Morgunblaðið - 26.09.2001, Blaðsíða 30
UMRÆÐAN
30 MIÐVIKUDAGUR 26. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
HVAÐA gildi hafa
meistaraflokkar fyrir
íþróttafélög? Þetta er
spurning sem sótt hef-
ur að mér síðustu
daga og vikur í kjölfar
svokallaðs „Fjölnis-
máls“ þar sem aðal-
stjórn Fjölnis og
handknattleiksdeild
Fjölnis hafa deilt um
hvort meistaraflokk-
arnir taki þátt í Ís-
landsmótinu í hand-
knattleik.
Markmið allra
íþróttafélaga er
ástundun íþrótta,
hvort sem það er
íþróttaiðkun til heilsubótar eða
stefnt er að því að keppa í íþrótta-
grein. Eðli keppnisíþrótta er að
stefna stöðugt að framförum og er
mikilvægasta markmið keppnis-
íþróttanna það að ná árangri. Þeg-
ar horft er á þetta í víðara sam-
hengi er það einnig mikilvægasta
forsenda allra framfara sem verða í
heiminum.
Í íþróttafélagi eða deild innan
þess þar sem lögð er stund á
íþróttagrein er kappkostað að taka
þátt í þeim mótum sem í boði eru
hverju sinni. Þeir sem leggja stund
á íþróttagreinina innan íþrótta-
félagsins eru ein heild þar sem
hver eining byggir á annarri alveg
frá yngstu aldursflokkum og upp í
meistaraflokk. Meistaraflokkurinn
gegnir lykilhlutverki í þessari
heild. Hjá deildum innan íþrótta-
félaga eru meistaraflokkar sú ein-
ing sem heldur nafni deildarinnar á
loft út á við, eins konar mark-
aðssetjari fyrir starf deildarinnar.
Þeir sem eru í meistaraflokki
íþróttafélaga hafa einnig hlutverki
að gegna gagnvart öðrum eining-
um deildarinnar. Þeir einstaklingar
eru fyrirmyndir hjá öllum þeim
sem stunda íþróttagreinina í yngri
flokkum deildarinnar og hugsan-
lega víðar. Á þennan hátt er gildi
meistaraflokks mjög mikið. Þannig
skapast umhverfi þar sem börn og
unglingar hafa eitthvað að stefna
að í íþróttafélaginu. Sumir láta það
gott heita að klára
yngri flokkana en
styðja sitt lið og taka
þátt í félagsstarfi
þess. En fyrir aðra er
meistaraflokkurinn
punkturinn yfir i-ið á
leiðinni til fulls þroska
sem íþróttamanns.
Fyrir þá sem ætla sér
að komast í meistara-
flokk er nauðsynlegt
að geta horft til þess í
eigin félagi. Hlutverk
keppenda í meistara-
flokkum fer líka inn á
önnur svið. Mótahald í
yngri flokkum er stór
hluti af starfi íþrótta-
félaga. Í langflestum tilfellum eru
meistaraflokkarnir með í þeirri
vinnu sem snýr að slíku mótahaldi.
Við sérstök tilefni eru meistara-
flokkar fengnir til þess að heim-
sækja æfingar yngri iðkenda fé-
lagsins og einnig þar tengist og
treystist starfsemi félagsins.
Hver er hápunkturinn í fé-
lagsstarfi íþróttafélagsins? Jú það
er þegar meistaraflokkur íþrótta-
félagsins/deildarinnar er að keppa í
opinberum mótum (Íslandsmót).
Þá kemur stærstur hluti iðkenda
og félaga saman til að styðja liðið
sitt.
Mikið hefur verið rætt og ritað
um fjármál íþróttahreyfingarinnar.
Þessi umræða hefur verið máluð
mjög svörtum litum og hafa
ákveðnir hópar innan íþróttanna
verið gagnrýndir talsvert. Nei-
kvæðasti hluti þessarar umræðu er
þegar verið er að tala um að rekst-
ur meistaraflokka sé fjármagnaður
með æfingagjöldum sem koma í
gegnum yngri flokka félaga. Með
slíkum fullyrðingum er einungis
verið að koma óorði á alla íþrótta-
hreyfinguna. Staðreyndirnar segja
allt aðra sögu. Rekstur yngri
flokka er einmitt sú eining innan
félaganna sem rekin er nánast
undantekningarlaust með tapi.
