Morgunblaðið - 15.02.2001, Page 30
30 FIMMTUDAGUR 15. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
inni þótt um það séu skiptar skoðanir meðal
borgarbúa hvort það sé skynsamlegt eins og
fram kemur í þeirri kosningabaráttu sem hafin
er vegna atkvæðagreiðslunnar 17. mars. Það
skiptir þó máli fyrir marga Reykvíkinga hvert
völlurinn fer, hvort hann færi langt í burtu eða
yrði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Unnt yrði að
nýta Vatnsmýrina til uppbyggingar og skiptir
þá ekki máli hvaða kostur yrði fyrir valinu, þar
yrði hægt að koma fyrir blandaðri byggð íbúa
og atvinnurekstrar, að einhverju leyti í
tengslum við háskólann og miðbæinn. Ráðgjaf-
ar svæðisskipulagsins, Nes-Planners, telja unnt
að byggja 5.000 íbúðir og aðstöðu fyrir 5.000
starfsmenn á flugvallarsvæðinu. Samkvæmt því
gæti risið þarna 11–12 þúsund manna byggð.
Samtök um betri byggð hafa verið með hug-
myndir um mun þéttari byggð á svæðinu. Flug-
völlur í Skerjafirði hefði þann augljósa kost að
flutningur flugsins þangað myndi ekki breyta
að ráði aðgengi fólks af landsbyggðinni að
stjórnsýslu og þjónustu í höfuðborginni og að-
gengi notenda hans á höfuðborgarsvæðinu yrði
nánast óbreytt. Staðsetning hans á öðrum stöð-
um á höfuðborgarsvæðinu eða við það yrði held-
ur síðri út frá því sjónarmiði. Hins vegar má líta
svo á að grundvallarmunur sé á staðsetningu
flugvallarins þar og að flytja flugið alveg til
Keflavíkurflugvallar því það myndi skerða
verulega aðgang þeirra íbúa landsbyggðarinnar
sem nota innanlandsflugið, að stjórnsýslumið-
stöð landsins. Það sama gildir um þá höfuðborg-
arbúa sem nota innanlandsflugið, flesta þeirra
skiptir miklu máli hvort flugið verður áfram á
höfuðborgarsvæðinu eða fært til Keflavíkur.
Í skýrslu sem Stefán Ólafsson prófessor vann
fyrir borgina og áður hefur verið vitnað til er
lagt mat á alla fimm kostina út frá efnahags-
legum og samfélagslegum þáttum. Valkostirnir
þrír utan Vatnsmýrar koma mun betur út úr því
mati en kostirnir tveir í Vatnsmýri. Þannig kom
Hvassahraunsflugvöllur best út. Hann taldist
oftast vera mjög góður eða góður kostur en
aldrei sá lakasti. Keflavíkurflugvöllur kom
næstbest út og þá flugvöllur á Lönguskerjum.
Í skýrslu Stefáns er vakin athygli á marg-
víslegum ávinningi Reykjavíkurborgar af að
geta nýtt Vatnsmýrina til annarra hluta og auka
þannig tekjur sínar meira en mögulegt er með
núverandi notkun landsins.
Skerjafjörður kostar
7–10 milljarða aukalega
Bygging og rekstur flugvalla heyrir undir
samgönguráðuneytið og Alþingi fer með fjár-
veitingarvaldið. Er því rétt að rifja upp orð sam-
gönguráðherra um þær flugvallarhugmyndir
sem hér eru reifaðar. Sturla Böðvarsson hefur
sagt hreint út að engin áform séu uppi um að
byggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflugið,
ekki komi til greina að leggja í þá fjárfestingu.
Flugið verði því flutt til Keflavíkurflugvallar, að
loknu skipulagstímabilinu, ef stjórnendur höf-
uðborgarinnar leggist gegn áframhaldandi
rekstri Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri.
Fyrir nærri þremur áratugum kom Trausti
Valsson skipulagsfræðingur fram með þá hug-
mynd að búa til eyju á Lönguskerjum og Hólm-
um í Skerjafirði og flytja Reykjavíkurflugvöll
þangað. Samtök um betri byggð og Vatnsmýrin
hf. hafa fylgt þessari hugmynd eftir vegna
áhuga á að nýta Vatnsmýrina undir íbúðar-
byggð og Hrafn Gunnlaugsson gerði henni eft-
irminnileg skil í Reykjavíkurkvikmynd sinni.
Raunar gerði Hrafn ráð fyrir millilandaflugi
stórra flugvéla sem ekki gengur á þessum stað.
