Morgunblaðið - 25.07.2001, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 25.07.2001, Blaðsíða 20
ERLENT 20 MIÐVIKUDAGUR 25. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ MEGAWATI Sukarnoputri, sem tók við embætti forseta Indónesíu á mánudag, þykir að mörgu leyti óskrifað blað. Pólitísk stefna henn- ar er óljós, hún flytur sjaldan ávörp og veitir ógjarnan viðtöl. Sumir segja það til marks um slægð hennar að sveipa sig slíkum óvissublæ, en aðrir segja það benda til þess að hún hafi fátt markvert að segja. Andstæðingar Megawati hafa látið að því liggja að hún muni ekki valda forsetaembættinu, en stuðn- ingsmenn hennar vísa því á bug og segja hana ákveðna, framtaks- sama, eiga gott með að vinna með öðrum og þiggja ráðleggingar. Megawati nýtur alltént mikilla vinsælda meðal landsmanna, eink- um borgarbúa, fátækra og náms- manna. Vinsældirnar má að vissu leyti rekja til þess að hún er dóttir Sukarnos, sem leiddi sjálfstæðis- baráttu Indónesa gegn nýlendu- herrunum Hollendingum og varð fyrsti forseti landsins. Arfleifð Sukarnos Megawati mun á næstunni flytja aftur inn í forsetahöllina þar sem hún ólst upp. Hún fæddist árið 1947, en tveimur árum áður hafði faðir hennar lýst yfir sjálfstæði landsins. Hollendingar viður- kenndu sjálfstæði Indónesíu árið 1949 og Sukarno tók þá formlega við forsetaembætti. Þrátt fyrir að Sukarno sé álitinn þjóðhetja var stjórnartíð hans að mörgu leyti mörkuð spillingu og óeiningu. Hann lifði lúxuslífi í for- setahöllinni í höfuðborginni Jak- arta og var umkringdur fjölda spilltra embættismanna. Sukarno tókst ekki að mynda samstæða heild úr einingum hins víðlenda ríkis, og reglu og stjórnsýslu var ábótavant. Síðla árs 1956 lagði hann þingræði af í landinu, réðst til atlögu gegn einkaframtaki og tók upp áætlanabúskap. Á næstu árum brutust út upp- reisnir í ýmsum héruðum Indó- nesíu, meðal annars á Súmötru og Sulawesi, verðbólga jókst úr öllu valdi og samskipti landsins við Bandaríkin versnuðu til muna. Ár- ið 1965 sagði Indónesía sig úr Sam- einuðu þjóðunum vegna stuðnings þeirra við málstað Malasíu, sem Sukarno hafði heitið að „tortíma“. Í september það ár gerði hópur kommúnista og herforingja sam- særi um að ræna og myrða sex af sjö æðstu yfirmönnum hersins og grunur lék á að Sukarno væri við- riðinn málið. Herforinginn Su- harto, yfirmaður herliðsins í Jak- arta, brást til varnar og valdabarátta hófst milli hans og Sukarnos. Forsetinn neyddist í mars 1966 til að láta mikil völd í hendur Suhartos, sem tók svo formlega við forsetaembætti tveimur árum síðar. Sukarno lést í stofufangelsi árið 1970, 69 ára að aldri og bugaður maður. Engu að síður voru að minnsta kosti 500 þúsund manns viðstödd útför hans og hann naut áfram mikillar virð- ingar meðal þjóðarinnar. Þess má geta að í Asíu er al- gengt að ekkjur eða dætur áhrifa- mikilla stjórnmálamanna feti í fót- spor þeirra. Auk Megawati má meðal annars nefna Indiru Ghandi, forsætisráðherra Indlands og dótt- ur Jawaharlal Nehru, fyrsta for- sætisráðherra landsins, Corazon Aquino, fyrrverandi forseta Fil- ippseyja og ekkju stjórnarand- stöðuleiðtogans Benigno Aquino, Benazir Bhutto, fyrrverandi for- sætisráðherra Pakistans og dóttur Zulfikar Ali Bhutto, fyrrverandi leiðtoga landsins, Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Burma og dóttur herforingjans Aung San. Ris Megawati til áhrifa Megawati er þrígift og þriggja barna móðir. Hún lagði stund á sál- fræði og landbúnaðarvísindi í há- skóla, en lauk ekki prófi. Hún var kosin á þing árið 1987 og komst í sviðsljósið 1993, þegar hún var kjörin formaður Indónes- íska lýðræðisflokksins (PDI). Stjórn Suhartos, sem var þá enn við völd, reyndi að koma í veg fyrir að Megawati kæmist til áhrifa og réðst árið 1996 inn í höfuðstöðvar flokksins. Megawati var bolað úr leiðtogastöðunni, en tveimur árum síðar, þegar Suharto hafði sagt af sér, stofnaði hún ásamt stuðnings- mönnum sínum eigin flokk, Indó- nesíska lýðræðisbaráttuflokkinn (PDIP). PDIP vann sigur í kosningunum árið 1999 en flokkar múslíma komu í veg fyrir að Megawati hreppti forsetaembættið vegna kynferðis