Morgunblaðið - 09.11.2001, Síða 24
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
24 FÖSTUDAGUR 9. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
BANKASTJÓRN Seðlabanka Ís-
lands tilkynnti í gær lækkun á
stýrivöxtum bankans um 0,8%, úr
10,9% í 10,1%. Síðast lækkaði bank-
inn vextina í mars, úr 11,4% í
10,9%. Tímasetning og umfang
frekari lækkunar vaxta ræðst af
framvindunni og því ljósi sem hún
muni varpa á líkurnar á að verð-
bólgumarkmið bankans náist árið
2003.
Seðlabankinn birti einnig í gær
nýja verðbólguspá og mat á stöðu
og horfum í efnahags- og peninga-
málum í ársfjórðungsriti sínu, Pen-
ingamálum. Bankinn spáir nú meiri
verðbólgu á þessu og næsta ári en í
fyrri spá, vegna meira launaskriðs
og lægra gengis en miðað var við
áður. Nú er spáð 8½% verðbólgu
frá upphafi til loka þessa árs en 4%
á því næsta. Í spá bankans í ágúst
síðastliðnum var spáð 3% verðbólgu
á næsta ári. Verðbólguspá Seðla-
bankans fyrir þriðja ársfjórðung
gekk í meginatriðum eftir.
Í tilkynningu Seðlabankans segir
að líkurnar á að verðbólgumarkmið
bankans náist á árinu 2003 séu
meiri nú en áður. Ástæða þess sé sú
að merki um hjöðnun ofþenslu séu
ótvíræðari og útlit sé fyrir að fram-
leiðsluslaki muni leysa spennu af
hólmi þegar líður á næsta ár. Hugs-
anleg endurskoðun kjarasamninga
á næsta ári valdi þó óvissu um
framvindu verðlags.
Raungengi krónunnar mun
hækka á næstu mánuðum
Seðlabankinn segir að verðbólgu-
væntingar mældar með verðbólguá-
lagi ríkisskuldabréfa hafi lækkað að
undanförnu. Verðbólguálag ríkis-
skuldabréfa sé nú í samræmi við
verðbólguspá bankans. Trúin á að
verðbólgumarkmiðið náist hafi því
styrkst. Á sama tíma hafi skamm-
tímavaxtamunur gagnvart útlönd-
um vaxið verulega. Aðhaldsstig
peningastefnunnar hafi því aukist
og raunstýrivextir Seðlabankans
undir lok október hafi verið orðnir
ívið hærri en í kjölfar vaxtalækk-
unar bankans 27. mars síðastliðinn.
Í tilkynningu bankans segir:
„Hærri raunvextir Seðlabankans,
lægri verðbólguvæntingar, skýr
merki um hjöðnun ofþenslu, mun
minni útlánavöxtur, versnandi efna-
hagshorfur og vaxtalækkanir í við-
skiptalöndum, horfur á slaka í hag-
kerfinu og síðast en ekki síst
auknar líkur á að verðbólgumark-
mið bankans náist á árinu 2003
veldur því að bankastjórn telur nú
tímabært að lækka vexti á ný. Að-
hald peningastefnunnar verður þó
áfram mikið enda raunvextir bank-
ans um 6½% eftir breytinguna.
Seðlabankinn hefur áður lýst þeirri
skoðun sinni að raungengi krónunn-
ar sé orðið mun lægra en það jafn-
vægisgengi sem reikna má með til
lengdar. Raungengi krónunnar
mun því hækka á næstu misserum.
