Morgunblaðið - 19.06.2002, Síða 26

Morgunblaðið - 19.06.2002, Síða 26
LISTIR 26 MIÐVIKUDAGUR 19. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ BJARTAR sumarnætur, tónlist- arhátíð Hvergerðinga, hófust í sjötta skipti sl. föstudag með allvel sóttum og enn betur heppnuðum tónleikum. Gunnar Kvaran lék ekki sjálfur á þessum fyrsta viðburði af þremur, en kynnti hins vegar að vanda meginat- riði dagskrár með skemmtilegum og hugvekjandi athugasemdum frá eigin brjósti sem gáfu tónleikahaldinu auk- ið gildi. M.a. kom fram, sem hagvanir gest- ir máttu glögglega sjá, að gólfrenn- ingar Hveragerðiskirkju hefðu verið fjarlægðir til að auka hljómburð guðshússins. Varð sú líka raunin. Að vísu eru breytingar sjaldan einhlítt til bóta, enda útheimta ólíkar tóngrein- ar og áhafnir ólíka ómvist. T.a.m. virtust fiðludúó Leclairs og söngrödd Sólrúnar Bragadóttir njóta nokkurs góðs af nýbreytninni, en kannski síð- ur sterkustu píanóstaðir Schumann- kvartettsins þar sem vottaði fyrir óþægilegri glymjandi. Hugsanlega væri brúkleg málamiðlun fólgin í að skjóta teppi undir slaghörpuna. Franski ballettmeistarinn og fiðlu- snillingurinn Jean-Marie Leclair (1697–1764) átti fyrsta verk kvölds- ins, Sónötu í E-dúr fyrir tvær fiðlur án undirleiks úr höndum Guðnýjar Guðmundsdóttir og Sifjar Tulinius. Leclair bætti stórum við fiðlutækni fyrirrennara sinna, þ. á m. til aukn- ingar á tónsviði hljóðfærisins sem átti nærri eftir að tvöfaldast upp á við frá því sem var á tímum Corellis með fjölgun pósísjóna. Mátti heyra ítölsk og frönsk áhrif skiptast á í stykkinu. Það var þannig ekki laust við að hinn feneyski Vívaldi svifi yfir vötnum í I. þætti í prýðisgóðum tvíleik þar sem fiðlurnar jafnframt skiptust á for- ystu, þó að fiðlutónninn verkaði stundum pínulítið hvass í endurkasti steingólfsins. 1. fiðlan leiddi alfarið í II. þætti (largo) við brotinn hljóma- undirleik hinnar, en 2. fiðlan aftur á móti í tríókafla menúettsins (III.), einkennilegri blöndu af snemm-„gal- öntum“ stíl og síðbarokki með berg- málsdýnamík. Loks var hressilegur Allegro-lokaþáttur, aftur með jafnri skiptingu á leiðarahlutverkum. Mikill þokki og reisn var yfir verkinu, sem þær Guðný og Sif komu sannfærandi til skila jafnvel þótt fiðlutónn Sifjar hljómaði áberandi mýkri og „upphaf- legri“ (s.s. sléttari) en rómantískur tónn Guðnýjar. Eftir almennum undirtektum að dæma fer voldug bel canto túlkun í ljóðasöng furðulítt fyrir brjóstið á hérlendum áheyrendum. Menn vilja greinilega frekar mikinn hljóm en marghliða og skýra textatjáningu. Meðan svo er, er varla við því að bú- ast að margir óperumenntaðir söngv- arar okkar freistist til að leggja sig sérstaklega í líma við fjölbreytni og fágun hins smágerða. Að aðalstarf á óperusviði þurfi síður en svo að standa í vegi hins, séu vilji og hæfi- leikar fyrir hendi, sást hins vegar svo ekki varð um villzt á eftirminnilegri framkomu June Andersons á Listahátíð nýverið, og væri óskandi að yrði til að breikka smekk hlust- enda og örva íslenzka óperusöngvara til frekari dáða á nótum hins fíngerða þegar ljóðasöngur er annars vegar. Með þessu er engan veginn verið að kasta rýrð á framlag Sólrúnar Bragadóttur í meðförum hennar og Peters Máté á sex sönglögum Schu- berts, enda gætti víða eftirtektar- verðrar persónulegrar tjáningar á til- finningum ljóðanna með m.a. áhrifamiklum styrkleikabreytingum. Eftir sem áður saknaði maður fulloft opnari (og stundum sléttari) brjóst- tóns í þágu textans, því þó að ekkert væri upp á raddfyllingu og drama- tískan glæsileika að klaga, varð skorturinn á einkum fjölbreytni í tón- beitingu smám saman til að gera túlkunina einhæfari en efni stóðu til. Áhrifamestu lögin voru hið draum- kennt líðandi An den Mond (með Beethovenslegum „tunglskins“- arpeggjum í píanóinu), þar sem Sól- rún syndi öfundarverða úthald- stækni, og Der Zwerg sem skartaði blóði drifinni dramatík við kraftmik- inn en ávallt næman meðleik Peters Máté. Kynnir kvöldsins hét tónleikagest- um efnislega fyrsta flokks kammer- upplifun með lokaverkinu, Píanó- kvartett Roberts Schumanns í Es-dúr Op. 47, er Miklos Dalmay flutti ásamt strengjatríói Sifjar Tul- inius, Guðmundar Kristmundssonar og Bryndísar Höllu Gylfadóttur. Og