Morgunblaðið - 11.04.2001, Qupperneq 20
VIÐSKIPTI
20 MIÐVIKUDAGUR 11. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
REYNIST laxeldi í sjó raunhæfur kostur hér á
landi stefnir Samherji hf. á að framleiða á
næstu árum um 20 þúsund tonn af laxi á ári, en
miðað við núverandi markaðsverð gæti slík
framleiðsla gefið allt að 5 milljarða króna út-
flutningstekjur á ári. Þetta kom fram í máli
Finnboga Jónssonar stjórnarformanns Sam-
herja á aðalfundi félagsins sem haldinn var í
Nýja bíói á Akureyri í gær.
Heildarfjárfesting Samherja í fiskeldi á síð-
asta ári og það sem af er þessu nemur um hálf-
um milljarði króna. Nú í síðustu viku keypti
félagið 45% hlut í Silfurstjörnunni í Öxarfirði,
en það átti fyrir 3% hlut. Silfurstjarnan fram-
leiðir árlega um 1.000 tonn af laxi og bleikju og
hefur sótt um leyfi til laxeldis í Steingrímsfirði.
Húnaflóa hefur hins vegar verið lokað fyrir
laxeldi í sjó, en hugsanlegt þykir að koma þar
upp eldi á regnbogasilungi. Þá á Samherji 45%
hlut í Sæsilfri sem áformar að koma upp að-
stöðu fyrir 8.000 tonna laxeldi í Mjóafirði og
einnig hefur Samherji sótt um leyfi fyrir 6.000
tonna eldisstöð fyrir lax í Reyðarfirði, en vinna
við umhverfismat stöðvarinnar hefst innan tíð-
ar. Þá keypti Samherji einnig 50% hlut í Ís-
landslaxi og 85% hlut í Víkurlaxi sem rekur 200
tonna sjókvíaeldi í Eyjafirði en Íslandslax rek-
ur seiðaeldisstöð og 1.000 tonna matfiskeldis-
stöð á Reykjanesi. Síðar keypti Íslandslax eina
stærstu seiðaeldisstöð landsins að Núpum í
Ölfusi. Loks hefur Íslandslax fengið leyfi fyrir
1.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Klettsvík í
Vestmannaeyjum.
Íslendingar geta ekki lengur
setið hjá aðgerðarlitlir
Finnbogi sagði margar ástæður fyrir því að
Samherji væri að hasla sér völl í fiskeldi. Mikill
vöxtur væri í fiskeldi í heiminum og ljóst að
vaxandi fiskneyslu verður að verulegu leyti
mætt með eldisfiski. Með hliðsjón af þeirri þró-
un sem orðið hefur í Færeyjum og Noregi í
þessum efnum spurði Finnbogi hvort Íslend-
ingar gætu öllu lengur setið hjá aðgerðarlitlir.
Hann nefndi einnig að miklar tækniframfarir
hefðu orðið í eldinu frá því sem áður var, m.a.
hvað varðar kynbætur, fóðurgerð og fleira sem
lækkað hefði framleiðslukostnað. Fiskeldi
samræmdist einnig vel stefnu Samherja og
félli vel að núverandi starfsemi, m.a. hvað varð-
ar fullvinnslu í landi, bætta nýtingu fram-
leiðslutækja, og mikilvægi eigin hráefnisöflun-
ar. Loks nefndi hann að margt benti til að
fiskeldi yrði áhugaverður fjárfestingarkostur í
framtíðinni. Hefðbundnar leiðir til vaxtar í
sjávarútvegi hefðu verið með kvótakaupum,
sameiningum, sókn í vannýtta stofna, full-
vinnslu og sókn erlendis, en fiskeldi kæmi hér
sem nýr kostur.
Fram kom í máli Finnboga að seiðaeldis-
stöðvarnar á Reykjanesi og í Ölfusi gætu fram-
leitt um 5 milljónir laxaseiða á ári. Eldisstöðv-
ar Íslandslax og Silfurstjarnan gætu tekið við
þeim og alið í 500 gramma smálaxa. Með fjár-
festingum í sjókvíum er hægt að flytja laxana í
þar til gerðum skipum í kvíar í sjó þar sem þeir
yrðu aldir. Þannig sjá Samherjamenn fyrir sér
að framleiðslan gæti numið um 20 þúsund
tonnum á ári sem gæti gefið allt að 5 milljarða
króna útflutningstekjur á ári og ekki útilokað
að því marki yrði náð á næstu 5–7 árum.