Hins vegar er óvíst hvenær þetta
gerist og í hvaða mæli það verður
fyrir atbeina hærra nafngengis
krónunnar eða meiri verðbólgu en í
viðskiptalöndum.“
Ýmis merki um að
ofþenslan sé að hjaðna
Í Peningamálum, ársfjórðungsriti
Seðlabankans, sem birt var í gær,
segir að þjóðarútgjöld séu tekin að
dragast saman og frekari lækkun
þeirra sé nauðsynleg til að eyða
framleiðsluspennu og ná viðskipta-
halla niður á sjálfbært stig. Betra
jafnvægi muni þá komast á í ís-
lenskum þjóðarbúskap og forsend-
ur stöðugleika og lítillar verðbólgu
munu styrkjast. Samdráttur um-
svifa í efnahagslífinu, sem birtast
muni á næsta ári í minni landsfram-
leiðslu en í ár, sé óhjákvæmilegur
fylgifiskur þessarar þróunar. Óvíst
sé hve mikill samdrátturinn á
næsta ári verði. Mjög mikill hag-
vöxtur á árinu 2000 og á fyrri hluta
þessa árs auki líkurnar á snarpari
samdrætti en ella.
Bankinn segir ýmis merki um að
ofþensla sé að hjaðna. „Nefna má
samdrátt í innflutningi og í veltu í
verslunargreinum,“ segir í Pen-
ingamálum. „Þá er mikilvægt að
gífurleg útlánaþensla síðustu ára er
nú að verulegu leyti hjöðnuð ef
horft er framhjá sjálfvirkri hækkun
útistandandi lána vegna verðbólgu
og lækkunar á gengi. Án slíkrar
uppfærslu jukust útlán innláns-
stofnana á sex mánuðum til loka
september aðeins um 5% miðað við
heilt ár og nokkur samdráttur varð
síðustu þrjá mánuði. Vísbendingar
eru reyndar um að lífeyrissjóðir og
fjárfestingarlánasjóðir hafi aukið
útlán sín meira en innlánsstofnanir
síðustu mánuði. Eigi að síður bend-
ir flest til þess að undirliggjandi út-
lánavöxtur lánakerfisins í heild hafi
minnkað verulega. Hjöðnun útlána-
þenslu er vísbending um frekari
hjöðnun eftirspurnar á næstunni.
Vinnumarkaður er enn töluvert
spenntur og náði launaskrið á al-
mennum markaði hámarki á þriðja
ársfjórðungi. Glögg merki eru hins
vegar um að spenna á vinnumark-
aði minnki á komandi mánuðum.“
Gengi krónunnar undir þrýstingi
Seðlabankinn segir að gengi
krónunnar hafi verið undir nokkr-
um þrýstingi á undanförnum vik-
um. Í lok október hafi það verið
orðið rúmum 5% lægra en í lok júlí
síðastliðins, þrátt fyrir að Seðla-
bankinn hafi selt gjaldeyri á tíma-
bilinu sem nemur samtals nærrri 10
milljörðum króna til stuðnings
krónunni.
Bankinn segir að til skemmri
tíma litið gætu markaðsaðstæður
orðið óhagstæðar krónunni, sér-
staklega ef innstreymi fjár, sem
nauðsynlegt sé til að fjármagna við-
skiptahallann, dregst hraðar saman
en viðskiptahallinn. Því sé engin
leið að spá fyrir um þróun gengisins
til skamms tíma, fremur en gengi
annarra gjaldmiðla.
Ekki tímabært að slaka á
í ríkisfjármálum
Seðlabankinn segir að útlit sé
fyrir að afkoma ríkissjóðs versni á
þessu ári umfram það sem minni
hagvöxtur gefur tilefni til. Ástæð-
urnar séu mikil aukning útgjalda
vegna sérstakra ákvarðana og mik-
illa launahækkana í opinbera geir-
anum og samdráttur í tekjum sök-
um minni neyslu og innflutnings.
Að óbreyttu geti þessi þróun, ásamt
efnahagslægð, rýrt afganginn sem
stefnt sé að í fjárlagafrumvarpi
næsta árs. Seðlabankinn ítrekar þá
skoðun sína að enn sé ekki tíma-
bært að slaka á í ríkisfjármálum
eða grípa til annarra eftirspurnar-
hvetjandi aðgerða. Þjóðarútgjöld
séu of há og verði það enn sam-
kvæmt fyrirliggjandi spám á næsta
ári. Því sé mikilvægt að við af-
greiðslu fjárlaga verði teknar
ákvarðanir sem tryggi betur þann
afgang sem stefnt sé að í fjárlaga-
frumvarpi fyrir næsta ár.
