekkert nema trú sína og hvort annað — og barnið, sem hún gekk með og þau létu heita Eyjólf. Það var minnileg kveðja til hins látna, hrösula eiginmanns hennar og vottorð um góða samvisku gagnvart honum. Það hafa verið sterkir persónutöfrar og mikill kvenleg- ur þokki, sem orkaði svo á hið unga skáld, verðandi konung meðal ljóðsnillinga í augum íslenskra kynslóða öld af öld. Mörg kona hefur staðið í rómantískum ljóma af minna tilefni og orðið draumadís í hugum manna. Slíkt varð ekki hlutskipti Guðríðar. Það er fremur svo að sjá, að þjóðin hafi verið afbrýðissöm út í þessa fátæku konu, sem bar svo stóran hlut úr býtum, að ástgoði lýðs- ins elskaði hana, og hana eina kvenna. Þessi Kona Hlaut Að Vera Vond Þau fylgdust að í 37 ár. Menn hafa að jafnaði ekki gert sér mjög títt um eiginkonur afreksmanna, sem stóðu hljóðar að baki þeim. Guðríður er undantekning í því. Hallgrímur varð svo nákominn heimilisvinur og förunaut- ur, persóna hans og hagir voru áleitið umtalsefni og ímyndunin fyllti út í eyður lífssögunnar. Sá hlaut að hafa gengið á sárum þyrnum og borið þungan kross, sem söng um Kristi kvöl af þeirri innlifun, sem hann gerði. Konan, sem stalst inn í líf hans með dularfullum hætti, nýkomin úr vist hjá göldróttu illþýði, hlaut að hafa verið vond sending, sem vélaði hann á sitt vald og plagaði síðan ævilangt. Eins og áður var sagt, er það sannanlega uppspuni, að Guðríður hafi verið andsnúin trú Hallgríms. Ekkert verður fullyrt um hana með meiri vissu en það, að hún hvikaði ekki í trúarefnum í útlegðinni, hvorki fyrir hótun- um né lokkunum. Þessi staðreynd færir æði sterk rök að þeirri ályktun, að það sé líka eintómur hugarburður, að hún hafi verið skilningslaus á gáfur manns síns og að hjónabandið hafi verið stirt og stirfið. Að minnsta kosti verður ekkert fundið, sem gefi raunhæft tilefni til þeirra hugmynda. Menn hafa gert mikið úr því, að Hallgrímur skuli ekki hafa látið eftir sig einhvern kveðskap, sem taki af vafa um tilfinningar hans til Guðríðar eða vitni henni í vil. Af þeirri þögn hafa menn ályktað, að hjónabandið hafi verið kalt og ástlaust. Sú ályktun er haldlaus. Séra Hallgrímur var ekki ásta- skáld. Og hann orti ekki um einkamál, nema þegar honum var þungt fyrir brjósti vegna harma og áfalla. Hann orti um augasteininn sinn, Steinunni litlu, dóttur sína, þegar hann missti hana. Án þeirra ljóða væri ekkert vitað um þel hans í garð hennar eða barna sinna. Hann kvað þá fyrst um bæinn sinn, þegar hann var brunninn. Séra Matthías Jochumsson var ekki heldur ástaskáld. Konur hans, valinkunnar, eru vissulega ekki áberandi í ljóðum hans, nema í saknaðarljóðum. Það hefur ekki verið lagt þeim eða hjónaböndum hans til lýta. Haldlausar Þjóðsögur Séra Stefán Ólafsson í Vallanesi, nokkru yngri sam- tímamaður Hallgríms og næst honum mesta skáld aldar- innar, orti kynstur af kvæðum og kveðlingum, auk sálma. Hann kvað til barna sinna og hjúa, oft í glettni, hann orti ástakvæði og um ástaraunir. Hann kvæntist ætt- stórri konu, sem lifði hann eftir langan hjúskap þeirra. Ég finn ekki þá konu í kvæðum hans. Af þeirri þögn hafa menn ekki, svo ég viti til, ráðið það, að hún hafi verið vond manneskja og sambúðin