Morgunblaðið - 06.09.2001, Side 62
FÓLK Í FRÉTTUM
62 FIMMTUDAGUR 6. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
VIÐ UPPHAF 10. áratugarins ná
demókratar aftur völdum í Hvíta
húsinu en hægri sveifla ríður yfir
Evrópu. Gömlu austantjaldslöndin
vafra ráðvillt og á langmergsognum
brauðfótum, inn í nýfengið frelsi og
gengur misjafnlega að fóta sig í
hörðum heimi auðvalds og frjáls-
hyggju. Átök blossa upp við Persa-
flóa og þjóðir berast á banaspjót í
fyrrum ríkjum Júgóslavíu. Nokkur
uppsveifla er í kvikmyndagerð vest-
an hafs en oft hefur verið líflegra
en á yfirstandandi umbrotatímum í
Evrópu.
Helstu sjáanlegu breytingarnar
sem umskiptin hafa á kvikmynd-
irnar er að nú er hinn dæmigerði
erkifjandi Bandaríkjamanna ekki
lengur sovéskt illþýði, rautt af
kommúnisma, heldur fláráðir og
lymskulegir arabadólgar.
Áfram, Ísland!
Íslenska „kvikmyndavorið“, er
orðið klisja. Framleiðslan er komin
til að vera, búin að mynda sér
ákveðinn farveg í þjóðlífinu. Út-
lenskt fé fyrir löngu nauðsynlegt til
að koma myndum á koppinn. Sá tí-
undi hefst með hvað mestri sigurför
íslenskrar kvikmyndar um heiminn,
sem er Börn náttúrunnar eftir Frið-
rik Þór. Efnið er alþjóðlegt, líkt og
persónurnar, sem eru dásamlega
leiknar af Sigríði Hagalín og Gísla
Halldórssyni. Börnin njóta hylli um
allan heim og fá verðlaun, meira að
segja Óskarstilnefningu, fyrst ís-
lenskra mynda.
Velgengni Barna náttúrunnar,
heima og erlendis, kemur á réttum
tíma, í mikilli ládeyðu, hún er eina
myndin sem frumsýnd er ’91. ’92
verður hinsvegar metár með 6
frumsýndar myndir og er gott
dæmi um þann algjöra skort á eðli-
legri markaðssetningu sem enn
plagar hérlenda kvikmyndagerð.
Myndunum reiðir líka misjafnlega
af. Ásdís Thoroddsen sýnir Inguló,
átakalitla lýsingu á lífi í sjávarþorpi
á Vestfjörðum. Ævintýri frá Norð-
urlöndum, er einsog nafnið bendir
til, að hluta íslensk. Svo á jörðu,
sem á himni, önnur mynd Kristínar
Jóhannesdóttur, er metnaðarfullt
ferðalag inní heim þjóðsagna og
dulúðar með suður-amerísku ofur-
raunsæisívafi. Veggfóður og
Sódóma Reykjavík, eru af allt öðru
sauðahúsi. Gerðar af ungum og
frískum byrjendum, Júlíusi Kemp
og Óskari Jónassyni. Báðir ágætir
fagmenn, gæddir guðsþakkar-
verðum húmor. Sjötta myndin er
farsi Guðnýjar Halldórsdóttir,
Karlakórinn Hekla, með tónleika-
ferðalag til Evrópu í baksýn.
Gísli Snær Erlingsson kveður sér
hljóðs með Stuttum frakka (’93),
vegamynd um hrakfarir fransks
puttalings á Skerinu. Hin helgu vé
(’93) Hrafns Gunnlaugssonar eru
undarlega erótískar bernskuminn-
ingar Reykjavíkurpolla í sumarvist
í sveit. Sorgin knýr hinsvegar dyra
í upprifjun Friðriks Þórs á hlið-
stæðu tímaskeiði í Bíódögum (’94).
Skýjahöllin (’94), er snotur barna-
mynd eftir Þorstein Jónsson.
Friðrik Þór heldur áfram sínu
striki á mörkum draums og veru-
leika í Á köldum klaka, sem segir af
framandi, stundum nánast dulrænni
reynslu ungs Japana, af landi og
þjóð. Mögnuð mynd, prýdd listilegri
kvikmyndatöku Ara Kristinssonar.
Ein stór fjölskylda, Jóhanns Sig-
marssonar, Nei er ekkert svar, eftir
Jón Tryggvason og Einkalíf Þráins
Bertelssonar (allar ’95), eru smá-
vaxnar gamanmyndir sem týnast á
þessu mikla, sjö mynda frumsýn-
ingarári, sem er nýtt met. Því lýkur
með Tári úr steini, níðþungu en til-
komumiklu og metnaðarfullu verki
Hilmars Oddssonar um örlagaríkan
kafla í lífi tónskáldsins Jóns Leifs.
