Morgunblaðið - 25.07.2001, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 25.07.2001, Blaðsíða 33
það sár mun gróa en alltaf skilja eftir ör. Ég þakka fyrir að hafa átt þig að í 17 ár. Vertu sæll, elsku afi minn. Þín dúfa, Fjóla Ósk Aðalsteinsdóttir. Jóhannes B. Magnússon er látinn. Hann var kirkjuvörður við Dóm- kirkjuna árin 1970–1977. Hann hafði því unnið þar um eins árs skeið er ég kom þangað til starfa í ágústlok 1971. Með okkur tókst hið bezta samstarf, sem aldrei féll skuggi á. Ég hafði við- talsaðstöðu í skrúðhúsi kirkjunnar og hlaut því að hafa mikið saman við hann að sælda. Ég var þá ókunnugur þeim venjum og hefðum, sem ríktu við hinar ýmsu kirkjulegu athafnir hér í bænum, og ekki sízt í Dómkirkj- unni. Jóhannes var óþreytandi að svara spurningum mínum og átti þannig drjúgan hlut í uppeldi mínu, hvað þetta snertir. Það var einstak- lega notalegt að hafa Jóhannes ná- lægt sér við kirkjulegar athafnir. Hann var einlæglega trúaður mað- ur og bar mikla virðingu fyrir kirkju- legu starfi, var þar hinn auðmjúki þjónn, sem lagði sig allan fram. Hann las meðhjálparabænina ágætlega og kom vel fram við allar athafnir. Jó- hannes var í senn prúðmenni og snyrtimenni, glaðsinna og ljúfur í lund, en gat þó verið fastur fyrir. Hann lagði sig fram um að taka vel á móti öllum, sem í kirkjuna komu, átti auðvelt með að halda aga á ferming- arbörnunum meðan þau biðu eftir prestinum og þannig mætti lengi telja. Ég er orðinn einn eftir þeirra, sem störfuðu með Jóhannesi í Dómkirkj- unni. Ég tjái hér fyrir mína hönd og sóknarnefndar kirkjunnar einlæga þökk fyrir trúa og dygga þjónustu. Jóhannesar var saknað, þegar hann hætti störfum, og það voru hlýjar óskir, sem fylgdu honum, þegar hann flutti sig yfir til Alþingis, þar sem ég veit hann sýndi sömu mannkosti. Honum fylgja ekki síður hlýjar kenndir í dag, þegar hann verður kvaddur hinztu kveðju í Dómkirkj- unni af sínum gamla sóknarpresti, sem hann vann með, áður en hann kom til þjónustu í Dómkirkjunni. Guð blessi hinn dygga þjón, en ekki síður þau, sem á eftir horfa, eigin- konu hans, börnin og fjölskyldur þeirra. Þórir Stephensen. Við lát góðs vinar og nágranna koma margar minningar upp í hug- ann. Mér eru minnisstæð okkar fyrstu kynni 15. nóvember 1945. Þá hafði ég ung ráðið mig í vinnu hjá KRON og kveið mikið fyrir að byrja. Á móti mér tók verslunarstjórinn, vingjarnlegur maður, og bauð mig velkomna. Hann setti mig inn í vinn- una, leiðbeindi mér og hjálpaði af stakri þolinmæði og ljúfmennsku. Það sem mér þótti vænst um var að ég fann strax að hann treysti mér. Það var ekkert grín að stjórna matvöruverslun á þessum tíma vöru- skorts, hafta og skömmtunar. Versl- anir höfðu sína föstu viðskiptavini, sem þeim bar skylda til að sjá um að fengju sinn skammt af því sem þurfti að miðla þegar lítið fékkst. Ég er hrædd um að húsmæðrum alls- nægtaþjóðfélagsins í dag þætti skrít- ið að fara eldsnemma á fætur á morgnana til að rölta á milli búða í von um að ná í eitthvað sem skortur var á en hafa kannski þegar upp var staðið eitt kíló af eplum, eina dós af ávöxtum eða bara eina dós af skó- áburði svo ég taki dæmi. Oftast fengu allir sinn skammt. Það kom þó fyrir að einhver varð útundan og kom út í búð öskureið og hakkaði verslunar- stjórann í sig. Öllu tók hann með stakri ró og sagði aldrei styggðaryrði til nokkurs manns. Málinu var bjarg- að með því að passa að viðkomandi fengi sinn skammt næst. Það brást ekki. Við unnum ekki saman nema í tæpt ár. Þarna var lagður grunnur að vináttu við þau ágætu hjón, sem haldist hefur til dagsins í dag og ég vil þakka að leiðarlokum. Ég sendi