Morgunblaðið - 23.05.2002, Side 47
UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. MAÍ 2002 47
TUGÞÚSUNDIR
landsmanna og er-
lendra gesta hafa lagt
leið sína út í Viðey
eftir að Reykjavíkur-
borg réðst í það stór-
virki á níunda ára-
tugnum að endur-
byggja Viðeyjarstofu,
koma kirkjunni í gott
horf og bæta alla að-
stöðu í eyjunni. Viðey
er í senn náttúruvin
og menningarperla
þar sem hægt er að
njóta fræðslu, halda
fundi, ráðstefnur eða
veislur. Þá er gaman
að ganga um eyna og kynnast fjöl-
skrúðugri náttúru hennar og síð-
ast en ekki síst, að eiga kyrrð-
arstund í kirkjunni.
Í nýju aðalskipulagi R-listans er
gert ráð fyrir höfn í Geldinganesi
og göngubrú út í Viðey úr Gufu-
nesi. Frá upphafi hafa þeir, sem
best þekkja til eyjunnar, lagst
gegn brúarsmíðinni og fara þar
fremstir í flokki Þórir Stephensen,
fyrrverandi staðarhaldari í Viðey,
Ingólfur Guðmundsson, formaður
Viðeyingafélagsins, Ólafur Steph-
ensen landeigandi í Viðey og Ör-
lygur Hálfdánarson Viðeyingur.
Þá hafa Fuglaverndarfélag Íslands
og Náttúruvernd ríkisins einnig
mótmælt brúartengingunni.
Meirihluti
gegn brú
Hingað til hefur
Viðey fyrst og fremst
verið náttúruvin og
menningarperla og
þar hefur ekki verið
skipulögð íbúabyggð.
Margt bendir til þess
að fyrirhuguð göngu-
brú skaði núverandi
hlutverk eyjunnar og
dragi úr sérstöðu
hennar.
Með göngubrú
út í Viðey væri hætta
á að rottur, kettir og
minkur komist óhindruð út í eyna
og vinni þar spjöll á fuglavarpi og
öðru náttúrulífi.
Þótt aðeins verði um göngu-
brú að ræða er ljóst að hún verður
mikið mannvirki. Vegna mikils
vinds og sjógangs sem oft gætir
úti á sundum er líklegt að brúin
verði nokkuð háreist og að smíða
þurfi eins konar búr utan um
brúna til varnar notendum hennar.
Eins og með mörg önnur
gæluverkefni R-listans hafa engar
tölur um kostnað við verkefnið
verið lagðar fram. Ljóst er hins
vegar að brúin yrði mikið mann-
virki og kostnaður við hana myndi
líklega hlaupa á hundruð milljóna
króna.
Síðastliðið sumar efndi Reykja-
víkurborg til viðhorfskönnunar um
framtíð Viðeyjar meðal gesta sem
heimsóttu eyna og jafnframt á
nokkrum vinnustöðum í Reykjavík.
Gott hefði verið að hafa könnunina
til hliðsjónar við umræður í fjöl-
miðlum og á vettvangi borgar-
stjórnar en einhverra hluta vegna
hefur R-listinn ekki sett þær fram
í dagsljósið. Þó hefur komið fram
að samkvæmt könnuninni er mikill
meirihluti borgarbúa eindregið
andvígur umræddri brúarsmíð.
Í Morgunsblaðsgrein eftir einn
af frambjóðendum R-listans, 16.
maí, var upptalning á náttúruperl-
um í nágrenni borgarinnar sem
Reykvíkingar geta notið, en ekki
var Viðey talin með þar. Vonandi
er þar einungis gleymsku um að
kenna.
Furðu sætir að R-listinn skuli
halda fast við þá skoðun að smíða
brú út í Viðey þegar litið er til
þess hve margt mælir gegn fram-
kvæmdinni auk þess sem andstaða
við hugmyndina er einörð og al-
menn. Með brúarhugmyndinni vill
R-listinn e.t.v. reyna að breiða yfir
það klúður, sem einkennt hefur
málefni Viðeyjar síðustu misseri
eða eftir að embætti staðarhaldara
þar úti var lagt niður.
Viðeyjar-
klúður
R-listans
Kjartan Magnússon
Höfundur er borgarfulltrúi
Sjálfstæðisflokksins.
Reykjavík
Margt bendir til þess,
segir Kjartan Magn-
ússon, að fyrirhuguð
göngubrú út í Viðey
skaði sérstöðu eyj-
arinnar og náttúru
hennar.
FYRIR nokkru skrif-
aði Guðrún Pétursdóttir
varaborgarfulltrúi
grein í Morgunblaðið og
býsnaðist yfir því að í
nýju aðalskipulagi
Reykjavíkur væri
göngustígurinn við
Ægisíðu slitinn í sundur
af flugbraut og útivist-
arsvæðið þar eyðilagt.
