Morgunblaðið - 11.04.2001, Side 49
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. APRÍL 2001 49
þetta eftir honum. Valinn var fal-
legur haustdagur og fóru þær syst-
ur, ásamt fjölskyldum sínum og
Judith, með hann alla leið inn að
Hveravöllum. Hann hresstist allur
við þessa ferð og bjó að henni þó
nokkurn tíma á eftir.
Þótt hin skerta starfsorka hafi
sett honum ákveðin takmörk eftir
miðjan aldur, þýddi það ekki að
hann væri hættur að sjá möguleika
til einhverrar nýbreytni í búskap-
arháttum. Hann bjó blönduðu búi,
sem kallað er; var bæði með mjólk-
urkýr og töluvert af sauðfé. Þar á
ofan var hann með eggjaframleiðslu
og lengi vel einnig með nokkra
garðrækt. Hann var tæknilega
sinnaður af sinni kynslóð að vera og
fann gjarnan upp á ýmsu sem gatt
létt honum störfin. Yfirleitt var
sameiginlegt einkenni á þessum
uppfinningum að þær voru gerðar
úr einhverju sem til hafði fallið í
búskapnum. Það var ekki vani hans
að stökkva til og kaupa nýtt, heldur
var reynt eftir föngum að fá sem
mest út úr því gamla. Yngri fjöl-
skyldumeðlimir hentu oft gaman að
þessum tilfæringum, en Ögmundur
kærði sig kollóttan um það og mat
meira það frelsi, sem fólgið var í
því að bjarga sér sjálfur og að fara
vel með hlutina.
Nú fær Ögmundur í Vorsabæ
ekki fleiri hugmyndir. Elli kerling
hefur loks lagt þennan lífsþyrsta
öldung að velli, þennan rammís-
lenska bónda sem var í rauninni
læknisfræðilegt undur og hefði
samkvæmt líkindareikningi átt að
vera horfinn fyrir löngu yfir móð-
una miklu.
Ég þakka þér okkar góðu kynni í
meira en þrjá áratugi og bið guð að
blessa minningu þína, um leið og ég
votta Judith og börnunum samúð
mína.
Bjarni Frímann Karlsson.
Þegar ég kveð Ögmund afa minn
í Vorsabæ í hinsta sinn, er mér efst
í huga þakklæti. Ég er honum
þakklát fyrir það sem hann kenndi
mér og gaf mér. Afi minn í sveitinni
lifði eftir öðrum lögmálum en þeim
sem nútíminn lýtur, og það er dýr-
mætt veganesti að hafa kynnst við-
horfum hans. Það var eins og lífið í
Vorsabæ stæði utan við hringrás
tímans, þar voru önnur lögmál og
önnur gildi í heiðri höfð en annars
staðar.
Afi sá sjaldan ástæðu til þess að
fara úr sveitinni sinni, hann elskaði
bæinn sinn og sveitina sína og leið
hvergi betur en einmitt heima. Það
var líka yndisleg afslöppun að koma
til hans og ömmu, það var gott mót-
vægi við þá kröfu nútímans að
þurfa helst alltaf að vera á þremur
stöðum í einu. Afi minn var líka
nægjusamur, hann var ánægður
með það sem hann átti og var um-
hugað um fjölskyldu sína. Sérstak-
lega tók hann nærri sér veikindi í
fjölskyldunni, og talaði oft um það,
að heilsan væri það dýrmætasta í
lífinu. Þegar ég veiktist á unglings-
aldri naut ég umhyggju hans, og ég
fann að hann talaði af eigin reynslu
um veikindi og skerta starfsorku,
sem var hlutskipti hans stóran
hluta ævinnar. Hvatning hans til að
ná bata var mér mikils virði.
Margar góðar minningar úr
Vorsabæ tengjast bústörfunum. Afi
fól okkur krökkunum ákveðin verk-
efni, og hlýddi okkur nákvæmlega
yfir hvernig til hefði tekist. Það var
mikið metnaðarmál að standa sig
vel gagnvart honum. Meðan hann
mjólkaði notaði hann svo tækifærið
og hlýddi yfir Íslandssögu og
landafræði Íslands, sem voru hans
áhugamál. Þegar ég var 9 ára sagði
ég honum að ég væri byrjuð að
læra landafræði og þá stóð ekki á
spurningum hans. Ég man að hann
spurði mig hver væri stærsti jökull
landsins. Frekar en að játa að ég
vissi það ekki sagði ég staðföst „það
er Langjökull“. Það var hræðilegt
að vita ekki svarið, ég hefði viljað
falla á hvaða prófi sem er frekar en
svara afa vitlaust. Enda spurði
hann mig þessarar spurningar
reglulega í langan tíma á eftir. Síð-
ustu árin í Vorsabæ var afi orðinn
mjög heilsulítill. Mér var því mikill
heiður sýndur, þegar amma brá sér
til Færeyja og Danmerkur, að fá að
hugsa um hann og Guðrúnu systur
hans á meðan. Það var mér mikið
metnaðarmál eins og áður að
standa mig vel gagnvart afa, og að
þeim systkinum liði vel með mér.
