Morgunblaðið - 14.07.2001, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 14.07.2001, Blaðsíða 34
MINNINGAR 34 LAUGARDAGUR 14. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ Íþróttahreyfingin stendur og fellur með sjálfboðaliðum, fólki sem leggur fram krafta sína og tíma, til að starfa endurgjaldslaust að málefnum æskunnar og íþróttanna. Um allt land, hvort heldur er í íþrótta- eða ungmennafélögum, þekkjum við slíkt fólk, sem aldrei telur eftir sér að mæta og vinna, hvetja og hughreysta, leggja sína hönd á plóginn og ganga fram fyrir sköldu, þegar félagið og félagsstarfið þarfnast þess. Valdimar Valdimarsson var einn slíkur. Ég man vel eftir Valdimar þegar Breiðablik var að festa sig í sessi og hasla sér völl meðal þeirra fremstu í fótboltanum. Og aldrei kom maður í Smárann eða í Kópavoginn öðru vísi en Valdi væri mættur með sínum mönnum og taldi þá aldrei eftir sér að tína til búninga, standa á hlið- arlínunni eða berja fítonskraft í sitt lið. Og aldrei lét hann deigan síga, á hverju sem gekk. Breiðablik og Kópa- vogur eiga Valdimar mikið að þakka. Við hinir, keppinautarnir, sömuleiðis. Ég fór sjálfur ekki varhluta af nær- veru og vináttu Valdimars, meðan ég keppti og síðar þegar leiðir okkar lágu saman. Íþróttahreyfingin öll stendur í þakkarskuld við þau félagsmálatröll, þá ósérhlífnu og óeigingjörnu ein- staklinga, karla og konur, sem halda starfinu gangandi, þegar kynslóðirn- ar koma og fara. Þetta fólk er akkeri og kjölfesta hvers íþrótta- og ung- mennafélags. Megi minning Valdimars lengi lifa og hafi hann þökk fyrir sitt fórnfúsa starf. Ellert B. Schram. Hann Valdi frændi minn og fóst- urbróðir er látinn. Fregnin um lát hans barst mér þar sem ég var stödd á Látrum í Aðalvík, einmitt á þeim stað sem Valda var svo hjartfólginn og sem hugur hans dvaldi oft við. Fyr- ir stuttu ræddum við um að fara sam- an að Látrum næsta sumar og fyrir einu ári gekk hann með stórum hópi ættingja um Látrana og Miðvíkina og sagði okkur frá atburðum liðins tíma. Ungir systursynir hans höfðu á orði að þeir óskuðu sér að verða svona kraftmiklir og duglegir ef þeir kæm- ust á hans aldur. Þar sem ég sit og horfi út á Að- alvíkina og allt umhverfið á Látrum, velta minningar fram um minn ynd- islega frænda og fósturbróður. Syll- urnar í Ritnum þar sem Valdi sótti egg, einstigið út í Kví í Straumnes- fjalli sem Valdi fór með afa okkar að sækja kindur og varð að móta götuna þar sem runnið hafði yfir í skriðum, VALDIMAR KRISTINN VALDIMARSSON ✝ Valdimar Krist-inn Valdimars- son fæddist 9. júní 1926 á Látrum í Að- alvík. Hann lést á heimili sínu aðfara- nótt 6. júlí síðastlið- ins og fór útför hans fram frá Digranes- kirkju 13. júlí. Látrafjallið þar sem Valdi renndi sér á skíð- um og síðast en ekki síst Aðalvíkin sjálf sem heillaði ungan dreng og síðar fullorðinn mann til að ýta bát úr vör og stunda fiskveiðar, þar sem unglingurinn sann- aði dugnað sinn og áræði til jafns við full- orðna reynda sjómenn. 