Í greinargerð Seðlabankans til
ríkisstjórnarinnar vegna verðbólgu-
markmiðs í júní síðstliðinn taldi
bankinn að aðgerðir „sem styrkja
framboðshlið hagkerfisins, þ.e.
auka framboð framleiðsluþátta
(vinnuafls og fjármagns), auka
framleiðni og efla sparnað myndu
hins vegar samtímis skapa forsend-
ur varanlegs hagvaxtar og styðja
við verðbólgumarkmið bankans.“
Bankinn segir að tillögur að skatt-
kerfisbreytingum, sem ríkisstjórnin
kynnti í byrjun október síðstliðinn,
uppfylli að hluta þessi skilyrði. Þær
feli í sér minni skattlagningu fjár-
magns, sem bundið er í atvinnu-
rekstri, en meiri skattlagningu
vinnuafls. Þetta sé skynsamlegt í
hagkerfi sem hafi einkennst af um-
frameftirspurn eftir vinnuafli og of
litlum þjóðhagslegum sparnaði.
Þá segir bankinn að skattatillög-
urnar muni einnig stuðla að fjár-
magnsinnstreymi vegna beinnar
fjárfestingar þótt óljóst sé hve mikil
þessi áhrif verði, sérstaklega fram-
an af. Það sé hins vegar mat bank-
ans að æskilegt sé, miðað við
ríkjandi aðstæður, að hækka aðra
skatta meira til mótvægis eða skera
niður ríkisútgjöld, sérstaklega
vegna ársins 2002. Tekjutap ríkis-
sjóðs komi hins vegar ekki að fullu
fram fyrr en 2003 en samkvæmt
fyrirliggjandi spám ætti þá að hafa
myndast nokkur slaki í þjóðarbú-
skapnum. Bankinn telur því ekki að
framangreind áform raski þjóð-
hagslegu jafnvægi eða stefni verð-
bólgumarkmiði bankans í hættu.
Raunstýrivextir
gefa rétta mynd
Fram kom á blaðamannafundi,
sem Seðlabankinn hélt í gær, að
þegar stýrivextir seðlabanka eru
bornir saman milli landa, sé nauð-
synlegt að taka tillit til verðbólgu.
Réttara sé að bera saman raun-
stýrivexti. Í þeim samanburði séu
stýrivextir Seðlabanka Íslands ekki
mikið hærri en stýrivextir í helstu
viðskiptalöndum. Eftir lækkunina
um 0,8% séu raunstýrivextir hér á
landi 2,1%, þ.e. munurinn á 10,1%
stýrivöxtum og 8,0% verðbólgu.
Raunstýrivextir í Noregi séu hins
vegar 6,6%, þ.e. munurinn á 9,0%
stýrivöxtum og 2,4% verðbólgu.
Raunstýrivextir í Bretlandi séu
2,3%, Sviss 2,1%, eins og hér á land,
Danmörku 1,8%, Japan 0,9%, Evr-
ulandi 0,8% og -0,6% í Bandaríkj-
unum.
Seðlabanki Íslands lækkar stýrivexti bankans um 0,8%
Vaxandi líkur á að verð-
bólgumarkmið náist 2003
Morgunblaðið/Kristinn
Birgir Ísleifur Gunnarsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, gerir grein fyrir ákvörðun bankastjórnar að lækka stýri-
vexti bankans um 0,8% og segir frá helstu niðurstöðum í nóvemberhefti Peningamála á blaðamannafundi í gær.
Tap Skag-
strendings hf.
176 milljónir
SKAGSTRENDINGUR hf. var rek-
inn með 176 milljóna króna tapi
fyrstu níu mánuði ársins 2001. Tapið
allt árið áður var 355 milljónir. Meg-
inástæða taprekstrar er gengistap af
erlendum skuldum félagsins.