Enda er enginn hægðarleikur að
feta í fótspor ömmu. Það er aðdá-
unarvert hversu vel hún hugsaði
um afa. Hann sagði mér það líka
sjálfur hversu þakklátur hann væri
fyrir hana. Ég óska þess að mér
öðlist með árunum brot af þeim
styrk sem amma mín býr yfir.
Að leiðarlokum vil ég þakka afa
mínum fyrir allt það sem hann var
mér. Guð blessi minningu hans.
Ninna Sif Svavarsdóttir.
Nú, þegar komið er að kveðju-
stund, er ég full þakklætis vegna
þess að ég fékk að kynnast afa mín-
um og verja dýrmætum tíma með
honum. Eftir að afi dó hafa minn-
ingarnar um hann sprottið fram í
huga mínum. Fyrstu minningar
mínar úr bernsku um afa minn og
veru mína í Vorsabæ eru eins og
ævintýri. Vorsabær var mitt æv-
intýraland: Fjósið, hundurinn, úti-
vinna. Heima í eldhúsi með kaffi,
reykurinn úr sígarettunni hans afa,
hækkað í útvarpinu til að heyra
fréttir og veður. Afi hafði gaman af
að hlýða mér yfir staðreyndir úr
landafræði og Íslandssögu, hann
fræddi mig um Fjalla-Eyvind og
Reynistaðarbræður. Þegar ég
stækkaði naut ég þess jafnvel enn
betur að koma til afa og ömmu í
Vorsabæ. Mér þótti gaman að ræða
við þau bæði um ýmis mál en komst
fljótt að því að skoðunum afa míns
varð ekki hnikað. Hann hafði yf-
irleitt ákveðnar hugmyndir um það
hvernig best væri að haga málum í
samfélaginu og ljóst var að hann
gerði sér engar gyllivonir um fram-
tíðina. Kannski fannst honum ein-
faldlega öruggast að búast við því
að eitthvað færi úrskeiðis. Annars
einkenndi tvennt afa minn alveg
fram í andlátið en það er sterkur
vilji og áhugi og umhyggja fyrir
fjölskyldu sinni. Hann fylgdist eins
vel og hann gat með börnum sínum
og barnabörnum og var umhugað
um þau. Það snart hann sérstak-
lega ef veikindi voru á ferðinni,
kannski vegna þess að þeim hafði
hann kynnst sjálfur. Ég vil nota
þetta tækifæri til að þakka starfs-
fólkinu á hjúkrunarheimilinu Ási
fyrir þá alúð og umhyggju sem afi
naut meðan hann dvaldi þar.
Elsku amma mín og fjölskyldan
öll – minningin um einstakan mann
lifir áfram í hugum okkar.
Íris Judith Svavarsdóttir.
Ögmundur í Vorsabæ er horfinn
yfir móðuna miklu. Kvaddur í hárri
elli eftir langt og farsælt ævistarf.
Kynni mín og Ögmundar hófust
þegar ég í ein tíu ár starfaði hjá
Mjólkurbúi Flóamanna við mjólk-
ureftirlit og fleira. Á þeim árum
kynntist ég mörgu afbragðs fólki og
naut gestrisni á sunnlenskum
bændabýlum. Hafi einhver kynslóð
unnið kraftaverk í gegnum aldirnar
þá er það sú kraftmikla aldamóta-
kynslóð sem fædd var fyrir og eftir
aldamótin nítján hundruð. Þetta
fólk einkenndi dugnaður og ósér-
hlífni, einstakur baráttuvilji til að
sækja fram fyrir þjóðina. En það
sem ég hef oft undrast er hversu
margt af þessu fólki var vel mennt-
að, oft án mikillar skólagöngu,
hversu þekking þess var mikil á
mörgum sviðum, en síðast en ekki
síst hversu gott þetta fólk átti með
að halda uppi samræðum og hversu
frásagnarlistin var leikandi létt. Við
Ögmundur urðum brátt ágætir vin-
ir og í eldhúsið varð ég að kom í lok
heimsóknarinnar en þar urðu sam-
ræður oft fjörugar yfir rjúkandi
kaffibolla.