Konur láta að sér kveða
Eftir yfirburðastöðu karla um
áratugi á stjörnulista Hollywood,
fara konur að blanda sér í toppbar-
áttuna þegar kemur fram á 10. ára-
tuginn. Það er fyrst og fremst Julia
Roberts, sem hefur verið iðin við að
mala gullið. Slær í gegn í Pretty
Woman og fylgir henni vel eftir
hverjum smellinum á fætur öðrum.
Ekki tilkomumesta leikkona sög-
unnar en hefur notalega útgeislun.
Táningastjarnan Demi Moore hittir
áhorfendur í hjartastað í ofursmell-
inum Ghost og fær nokkur bitastæð
hlutverk í kjölfarið. Michelle Pfeiff-
er dregur að sér athyglina sem
kattarkonan í Batman Returns; er
enginn eftirbátur annarra í The
Age of Innocence (’93), stórmynd
Scorsese. Sharon Stone kemst að
ofurstjörnuhliðinu eftir æsilegt at-
riði í Basic Instinct (’94), en nær
ekki að fylgja henni eftir. Whoopi
Goldberg, Geena Davis, Susan Sar-
andon, Jody Foster, Goldie Hawn,
Emma Thompson og Meryl Streep
þurfa ekki að kvarta undan atvinnu-
leysi.
Karlaveldið er engu að síður yf-
irgnæfandi. Vinsældir harðhaus-
anna Arnold Schwarzenegger og
Sylvester Stallone fara þó þverr-
andi. Arnaldur gerir góða hluti í
Terminator II. (’91), en The Last
Action Hero (’93), er ámóta skellur
og leiðin liggur niður á við. Stallone
á þokkalega daga í The Demolition
Man og Cliffhanger (báðar ’93), en
tjáningarlegt gjaldþrot blasir við er
hann ætlar að opinbera gam-
anleikhæfileika sína í Oscar (’91) og
Stop, Or My Mom Will Shoot (’92).
Tom Cruise og Harrison Ford
eru vinsælastir nú um stundir.
Johnny Depp, Brad Pitt og Keanu
Reeves, virðast vera prinsarnir sem
bíða eftir að þeirra tími komi.
Fjölskrúðug leikstjóraflóra
Nokkrir vinsælir leikarar eru að
sanna sig sem leikstjórar. Kevin
Costner og enn frekar Clint
Eastwood, sem líkt og Costner, ger-
ir sinn óskarsverðlaunavestra; Un-
forgiven (’92), sem samstundis skip-
ar sér í raðir sígildra mynda. Mel
Gibson er einnig í báðum þessum
aðalhlutverkum við gerð Brave-
heart (’95), sem hirðir ófá Ósk-
arsverðlaun. Ekki má gleyma Ro-
bert Redford í upptalningunni. Á
tvö stórbrotin verk á fyrri hluta
þess 10.; A River Runs Through It
(’92) og Quiz Show (’94).
Steven Spielberg á sitt magnað-
asta ár 1993. Fyrst slær sum-
armyndin Jurassic Park öll þekkt
aðsóknarmet en jólamyndin Schind-
ler’s List, gerir gott betur. Átak-
anleg stríðsmynd um skelfingar
helfararinnar verður fyrsta verk
leikstjórans sem hlýtur Ósk-
arsverðlaunin fyrir leikstjórn og
bestu mynd ársins. Hann er vel að
þeim kominn. Robert Zemeckis
gerir sína bestu mynd á ferlinum,
Forrest Gump (’94) með Tom
Hanks.
Woody Allen er komin á gott ról
og sendir m.a. frá sér Bullets Over
Broadway (’94), sína langfyndnustu
mynd í áraraðir. Jonathan Demme
skráir sig í hóp hinna bestu með of-
urhrollinum Lömbin þagna (’91),
prýdd meistaralegum leik Anthony
Hopkins í hlutverki mannætunnar
Hannibals Lecter. Robert Altman á
ágæta endurkomu með The Player
(’92) og Short Cuts (’93), en fellur
aftur með Prét-a-Porter (’94). Disn-
ey hristir uppí teiknimyndadeildinni
og The Lion King (’94), verður ein
sú mest sótta þeirra allra.
Gus Van Sant skapar My Own
Private Idaho (’91), frumlegustu og
athyglisverðustu mynd sem komið
hefur að vestan um árabil. Af öðr-
um, efnilegum nýliðum má nefna
Bryan Singer sem fær mikið lof fyr-
ir The Usual Suspects (’95) og Kev-
in Smith, sem heillar m.a. gesti á
Kvikmyndahátíð Listahátíðar, með
Clerks (’95), meinfyndinni smá-
mynd um búðarlokuna á horninu.