15 ára stýrði hann bátn- um hans afa til Ísafjarð- ar, því báturinn þurfti að komast til viðgerðar og afi fór ekki með en treysti Valda til verksins semauðvitað kom í ljós að hann leysti vel af hendi. En Valdi fór suður eins og fleiri og settist að í Kópavogi um leið og hann gifti sig, varð fisksali þar um tíma ásamt fjölda annarra starfa sem hann stundaði af mikilli kostgæfni. Hann var mikill áhugamaður um íþróttir og studdi við íþróttastarf barna í Kópavogi á ýmsa lund, meðal annars gaf hann bikara til að veita ungum sigurvegurum í knattspyrnu- keppnum. Sjálfur hefði hann getað orðið fær íþróttamaður ef aðstæður hefðu leyft, því hann hafði mikinn kraft og keppnisanda ásamt lipurð. Hann var sá fyrsti sem kenndi mér nýjustu tískudansa áður en hann fór suður, svo líklega hefði orðið erfiðast fyrir hann að ákveða hvaða íþróttir hann ætti að stunda ef til þess hefði komið því hann var jafnvígur á svo margt. Mér er efst í huga þakklæti fyrir samfylgdina við hann og vináttuna og hve oft hann hjálpaði mér við að keyra mig þegar ég var ung stúlka í foreldrahúsum og bjó í sama húsi og Valdi. Hann var þá heimilisfaðir með konu og fjögur börn og mikla vinnu, en var alltaf boðinn og búinn til að lið- sinna okkur systrunum og pabba og mömmu sem ekki áttu neinn bíl. Greiðvikni Valda var einstök og alltaf gat hann brugðið fyrir sig glettni og gamanmáli. Hann var afar geðgóður og áhyggjur sínar bar hann aldrei á borð fyrir aðra. Honum var ofarlega í huga hvernig hann gæti hjálpað öðrum og var ævinlega sá sem veitti, honum virtist vera það svo eiginlegt að hugsa fyrst um alla aðra áður en honum datt í hug að hugsa um eigin þarfir. Enginn gæti hafa stundað veika eiginkonuna sína betur en hann gerði nú síðustu árin eftir að Rósa fór á Sunnuhlíð. Hann heimsótti hana tvisvar á dag og tók hana heim um hverja helgi og stundum oftar. Valdi var traustur vinur og allt sem hann sagði stóð eins og stafur á bók. Hann var fær við bakstur og matar- gerð og færði mér stundum kleinur sem hann hafði bakað og voru af bestu gerð. Á haustin fór hann til berja og var afar gjafmildur á saft og sultu sem hann vann sjálfur og fisk- bollurnar hans voru annálaðar fyrir gæði. En honum lét líka vel að beita smíðatólum og litlu sveitabæirnir hans hafa farið víða, bæði hérlendis og erlendis. Nýlega ræddum við um hvernig hann ætlaði að bæta aðstöðu sína við smíðavinnuna og flytja hana úr kjallaranum í eitt herbergi á íbúð- arhæðinni. Mennirnir áætla en guð ræður. Elsku Valdi, þakka þér fyrir allt og guð fylgi þér. Við Jón vottum börnum, tengda- börnum, barnabörnum og barna- barnabörnum okkar dýpstu samúð. Matthildur Guðmundsdóttir. Þegar frændi minn Brynjar Valdi- marsson heimsótti mig 6. júlí sl. til að tilkynna mér lát föður síns þá um nóttina, þyrmdi yfir mig. Við Valdi- mar frændi höfðum talað saman fyrir nokkrum dögum, auk þess sem ég hafði verið í fjölmennu 75 ára afmæli hans og Möggu systir hans 9. júní sl. En systir hans hafði þá komið frá Bandaríkjunum til að sitja þessa hátíð með ættmennum sínum. Hann hafði þá ekki kennt sér neins meins. Þessi náni frændi minn og kæri vinur, hafði allt frá æskudögum mínum verið mér afar kær og það svo að vart leið sú vika, er ég var á landinu, að við rædd- umst ekki við í síma. Hann var sann- arlega nánasti tengiliðurinn við mína heimabyggð, er var honum afar kær. Auk þess sem honum þótti mjög vænt um fósturforeldra sína, Pálínu systur mína og mann hennar Guðmund Rósa Bjarnason. Valdimar frændi missti föður sinn í sjóslysi 6. mars 1926, þ.e. rúmum 3 mánuðum áður en hann fæddist, með vélbátnum Eir IS 400. En faðir Valdimars frænda var vél- stjóri á þessum 28 smálesta útilegu- báti í eigu Jóhanns Þorsteinssonar á