Þegar ég minnist þessara stunda
nú að leiðarlokum finnst mér að
umræðuefnið hafi oftast snúist um
afreksmenn sem honum voru hug-
leiknir eða stóra atburði í mann-
kynssögunni. Ennfremur var hann
heillaður af verkfræðilegum afrek-
um og þótti mikið til um framfarir
samtímans. Fljótt fann ég að Ög-
mundur fór eigin leiðir og þorði að
halda fram kenningum þó svo þær
stönguðust á við skoðanir annarra.
Oft ræddum við um afburðamenn
sem höfðu með dugnaði náð langt
eða unnið einstæð afrek, hann var
mjög trúaður á athafnafrelsi ein-
staklinganna og taldi höft og höml-
ur af því illa og var ekki aðdáandi
kommúnistaríkjanna.
Fjalla-Eyvind og Höllu bar oft á
góma og var hann vel lesinn í öllu
sem sneri að lífsstríði þessara úti-
legumanna og nú brá svo við að
þessi grandvari og heiðarlegi bóndi,
sem ekki mátti vamm sitt vita í við-
skiptum við aðra, var þeirra mál-
svari. Ég minnist þess að Ögmundi
hitnaði verulega í hamsi þegar þau
bar á góma og taldi örlög þeirra
stríð að hluta til við vont stjórnvald
og danska herraþjóð. Eyvindur var
hetja sem kunni meira til verka en
flestir samtíðarmann hans og það
afrek að dvelja í mörg ár á miðhá-
lendi landsins verðskuldaði að
minningu hans yrði haldið á lofti.
Ögmundur hafði einnig skoðað vel
sögu Höllu og taldi að fordómar í
hennar garð hefðu ekki síst stafað
af kvenfyrirlitningu þess tíma frá
hinu gamla, úrelta embættismanna-
samfélagi, enda var Halla í hans
augum uppreisnarkona sem átti að-
dáun skilið og þessu til staðfestu
sýndi hann mér útlitslýsingar þar
sem auglýst var eftir Höllu sem
ljótri fordæðu en hins vegar lýsingu
sýslumanns sem undraðist hennar
kvenlegu fegurð.
Mörgum árum síðar hringdi Ög-
mundur til mín og spurði hvort ég
hefði gleymt bón sinni um að þegar
ég væri orðinn þingmaður, en því
spáði hann að svo færi, og áður en
hann væri allur, myndum við í sam-
eigingu reisa þeim Höllu og Ey-
vindi minnismerki á Hveravöllum.
Ég brást nokkuð skjótt við og kall-
aði saman fund valinkunnra manna
sem mynduðu svo hugsjónahóp um
þetta verkefni. Ögmundur lagði á
ráðin um gerð listaverksins og var
sannfærður um að margir myndu
styðja þetta verkefni og framlagið
skyldi miða við að einstaklingar
greiddu lambsverð. Allt gekk þetta
eftir. Nú kallar hið fallega verk
Magnúsar Tómassonar, sem af-
hjúpað var á Hveravöllum í ágúst
1998, á að ferðamenn heyri söguna
um afreksfólkið sem háði lífsstríð
sitt áratugum saman í óbyggðum
landsins og bauð veðri og vindum
og valdinu byrginn. Saga um ástir
og örlög sem eiga vart sinn líka.
Hátíðin á Hveravöllum var sótt af
um eitt þúsund manns og þótti tak-
ast vel, veðrið í byggðinni beggja
vegna hálendisins var eigi að síður
vont, en það var eins og einhver
héldi verndarhendi yfir Hveravöll-
um meðan hátíðin fór fram. Þar var
gott veður. Þennan dag var Ög-
mundur því miður fjarri sakir veik-
inda, en ári síðar komst hann að
styttunni í fylgd ástvina sinna og
lét vel yfir hvernig til hafði tekist.
Þessi saga er hér sögð vegna
þess að hún segir mikið um lífs-
skoðanir og staðfestu Ögmundar,
en um leið og þetta mál minnir á
fortíðina vísar það einnig til fram-
tíðar, því nú er það að gerast að
ferðaþjónustan gerir út á sögur og
liðna atburði. Öll könnumst við við
að fara á Njáluslóðir í dag eða fara
um Flóann og rekja söguna um
Kampholts-Móra. Ögmundur sá
fyrir sér að ferðamenn myndu
heimsækja þá staði í náttúru Ís-
lands þar sem hreysi Höllu og Ey-
vindar stóð og nú er þetta að ger-
ast.