Frjálst framsal ekki orsök búferlaflutninga
Finnbogi kom einnig inn á umræður um fisk-
veiðistjórnunina og byggðaþróun í ræðu sinni á
aðalfundinum og gerði skýrsluna „Sjávarút-
vegur og byggðaþróun á Íslandi“ að umtalsefni
en í henni hefði fiskveiðistjórnunarkerfinu ver-
ið kennt um þá búferlaflutninga sem átt hefðu
sér stað hér á landi síðasta áratug. Þá nið-
urstöðu sagði hann fara á svig við aðrar rann-
sóknir á byggðaþróun og sjávarútvegi á und-
anförnum árum, niðurstaða þeirra væri sú að
frjálst framsal veiðiheimilda væri ekki orsök
búferlaflutninga af landsbyggðinni. Ekki væri í
skýrslu Byggðastofnunar fjallað um jákvæð
áhrif stjórnkerfis fiskveiða og möguleikinn til
að sameina aflaheimildir væri drifkraftur hag-
ræðingar í útgerð fiskiskipa. „Að halda því
fram að frjálst framsal veiðiheimilda sé ástæða
fyrir skuldaaukningu í sjávarútvegi, launa-
lækkun í fiskvinnslu og fólksflótta af lands-
byggðinni er mikil einföldun staðreynda og
ekki í neinu samræmi við veruleikann,“ sagði
Finnbogi. Skuldaaukningu í sjávarútvegi
mætti fyrst og fremst rekja til fjárfestinga í
nýjum skipum, nýrri tækni og nýjum tækjum
og búnaði auk þess sem hluti aukningarinnar
væri til komin vegna fjárfestinga í veiðiheim-
ildum sem fyrirtækin hefðu ráðist í, í trú á var-
anleika stjórnkerfis fiskveiðanna. Þá mætti
heldur ekki gleyma þenslu á höfuðborgarsvæð-
inu og fjölbreyttum atvinnumöguleikum þar
sem virkað hefði sem segull á fólk á lands-
byggðinni.
Aðgerðin gæti snúist upp í andstæðu sína
Finnbogi sagði að þéttbýlismyndun t.d. í
Eyjafirði og Fjarðarbyggð hefði ákveðna
möguleika á að mynda mótvægi við höfuðborg-
arsvæðið og sjávarútvegsfyrirtækin á svæðun-
um styrktu mjög búsetu þar. „Ef menn telja að
úrræði til bjargar landsbyggðinni felist í því að
taka aflaheimildir frá fyrirtækjum á þessum
stöðum og dreifa til annarra byggðarlaga í
þeirri von að efla byggð í landinu þá mun að-
gerðin hæglega geta snúist upp í andhverfu
sína og á endanum veikt þau svæði sem mestan
möguleika hafa til að vera sjálfbjarga,“ sagði
Finnbogi.
Að lokum ræddi stjórnarformaðurinn um
áhyggjur sínar af því að gengi hlutabréfa í
félaginu skyldi lækka þrátt fyrir að gott upp-
gjör hefði verið kynnt og sókn til framtíðar
væri sterk. Ástæðuna taldi hann m.a. þá nei-
kvæðu umræðu sem eilíflega væri í gangi um
sjávarútveg og stjórnkerfi fiskveiða. „Það er
auðvitað óþolandi að ein atvinnugrein skuli sí-
fellt búa við þá stöðu að talið sé best að stokka
öll spil upp á nýtt og hirða kvótann af starfandi
sjávarútvegsfyrirtækjum og kippa um leið fót-
unum undan þúsundum starfsmanna þeirra.
Skuldunum mega sjávarútvegsfyrirtækin hins
vegar halda,“ sagði Finnbogi.
Yfir 90% kvótans keypt
Hann sagði endalaust hægt að deila um
hvort kvótanum hefði í upphafi verið réttlát-
lega skipt en við hefðum búið við þetta kerfi í
nær tvo áratugi og á þeim tíma hefðu miklar
tilfærslur orðið. Finnbogi sagði að af heildar-
kvóta Samherja mætti rekja innan við 10%
hans til upphaflegu úthlutunarinnar á eina
skipið sem félagið átti þegar kerfið var sett á.
Yfir 90% kvótans mætti rekja til beinna kaupa
og greiðslu í peningum, til sameiningar við
önnur félög þar sem tekið hefði verið við skuld-
um eða til frumkvæðis í úthafsveiðum þar sem
þátttaka hefði skapað þjóðinni aflaheimildir.