Ísafirði. Móður sína missti hann úr berklum 7 árum síðar eða 17. apríl 1933, þá 28 ára, en þá hafði hún alið sambýlismanni sínum dóttur, Sigríði Aðalsteinsdóttur, f. 17. jan. 1930. En móðurbræður hans Magnús og Brynjólfur fórust með fimm öðrum félögum sínum frá Aðalvík með vél- bátnum Leifi frá Ísafirði 15. des. 1924. Það var því ekki bjart yfir heima- byggð okkar á fyrstu æskuárum Valda frænda, því sjóslysin urðu á þessum árum fleiri og stærri en hér verður getið. En lífið verður eðlilega að hafa sinn gang og frændi minn varð snemma stór og frískur drengur er snemma varð liðtækur við hvers- konar störf. Vissulega kom það sér vel í þessari fámennu útnesjabyggð. Ég var 13 árum eldri en þessi ágæti frændi minn og ég yfirgaf foreldra mína og flutti til Reykjavíkur 1935 og var það aðallega Valdi frændi er tók að sér með aðstoð Guðmundar Rósa mágs míns og Dadda fóstursonar for- eldra minna að hjálpa þeim, því faðir minn gat ekki án þeirra aðstoðar sett bát á flot, en án fisks var ekki hægt að draga fram lífið í þessari byggð, og svo hafði það verið allt frá því að land- ið byggðist. Valdimar var ekki nema 14 ára er hann eignaðist hlut í trillu, sem hann stundaði róðra á frá vori til hausts, en 1944 tók hann hið minna vélstjórapróf á Ísafirði. Það var svo 1946 að hann flutti til okkar í Reykja- vík. 1949 fór hann með móðurafa sín- um Friðrik og Dadda til Aðalvíkur og réru þeir þar allt það sumar. Faðir minn Friðrik var þá 72 ára og hafði róið frá þessari fornu veiðistöð í 50 ár. Framan af var frændi minn bifreiða- stjóri og fisksali og síðan starfsmaður Kópavogsbæjar, lengst af við íþrótta- mannvirki bæjarins. Fljótlega eftir að Valdi frændi kom suður kynnist hann myndarlegri stúlku, Rósu Sigur- björgu Sigurjónsdóttir, og gengu þau í hjónaband 15. nóv. 1947. Þau eign- uðust 6 börn, 4 drengi og 2 stúlkur og hafa þau öll gengið menntaveginn. 1968 veiktist Rósa og hefur hún síðan verið bundin við hjólastól og hefur Valdimar orðið að annast hana nú í 33 ár og verður vart með orðum lýst sú einstaka umhyggja er hann hefur sýnt konu sinni öll þessi veikindaár. Um leið og ég sendi Rósu og börnum hennar innilegar samúðarkveðjur vil ég þakka þessum kæra frænda mín- um það fordæmi er hann hefur sýnt okkur öllum. Gunnar Friðriksson. Þeim fer nú óðum fækkandi hinum raunverulegu Aðalvíkingum sem fæddust þar og ólust upp. Byggðin fór í eyði 1952 og hefur verið nytjuð síðan af Bandaríkjaher, sumarbúðafólki og sumarferðafólki. Þórleifur Bjarnason segir svo í Hornstrendingabók: Harðir og mis- kunnarlausir vetur með langvinnum hríðarbyljum, snjóalögum, hamförum hafs og ofríki hafíssins gerðu Horn- strendinga þögla og innibyrgða, seina til að blanda geði við guma. Þeir urðu stórbrotnir í skapi og háttum, lausir við kveifarskap, ef þeir ekki brotnuðu undan álögum umhverfisins og urðu brákaður reyr, blaktandi strá í gjörn- ingaveðrum grályndrar náttúru. En fæstum fór svo. Vini mínum, frænda og æsku- félaga, Valdimar Kristni Valdimars- syni, fór ekki svo. Hann stóð af sér all- ar hryðjur mannlífsins með sóma, skilur eftir mikið og sjáanlegt dags- verk og ævistarf. Við Valdimar áttum fjölmargar sameiginlegar minningar frá æsku- slóðum. Á unglingsárum stunduðum við sjómennsku, bjargsig og fjöl- margt fleira sem í dag yrði talið til mannrauna. Það kemur að lokaferð- inni hjá öllum. Við