Beinir hún sjónum sín-
um sérstaklega að vík
einni við enda flug-
brautarinnar nálægt
Starhaga og segir að nú
séu dagar hennar taldir
ef skipulagsáform Reykjavíkurlistans
verða að veruleika. Það er með ólík-
indum hvernig sjálfstæðimenn vaða
elginn í umræðu um borgarmál en
þegar grannt er skoðað stendur ekki
steinn yfir steini. Þannig er það með
þessa vík og þetta útivistarsvæði.
Staðreyndir málsins eru þessar: Í að-
alskipulaginu 1962-1983
er umrætt svæði skil-
greint sem útivistar-
svæði. Allar götur síðan
í aðalskipulaginu 1984-
2004 sem unnið var und-
ir forystu Vilhjálms Þ.
Vilhjálmssonar borgar-
fulltrúa sjálfstæðis-
manna, hefur svæðið
verið skilgreint sem
helgunarsvæði flug-
brautarinnnar. Nýtt að-
alskipulag gerir ekki
ráð fyrir breytingum
varðandi þetta svæði í
þá veru að ekki sé
mögulegt að stunda úti-
vist þar lengur. Útivist hefur þrifist á
þessu svæði á undanförnum áratug-
um þrátt fyrir að svæðið sé innan
helgunarsvæðis flugbrautarinnar og
hafi verið það í tvo áratugi. Ný skipu-
lagsreglugerð veldur því að helgunar-
svæðið er ekki sýnt í sérstökum lit á
nýju aðalskipulagskorti eins og áður
var heldur er svæðið sýnt í sama lit og
flugvallarsvæðið sjálft. Þetta hefur
ekkert með notkun svæðisins að gera
og Guðrún Pétursdóttir hefði getað
sparað sér stóru orðin með því einu að
kynna sér málið ögn betur. En það
virðist ekki henta þeim sjálfstæðis-
mönnum um þessar mundir. Hinsveg-
ar má benda á það að nýtt aðalskipu-
lag opnar fyrir þann möguleika að
svæðið verði skilgreint sem útivistar-
svæði eftir 2024 þegar ekki er lengur
þörf á helgunarsvæði fyrir flugbraut-
ina.
Músarholusjónar-
mið Guðrúnar
Pétursdóttur
Árni Þór Sigurðsson
Reykjavík
Það er með ólíkindum
hvernig sjálfstæð-
ismenn vaða elginn í
umræðu um borgarmál,
segir Árni Þór Sigurðs-
son, en þegar grannt er
skoðað stendur ekki
steinn yfir steini.
Höfundur skipar 1. sæti
Reykjavíkurlistans.
NÚ þegar borgarbú-
ar ganga til kosninga
og velja sér stjórnend-
ur til næstu fjögurra
ára er gott að hafa það
í huga að sl. átta ár,
undir stjórn R-listans,
hafa einkennst af ráð-
leysi og hrossakaup-
um.
Það hefur alltaf ein-
kennt samkrull flokk-
anna á vinstri væng
stjórn- mála hér á
landi, að hver höndin
er upp á móti annarri.
Kosningaloforðin frá
1994 og 1998 hafa flest-
öll verið svikin og ein aðalástæðan
fyrir því er að það hefur aldrei náðst
algjör einhugur í röðum þessara
flokka. Það er heldur engin furða að
ekkert skuli geta gengið hjá þessum
flokkum. Þarna eru gamlir komm-
únistar, gamlir kratar, gamlar
kvennalistakonur og framsókn, allir
vilja vera fremstir og allir vilja ráða.
Völdin eru það sem skiptir máli og
allur tími fer í eilíf hrossakaup og
málamiðlanir. Allt er unnið með
hangandi hendi og slíkt kann ekki
góðri lukku að stýra. Reykjavík
þarfnast stöðugleika og styrkrar
stjórnar, þar sem höfuðáhersla er
lögð á það að standa við samninga.
Orð skulu standa, er oft sagt, og það
á líka við um kosningaloforð. Sundr-
ung og vingulsháttur
R-listans hefur opin-
berast sl. átta ár og nú
er mál að linni.
Við sjáum þetta alls
staðar. Það eru engin
stefnumarkmið hvað
snertir stöðumælamál-
in í miðbænum. Þar
ræður aðeins það sjón-
armið að sekta sem
flesta. Við vitum að
áframhaldandi stjórn
R-listans leiðir aðeins
til enn frekari hækk-
ana á stöðumælasekt-
unum, það er ekkert á
stefnuskrá flokksins að
lækka þær.
Málefni skemmtistaða í miðbæn-
um, sérstaklega hinna erótísku, eru
endalaust vandræðaefni. Nú síðast
afrekaði R-listinn það að banna
einkadansinn, aðaltekjulind erótísku
dansaranna, og spurt er: Hvernig á
að framkvæma þetta bann? Verður
settur maður eða menn á vegum
borgarinnar til að fylgja þessu eftir
inni á stöðunum? Eitthvað mun það
kosta borgarbúa og hvaða gæðingar
R-listans fá þann starfa að eyða
kvöldunum á erótísku stöðunum?
Málefni leigjenda í borginni hafa
algjörlega verið hundsuð þessi átta
ár og ekki er fyrirsjáanlegt að nokk-
uð muni gerast hjá R-listanum eftir
kosningar. Það mun áfram ríkja
Villta Vesturs-ástand í þeim málum.