Borgarverkfræðingur fékk Almennu verk-
fræðistofuna til að gera lauslega áætlun um
flugvöll í Skerjafirði og borgarverkfræðingur
og Borgarskipulag hafa fjallað um möguleikann
í skýrslu um landfyllingar. Í skýrslu Almennu
verkfræðistofunnar er áætlað að kostnaður við
flugvallargerðina sé á bilinu 12,4 til 19,9 millj-
arðar kr. Borgarverkfræðingur hefur í saman-
burði valkosta talið að lægri mörkin væru nær
sanni, miðað við þær upplýsingar sem nú liggja
fyrir, og áætlað kostnað við flugvallargerðina
13.370 milljónir kr. Vekur hann athygli á því að
aukakostnaður við að byggja flugvöll úti í sjó
miðað við flugvöll á góðu flugvallarstæði á landi
sé á bilinu 7,5 til 10,5 milljarðar kr.
Það er 8,6 milljörðum dýrara að byggja nýjan
völl á Lönguskerjum en byggja upp aðstöðu
Reykjavíkurflugvallar á núverandi stað í Vatns-
mýrinni, hlutfallslega er sá kostur liðlega 80%
dýrari. Ef notaðir eru núvirðisreikningar Flug-
málastjórnar er munurinn hlutfallslega mun
meiri, Lönguskerin eru 156% dýrari en Reykja-
víkurflugvöllur.
Í skýrslu verkfræðistofunnar kemur fram að
engar veðurathuganir hafa verið gerðar í firð-
inum en talið er mögulegt að uppfylla kröfur til
flugs með tveimur flugbrautum. Þorgeir Páls-
son flugmálastjóri slær því föstu að nýtingar-
hlutfall flugvallar í Skerjafirði yrði meira en á
Reykjavíkurflugvelli vegna stefnu brautanna
og vel yfir alþjóðlegum viðmiðunum.
Ekki hafa heldur farið fram athuganir á há-
vaða frá flugumferð um flugvöllinn eða athug-
anir á sjávarsetinu í firðinum. Telur Almenna
verkfræðistofan að margt bendi til þess að um-
ferð um flugvöllinn valdi lítilli hljóðmengun
þegar austur-vestur-brautin er notuð. Það
sama sé aftur á móti ekki hægt að segja um
norður-suður-brautina. Ef hún stefni austan við
Valhúsahæðina, sem virðist heppilegast, verði
veruleg hljóðmengun í íbúðarhverfum á Sel-
tjarnarnesi og vestast í Reykjavík. Einnig verði
hávaðamengun í íbúðarhverfum á Álftanesi og
eru Bessastaðir sérstaklega tilgreindir þar.
Byggð hefur verið vöruhöfn í Kópavogi og er
innsiglingin um Skerjafjörð. Almenna verk-
fræðistofan telur útilokað að hafa óhindraðar
siglingar til Kópavogshafnar ef flug á að vera án
takmarkana um flugvöll í Skerjafirði. Borgar-
verkfræðingur segir hreint út í skýrslu vegna
svæðisskipulagsins að flug og skipaumferð rek-
ist svo á, að annaðhvort verði Kópavogshöfn eða
hugmynd um flugvöll á Skerjafirði að víkja.
Verkfræðistofan skoðaði einnig aðrar tillögur
um staðsetingu vallar í Skerjafirði, meðal ann-
ars undan Álftanesi og eina vestan Álftaness, en
þar væri hægt að koma fyrir flugvelli sem ekki
hindraði siglingar til Kópavogshafnar. Á landi
getur Valhúsahæð á Seltjarnarnesi verið hindr-
un fyrir NS-braut vallarins en unnt er talið að
leggja þá braut með stefnu austur fyrir hæðina
sem er talið heppilegra en að leggja hana vestur
fyrir. Eins og þetta lauslega mat verkfræðing-
anna á hljóðmengun frá umferð um nýjan flug-
völl í Skerjafirði sýnir yrði óhjákvæmilega tals-
vert flug yfir íbúðarbyggð á höfuðborgar-
svæðinu en í skýrslu Stefáns Ólafssonar kemur
fram það mat að það gæti verið minna en er á
núverandi flugvelli í Vatnsmýri.
