Morgunblaðið - 23.05.2002, Page 11

Morgunblaðið - 23.05.2002, Page 11
FRÉTTIR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. MAÍ 2002 11 YFIRSKRIFT fundarins var „Hvað má bæta í borginni“ og sátu fulltrúar frá Reykjavíkurlistanum, Sjálfstæðis- flokknum og lista Frjálslyndra og óháðra fyrir svörum. Í upphafsorðum Sigursteins Mássonar, formanns Geðhjálpar og fundarstjóra, kom fram að til hefði staðið að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Björn Bjarna- son mættu fyrir hönd sinna lista en þau hefðu forfallast á síðustu stundu. Í þeirra stað sat Björk Vilhelmsdóttir fundinn fyrir R-lista og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrir D-lista auk Ólafs F. Magnússonar fyrir F-lista. Frambjóðendurnir höfðu sjö mín- útur hver til framsögu á fundinum en að þeim loknum var opnað fyrir spurningar og kom sú fyrsta frá Sig- ursteini þar sem hann innti eftir því hvort þeir teldu það forgangsmál að málefni fatlaðra væru færð frá ríki til sveitarfélaga. Kom fram í svörum frambjóðendanna að þeir styddu flutning þessa málaflokks til sveitar- félaganna að því tilskildu að nægilegt fjármagn fylgdi með í kaupunum. Af spurningum gesta utan úr sal mátti ráða að húsnæðismál brynnu á þeim. Kona, sem er aðstandandi geð- sjúklings, beindi þeirri spurningu til Bjarkar hversu margir geðfatlaðir hefðu verið á götunni fyrir átta árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn skildi við stjórnartaumana. Sagði hún um 60 manns á götunni núna og stór hluti þeirra væri geðklofasjúklingar. Björk sagðist ekki hafa handbærar tölur um fjölda þeirra sem voru á götunni fyrir átta árum. Alltaf hefðu einhverjir ver- ið á götunni en hún væri sammála um að nú væri sá hópur allt of stór. Vil- hjálmur kom einnig að þessari spurn- ingu og sagði að biðlistinn eftir fé- lagslegu leiguhúsnæði hefði verið um 250 manns fyrir átta árum en nú væri hann 635 manns. Hann sagðist hins vegar ekki vita hversu margir geðfatl- aðir hefðu verið á götunni áður en R- listinn tók við stjórn borgarinnar. Geta ekki greitt af húsum sínum Maður nokkur vék spurningu sinni að fólki sem væri í fullu starfi og ætti hús en yrði síðan fyrir því að veikjast. Innti hann eftir því hvort frambjóð- endurnir myndu finna einhverja lausn fyrir þetta fólk til að borga af húsum sínum. Björk sagði fólk sem veiktist eiga rétt á félagslegri aðstoð umfram þann rétt sem það hefði til örorkubóta sem hægt væri að óska eftir þegar veikindi steðjuðu að. Ólaf- ur taldi erfitt að gefa sérhæfða lausn við svo sérhæfðu vandamáli. Þá var spurt hvað listarnir hyggð- ust gera í málefnum fólks sem væri fast í viðjum leiguhúsnæðis og gæti ekki keypt eigið húsnæði. Benti Björk á að borgin væri nýbúin að semja við félagsmálaráðuneytið um uppbygg- ingu 600 leiguíbúða en nauðsynlegt væri að byggja upp góðan leigumark- að til að taka á þessu vandamáli. Vil- hjálmur benti á að vandi þeirra sem væru að kaupa sér íbúð færi stöðugt vaxandi og jafnvel þeir sem fengju 90% lán til íbúðarkaupa ættu í erf- iðleikum. Hann sagði vanskil aldrei hafa verið jafn mikil og nú og þeirri hugmynd hefði verið velt upp að veita 100% lán til húsnæðiskaupa. Að auki væri nauðsynlegt að byggja upp leiguhúsnæði. Innt var eftir því hvort frambjóð- endurnir hefðu einhverja heildræna lausn á vanda geðklofasjúklinga. Björk sagði þörf á að samræma heil- brigðisþjónustu og félagsþjónustu, búsetu og fjárhagslegt öryggi. Hún sagðist telja