hlýjulaus og ástvana. Ég á bágt með að skilja, hvers Guðríður á að gjalda, þegar menn eftir smásmugulega leit að henni í kveðskap Hallgríms telja. sig geta fullyrt, að hjúskapur hans hafi verið misheppnaður. Þá sýnast haldlausar þjóðsögur móta viðhorfið, ómeðvitað, og sú dulvitaða forsenda, að hann hafi bundist konu sinni af slysni. Ekki þarf að ætla, að Guðríður hafi verið gallalaus. Það hefur Hallgrímur ekki verið heldur. Vel má vera, að stundum hafi gustað af Guðríði. Hún hafði átt stríðum veðrum að mæta, hún hafði þurft að hrinda frá sér ill- hryssingi og lamandi sorta, beita stórum geðsmunum til þess að tapa ekki áttum og halda í horfi með ráði og rænu og fullri reisn. Hún hefur áreiðanlega ekki verið nein doðra, hvorki í sjón né raun. Guðríður stóð með manni sínum, í basli og bágindum fyrst, í virtri stöðu hans síðar sem prests og skálds. Hún fæddi honum börn, stóð með honum yfir moldum þeirra, sem þau misstu, ekkert barnanna lifði föður sinn nema Eyjólfur. Hún átti Hallgrím, bæði smáðan og dáðan, lifði hann, hjúkraði honum síðast í langri og strangri legu. Henni og Eyjólfi syni þeirra er það að þakka, að vér eigum þær ljóðperlur, sem hann dró fram úr djúpi sálar sinnar og hvíslaði af vörum fram, þegar röddin var brostin og höndin gat ekki valdið fjöðurstaf til skrifta. Til Guðríðar hugsar Hallgrímur, þegar hann í þessum hinstu ljóðum sínum segir: Ástkæra þá égeftirskil afhenda sjálfum Guði vil, andvarpið sér hann sárt ogheitt, segja þarfhonum ekkineitt. Sjá næstu síðu Stytta Ragnhildar Stefánsdóttur af Guðríði Sínwnardóttur í Stakkagerðistúni í Vestmannaeyjum. Eitt er þó víst: Hún lét ekki bugast í þessum sporum fremur en fyrr. Og hún átti eftir að auka miklu við ævisögu sína. Hallgrímur Kemur Til Sögunnar Hiö aðþrengda fólk, sem komið var úr áþjáninni og varð að bíða vetrarlangt í Kaupmannahöfn eftir fari til íslands, þurfti að fá andlega aðhlynningu. Það skildu yfirvöld. Ungur íslendingur var kvaddur til þess að hlú að því, Hallgrímur Pétursson. „Reis þú við reyrinn brotna" bað hann síðar. Hann fékk það hlutverk að uppörva og styrkja þennan litla söfnuð, sem átti ekki aðeins þung spor að baki, sumir máttu horfa vonsviknum augum til íslands, þegar það loksins fór að nálgast. Þessi þjónusta var upphafið að þeirri einstæðu köllun, sem Hallgrímur átti eftir að gegna sem sálusorgari heill- ar þjóðar. Hann var þá að því kominn að ljúka námi meö ágætum við hinn merkasta skóla i Höfn. Hann átti margra góðra kosta völ, hvort sem hann kysi að ílengjast í Danmörku eða hyrfi til íslands, þar sem hann myndi geta notið þess, að hann var í ætt við höfðingja. Biskup- inn á Hólum var frændi hans. Meistari Brynjólfur var venslaður honum og hafði stutt hann til náms af sköruleg- um drengskap. Brynjólfur var meðal virtustu lærdóms- manna í Danmörku, kominn í virðulega stöðu þar, en innan skamms orðinn biskup í Skálholti, gegn vilja sínum. Hann var ekki vanur að sleppa hendi af þeim, sem hann tók að sér, ef hann mátti sér við koma. Hallgrímur þurfti engu að kvíða, hvorki um stöðu né LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 24. DESEMBER 1985 21

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.