Fjólu og afkomendum þeirra öllum innilegar samúðar- kveðjur. Guðbjörg Hjálmsdóttir. MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. JÚLÍ 2001 33 ✝ Ingólfur Péturs-son fæddist í Áreyjum í Reyðar- firði 6. ágúst 1924. Hann lést á öldrunar- deild Landakotsspít- ala 16. júlí síðastlið- inn. Foreldrar hans voru Pétur Wilhelm Jóhannsson, bóndi í Áreyjum, f. 3. nóv- ember 1893, d. 25. febrúar 1986, og Sól- ey Sölvadóttir, f. 30. apríl 1899, d. 10. des- ember 1928. Systkini hans eru Jóhann, f. 28. apríl 1920, maki Kristrún Helgadóttir, f. 14. september 1923, Jónína Margrét, f. 15. mars 1922, Sólveig Alda, f. 14. desemb- er 1925, maki Kristján Geir Kjart- ansson, f. 7. júní 1920, d. 31. mars 1993, Kristrún Jóhanna, f. 22. mars 1927, maki Ingi Hjörleifs- son, f. 11. september 1927, og Ragnar, f. 20. júlí 1928, d. 13. nóv- ember 1983, maki Jóna Ingimund- ardóttir, f. 15.september 1930. Fyrri kona Ingólfs var Arnfríður Jóhanna Guðmundsdóttir, f. 29. apríl 1927, þau slitu samvistir. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Örn, framkvæmdastjóri, f. 3. janúar 1948, maki Hulda Óskars- dóttir, f. 7. febrúar 1931. Sonur hans af fyrra hjónabandi er Ing- ólfur Arnar, f. 15. febrúar 1978. 2) Sóley, leikskólasérkennari, f. 21. júlí 1949, maki Pétur K. Maack, f. 1. janúar 1946. Dætur þeirra eru Valgerður, f. 12. júní 1973, maki Haukur Jónson, f. 16. október 1972, barn þeirra er Sóley Frið- rika, f. 3. janúar 2000, Andrea, f. 26. júlí 1977, og Heiðrún, f. 27. apríl 1982. 3) Anna Auður, fjármála- stjóri, f. 14. mars 1955, maki Kirk Hancherow, f. 15. október 1954. Synir þeirra eru Stefán Orri, f. 12. nóvem- ber 1984, og Jóel Reynir, f. 26. febrú- ar 1990. 4) Auður Anna hótelstjóri, f. 14. mars 1955, dóttir hennar er Bryndís Fiona Ford, f. 25. desember 1978. Ing- ólfur kvæntist 17. desember 1967, Stefaníu Gísla- dóttur, f. 14. ágúst 1940. Dóttir þeirra er Hrefna Berglind, líf- fræðingur, f. 12. júní 1969. Börn hennar eru Tómas Víkingsson, f. 4. júlí 1993, og Stefanía Arna Vík- ingsdóttir, f. 9. apríl 2000. Ingólfur flutti ásamt foreldrum sínum að Hrúteyri í Reyðarfirði þegar hann var á þriðja ári og bjó þar þar til móðir hans lést. Eftir lát móður hans fór hann í fóstur til Stefaníu Guðmundsdóttur og sona hennar Guðmundar og Páls, að Sléttu á Reyðarfirði. Árið 1941 tók hann gagnfræðapróf í Lauga- skóla í Reykjadal. Fluttist síðar til Akureyrar og starfaði þar sem veitingamaður. Hann starfaði sem hótelstjóri á Hótel Borgar- nesi í 9 ár, á Hótel City í 7 ár og á Flúðum í 6 ár. Árið 1974 hóf hann störf hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, síðar Ferðaskrifstofa Íslands, sem forstöðumaður Eddu hótelanna og ráðgjafi þeirra til ársins 1991. Útför Ingólfs fer fram frá Foss- vogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Elsku besti pabbi, nú er dagur að kveldi kominn og komið að kveðju- stund. Minningarnar hrannast upp, það er jú svo margs að minnast við leiki og störf. Pabbi var allt í senn; frumkvöðull, mótandi eldhugi, hlýlegur jafnt sem hógvær, góður og varfærinn í sam- skiptum við fólk. Hann var vakinn og sofinn í sínu starfi, þjónaði gestum, alltaf tilbúinn að aðstoða og ráðleggja öllum sem til hans leituðu. Ég var svo lánsöm að starfa með pabba við hótelstörfin, honum lét vel að kenna mér og ég var námsfús nem- andi. Aldrei minnist ég þess að hann hafi yfirleitt þurft að hækka róminn, allt vannst með hógværðinni. Honum gafst einna best að hlusta og leysa málin þannig að allir gætu vel við un- að og enginn orðið minni á eftir. Að leiðarlokum gaumgæfum við gjarnan og lítum yfir farinn veg, til að