Einu tekjurnar sem koma inn í
rekstur yngri flokka er í gegnum
æfingagjöld. Sá kostnaður sem
kemur á móti er nánast alltaf
hærri. Vandinn er sá að nánast
enginn styrktaraðili kemur með
fjármagn inn í rekstur yngriflokka
eina og sér. Meistaraflokkar félag-
anna eru þær einingar sem eiga
möguleika á að fá styrktaraðila.
Þessi staða er ekkert ný og í raun
ofureðlileg. Meistaraflokkarnir eru
andlit félagsins út á við og auglýs-
ingagildi þeirra í alla staði mun
meira. Tekjuliðir í rekstri meist-
araflokka eru því fleiri og stærri
en í rekstri yngri flokka og heyrir
það til algjörra undantekninga að
rekstur yngri flokka borgi ein-
hverja rekstraliði hjá meistara-
flokkum.
Af framanrituðu má sjá að
meistaraflokkar félaganna eru
nauðsynlegur og sjálfsagður hluti
af allri starfsemi íþróttafélaga/
deilda. Þegar aðalstjórn íþrótta-
félags ákveður að leggja niður
rekstur meistaraflokks deildar er í
raun verið að kippa fótunum undan
öllu starfi deildarinnar. Að mínu
mati þurfa rökin sem liggja til
grundvallar slíkum ákvörðunum að
vera fjárhagslegs, siðferðilegs, fé-
lagslegs og uppeldislegs eðlis eigi
að vera réttlætanlegt að hrinda
slíku í framkvæmd. Eðlilegra er
hins vegar og ætti að vera sjálfsagt
mál, að aðalstjórn félags hjálpi
deild að ná markmiðum sínum.
Hvaða gildi hafa meistara-
flokkar fyrir íþróttafélög?
Óskar
Ármannsson
Höfundur er með mastersgráðu í
íþróttafræðum frá Íþróttaháskól-
anum í Köln og vinnur sem fram-
kvæmdastjóri Íþróttabandalags
Hafnarfjarðar.
Íþróttir
Meistaraflokkar félag-
anna eru, að mati Ósk-
ars Ármannssonar,
nauðsynlegur og sjálf-
sagður hluti af allri
starfsemi íþrótta-
félaga/deilda.
A
bdullah Jórdaníukon-
ungur hefur sagt að
hryðjuverkin í
Bandaríkjunum 11.
september síðastlið-
inn hafi verið framin vegna þess,
að hermdarverkamennirnir séu
að reyna að rjúfa þann vef sem
Bandaríkin séu.
„Þeir vilja brjóta á bak aftur
það sem Bandaríkin eru til marks
um,“ sagði Abdullah í viðtali við
Thomas L. Friedman, dálkahöf-
und The New York Times.
„Hryðjuverkamennirnir vilja í
raun og veru koma af stað árásum
á araba eða múslimi í Bandaríkj-
unum, vegna
þess að ef
menningar-
samfélögin í
Bandaríkj-
unum fara að
ráðast hvert á
annað, ef Bandaríkin brotna upp,
þá er búið að eyðileggja það sem
er sérstakt við Bandaríkin. Þetta
er það sem hryðjuverkamennirnir
vilja – þeir vilja geta sagt við
[bandamenn Bandaríkjanna í
arabalöndunum]: Sjáiði bara,
þetta var einungis goðsögn.“
En hvað er það, þetta sem „er
sérstakt við Bandaríkin,“ og
hryðjuverkamennirnir vilja eyði-
leggja, að því er Jórdaníukon-
ungur telur? Það sem um er að
ræða er þessi vefur, sem Abdullah
nefndi líka. Bandaríkin eru í póli-
tískum skilningi eitt ríki – með
eina ríkisstjórn og einn her. En
Bandaríkin eru ekki ein þjóð –
ekki eitt samfélag. Það mætti
fremur segja að þau væru sam-
félagsvefur ofinn úr mörgum,
ólíkum menningarþáttum sem
hver um sig er búinn til úr hefðum
sem sprottnar eru úr hlutum eins
og trú, sögu, landfræðilegum upp-
runa, menntun, móðurmáli og
kannski líka auðlegð.
Í Bandaríkjunum ægir öllum
þessum þáttum saman, þar ægir
öllu þessu fólki saman, sem hvert
um sig á sér sjálfsmynd gerða úr
einhverjum þessara þátta, sjálfs-
mynd eins er kannski fyrst og
fremst mótuð af, skulum við
segja, kristinni trú; sjálfsmynd
annars er fyrst og fremst mótuð
af sögu ættar hans; sá þriðji skil-
ur sjálfan sig fyrst og fremst í
ljósi tungumálsins sem hann talar
(mjög sennilegt að þetta væri
Vestur-Íslendingur í annan ætt-
lið), og svona mætti lengi telja.