Engin festa, aðeins sundrung!
Málefni fátækra eru algerlega
sniðgengin. Með því að loka augun-
um telur R-listafólkið að vandamálið
hverfi bara af sjálfu sér. Það er eng-
in fátækt í þeirra röðum (nema and-
leg)og þá getur hún ekki átt sér stað
annars staðar. Enginn kærleikur,
engin samúð!
Þetta eru aðeins nokkur þeirra
mála, sem kosið verður um. Hinn
kosturinn er að kjósa D-listann, lista
sjálfstæðismanna. Það hefur orðið
afar kröftug endurnýjun í röðum
þeirra og einkennist af festu og góð-
um stefnumálum. Þeir bjóða breyt-
ingar og að sjálfsögðu eiga borg-
arbúar að þiggja það boð. D-listinn
hefur gert samning við tilvonandi
kjósendur og samninga verður að
standa við. Það er hægt að ganga
eftir því, eftir kosningar, að staðið sé
við þann samning. Innantóm og
ábyrgðarlaus kosningaloforð R-
listans sl. átta ár hafa reynst hjóm
eitt og það eru engin teikn á himni
um að það verði staðið við hin nýju.
Ungt fólk, bæði í árum og anda,
einkennir D-listann. Kjósum festu í
stað sundrungar, víðsýni í stað ving-
ulsháttar.
Ó, borg, mín borg. Breytt borg til
batnaðar, undir öruggri stjórn D-
listans, og Björn Bjarnason í for-
ystu. X-D á kjördag.
Ó, borg, mín borg
Ægir
Geirdal
Reykjavík
Breytt borg til batn-
aðar, undir öruggri
stjórn D-listans, segir
Ægir Geirdal, og Björn
Bjarnason í forystu.
Höfundur er listamaður.
Stúdentamyndir
Austurströnd 8
Sími 511 1200
MEGINMARKMIÐ
stjórnmálamanna er
að skapa réttlátt og
framsýnt þjóðfélag,
þar sem hver einstak-
lingur getur notið
hæfileika sinna til
fullnustu og fær nauð-
synlegan stuðning
samfélagsins, þegar
hann þarf á því að
halda. Til að ná þess-
um markmiðum verð-
ur stjórnmálamaður að
vera í nánu samstarfi
við almenning, sem
veit best út frá eigin aðstæðum,
hvar skórinn kreppir á hverjum
tíma. Stjórnmálamaðurinn verður
að hlusta og veita svörun og úrlausn
eftir því sem tök eru á.
Í síðustu viku skrifaði ég pistil á
heimasíðu mína, www.althingi.is/-
astam um mismunandi aðgengi og
stjórnunarstíl borgarstjóraefnanna
tveggja í Reykjavík, Björns Bjarna-
sonar og Ingibjargar Sólrúnar
Gísladóttur. Svörun við pistlinum
gefur mér tilefni til að fjalla frekar
um málið.
Í pistlinum ræddi ég um ná-
granna minn sem hefur reynt að ná
fundi núverandi borgarstjóra um
nokkurra vikna skeið, án árangurs.
Samt hefur hann
hringt vikulega, eld-
snemma á þriðjudags-
morgnum, þegar tekn-
ar eru niður pantanir
um viðtal við borgar-
stjóra. Enn bíður hann
eftir viðtali. Þegar
hann loksins hefur náð
sambandi við skrif-
stofu borgarstjóra eru
viðtalstímarnir ýmist
fullir eða þeir hafa ver-
ið felldir niður.
Viðbrögð við pistli
mínum benda til að
reynsla nágranna míns sé ekki eins-
dæmi. Dæmi er um einstakling sem
reyndi í fimm vikur að fá viðtal, ár-
angurslaust. Hann er hættur að
reyna.
Björn Bjarnason, borgarstjóra-
efni Sjálfstæðisflokksins, er á hinn
bóginn frumkvöðull að nýrri nálgun
við umbjóðendur sína, með gagn-
virkri heimasíðu og opnu aðgengi
gegnum tölvupóst. Þúsundir lands-
manna hafa nýtt sér þennan greiða
aðgang að stjórnmálamanninum.
Einstaklingur sem sendi Birni
tölvupóst nýverið, fékk svar eftir 5
mínútur! Það er ekki einsdæmi. Þá
er alþekkt að biðlistar eftir viðtali
við menntamálaráðherra voru ekki
til meðan Björn gegndi því embætti.
Reykvíkingar vilja geta rætt við
þá sem þeir kjósa til trúnaðarstarfa.
Á laugardaginn er valið milli
tveggja leiðtoga til borgarstjóra.
Ólíkt yrðu Reykvíkingar betur
tengdir við borgarstjóra sinn með
Björn Bjarnason sem leiðtoga.
Fimm mínútna
eða fimm vikna
bið eftir svari
Ásta Möller
Höfundur er þingmaður
Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Reykjavík
Reykvíkingar vilja, seg-
ir Ásta Möller, geta
rætt við þá sem þeir
kjósa til trúnaðarstarfa.