sem komin erum í hornið, yljum okkur við minningar frá liðnum tíma. Eiginkonu, börnum og öðrum að- standendum votta ég samúð mína og virðingu. Kjartan T. Ólafsson. Að láta hugann reika og kalla fram myndir um Valda „gamla“, eins og við kölluðum hann, er manni ljúft og yfir mann færist ró og líka bros. Áður en hann varð tengdafaðir systur minnar þekkti ég hann á Vall- argerðisvellinum í Kópavogi. Þar var hann drifkrafturinn að því að kvenna- knattspyrna yrði stunduð á Íslandi og að „stórveldið“ Breiðablik í kvenna- knattspyrnu festi rætur. Á alla leiki mætti Valdi með niðurskornar app- elsínur og vatn til að gefa okkur stelp- unum í hálfleik, ásamt því að hvetja okkur til dáða hverja og eina og engin þar undanskilin. En fyrir utan það að sinna daglegri vinnu, elda mat, prjóna, baka, keyra, setja niður kartöflur, smíða húsgögn, taka slátur, passa barnabörnin og svara alltaf kalli um að hjálpa öðrum var hann lítillátur að þiggja sjálfur. Hann var nefnilega alltaf að gefa öðr- um af þeim tíma og líka efnum, sem hann hafði kannski minna af en aðrir. Ég kveð þennan mikla heiðurs- mann, þakka fyrir mig og mína og er fullviss um að hann situr í heiðurs- stúku hjá Guði. Þórunn Brynja. Fráfall Valdimars Kr. Valdimars- sonar síðastliðinn föstudag kom okk- ur öllum á óvart. Valdi var nefnilega ódauðlegur hluti af okkur. Hann tók okkur að sér á Vallargerðisvellinum seint á sjöunda áratugnum og hann hefur fylgt okkur æ síðan. Hann átti í okkur flestum hvert einasta bein. Fyrir okkur leikmenn meistaraflokks kvenna í knattspyrnu hjá Breiðabliki var Valdi lærifaðir og verndari. Það var honum að þakka að við fengum leyfi til fótboltaæfinga á Vallargerð- isvelli og ef einhverjir af strákunum ætluðu að stugga okkur af vellinum með þeim rökum að fótbolti væri ekki fyrir stelpur gátum við reitt okkur á að Valdi myndi verja okkar stað og okkar tíma. Valdi var vallarstjóri á Vallargerðisvelli og algjörlega óað- skiljanlegur hluti af honum. Síðar þegar knattspyrnuiðkun fór yfir á grasvellina í Smárahvammi og á Kópavogsvöll var Valdi þar líka. Hann átti enda hagsmuna að gæta. Öll börn hans bjuggu yfir góðum hæfileikum til knattspyrnuiðkunar, strákarnir voru allir liðsmenn Breiða- bliks og stelpurnar áttu í huga Valda ekki annað skilið en að fá tækifæri á fótboltavellinum. Dæturnar, Kristín og Rósa, urðu báðar frumkvöðlar að stofnun kvennaflokks Breiðabliks og voru báðar í liðinu árið 1976 þegar fyrsti Íslandsmeistaratitill Breiða- bliks kom í hús. Við stelpurnar sem vorum með þeim systrum í liði á þess- um tíma sem og þær okkar sem síðar léku með liðinu fengum að njóta stuðnings og ráðgjafar Valda innan vallar sem utan. Fyrir það er okkur efst í huga þakklæti til hans og ekki síður fyrir allar þær appelsínur sem hann af gjafmildi og umhyggju skar niður og gaf okkur í leikhléi svo að við fengjum auka orku fyrir síðari hálf- leikinn. Appelsínurnar hans Valda voru okkar fæðubótarefni og algjör- lega ómissandi. Utan vallar var Valdi einnig ávallt reiðubúinn til aðstoðar og þeir voru ófáir boltarnir sem hann lagaði og bætti. Valdi mætti á alla leiki, oft ók hann bíl sínum inn fyrir vallargirðinguna svo Rósa, eiginkona hans, gæti einnig notið leiksins. Ef Valdi var ekki ánægður með frammi- stöðu okkar hikaði hann ekki að kalla inn á völl eða koma á máli við okkur eftir leik og segja