Stærsti vandinn við það þegar
svona ólíkt fólk er saman komið á
einum stað, og allir gera tilkall til
þess að vera „heimamenn,“ með
því ráðríki sem slíku tilkalli fylgir,
er að það skortir allan grundvöll
fyrir sameiginleg viðmið og gildi.
Það er að segja, algerar frum-
forsendur mannfélags, eins og til
dæmis hugmyndir um rétt og
rangt, gott og vont, sanngirni og
ósanngirni, eru jafn margar og
mismunandi og samfélagsþætt-
irnir eru margir og mismunandi.
Hugmyndir manns um gildi á
borð við rétt og rangt, sanngjarnt
og ósanngjarnt, eru nefnilega ná-
tengdar hugmyndum manns um
það hver maður er.
Þegar maður stendur frammi
fyrir stórum spurningum á borð
við það hvernig manni beri að lifa
lífinu, þá leitar maður svara með
því að byrja á að spyrja: Hver er
ég? Svarið við þeirri spurningu
verður síðan forsenda svarsins við
spurningunni um réttlætið eða
spurningunni um frelsið. (Er það
til dæmis ekki líklegt að sá sem
lítur á sig sem Íslending fyrst og
fremst svari öðru vísi en sá sem
lítur á sig sem, skulum við segja,
kristinn mann fyrst og fremst,
spurningunni um það hversu mik-
ilvægt það sé að vera frjáls?)
Af þessu leiðir, að fólk með mis-
munandi sjálfsmyndir (mismun-
andi svör við spurningunni hver
er ég?) fær mismunandi svör við
grundvallarspurningum á borð
við hvernig ber manni að lifa líf-
inu? Hættan er augljóslega sú, að
til árekstra komi. En það sem Ab-
dullah Jórdaníukonungur átti við
að væri sérstakt við Bandaríkin,
er að þar í landi – fremur en í öðr-
um löndum heims nú á tímum –
hefur mismunandi fólk búið sam-
an á þeirri forsendu að það séu til
margar réttar aðferðir við að lifa
lífinu.
Þessi hugmynd, að það geti
verið margar leiðir til að breyta
rétt í lífinu, er grundvallaratriðið í
því sem bandaríski heimspeking-
urinn William James nefndi „fjöl-
hyggju“ (á ensku „pluralism“).
Veröldin, sagði James eitt sinn í
fyrirlestri, „líkist meira sam-
bandsríki en keisaradæmi eða
konungsríki“.
Og það er einmitt þessi hug-
mynd sem hryðjuverkamennirnir
berjast gegn. Þótt fjölhyggju-
hugmyndin sé nú farin að breiðast
hratt út um heiminn virðist hún
vera upprunnin í Bandaríkjunum,
og kannski mætti segja að að því
leyti sem Bandaríkin eru grund-
völluð á hugsjón, þá sé fjölhyggj-
an sú hugsjón. (Ein ljósasta birt-
ingarmynd hennar er
stjórnarskrárbundinn aðskiln-
aður ríkis og kirkju – að engin trú
skuli vera ríkistrú).
Einmitt út af þessu skiptir svo
miklu máli að hryðjuverkin leiði
ekki til þess að hafin verði ein-
hvers konar „krossferð“ gegn
aröbum og íslam, eins og Jórd-
aníukonungur benti á í fyrr-
nefndu viðtali. Ef bandarískur al-
menningur (og almenningur
hvarvetna) fer að ráðast gegn
aröbum og múslimum sem búa í
Bandaríkjunum (eða hvar sem er)
gerist einmitt það sem hryðju-
verkamennirnir óskuðu eftir –
bandaríski vefurinn fer að rofna.
Og það sem meira er, hann fer þá
að rofna vegna þess að Banda-
ríkjamenn hafa snúið baki við
sinni eigin hugsjón, og fallist á að
Bandaríkin hafi í rauninni bara
verið goðsögn.
Það er líka mikilvægt að muna,
að andstæðingar fjölhyggju fyr-
irfinnast í hvaða menningar-
samfélagi sem er. Þekktasta og
skelfilegast dæmið í sögunni um
það þegar þeir hafa náð yfirhönd-
inni er sennilega valdatími Nas-
ista í Þýskalandi, þar sem allt
skyldi lúta einum vilja.