Ögmundur í Vorsabæ var um
margt sérstæður maður, dagfars-
prúður og hlýr heim að sækja.
Hans eldskírn var herhvöt alda-
mótakynslóðarinnar að skila land-
inu betra og bjargast af dugnaði
sínum. Í senn var hann góður þjóð-
ernissinni í þess orðs bestu merk-
ingu og um leið heimsborgari sem
var aðalsmerki gömlu sveitamann-
anna.
Að lokum þakka ég Ögmundi
góðar stundir þar sem ég var læri-
sveinn og gestur hans. Ég votta
eiginkonu og fjölskyldu djúpa sam-
úð á kveðjustund. Það er gott að
minnast Ögmundar í Vorsabæ.
Guðni Ágústsson.
✝ Matthías G. Gils-son kjötiðnaðar-
maður fæddist í
Reykjavík 21. sept-
ember 1949. Hann
lést á Landspítalan-
um í Fossvogi 2. apríl
síðastliðinn. Foreldr-
ar hans voru Rann-
veig Lárusdóttir, f.
13. des 1914, d. 16.
sept 1998, og Gils
Jónsson bakari, f. 25.
júlí 1906, d. 26. mars
1967. Matthías á þrjú
systkini. Þau eru:1)
Anna Auðunsdóttir,
f. 2. jan. 1935, gift Herði Ársæls-
syni. Börn þeirra eru: Margrét, f.
6. jan. 1955, Ársæll, f. 9. jan 1956,
Gils, f. 24. feb. 1958, Hörður Örn,
f. 27. maí 1967, og Guðni Pétur, f.
22. ágúst 1969. 2) Ingibjörg Gils-
dóttir, f. 15 maí 1940, gift Finni
Valdimarssyni. Börn þeirra eru:
Rannveig, f. 4. apríl 1956, Fjóla, f.
30. okt. 1959, Áslaug, f. 9. ágúst
1963. 3) Hafsteinn
Gilsson, f. 12. júlí
1941, kvæntur
Ágústu Haraldsdótt-
ur. Þau skildu. Börn
þeirra eru: Svanur,
f. 26. mars 1965, og
Hafdís, f. 13. jan.
1967.
Matthías kvæntist
Kolbrúnu Roe en
þau skildu. Börn
þeirra eru : Gils, f. 4.
júlí 1975, og Harpa,
f. 14. nóv 1976, d. 15.
apríl 1991.
Matthías starfaði
lengi sem kjötiðnaðarmaður hjá
Kjötiðnaðarstöð Sambandsins,
síðan sem matsveinn á varðskip-
um Landhelgisgæslunnar. Einnig
var hann á millilandaskipum. Síð-
ast starfaði hann hjá Kjötiðnaðar-
stöð Goða.
Útför Matthíasar fer fram frá
Fossvogskapellu í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Hann Matti er dáinn. Elsku Matti
minn, mig langar að kveðja þig með
fáeinum orðum. Við Matti ólumst
upp saman um tíma þegar ég bjó með
foreldrum mínum í Hólmgarðinum.
Það var margt brallað þá. Ég man
alltaf þegar Matti keypti fyrsta
sportbílinn sinn. Þá var gaman að
eiga stóran frænda sem átti sportbíl.
Oft fengum við, ég og vinkona mín,
að fara á rúntinn með honum því í
bílnum var 45 snúninga plötuspilari
sem gerði mikla lukku og heyrðist
hátt í.
Matti var mjög gjafmildur og man
ég alltaf eftir því þegar hann sagði
við mig þegar ég var 15 ára: „Margr-
ét, ég ætla að gefa þér fyrir bílpróf-
inu þegar þú hefur aldur til.“ Hann
sýndi mér og minni fjölskyldu mikla
ræktarsemi. Þegar hann var á milli-
landaskipunum heimsótti hann hann
alltaf frænku sína þegar hann kom á
Djúpavog og aldrei kom hann tóm-
hentur. Hann kom færandi hendi
með sælgæti og föt. Eins reyndist
hann mér mjög vel þegar ég eign-
aðist fyrsta barnið mitt mjög ung.
Vildi allt fyrir okkur mæðgurnar
gera og studdi mig mikið á þeim
tíma. Það hefðu ekki allir tekið
ófríska frænku sína með í útilegu um
verslunarmannahelgi en það gerði
Matti, og hafðu bestu þakkir fyrir
alla þína góðvild í minn garð, því það
eru mjög góðar minningar sem ég á
um þig sem sýna að þú áttir líka þína
kosti. Þú áttir þína góðu og slæmu
daga. Þá góðu geymi ég í hjarta
mínu.