Kvaðst Finnbogi hafa bundið vonir við að til-
lögur svokallaðrar auðlindanefndar myndu
skapa sátt um kerfið, en eftir að skýrsla henn-
ar kom út hefðu stjórnmálamenn verið með yf-
irlýsingar út og suður og engin leið væri að átta
sig á hvort grundvöllur væri til sátta eða ekki.
„Slíkar umræður geta ekki gengið endalaust
og það er lykilatriði fyrir framfarir í sjávar-
útvegi að þessari þrálátu umræðu um breyt-
ingar á grundvallarstarfsskilyrðum sjávarút-
vegs linni,“ sagði Finnbogi.
Lífeyrissjóðir þora ekki að
fjárfesta í sjávarútvegi
Þessa umræðu sagði hann hafa leitt til þess
að t.d. lífeyrissjóðir hafi dregið úr fjárfesting-
um innanlands og fjárfest erlendis í auknum
mæli. „Halda menn að það skapi framfarir á Ís-
landi ef þeir aðilar sem ráða yfir stærstum
hluta sparnaðar í landinu þora ekki að fjárfesta
í þeirri atvinnugrein sem byggt hefur upp vel-
ferðarríkið Ísland? Nei, við verðum að fá
starfsfrið, við verðum að endurvekja trú fjár-
festa á sjávarútveginn og leggja þannig grunn
að nýju vaxtarskeiði.“
Launakostnaðurinn eykst þegar
fjárfest er í nýjum búnaði
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Sam-
herja fór yfir rekstur fyrirtækisins á síðasta
ári, en félagið skilaði 726 milljóna króna hagn-
aði.
Hann gerði kjaramál sjómanna að umtals-
efni, en nefndi fyrst að afköst í rækjuverk-
smiðju félagsins á Akureyri hefðu tvöfaldast á
manntíma á síðasta áratug með fjárfestingum
sem auka tæknivæðingu vinnslunnar, í fiski-
mjölsverksmiðjunni í Grindavík hefðu afköst
aukist um 60% frá því Samherji kom inn í
vinnsluna þar og í frystihúsinu á Dalvík hefðu
afköstin tvöfaldast frá árinu 1996. Afkasta-
aukningin væri til komin vegna fjárfestinga í
tækjum og búnaði, en ef litið væri til útgerðar
væri hlutunum oftast öfugt farið. Þegar fjár-
fest væri í nýjum búnaði sem leitt gæti til hag-
ræðingar og fækkunar á starfsfólki ykist heild-
arlaunakostnaður útgerðarinnar, þveröfugt við
það sem gerðist í öðrum atvinnugreinum.
Sem dæmi nefndi Þorsteinn að ísfisktogar-
inn Björgúlfur sem nú væri í eigu Samherja
hefði í kringum 1980 veitt ívíð meira en hann
gerði nú með sama fjölda í áhöfn. Þrátt fyrir
þróun í tækjabúnaði og tækjum um borð hefði
útgerð skipsins valið að hafa sama fjölda í
áhöfn og áður en ástæðan væri sú að vegna
ákvæða í kjarasamningum hækkaði heildar-
launakostnaðurinn við fækkun í áhöfn. Launa-
kostnaður vegna Björgúlfs er áætlaður 95
milljónir króna á þessu ári, sem gerir um 6,3
milljónir á ársverk. Með því að fækka úr 15
mönnum í 12 um borð hækkaði launakostn-
aðurinn í 100 milljónir króna og yrði þannig 8,3
milljónir á ársverk. Ef hins vegar útgerðin og
áhöfnin skiptu að jöfnu með sér þeim ávinningi
sem hlytist af fækkun í áhöfn myndi launa-
kostnaður útgerðarinnar lækka um 8 milljónir
og launakostnaður á hvert ársverk færi úr 6,3
milljónum í 7,3, sem er 15% launahækkun.
Launahækkanir verða að hluta
að koma vegna hagræðingar
Þorsteinn sagði að launahækkanir sjómanna
yrðu að hluta að koma til vegna hagræðingar
líkt og gerðist hjá öðrum stéttum, en sífelldar
deilur sjó- og útgerðarmanna væru undarlegar
þegar tekið væri mið af launum flestra sjó-
manna. Meðallaun á frystitogurum Samherja
miðað við ársverk væru rúmar 10 milljónir
króna. Frá áramótum og þar til verkfall skall á
um miðjan mars voru mánaðarlaun á þriðja
hundrað sjómanna að meðaltali um 750 þúsund
krónur. „Það er ljóst að dragist þetta verkfall á
langinn munu félagið og starfsmenn þess verða
fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni. Ég treysti á
og tel nauðsynlegt að deiluaðilar nái samning-
um án afskipta ríkisvaldsins,“ sagði Þorsteinn
Már.