hennar. Þingið kaus þess í stað Abdurrahman Wahid, nær blindan og heilsulausan, í forsetaembættið, en Megawati varð varaforseti. Samstarf þeirra var gott í byrjun, en fór fljótlega versnandi, samhliða því sem ásakanir á hendur Wahid um spillingu og vanhæfni urðu há- værari. Megawati nýtur nú víðtæks stuðnings meðal stjórnmálaflokk- anna á indónesíska þinginu og einnig innan hersins, sem hefur ekki síður reynst mikilvægt fyrir leiðtoga landsins. Erfið verkefni framundan Megawati bíða nú erfið verkefni. Eftir áralangan pólitískan óstöðug- leika í Indónesíu er efnahagur landsins í rúst og trúarátök og of- beldisverk aðskilnaðarsinnaðra skæruliða hafa færst í aukana. Þó stefna Megawati sé að mörgu leyti óljós hefur hún allavega tekið einarða afstöðu gegn aðskilnaðar- hreyfingunum og hefur heitið því að standa vörð um einingu lands- ins. Í ræðum sínum hefur hún iðu- lega lagt áherslu á að Indónesía hafi undir forystu föður hennar öðlast sjálfstæði á forsendu eining- ar og að hún muni ekki una því að ríkið sundrist. Megawati Sukarnoputri tók við forsetaembætti í Indónesíu á mánudag Þykir óskrifað blað í stjórnmálum Reuters Megawati Sukarnoputri ræðir við lögregluforingja á fyrsta starfsdegi sínum í forsetahöllinni í gær. Hún hyggst flytja aftur inn í höllina á næstunni. Megawati þrettán ára gömul ásamt föður sín- um, Sukarno. Jakarta. AFP, AP. Nýi forsetinn nýtur vinsælda meðal almennings ÞÝSKUR listaverkasérfræðingur, Rita Wil- degans, telur að hin fræga saga um að Vin- cent Van Gogh hafi skorið af sér vinstra eyr- að í brjálæðiskasti sé röng. Wildegans segir að þessi saga sé frá málaranum Paul Gauguin komin og að það sé ýmislegt í henni sem ekki standist nánari skoðun. Vorið 1888 flutti Van Gogh til suðurfrönsku borgarinnar Arles og vildi stofna þar sam- félag listamanna. Sú hugmynd fékk hins veg- ar ekki góðan hljómgrunn og var Gauguin sá eini sem kom með honum. Þegar líða tók á veturinn versnaði samband þeirra félaga til muna og á aðfangadagsmorgun var lögreglan kölluð á heimili Van Goghs þar sem hún fann hann liggjandi í blóði sínu, einu eyra fátæk- ari. Hann mundi ekki hvað kom fyrir þá um nóttina en Gauguin sagði lögreglumönnum að Van Gogh hefði skorið af sjálfum sér eyrað. Hvað varð um sverðið? Wildegans segir ýmislegt athugavert við lýsingu Gauguins á atburðinum, til dæmis lýsi hann atburðum sem hann geti ómögulega hafa orðið vitni að. Hann tali líka um Victor Hugo-torgið í Arles sem ekki er til. Wildegans segir það líka athyglisvert í hve miklum flýti Gauguin yfirgaf Arles eftir slysið, hann gaf sér ekki einu sinni tíma til að pakka niður heldur lét senda pjönkurnar til Parísar. Þeg- ar hann skrifaði frá París til að fá þær sendar til sín tók hann fram að hann vildi fá skylm- ingagrímu og skylmingahanska sem hann átti, en ekki sverðið. Telur Wildegans að Gauguin hafi skorið eyrað af Van Gogh með sverðinu þegar þeir hafi báðir verið drukknir og reið- ir. Hann hafi svo tekið sverðið með sér til Parísar eða fleygt því. Wildegans segir þetta þó aðeins eina tilgátu af mörgum. „Ég get að sjálfsögðu ekki haldið því fram að þetta sér hundrað prósent rétt hjá mér, það getur enginn sagnfræðingur gert.“ Breskur listasögusérfræðingur að nafni David Sweetman er efins um sannleiksgildi kenningar Wildegans. „Þetta er mögulegt en ekki líklegt,“ segir Sweetman. Sjálfsmynd eftir Van Gogh sem gerð er eftir að hann missti eyrað. Skar Gauguin eyrað af Van Gogh? London. AFP. EINN AF æðstu embættismönnum Moskvuborgar, Leoníd Oblonskí, var skotinn til bana við heimili sitt í gær. Júrí Lúzhkov borgarstjóri sagði að talið væri að fjárkúgarar hefðu myrt embættismanninn til að hefna ákvarðana sem hann hefði tekið. Oblonskí fór m.a. með viðskipti borgarinnar við heildsala og veit- ingamenn og borgarstjórinn lagði áherslu á að hann væri ekki grun- aður um spillingu. Leigumorðingjar myrða nokkur hundruð manna, þeirra á meðal op- inbera embættismenn, á ári hverju í Moskvu og Sankti Pétursborg. Flest fórnarlambanna tengjast viðskipt- um. Moskva Embætt- ismaður myrtur Moskvu. AFP.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.