Gegn
fjölhyggju
„Ef menningarsamfélögin í Bandaríkj-
unum fara að ráðast hvert á annað, ef
Bandaríkin brotna upp, þá er búið að
eyðileggja það sem er sérstakt við
Bandaríkin. Þetta er það sem hryðju-
verkamennirnir vilja.“
VIÐHORF
Eftir Kristján G.
Arngrímsson
kga@mbl.is
Abdullah Jórdaníukonungur.
NÚ stendur yfir
evrópskt tungumálaár
2001 undir kjörorðinu
„Tungumál opna dyr“
og í dag 26. september
er Evrópskur tungu-
máladagur haldinn í
45 evrópskum löndum.
Það er markmið dags-
ins og ársins að vekja
athygli á mikilvægi
tungumálakunnáttu
fyrir einstaklinga og
fyrir samskipti þjóð-
anna. Tungumál opna
dyr að gagnkvæmum
skilningi og virðingu
fyrir ólíkri menningu,
þau opna dyr vináttu,
tengsla og mikilsverðra sambanda.
Þau loka dyrum einangrunar,
skilningsleysis, tortryggni, for-
dóma og haturs. Þau opna dyr
þekkingar og samkenndar, víðsýni
og væntumþykju. Nú þegar heim-
urinn stendur á öndinni í ljósi
hryðjuverkanna í Bandaríkjunum
óttast margir að fordómar og van-
stilling fari fyrir ígrundun og yf-
irvegun. Veröldin er ekki söm,
hætta er á að dyrum verði lokað.
Sú veröld sem var fyrir rúmum
áratug breyttist m.a. með hruni
Sovétríkjanna og frelsi Suður-Afr-
íku undan kynþáttaaðskilnaði. Lýð-
ræðishugmyndir fengu byr undir
vængi. Kaldastríðinu og hernaðar-
og hugmyndafræði-
legum árekstrum þess
tíma er lokið. Barátta
gegn kynþáttafordóm-
um og fyrir frelsi ný-
lenduþjóða til sjálf-
stæðis og þjóðlegrar
endurreisnar hleypti
nýrri vídd í pólitíska
umræðu. Fáránleiki
ógnarjafnvægisins og
tillitslaus valdabarátta
stórveldanna hvarf.
Það reið á og ríður
enn á að tryggja
mannréttindi og sam-
eiginlegt öryggi þjóð-
anna. Möguleikar
smáþjóða eins og Ís-
lands í þessu sambandi eru að sjálf-
sögðu takmarkaðir, en við verðum
samt að leggja okkar af mörkum.
Alþjóðlegt samstarf fjallar um
framtíð okkar sjálfra. Það er bá-
bilja að við getum leyst okkar eigin
vandamál með einangrun frá um-
heiminum. Þótt kalda stríðið sé bú-
ið og ný saga hafin eru gömul
vandamál enn í fullu gildi. Vænt-
ingar um aukinn styrk Sameinuðu
þjóðanna hafa ekki ræst. Lýðræð-
ishugmyndir eiga víðast langt í
land að festast í sessi sem virkt
samfélagsform. Það sem ógnar lýð-
ræðinu á sér ekki rætur í pólitískri
hugmyndafræði á heimsvísu. Ógn-
unin sækir næringu í fátækt, nið-
urlægingu, trúarlegar eða þjóðar-
legar andstæður, ofstækisfulla
hryðjuverkahópa, alþjóðleg glæpa-
samtök og reiði fólks yfir ömurleg-
um lífsaðstæðum að ónefndum
skorti á lýðræðislegum hefðum og
stofnunum. Vaxandi alþjóðavæðing
á sviði tækni og efnahagsmála gríp-
ur inn í þjóðfélagsþróun einstakra
ríkja. Brýnasta alþjóðavæðingin
ætti þess vegna að snúast um sam-
ábyrgð sem stundum er sögð vera á
undanhaldi. Ójafnræði, kynþátta-
misrétti og fordómar eru dæmi um
slíkt undanhald. Sem aldrei fyrr er
því mikilvægt nú að opna dyr ólíkra
menningarheima. Tungumál opna
dyr til framtíðar og vonar, sannra
gilda lýðræðis og jafnræðis sem
okkar samfélagsgerð byggir á.
Evrópskur tungu-
máladagur 2001
Skúli
Thoroddsen
Tungan
Nú þegar heimurinn
stendur á öndinni vegna
hryðjuverkanna í
Bandaríkjunum, segir
Skúli Thoroddsen,
óttast margir að
fordómar og vanstilling
fari fyrir ígrundun
og yfirvegun.
Höfundur er formaður Kvasis,
samtaka fræðslu- og símennt-
unarmiðstöðva.