meta það sem að baki er. Ég mun alltaf minnast þess góða veganestis sem hann gaf mér með- vitað sem ómeðvitað, nestis sem ég tek upp úr pússi mínu og maula af á degi hverjum sem guð gefur. Það er leyfilegt að gera mistök en skilyrði að læra af þeim. Mundu að hlusta, þú getur ekki þjónað gestum né séð um starfs- mannahald nema að þú hlustir vel. Fagnaðu gestunum við komu og gleymdu því aldrei að gestirnir skapa vinnu fyrir þig og starfsfólkið. Hugs- aðu vel um starfsfólkið, við erum öll mannleg. Pabba tókst svo einkar vel að fylla alla kappi um að gera sem best og skapa gott og spennandi starfsum- hverfi. Fagna verkefnum og takast á við þau af heilum hug. Allt hefur sinn vitjunartíma, það vitum við, samt er það engu að síður svo sárt að njóta ekki návistar pabba lengur, hverju sem tautar og raular. Kannski verður fjársjóður minn- inganna að einhverju leyti til bjargar, en vel má hann reynast svo að gagni verði. Auður Anna. Þegar mér barst fréttin af andláti Ingólfs Péturssonar móðurbróður míns vorum við fjölskyldan í sumar- fríi á Vesturlandi og einkennileg til- viljun hagaði því svo að leiðin lá um ýmsa þá staði sem tengdust gömlum minningum um hann. Ingólfur hafði legið mikið veikur en þó kom kveðju- stundin á óvart og hafði djúp áhrif á mig enda má segja að kynni okkar hafi hafist fyrir hálfri öld. Það er í raun einkennilegt hvernig minningar geta sprottið upp og tekið af manni völdin – löngu liðnir atburðir verða ljóslifandi og skýrir. Fyrsti vinnuveit- andi minn var einmitt Ingólfur sem setti átta ára gamlan frænda sinn í „embætti“ sem sendisvein á City-hót- elinu í Reykjavík. Það traust sem hann sýndi mér þá þegar var verðugt veganesti á lífsins braut og á ferð minni nú í liðinni viku um Borgarnes, Sælingsdal og víðar skjóta ýmsar myndir upp kollinum um starfsferil Ingólfs sem hótelstjóri og forstöðu- maður Edduhótelanna um árabil. Hann var á margan hátt frumkvöðull í störfum sínum; hann var eldhugi og fylginn sér í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Starfsgleði hans smitaði út frá sér og ýmsir fjölskyldumeðlim- ir fetuðu síðar í fótspor hans á vett- vangi ferðamála. Fleiri myndir skjóta upp kollinum. Á friðsælum degi við laxveiði á Mýrunum dvelur hugurinn við minningar frá sömu slóðum þegar hann og faðir minn fóru þangað sam- an í veiðiferð með okkur krakkana. Í þeirri ferð kom í ljós grundvallarmis- skilningur undirritaðs á vissum und- irstöðuatriðum veiðimennskunnar frænda hans til mikillar kátínu, og einatt síðar rifjaði Ingólfur þessa ferð upp á sinn kankvísa hátt. Síðast fór- um við frændur saman til veiða fyrir um áratug á Ströndunum ásamt fleiri skyldmennum. Og að sjálfsögðu voru það Ingólfur og Stefanía kona hans sem voru gestgjafar. Þar kom ein- stakur persónuleiki Ingólfs enn í ljós – hann var „vertinn“ sem naut þess að láta öllum í kringum sig líða vel. Ing- ólfur var mikið ljúfmenni og vinur í raun, þess hef ég, og öll fjölskylda mín, oft orðið aðnjótandi og að leið- arlokum vil ég þakka fyrir dýrmætar minningar og gjöful kynni. Veröldin væri betri ef fleiri sýndu þá ósérhlífni og einlægan áhuga á velferð annarra sem Ingólfur var svo ríkur af. Ég votta Stefaníu og öllum frændsyst- kinum mínum innilega samúð. Minn- ingin um góðan dreng lifir. Hörður Halldórsson. Ingólfur Pétursson var maður hug- sjóna og nýrra hugmynda. Nær allan starfsaldur sinn fékkst hann við þjón- ustustörf, lengstum við hótel- og veit- ingarekstur og ferðaþjónustu. Ég kynntist honum árið 1960, en þá höfðu stúdentar við Háskóla Íslands ákveðið að taka í eigin hendur rekst- ur Hótels Garðs, sumarhótels, sem rekið