okkur hvað betur mætti fara. Góður maður er genginn og á kveðjustund hugsum við með hjart- ans virðingu og þakklæti til Valdi- mars Kr. Valdimarssonar, Valda gamla. Við vitum að þó að hann sé far- inn frá okkur mun hann fylgjast með leik okkar um ókomna tíð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (Vald. Briem.) Við vottum fjölskyldu hans og öðr- um ástvinum samúð okkar. Kveðja, leikmenn meistaraflokks kvenna í Breiðabliki. Með Valdimar Kr. Valdimarssyni er fallinn einn af mestu velunnurum íslenskrar kvennaknattspyrnu. Saga hennar er samofin sögu Breiðabliks í Kópavogi, þar sem Valdi var áhrifa- valdur, stoð og stytta. Valdi átti upp- runa sinn norður í Aðalvík, en kom ungur suður. Líf hans varð aldrei dans á rósum, en Valdi var alinn upp við að bjarga sér. Ekki veitti af þegar hann stóð einn með langveika eigin- konu og fullt hús af börnum. Valdi var fyrirvinna, smíðaði, eldaði og bakaði, þreif, þvoði og saumaði. Ekkert var honum ómögulegt og þannig nálgað- ist hann alla hluti. Hann kom líka hreint fram, sagði meiningu sína og barðist fyrir því sem hjartað og sann- færingin sögðu honum að berjast fyr- ir. Hann var hreinn og beinn, iðinn og duglegur, en leit aldrei á lífið sem vin- sældakosningu. Börnum sínum kom hann til manns, þau bera Valda ljúft vitni um lífstrú og dugnað. Þegar kvennaknattspyrnan var að hefjast í Kópavogi var Valdi í grennd. Hann þurfti víða að vera og mörgu að sinna, eitt af því var vallarstjórn í Vallargerði. Krakkarnir héldu að Valdi ætti völlinn. Hann átti líka alltaf bolta sem hægt var að fá að láni. Raunar var nóg að komast yfir ónýt- an bolta, Valdi gerði þá við hann. Hann saumaði líka net í mörkin og gerði við allt sem þurfti. Vallargerði var félagsmiðstöð þessa tíma og Valdi átti drjúgan þátt í heilbrigðu uppeld- isstarfi í bænum. Þegar keppnislið Breiðabliks í kvennaknattspyrnu var orðið til var Valdi allt í öllu. Hann sá um bún- ingana, þvoði og braut, lagaði og hélt til haga. Hann sá um vatn handa þyrstum leikmönnum og vörumerki hans var appelsínur í hálfleik. Með þeim kom nýr kraftur og hugur í leik- inn. Stelpurnar í Breiðabliki voru stelpurnar hans Valda. Hann átti þær allar og tvær voru í alvörunni dætur hans, Kristín og Rósa. Rósa eldri var alltaf með, í bílnum og fylgdist með. Valdi sá um að hún gæti séð leikina úr bílnum sem ekki er einfalt mál á öll- um völlum. Kvennaknattspyrnunni óx fiskur um hrygg, landslið varð til. Það var við hæfi að Rósa Valdimarsdóttir varð fyrsti fyrirliðinn. Valdi tók áfram virkan þátt og barðist fyrir hagsmun- um kvenna í fótbolta, eins og því að fá að keppa í takkaskóm. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Valdi hélt áfram að fylgjast með stelpunum sín- um, líka eftir að dætur hans voru hættar. Síðast í fyrra kom hann með appelsínur í hálfleik. Nú verður ekki lengur kaffi og jóla- kaka hjá Valda, og búið spil að hægt verði að baka þannig jólaköku. Þrátt fyrir nákvæma slatta af þessu og hinu varð kakan aldrei eins og í eldhúsinu á 36. Nú glittir ekki lengur í Valda í eldhúsglugganum, ekki oftar spjall við hann á Álfhólsveginum, eða labba með honum spotta. Við söknum vinar. Rósu eldri, börnum og öllum ástvin- um vottum við dýpstu samúð. Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Samúel Örn Erlingsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.