Hraðskreiðir fiskibátar auka aflahlutdeild sína
Forstjóri Samherja gerði byggðastefnu
einnig að umtalsefni og nefndi að heildarlauna-
kostnaður félagsins yrði um 2,8 milljarðar
króna á þessu ári, en þar af væru starfsmenn
búsettir á Eyjafjarðarsvæðinu með um 2,3
milljarða í laun. Áætlað væri að um 2.000
manns við Eyjafjörð byggðu afkomu sína beint
á rekstri Samherja þannig að með tilliti til
margfeldisáhrifa mætti gera ráð fyrir að um
væri að ræða á fjórða þúsund manns. Ef lögð
væru saman áhrif Samherja og Útgerðarfélags
Akureyringa mætti gera ráð fyrir að á sjöunda
þúsund manns byggðu afkomu sína á rekstri
þessara fyrirtækja. Þorsteinn nefndi að smá-
bátar eða það sem hann vildi kalla hraðskreiðir
fiskibátar hefðu að hluta verið lausir við afla-
takmarkanir, en þessi hluti flotans hefði stöð-
ugt verið að auka hlutdeild sína í heildarafl-
anum. Þorskafli hans hefði vaxið úr 2,5% í 28%
af heildarþorskaflanum frá því núverandi fisk-
veiðistjórnunarkerfi var tekið upp. „Þessi
aukning er meiri en þorskveiðiheimildir allra
skipa sem gerð eru út frá Norðurlandi á yf-
irstandandi fiskveiðiári, en smábátaútgerð á
Norðurlandi og fiskvinnsla tengd henni er nán-
ast engin í dag, ef Grímsey er undanskilin.“
Þorsteinn sagði ummæli sumra þingmanna
kjördæmisins um fiskveiðistjórnunarkerfið
hafa komið sér á óvart „því þau miða mörg
hver beinlínis að því að færa störf úr héraðinu
yfir í aðra landshluta“, sagði hann og benti á að
hvergi hefði atvinnuleysi verið meira á síðasta
áratug en einmitt á Norðurlandi þar sem hlut-
ur erlends vinnuafls í fiskvinnslu væri hverf-
andi. „Það er mjög mikilvægt fyrir starfsum-
hverfi fyrirtækja og atvinnuöryggi launþega á
Norðurlandi að umræðan um fiskveiðistjórn-
unarkerfið verði málefnalegri en hún hefur
verið undanfarið og að tilflutningur aflaheim-
ilda frá bátum í aflamarki til þeirra sem í dag
sæta ekki aflatakmörkunum í einstaka tegund-
um verði stöðvaður.
Gert ráð fyrir 860 milljóna króna hagnaði í ár
Þorsteinn gerði í lok fundarins grein fyrir
rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir þetta ár,
en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að tekjur
nemi 9.250 milljónum króna, rekstrargjöld
verði 7.075 milljónir króna og hagnaður fyrir
afskriftir og fjármagnsliði 2.175 milljónir
króna. Gert er ráð fyrir 1.000 milljónum í af-
skriftir og að hagnaður af reglulegri starfsemi
móðurfélagins verði 860 milljónir króna. Þor-
steinn sagði að ef þessi rekstrarniðurstaða
fengist ætti fyrirtækið að geta greitt að
minnsta kosti 20% arð til hluthafa á næsta ári.
Áætlunin verður endurskoðuð með tillliti til
gengisbreytinga sem orðið hafa og áhrifa verk-
falls.
Bráðabirgðatölur fyrir fyrstu þrjá mánuði
ársins sýna 800 milljóna króna hagnað fyrir af-
skriftir og fjármagnsliði.
Samherji hefur fjárfest fyrir um hálfan milljarð króna í fiskeldi á síðasta ári og það sem af er þessu
Útflutnings-
verðmæti gæti
orðið fimm
milljarðar á ári
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Á aðalfundi Samherja hf. á Akureyri í gær. Einar Benediktsson, forstjóri Olís, Jóhannes Jóns-
son í Bónus og Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa, stinga saman nefjum.
Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Samherja, segir
að vaxandi fiskneyslu í heiminum verði í framtíðinni að
verulegu leyti mætt með eldisfiski, en Samherji hefur
verið að auka mjög þátttöku sína í fiskeldi.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri félagsins, segir
rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir yfirstandandi ár
gera ráð fyrir 860 milljóna króna hagnaði fyrir skatta.