var í stúdentagörðunum tveim- ur, sem þá voru. Jafnframt ákváðu stúdentarnir að annast sjálfir rekst- urinn á þessu 90 herbergja hóteli. Við, sem þá undirbjuggum og bárum ábyrgð á þessari starfsemi, vorum svo lánsamir, að Ingólfur varð okkur fákunnugum sérfræðilegur ráðgjafi og samstarfsmaður. Margir okkar eignuðust hann líka að vini og félaga á þessum baráttumánuðum. Ekki er vafi á, að stuðningur hans við okkur háskólastúdentana varð til þess, að verkefnið heppnaðist strax þetta sumar. Hann kenndi okkur marga hluti og var ósínkur að deila með okk- ur af innsýn sinni og reynslu. Vinátta hans og samstarf við hann var mér mikils virði, hvort sem var í leik eða starfi. Á þessum tíma var ferðaþjónusta á Íslandi á bernskuskeiði þeirra þróun- ar til þýðingarmikils atvinnuvegar, sem nú er orðinn. Þá var ferðaskrif- stofurekstur enn ríkisrekinn, hótelþjónusta í Reykjavík mjög tak- mörkuð og ferðaþjónusta öll á lands- byggðinni í þeirri mynd, sem nú er, nánast ekki til. Ingólfur Pétursson var einn af frumherjunum í þeirri þróun, sem nú er orðin. Á þessum ár- um var hann hótelstjóri á City Hótel, litlu en vinsælu hóteli í Reykjavík, en hafði þá áður verið einn af forystu- mönnum í að móta og byggja upp á þjóðbraut Hótel Borgarnes, sem var myndarlegt og stórt á þess tíma mælikvarða. Ingólfur átti ævinlega nýjar hug- myndir og áform í handraðanum. Sumt tókst honum að framkvæma, annað ekki. Það þótti sjálfsagður hlutur um langt tímabil á þessu þró- unar- og vaxtarskeiði að leita til hans um góð ráð við fyrstu spor í veitinga- rekstri eða þegar þurfti að brjóta í blað og ná betri árangri, einkum á landsbyggðinni. Ég minnist í því sambandi frumkvöðulshlutverks Ing- ólfs við að skapa keðju Edduhótel- anna, en einnig að byggja upp á Flúð- um auk fjöldra annarra verkefna. Í öllu þessu starfi var honum mjög hugleikið, að þjónustan við viðskipta- manninn skyldi vera í fyrirrúmi. Ég hitti Ingólf í síðasta sinni á Hót- el Flúðum í október 1999, en þar vor- um við samankomin til að fagna opn- un hótels- og veitingastaðar. Þar var að nást árangur, sem Ingólfur hafði lagt grundvöllinn að löngu áður. Að leiðarlokum innilegar kveðjur og þakkir fyrir störfin og samfylgd- ina. Við gömlu háskólafélagarnir þökk- um honum samvinnuna forðum og vináttuna alla tíð. Innilegar samúðarkveðjur til Stef- aníu Gísladóttur, eiginkonu hans, barna og fjölskyldunnar allrar. Hörður Sigurgestsson. Nú þegar komið er að leiðarlokum langar mig að minnast Ingólfs Pét- urssonar nokkrum orðum. Þegar ég kynntist Ingólfi fyrir 30 árum starfaði hann á Flúðum. Þar hafði hann með hótel- og veitinga- rekstur að gera og gerði fyrstu til- raun með nýtt rekstrarfyrirkomulag „hótelbónuskerfi“. Hér var um hluta- skiptakerfi að ræða sem Ingólfur hafði sjálfur útfært og þróað með góðum árangri. Hann kynnti mér grunnforsendur kerfisins sem átti að tryggja hærri leigu til húseiganda, hærri laun til starfsmanna og betri afkomu til rekstraraðila, byggt á gagnkvæmum skilningi aðila á að skipta með sér áhættu og ágóða. Það má segja að ferill Ingólfs sem veitinga- og hótelmanns hafi verið um margt sérstakur auk þess að spanna um hálfa öld. Hann hófst með starfi þjóns á MS Esju og honum lauk með starfi rekstrarráðgjafa Edduhótela 1993. Ingólfur kom víða að málum ferðaþjónustunnar. Hann var m.a. yf- irþjónn á hótel KEA, hótelstjóri á Hótel Borgarnesi og City hótel. Hann var helsti hugmyndafræðingur fyrsta (og eina) fljótandi hótels á Íslandi, Hótel Víking á Hítarvatni. Hann var maðurinn á bak við hóteluppbygg- ingu á Flúðum og í Kirkjubæjar- klaustri og reyndar fjölda annarra hótela í starfi