Fuglar og tæring
Niðurstaða verkfræðinganna verður að telj-
ast neikvæð. Þannig kemur fram í skýrslu Stef-
áns Hermannssonar borgarverkfræðings og
Ólafs Bjarnasonar yfirverkfræðings til sam-
vinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgar-
svæðsins að ekki verði með lauslegri athugun
fundin rök sem réttlæta frekari skoðun á flug-
vallargerð í Skerjafirði, heldur verði leitað ann-
arra lausna varðandi flutning Reykjavíkurflug-
vallar ef til þess kæmi. Þessu til viðbótar má
nefna efasemdir stjórnenda flugfélaganna um
að heppilegt sé að stunda flugrekstur frá flug-
velli úti í sjó. „Hugmyndir um flugvelli úti í sjó
eru um margt skemmtilegar, en menn virðast
gleyma því að selta hefur mikil áhrif á málm-
tæringu sem er eitt helsta vandamálið í viðhaldi
flugvéla. Það þarf ekki annað en að standa í
fjöruborðinu og horfa út á fjörðinn í góðum
vindi til þess að sjá sjávarlöður ganga yfir sker-
in. Annað vandamál með slíka velli er aukin ís-
ingarhætta vegna raka og bleytu sem reikna
verður með á vellinum,“ segir Jón Karl Ólafs-
son, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi flug-
stjóri sem meðal annars flaug sjóflugvélunum á
sínum tíma, telur að ekki sé heppilegt að hafa
flugvöll úti í sjó. Hann segir að töluverð sjóselta
sé á Reykjavíkurflugvelli og hún sé örugglega
enn meiri þarna úti. Seltan hafi áhrif á flug-
vélar, valdi tæringu og auknu viðhaldi. Nefnir
hann að einn sjóbátanna hafi alltaf verið við
bauju úti á Skerjafirði og hafi orðið að taka
hann reglulega í land til þess að skola af honum.
Þess ber að geta að reiknað er með að flugskýlin
verði úti á Skerjafjarðarflugvelli, verði hann
byggður.
Ævar Petersen fuglafræðingur telur algjört
glapræði að gera flugvöll á uppfyllingum. Um-
ferð um hann verði alltaf varasöm vegna
fuglanna. Víða séu vandamál með fugla við flug-
velli sem byggðir eru við árósa og ekki á þau
bætandi. Hann segir að mikill munur sé að
þessu leyti á að vera með flugvöll uppi á landi og
úti í sjó. Fuglarnir fljúgi hátt yfir landið en lágt
yfir sjóinn og setjist á eyjar og sker. Telur hann
öruggt að hópar af fuglum myndu stöðugt
fljúga lágt yfir flugbrautirnar og setjast á þær
og þeir myndu valda hættu fyrir flugumferðina,
ekki síst stóru mávarnir á vorin og haustin.
Mikil röskun umhverfis
Til þess að byggja heilan flugvöll úti í Skerja-
firði þarf mikla landfyllingu, eða 83 hektara
þegar við fyllingu undir brautir hefur verið
bætt landi undir flughlöð, flugstöð, flugskýli,
vegtengingu og bílastæði því að verkfræðing-
arnir telja óraunhæft að ætla að hafa flugstöð
og önnur þjónustumannvirki uppi á landi vegna
þess hversu langa leið þarf þá að aka flugvél-
unum. Um það bil 13 milljónir rúmmetra af efni
þarf í fyllinguna, þar af er reiknað með 11 millj-
ónum rúmmetra af skeljaefni sem dælt yrði af
hafsbotni og einni milljón rúmmetra af grjóti úr
námum á höfuðborgarsvæðinu. Reiknað er með
að brautirnar þurfi að vera í að minnsta kosti
fimm metra hæð yfir sjó. Fram kemur í grein
Ólafs Pálssonar verkfræðings í Morgunblaðinu
fyrir skömmu að brautirnar verða að vera mun
hærri, þær þurfa að standa á að minnsta kosti
tíu metra hárri fyllingu.
Ráðgjafar svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins, Airport Research Center og Línuhönnun, hafa talið unnt að leggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflugið í landi eyðibýlisins Hvassahrauns í Vatnsleysustrandarhreppi,
sunnan Hafnarfjarðar, og gert frumdrög að fyrirkomulagi slíks vallar. Svona kynni flugvöllurinn að líta út samkvæmt tölvuteikningu á ljósmynd sem Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar hefur gert fyrir Morgunblaðið
eftir þessum hugmyndum. Völlurinn yrði utan við bæjarmörk Hafnarfjarðar, sunnan við Reykjanesbrautina, um það bil fjórum kílómetrum vestan við álverið í Straumsvík, sem sést fyrir miðri mynd. Einnig sést yfir
Hafnarfjörð og Reykjavík og stóran hluta höfuðborgarsvæðisins. Esjan er í baksýn. Þess ber að geta að staðsetning vallarins á myndinni er ónákvæm.
0
%
1
!"# %#
,-+& .*
/!! !