að þetta þyrfti að vera samstarfsverkefni yfirvalda og þeirra félagasamtaka sem best þekkja til en tilbúna lausn á vanda þessa hóps hefði hún ekki handbæra. Ólafur sagðist sömuleiðis ekki hafa svar við þessari spurningu en ábendingin væri þörf og hann myndi taka hana til athugunar innan síns flokks. Ein spurningin laut að aðstæðum þeirra sem hafa átt við langvarandi veikindi að stríða, verið lengi á sjúkrahúsi og neyðst til að flytja til foreldra sinna að sjúkrahúsvist lok- inni. Þetta fólk ætti erfitt um vik við að taka þátt í samfélaginu á ný. Var spurt hvað frambjóðendur væru til- búnir að gera til að breyta þessu ástandi. Svaraði Björk því til að byggja þyrfti upp þjónustu sem gæti mætt þörfum hvers og eins á hans forsendum því aðstæður fólks væru gerólíkar, félagslega og heilbrigðis- lega séð. Ólafur sagði þörf á að leita leiða til að virkja þessa einstaklinga í atvinnu og öðru því sem veitti því full- nægju og tilgang. Vilhjálmur taldi nauðsynlegt að skapa fjárhagslegt og húsnæðislegt öryggi. Sömuleiðis þyrfti að veita þessu fólki hlýju og fé- lagslega samveru. Kona nokkur spurði út í skólamál geðfatlaðra barna. Hún sagði að til stæði að leggja niður allar sérdeildir í grunnskólum og stofna í þeirra stað sérkennsluver í hverjum skóla fyrir sig en ljóst væri að fjöldi geðfatlaðra barna gæti ekki samlagast stórum bekkjardeildum. Innti hún eftir því hvort búið væri að móta það hvernig kennslu þessara barna yrði háttað í framtíðinni en skólamál þessa hóps hefðu verið í ólestri í mörg ár. Spurði hún hvort vilji væri til að breyta þessu þannig að geðfötluð börn hefðu tæki- færi til að þroskast og læra. Í svari Vilhjálms kom fram að ekki væri komið á hreint hvernig kennslu þessa hóps yrði háttað en hann taldi að með því að leggja niður sérdeildir væri verið að veikja mikilvægan bak- hjarl barnanna. Hins vegar væri ekki komið í ljós hvernig þetta myndi virka. Hann benti á að þróunin á und- anförnum árum hefði verið sú að fjár- magn til málaflokksins hefði aukist. Ólafur taldi mikilvægt að menn færu ekki fram úr sjálfum sér í hugmynda- fræðinni sem væri að rjúfa einangrun þessara barna. Björk sagði hins vegar sína skoðun vera þá að skólarnir ættu að vera án aðgreiningar á sama hátt og hún vildi samfélag án aðgreining- ar. Hún sagði um eitt prósent geðfatl- aðra barna þurfa á sérskóla að halda og benti á að síðastliðið haust hefði nýr skóli fyrir geðfötluð börn verið opnaður auk þess sem Einholtsskóli væri enn starfandi. Þá lagði hún áherslu á að í öllum skólum borgar- innar yrðu sérkennsluver sem myndu sinna sérþörfum þessara barna. Ekki geðsjúkir eftir 67 ára aldur Loks var spurt um sýn á öldrunar- þjónustu geðsjúkra og á það bent að samkvæmt laganna bókstaf væru þeir ekki geðsjúkir eftir að 67 ára aldri væri náð þrátt fyrir að þörf þeirra fyr- ir þjónustu sem geðsjúkir hefði ekki minnkað með aldrinum. Var lýst eftir úrlausn fyrir þetta fólk. Björk sagði í svari sínu að innan Félagsþjónustu borgarinnar væru ekki lengur tak- markanir byggðar á aldri og því myndi þetta breytast yrðu málefna fatlaðra flutt til sveitarfélaga. Ólafur sagðist telja að þjónusta utan stofn- ana væri ekki nægilega samhæfð. Sagði hann að aukin víðsýni í þessari umönnun myndi rjúfa einangrun aldraðra geðsjúklinga. Þá sagðist Vil- hjálmur sjá fyrir sér að öldrunarþjón- usta geðsjúkra gæti átt sér stað með aukinni uppbyggingu hjúkrunarrým- is með því að þar gætu aldraðir