Rekstrartekjur félagsins námu
1.749 milljónum fyrstu 9 mánuði árs-
ins 2001 en 2.078 milljónum á árinu
2000. Rekstrargjöld án afskrifta
námu 1.394 milljónum en þau voru
1.722 milljónir á árinu 2000. Hagn-
aður án afskrifta og fjármagnskostn-
aðar nam því 356 milljónum króna
sem er sama fjárhæð og á árinu
2000. Þetta svarar til 20,3% af
rekstrartekjum fyrstu 9 mánuði árs-
ins 2001 samanborið við 17,1% á
árinu 2000. Rekstrarhagnaður var
174 milljónir króna en 149 milljónir á
árinu 2000.
Fjármagnsgjöld að frádregnum
fjármunatekjum voru 352 milljónir
en 240 milljónir á árinu 2000. Í til-
kynningu til Verðbréfaþings kemur
fram að meginástæða hækkunar
fjármagnsgjalda sé gengistap af
skuldum að fjárhæð 336 milljónir
samanborið við 181 milljón á árinu
2000. Áhrif af rekstri hlutdeildar-
félaga voru neikvæð um 3 milljónir
samanborið við 309 milljónir á árinu
2000 en gjaldþrot Nasco ehf. vó þar
þyngst.
Tap tímabilsins fyrir skatta var
181 milljón samanborið við tap að
fjárhæð 401 milljón árið 2000. Reikn-
aður tekjuskattur af tapi tímabilsins
er 8 milljónir og kemur til hækkunar
á reiknaðri tekjuskattsinneign.
Lækkun á tekjuskattshlutfalli veld-
ur því að tekjuskattsinneign í árs-
byrjun lækkar um 21 milljón og fær-
ist sú fjárhæð til lækkunar á
reiknuðum skatti af tapi tímabilsins.
Tap tímabilsins er því 176 milljónir
samanborið við 355 milljóna tap á
árinu 2000.
Áætlanir gera ráð fyrir að fram-
legð rekstrar fyrir afskriftir verði
svipuð á fjórða ársfjórðungi og var á
þeim þriðja.
SKÝRR með
151 milljónar
króna tap
SKÝRR hf. var rekið með 151 millj-
ónar króna tapi á fyrstu níu mánuðum
ársins, en með 142 milljóna hagnaði á
sama tíma í fyrra sem reyndar var
söluhagnaður. Söluhagnaður á þessu
ári hefur verið 36 milljónir króna.
Fjármagnsgjöld tímabilsins nema
samtals 277 milljónum en voru sjö
milljónir í fyrra. „Þar vegur þyngst að
gjaldfærðar eru samtals 238 milljónir
króna vegna óinnleysts gengistaps af
hlutabréfum.“ Þetta er samkvæmt
ákvörðun sem tekin var í kringum sex
mánaða uppgjör.
Rekstrartekjur SKÝRR á tíma-
bilinu námu alls 1.525 miljónum en
1.119 milljónum á sama tíma í fyrra.
Vöxtur í rekstrartekjum skýrist að
stórum hluta af sölu hugbúnaðarleyfa
ásamt vinnu við innleiðingu á nýjum
fjárhags- og mannauðskerfum fyrir
ríkið sem samið var um í júlí sl. Verk-
efnið er á áætlun, að því er fram kem-
ur í tilkynningu frá SKÝRR. Rekstr-
argjöld aukast einnig vegna hins
sama og námu á tímabilinu 1.447
milljónum króna en voru 898 milljónir
króna á sama tíma á síðasta ári.
EBITDA nam 161 milljón en 189
milljónum á síðasta ári. Í sex mánaða
uppgjöri nam EBITDA 66 milljónum.
Í tilkynningu frá SKÝRR segir að
þessa aukningu megi rekja til þess að
þróunarverkefni séu farin að skila
sér. Reiknað er með að EBITDA fyr-
ir árið í heild fari nálægt því að ná
upphaflegum rekstrarmarkmiðum
um 248 milljónir króna fyrir allt árið.
Í tilkynningu SKÝRR kemur fram
að verkefnastaða fyrirtækisins sé
góð. Rekstrarafkoman hafi batnað
verulega undanfarna þrjá mánuði og
umfram væntingar. Reiknað er með
áframhaldandi bata.
♦ ♦ ♦