Morgunblaðið - 11.04.2001, Síða 4
FRÉTTIR
4 MIÐVIKUDAGUR 11. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra
kom til höfuðstöðva Evrópusam-
bandsins í Brussel í gær frá París
og átti tæplega klukkustundar
langan fund með Romano Prodi,
forseta framkvæmdastjórnar Evr-
ópusambandsins. Síðdegis gekk
Davíð svo til viðræðna við Javier
Solana sem gegnir stöðu sérstaks
fulltrúa ESB á sviði utanríkis- og
öryggismála.
Prodi sagði á sameiginlegum
fréttamannafundi hans og Davíðs,
sem haldinn var eftir fundinn, að
viðræðurnar hefðu verið mjög vin-
samlegar og engin ágreiningsmál
komið upp. Prodi sagði að samn-
ingurinn um Evrópska efnahags-
svæðið héldi fullu gildi sínu og
framkvæmd samningsins gengi vel
fyrir sig. Sömu sögu væri að segja
af Schengen-samstarfinu.
,,Nei, nei, nei,“ sagði Prodi þeg-
ar hann var spurður hvort stækk-
un Evrópusambandsins gæti haft
þær afleiðingar að EES-samning-
urinn myndi veikjast og smám
saman fjara út. Hann sagði að slík
þróun væri hvorki vilji Evrópu-
sambandsins né í þágu hagsmuna
þess. ,,Ég sé engar neikvæðar hlið-
ar á stækkuninni, eingöngu já-
kvæðar. Fræðilega séð a.m.k. verð-
ur til stærra markaðssvæði sem
lýtur sömu reglum og með einn og
sama gjaldmiðil,“ sagði Prodi.
Hann bætti því við að hann teldi að
Ísland stæði frammi fyrir tækifær-
um vegna þessarar þróunar.
Davíð sagðist telja að staða Ís-
lands mundi ekki versna við
stækkun Evrópusambandsins,
heldur þvert á móti myndi hún
batna. ,,Ég sagði það við Prodi og
eins við Frakklandsforseta [Jacq-
ues Chirac] að ég teldi að við hlyt-
um í hjarta okkar að fylgja stækk-
uninni því þeir kostir sem
EES-samningurinn hefði gefið
okkur ættu að víkka út með stækk-
uninni. Ef við metum EES-samn-
inginn þannig að hann hafi verið
góður, sem við gerum, þá er
stækkun bara tvöföldun á jákvæð-
um þáttum samningsins,“ sagði
Davíð í samtali við fréttamenn.
EES var einstakt tækifæri
Aðspurður sagðist Davíð meta
stöðu EES-samningsins svo eftir
viðræðurnar við Prodi og Jacques
Chirac Frakklandsforseta í fyrra-
dag að þeir væru báðir þeirrar
skoðunar að EES-samningurinn
væri mjög traustur og virkaði vel,
um þau atriði sem hann næði til.
,,Auðvitað taka menn fram að það
eru allmörg atriði sem hann tekur
ekki til og stóð aldrei til að hann
tæki til. Menn mega ekki rugla því
saman að það sé einhver veikleiki
þessa samnings. Ég sé ekki annað
en að menn hafi góðan skilning á
þessari stöðu og stöðu Íslands. Við
notfærðum okkur þetta færi sem
EES-samningurinn gaf.
Ég er ekki viss um að svona færi
muni nokkurn tíma gefast nokkr-
um öðrum þjóðum. Þannig að þetta
var einstakt tækifæri sem við
hoppuðum á og festum og það virð-
ist vera vilji til þess að viðhalda
kostum þess samnings fyrir okkur
eins lengi og við kjósum,“ sagði
Davíð.
Spurður um áhyggjur innan
EFTA-ríkjanna um dvínandi áhrif
á ákvarðanatöku Evrópusam-
bandsins sagði Prodi að það væri
alveg ljóst að ríki sem ekki væru
aðilar að sambandinu hefðu minni
áhrif innan þess en ella væri og
tækju ekki þátt í ákvörðunum um
innri málefni þess.
Davíð kom á óvart hversu
hratt stækkun ESB gengur
Davíð sagði í samtali við frétta-
menn að ein af þeim niðurstöðum
sem hann hefði komist að eftir við-
ræðurnar væri að líklegra væri að
stækkun ESB gengi hraðar fyrir
sig en hann hefði búist við. ,,Ég
met það svo bæði eftir viðræðurn-
ar við Chirac og eins Prodi í dag að
hann sé mjög bjartsýnn á að samn-
ingar verði kláraðir allfljótt. Hann
viðurkennir auðvitað að það séu
nokkrir þættir óleystir og löndin
mjög mismunandi á vegi stödd en
engu að síður sér hann fyrir sér að
þetta gangi hraðar heldur en að
minnsta kosti lakari spár, sem ég
hafði frekar hallast að að myndu
ganga eftir miðað við forsöguna,
hefðu gefið tilefni til. Þetta kemur
aðeins á óvart og þess vegna er
þýðingarmikið fyrir okkur að fylgj-
ast mjög náið með fyrst það er
meiri hraði á þessu heldur en við
höfðum búist við,“ sagði Davíð.
,,Við lögðum áherslu á að þótt
við værum ekki beinn aðili að
stækkuninni myndum við felast
með í stækkuninni, vegna eðlis
EES-samningsins.
Þýðingarmikið væri, ekki bara af
pólitískum heldur líka tæknilegum
ástæðum, að við fengjum upplýs-
ingar og tækifæri til að fylgjast
með eins fljótt og hægt væri auð-
vitað gengju sambandið og um-
sóknarríkin fyrir,“ sagði Davíð.