geð- sjúkir átt sín rými. Í lok fundar lýsti fundarstjóri eftir loforðum um það sem frambjóðend- urnir myndu leggja mesta áherslu á í málefnum geðsjúkra kæmust þeir til valda og gekk hart eftir skýrum svör- um. Sagðist Björk lofa því að gera átak í húsnæðismálum geðfatlaðra, Ólafur lofaði því að setja í forgang að- stoð og þjónustu við fatlaða og loks sagðist Vilhjálmur lofa auknum stuðningi við félagasamtök eins og Geðhjálp og Geysi, átaki í húsnæðis- málum og að beita sér fyrir því að at- vinnuþátttaka fatlaðra yrði meiri en nú er. Kosningafundur Geðhjálpar með frambjóðendum þriggja stærstu framboðanna í Reykjavík Um 60 manns á götunni Húsnæðismál, úrræðaleysi í málefnum geðsjúkra og skólamál geðfatlaðra barna var meðal þess sem brann á gestum á fundi Geðhjálpar með fulltrúum þriggja stærstu framboðanna í Reykjavík í gær. Morgunblaðið/Kristinn Björk Vilhelmsdóttir, Ólafur F. Magnússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálms- son sátu fyrir svörum á fundi sem Geðhjálp stóð fyrir í Iðnó í gær. MAÐUR nokkur á fundinum óskaði eftir að hafa eftirfarandi aðdrag- anda að spurningu sinni. „Einn sona minna er geðklofa afbrotamaður með ofsóknarívafi svo notuð séu orð geðlæknisins sem fenginn var til að meta hann eftir stórfellt afbrot fyrir tíu árum. Samt mat læknirinn svo að sonur minn væri sakhæfur. Síðan hefur hann verið í afplánun á Litla-Hrauni, Sogni, Gunnarsholti og víðar og nú síðast í Byrginu. Son- ur minn er nú búinn að brenna allar brýr að baki sér með erfiðri hegðun og ofbeldisverkum og nú er svo komið að enginn í kerfinu vill af hon- um vita eða hýsa hann. Fjölskylda hans er langþreytt og hrædd og viss um að það er aðeins tímaspursmál hvenær hann vinnur eitthvert voða- verk sem aldrei verður bætt. Nú er sonur minn á götunni og kann ekk- ert á lífið utan fangelsismúranna en innan þeirra hefur hann dvalið að meira eða minna leyti undanfarin tólf ár. Hann hefur engan lækni, hefur ekki fengið viðeigandi geðlyf mán- uðum saman og ekki heldur með- ferð. Hann þekkir engan nema sam- fanga og fíkla og kann ekki almennar umgengnisreglur eða mannasiði og hefur engan fé- lagslegan þroska til að takast á við lífið. Enginn vill sjá hann, enginn vill fá hann. Hvert er hægt að leita þegar búið er að leita alls staðar?“ Björk sagði hræðilegt að heyra af svona málum og ekki væri hægt að vísa á einn stað í slíku tilfelli. Hún sagði umræddan mann hugsanlega ekki þann eina sem væri í þessum sporum. Samstarf margra þyrfti til að gera bragarbót á og borgin væri bara einn hlekkur í langri keðju sem þyrfti að vera til staðar. Ólafur sagði átakanlegt að hlusta á sögu mannsins og sagðist telja að heilbrigðiskerfið ætti að ná til manna í slíkri aðstöðu en að auki þyrftu þeir á félagslegri aðstoð að halda. Vilhjálmur rifjaði upp að þegar hann var framkvæmdastjóri SÁÁ fyri tuttugu árum hafi hann kynnst fjölda fólks sem ætti í miklum per- sónulegum erfiðleikum og þá hafi úrræðin verið fá. Því miður hafi þeim ekki fjölgað mikið. Hann sagði að ekki ætti að velta boltanum milli ríkis og sveitarfélaga og spyrja um ábyrgð þessara aðila heldur ein- henda sér í verkið og auðvitað gætu sveitarfélögin haft þar forystu eins og í mörgum öðrum málum. Hugsa mætti sér að byggja vernduð sam- býli fyrir slíkt fólk þar sem væri bæði stuðningur og eftirlit. Hvert er hægt að leita þegar búið er að leita alls staðar?

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.