Ég vildi að ég hefði getað átt meira
samneyti við þig síðustu árin, því allt-
af var gaman hjá okkur þegar við
hittumst og mikið hlegið þegar
gömlu minningarnar voru rifjaðar
upp.
Elsku Matti minn. Far þú í friði og
Guð geymi þig. Vonandi tekur hún
Harpa þín á móti þér ásamt ömmu og
afa. Elsku Gilli, mamma Ingibjörg og
Hafsteinn, ég votta ykkur og fjöl-
skyldum ykkar mína dýpstu samúð
við fráfall föður og bróður ykkar.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta,
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
(Þórunn Sig.)
Með kveðju.
Margrét Harðardóttir
og fjölskylda.
Æskuvinur okkar og félagi er all-
ur, langt um aldur fram, meðal hinna
allra fyrstu úr stórum og þróttmikl-
um strákahópi úr Bústaðahverfinu í
Reykjavík. Margvísleg orka ungra
manna fékk útrás í óvenjulega blóm-
legu skátastarfi sem var í hverfinu
upp úr 1960. Við höfðum aldrei heyrt
þess getið að eitthvað væri ekki
hægt. Ef einhver fékk góða hug-
mynd, eða þá hugmynd sem var
passlega geggjuð, þá sá enginn
ástæðu til að kveða hana í kútinn.
Góðar og skemmtilegar hugmyndir
voru til að framkvæma þær. Við lág-
um í tjöldum hvenær sem færi gafst,
fórum á skátamót um allt land, vörð-
um fárviðrishelgum í skátaskálum á
Hellisheiði og í Lækjarbotnum,
lærðum að dansa og sóttum tíma í
heldrimannasiðum í gamla Lídó, elt-
umst við skátastelpur úr öllum lands-
fjórðungum og reyndum að heilla
þær með nýstárlegum útsetningum á
skátasöngvum. Sumir lærðu líka að
binda hnúta og flestir voru liðtækir
við að súrra saman fiskitrönur. Allir
voru haldnir ódrepandi áhuga á að
láta hlutina ganga hratt og örugg-
lega og taka þátt í hverju því sem
upp kom. Það þurfti bara að vera
skemmtilegt.
Matti Gils var jafningi og ómiss-
andi hlekkur í þessum skemmtilega
hópi. Hann átti heima beint á móti
skátaheimilinu í Hólmgarðinum með
foreldrum sínum, Gilla bakara og
henni Ranní, og þangað var gott að
koma. Ranní var ævinlega í himna-
skapi og lumaði oft á vínarbrauðs-
endum sem Gilli kom með heim úr
Sandsholtsbakaríi á Laugaveginum.
Matti bjó einnig við annan munað
sem var fágætur á þeim árum: Þau
voru með Kanasjónvarpið og þar
horfðum við stóreygir á Bonanza,
Twilight Zone og fleiri menning-
arprógrömm af svipuðum toga. Og
þar sem Ranní og Gilli áttu til að fara
út um helgar var stundum hægt að
halda partí heima hjá Matta, jafnvel
fjölmenn, og þá voru ekki bara
sungnir skátasöngvar. Þarna var
húsráðandinn hrókur alls fagnaðar.
Hann var kannski ekki mesti söng-
maðurinn í hópnum en hann naut
kvenhylli umfram marga og það
skipti miklu máli á þessum árum;
satt best að segja hafði maðurinn
lygilega mikinn séns!
Þessi dýrðartíð stóð í hartnær ára-
tug. Þá fóru menn að fara hver í sína
áttina – í nám, í hjónabönd eða vinnu
í öðrum löndum eða landshlutum. En
enn halda tryggðarböndin og á nokk-
urra ára fresti hittist hópurinn. Þá er
eins og síðasti skátafundur hafi verið
haldinn kvöldið áður. Sumir hafa not-
ið láns í lífinu, aðrir minna eins og
gengur. Lánið lék ekki alltaf við
Matta Gils. Einkalíf hans var ekki
alltaf eins og hann hefði helst kosið.
Hann missti til dæmis elskulega
dóttur kornunga á sviplegan hátt, og
í áralangri baráttu við Bakkus kon-
ung fór hann heldur halloka. En allt-
af var hann samur við sig, drengur
góður, glaðlyndur, trygglyndur og
ævinlega skemmtilega uppátekta-
samur. Það er eftirsjá í góðum vini.
Megi minning hans lifa.
Syni Matta og fjölskyldu hans,
sem og systkinum hans og þeirra
fjölskyldum, sendum við hugheilar
samúðarkveðjur.
Herkúlesar.
MATTHÍAS G.
GILSSON