Uppgötvun áratugarins er Quent-
in Tarantino. Vekur heimsathygli
með frumrauninni Reservoir Dogs
(’92), ofurofbeldisfullri glæpamynd
um forherta afbrotamenn sem leita
uppljóstrarans í hópnum er dem-
antarán fer úr böndunum. Tarant-
ino lætur ekki þar við sitja, kemur
með Pulp Fiction (’94), meist-
aralega skemmtimynd þar sem
blandað er saman flestum kvik-
myndagreinum í ótrúlega fyndna
súpu yfirgengilegrar atburðarásar
þar sem ekkert er heilagt. Áður en
árið er liðið eru minni spámenn
farnir að apa eftir þessum nýja leið-
toga af miklum móð.
Misjafnt gengi gamla heimsins
Bresk kvikmyndagerð stendur
höllum fæti á meðan þarlendir leik-
stjórar og tæknimenn blómstra í
Bandaríkjunum og bresku leik-
ararnir Jeremy Irons, Daniel Day
Lewis, Emma Thompson og Anth-
ony Hopkins, vinna til Ósk-
arsverðlauna. Í Bretlandi gerist það
helst að Neil Jordan leikstýrir The
Crying Game (’92), einni umtöl-
uðustu mynd áratugarins. Merch-
ant-Ivory senda frá sér vandað og
vel skrifað drama, Dreggjar dags-
ins – The Remains of the Day (’93),
byggt á skáldsögu Kazuo Ishiguro.
Mike Newell sendir frá sér gam-
anmyndina Four Weddings and a
Funeral (’94), hún fer sigurför um
öll lönd, verður m.a. fyrsta, breska
myndin til að setjast í efsta sæti
bandaríska vinsældalistans í sex ár.
Þá vekur leikstjórinn og handrits-
höfundurinn Mike Leigh, síaukna
athygli; Naked (’93) og Secrets and
Lies (’95), eru meðal hans bestu
verka til þessa.
Norður í Skotlandi vekur Danny
Boyle, ungur og efnilegur leisktjóri,
almenna eftirtekt með Shallow
Grave (’94), litlum en forvitnilegum
krimma. Næsta mynd hans, Trains-
potting (’95), vekur alheimsathygli
og óhug vegna óvenju opinskárra
lýsinga í lífi utangarðsfólks og eit-
urætna í Edinborg.
Frá Balkanlöndunum koma tvær
ógleymanlegar myndir, tengdar
óróanum og borgarastyrjöldinni
sem varpar skugga á nýfengið frelsi
nokkurra ríkja sem áður töldust til
gömlu Júgóslavíu. Fyrir regnið (’94)
er átakanleg lýsing á upplausninni í
Makedóníu, gerð af Micho Manc-
hevski með Rede Serbedzija, mögn-
uðum sviðsleikara í aðalhlutverki.
Hin er Neðanjarðar (’94), nýjasta
satíra Emirs Kusturica.
Kieslowski sannar sig sem einn
fremsti leikstjóri álfunnar með þrí-
leiknum Blár (’93), Hvítur (’94), og
Rauður (’94).
Tveir snjallir leikstjórar koma
fram í Ástralíu; Baz Luhrman með
Strictly Ballroom (’93) og Jane
Campion, Píanó (’93). Nýsjálend-
ingar eiga einnig tvær merkar
myndir, Heavenly Creatures (’94)
og Once Were Warriors (’94).
Zhang Yimou og eiginkona hans,
Gong Li, eru að gera hvert stór-
virkið á eftir öðru í Kína
Frá Mexíkó kemur hin fjallbratta
og ofbeldisfulla El Mariachi, e. Ro-
berto Rodriguez og hin ljóðræna og
töfrumlíka Como Agua para Choco-
late, verk Alfonso Arau. Kúbverjar
blanda sér í andrúm alþjóðlegra
kvikmyndahátíða með Fresa y
Chocolate (’93), gamansamri þjóð-
félagsádeilu, nokkuð óvæntri úr
þessari áttinni.
Bíóöldin1991–1996
eftir Sæbjörn Valdimarsson ÞÚSÖLDIN
ÞOKAST NÆR
Börn náttúrunnar hóf íslenska kvikmyndagerð í áður
óþekktar hæðir á erlendri grundu.
Lífið er eins og konfektkassi: Tom
Hanks sem Forrest Gump.
Menn í svörtum fötum: Reservoir Dogs eftir leik-
stjóra tímabilsins, Quentin Tarantino.