Davíð segist hafa lagt á það
áherslu í viðræðunum við Romano
Prodi að hann teldi að þó að samn-
ingar væru ekki beint bindandi
fyrir EFTA-lönd EES-samnings-
ins eftir stækkun Evrópusam-
bandsins væri það inntak EES-
samningsins og alþjóðlegra samn-
inga um viðskipti að slíkir þættir
sem væru jákvæðir fyrir Ísland og
umsóknarlöndin héldu sér. ,,Þó að
ekki væri farið ofan í það í smáat-
riðum lýsti Prodi því yfir eftir
nokkra umhugsun að hann sæi
ekki annað en það væri réttur
skilningur að þannig ætti að vinna
að málinu. Ég taldi þýðingarmikið
að koma þessu sjónarmiði að og
heyra hans sjónarmið,“ sagði Dav-
íð.
Áhersla á samvinnu ESB og
NATO í öryggismálum
Solana lagði áherslu á samvinnu
ESB og NATO í öryggismálum.
Javier Solana og Davíð Oddsson
héldu sameiginlegan fréttamanna-
fund að viðræðum þeirra loknum.
Solana sagði þá hafa rætt tengsl
Evrópusambandsins og Atlants-
hafsbandalagsins og stefnu ESB í
varnar- og öryggismálum. ,,Við
skiptumst á skoðunum um hversu
mikla samvinnu þyrfti að viðhafa á
milli ESB og NATO. Ísland er að-
ildarland NATO og ég lagði
áherslu á við forsætisráðherra að
haldið yrði áfram samvinnu okkar
að sömu grundvallarmarkmiðum
sem eru að tryggja stöðugleika í
álfunni, stöðugleika og frið í öllum
Atlantshafsbandalagsríkjunum og
frið í heiminum,“ sagði Javier Sol-
ana, en hann er æðsti talsmaður
ESB í utanríkis- og öryggismálum
og fyrrverandi framkvæmdastjóri
NATO. Vel fór á með Davíð og Sol-
ana sem lýsti sérstakri ánægju
með heimsókn Davíðs til Brussel.
Aðildarríki ESB vinna að því
markmiði að auka sameiginlega
hernaðargetu svo mögulegt verði
að senda hersveitir á ófriðarsvæði
til friðargæslu og átakastjórnunar.
Solana sagði að stefnt væri að því
að ná þessu markmiði 2003. Davíð
sagði íslensk stjórnvöld hafa góðan
skilning á öryggismálastefnu ESB
eftir leiðtogafundinnn í Nice þótt
þau vildu fylgjast mjög grannt með
hvernig haldið yrði á málum við
framkvæmd hennar en þessi mál
væru á réttri braut. Lagði hann
áherslu á að þessi þróun mætti þó
ekki veikja varnargetu Atlants-
hafsbandalagsins.
Davíð Oddsson forsætisráðherra átti viðræður við æðstu fulltrúa ESB í Brussel í gær
Prodi segir
EES-sam-
starfið
ganga vel
Brussel. Morgunblaðið.
Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórn-
ar Evrópusambandsins, sagði að loknum
viðræðum hans og Davíðs Oddssonar í
Brussel í gær að hann teldi að EES-samn-
ingurinn héldi gildi sínu. Ómar Friðriksson
blaðamaður og Ragnar Axelsson ljósmynd-
ari fylgdust með heimsókn forsætisráð-
herra til Brussel í gær.
Það var létt yfir Javier Solana og Davíð Oddssyni við upphaf fundar þeirra í Brussel í gær. ,,Viljið þið koss?“
spurði Solana ljósmyndarana þegar hann heilsaði Davíð, sem skellti upp úr.
omfr@mbl.is
GÓÐUR gangur hefur verið að
undanförnu í viðræðum samninga-
nefnda Landsvirkjunar og Reyð-
aráls um raforkuverð vegna álvers í
Reyðarfirði. Fundað hefur verið
stíft undanfarna mánuði, bæði hér á
landi og í Noregi.
Friðrik Sophusson, forstjóri
Landsvirkjunar, segir að samn-
ingaviðræður um raforkuverð séu á
áætlun. „Það er engin ástæða til að
setja einhver sérstök tímamörk, en
það liggur fyrir að taka þurfi
ákvörðun í þessum efnum í sumar.
Það verður hins vegar ekki gert
nema aðilar hafi góðar vonir um að
náist saman,“ segir hann.
Samkvæmt heimildum Morgun-
blaðsins hefur andrúmsloftið í við-
ræðunum verið mjög gott allt frá
upphafi og jafnvel er stefnt að nið-
urstöðu á allra næstu vikum. Frið-
rik vill engin tímamörk gefa, en
segir um viðræðurnar að þær hafi
gengið vonum framar.
Skýrslu um umhverfismat
ekki skilað fyrir páska
Fyrir hönd Reyðaráls taka þátt í
viðræðunum fulltrúar Norsk Hydro
og Hæfis, félags íslenskra fjárfesta.
Nú er orðið ljóst að skýrslu um
mat á umhverfisáhrifum vegna
Kárahnjúkavirkjunar verður ekki
skilað inn til Skipulagsstofnunar
fyrir páska, eins og að var stefnt.
Friðrik segir að sá dráttur skipti
engu máli, enda hefði ekki verið
unnið í skýrslunni yfir páska hvort
eð er.
„Þótt frestist um eina viku að
leggja skýrsluna fram, á það ekki að
hafa nein áhrif á ákvarðanatöku eða
framkvæmdir í þessu máli,“ sagði
hann.
Viðræður um raforkuverð til álvers Reyðaráls
Búist við niðurstöðu
á næstu vikum