sínu sem forstöðumað- ur hótel Eddu ’74–’85. Undir hans stjórn var „bónus-kerfið“ tekið upp á Edduhótelunum. Þegar starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins keyptu meirihluta í Ferðaskrifstofu Íslands kusu þeir hann sem stjórnarformann og svo mætti áfram telja. Alla tíð var mikið leitað til Ingólfs með rekstrarvanda hótela og veit- ingastaða um allt land. Ekki er ofsagt að hann hafi verið aðalhótelráðgjafi landsins á þessum árum og ekki minnist ég þess að hafa heyrt um að hann hafi sent nokkrum aðila reikn- ing fyrir sína ráðgjöf. Það er því stór hópur ferðaþjónustuaðila sem er í þakkarskuld við Ingólf fyrir hans leiðsögn og þolinmæði við að deila með öðrum þekkingu sinni og reynslu. Það er alls ekki auðvelt að lýsa Ingólfi svo vel sé, en þó má segja með vissu að hann barst ekki mikið á, hvorki á vinnustað né í einkalífi. Hann var hógvær og frekar feiminn að eðlisfari en ljúfur í allri umgengni. Hann var í reynd hugsjónamaður, fullur af þekkingu, reynslu og getu í sífelldri leit að nýjum og betri lausn- um. Hann var áhugasamur um allt er laut að betri þjónustu við ferðamenn og hlífði sér hvergi þótt oft væri vinnudagurinn langur. Það voru fleiri hliðar á Ingólfi, því hann var glettinn og skemmtilegur vinnufélagi og þægilegur í alla staði. Við áttum því margar ánægjulegar samverustundir á vinnustað og ekki síður á ótal vinnuferðum okkar um landið. Ferðir þessar voru á öllum tímum árs og oft við misjöfn skilyrði en alltaf var „húmorinn“ í fyrirrúmi. Mér er því efst í huga þakklæti fyr- ir þau forréttindi að starfa svo náið með honum um árabil. En Ingólfur var fyrst og fremst fagmaður, örugg- ur, glöggur og markviss í sínum störf- um. Það er því ekki að undra þó að maður fyllist söknuði þegar slíkur maður er kvaddur. Ingólfur var ekki einungis vinnu- félagi minn og ráðgjafi heldur líka vinur minn sem mér þótti mjög vænt um. Við hjónin vottum Stefaníu konu hans, börnum hans og öðrum að- standendum samúð okkar. Kjartan Lárusson. Er mér var tilkynnt um andlát Ing- ólfs Péturssonar vinar míns var ég á ferð milli Eddu hótela. Minningarnar komu upp í hugann, tuttugu ár aftur í tímann þegar hann var forstöðumað- ur Eddu hótelanna og réð okkur hjónin til starfa við hótelrekstur. Mér er efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að verða þeirrar gæfu aðnjót- andi að fá að hafa hann sem kenni- föður og lærimeistara, með sinni prúðu og háttvísu framkomu, hug- myndaauðgi og eldmóði sem smitaði fólk og hreif. Það var gott að vinna fyrir Ingólf því hann gat alltaf gefið sér tíma til að leiðbeina og hvetja. Það var sjálfsagt að koma í frítímanum til að styðja við bakið á byrjendum hvort sem var við bókhald, úrbeiningu eða hvað annað sem aðstoðar þurfti við. Hann kveikti neista í brjósti okkar margra sem lifir enn og við starfs- fólkið hans sem starfað höfum með honum til margra ára köllum hinn sanna „edduanda“ sem er gestrisni og góð þjónusta. Allt var svo sjálf- sagt, hvenær sólarhrings sem var. Margir hafa leitað til Ingólfs og farið ríkari af hans fundi. Mörgum lagði hann lið sem hugðu á hótel- og veit- ingarekstur eða áttu í rekstrarerfið- leikum. Hvort hann fengi greitt fyrir var sjaldnast og algert aukaatriði. Við kveðjum nú einn af merkustu frumkvöðlum í hótel- og veitinga- rekstri sem þjóðin hefur átt en fyrst og fremst mætan og góðan mann. Hafi hann þökk fyrir allt og allt. Kæra Stefanía, börn og tengda- börn, við vottum ykkur innilega sam- úð og biðjum góðan Guð að gefa ykk- ur styrk á sorgarstundu. Hafdís og Jón Stefán. INGÓLFUR PÉTURSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.