það stóð vissulega heima. Kvart- ettinn, sem undir kom á sama frjóa „kammertónlistarári“ Schumanns (1842) og hinn mun kunnari Píanó- kvintett hans Op. 44 í sömu tónteg- und, var svo sneisafullur af andríki, lífsorku og ægifegurð að athygli manns límdist við með tonnataki frá fyrstu til síðustu nótu í bráðskemmti- legum flutningi þeirra fjórmennn- inga. Meðal ótal hugfengra augnablika mætti kannski nefna nærri skeið- klukkusamtaka spiccato spila- mennsku þeirra félaga í 6/8-takts hraðsaumssveiflu Scherzo-þáttarins (II.), óviðjafnanlega eterísku upp- hafninguna í þyngdarlausum orgel- punkts-kóda III. þáttar (Andante cantabile) og eldsnarpan funa loka- þáttar (IV., Vivace), þar sem Schu- mann – líkt og í Op. 44 fínalnum – beitir innblásnum hermikontra- punkti meistara Bachs fyrir litríkum rómantískum vagni sínum með til- þrifamiklu strettó-hámarki í lokin. Þar sem oftar þurfti fereykið að vísu að taka á öllu sínu, en útkoman varð líka með þeim glæsibrag, að halda mætti að samæfingar hefðu ekki numið dögum, heldur vikum. Sneisafylli af andríki, lífsorku og ægifegurð TÓNLIST Hveragerðiskirkja Leclair: Sónata nr. 2 í E. Schubert: 6 sönglög. Schumann: Píanókvartett í Es Op. 47. Guðný Guðmundsdóttir, Sif Tul- inius, fiðlur; Sólrún Bragadóttir sópran; Peter Máté, Miklos Dalmay, píanó; Guð- mundur Kristmundsson, víóla; Bryndís Halla Gylfadóttir, selló. Föstudaginn 14. júní kl. 20:30. KAMMERTÓNLEIKAR Ríkarður Ö. Pálsson ÞAÐ ER söguleg staðreynd, að um og eftir aldamótin 1900 voru kórar nær einu flytjendur tónlistar hér á landi og það sem meira er, voru næstum einir um að flytja nýja íslenska tónlist. Þessi þróun er samstíga þeirri er átti sér stað í Evrópu við lok 16. aldar, sem nefnd hefur verið gullöld kórtónlistar, er lauk þá óperu- og hljóðfæratónlist tók að eflast með tilkomu nýrra hljóðfæra. Gullöld kórtónlistar á Ís- landi hefst um miðja 19. öldina og skarast um nokkur ár við stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík 1930 og þá Sinfóníuhljómsveit Íslands og einnig síðar, er Íslenska óperan tók til starfa. Það eru þessi skil, sem íslenskir karlakórar eru nú að komast yfir og hefur valdið því, að þeir hafa ekki fyllilega náð að halda í við þró- unina, á sviði tónsköpunar og flutn- ings. Einn elsti karlakór landsins, Karlakórinn Þrestir, hélt um síð- ustu helgi upp á 90 ára starfs- afmæli með veglegri kórveislu og buðu meðal annars til gleðinnar sæskum karlakór, Orphei Drängar (O D), sem stofnaður var upphaf- lega sem stúdentakór 30. október 1853 og á því á næsta ári 150 ára afmæli. Fyrsti stjórnandi kórsins var Oscar Arpi (1824–1890) en undir hans stjórn söng kórinn á heims- sýningunni í París 1867. Árið 1910 var Hugo Alfvén (1872–1960) ráð- inn tónlistarstjóri við háskólann í Uppsölum og tekur þá við stjórn O D, og hafði hann óslitið á hendi til 1940, er Carl Godin var ráðinn að- stoðarstjórnandi. Auk fyrrnefndra kórstjóra er rétt að geta þess að Eric Ericson, einn frægasti kór- stjóri Svía, stjórnaði O D um árabil. Núverandi stjórnandi kórsins er Robert Sund og óhætt að segja að þessi kór undir hans stjórn slær á allt vanmat varðandi framtíð karla- kórssöngs, bæði hvað snertir við- fangsefni og þá ekki síður fyrir frá- bæran flutning. Fyrsta verkefnið var Benedica- mus Domino eftir Penderecki og þar eftir söng kórinn Psaume 121 eftir Milhaud og Traumlicht eftir R. Strauss, er hann samdi 1935 fyrir fimm radda karlakór (TTBBB), við kvæði eftir Rückert. Í þessum verkum kom fram einstaklega fal- legur hljómur kórsins og í verki Milhauds vakti sérstaka athygli glæsilegur söngur bassanna. Þjóð- vísur voru viðfangsefnin í næstu þremur verkum, fyrst eftir Veljo Tormis (1930) en í því lagi var Greger Erdös einsöngvari. Þá var söngverk eftir tékkneska tónskáldið Jaroslav Kricka (1882) og síðasta verkið fyrir hlé var eftir japanska tónskáldið Michio Mamiya. Í öllum þessum verkum var söngur kórsins einstaklega glæsilegur, svo í engu er ofsagt að Orphei Drängar sé einn af bestu karlakórum í heim- inum, ef ekki sá besti. Á seinni hluta tónleikanna voru sungin verk eftir Saint-Saëns, Sibelius, finnska tónskáldið Toivo Kuula (1883–1918), þýsk-norska tónskáldið F.A. Reissiger (1809– 1883), við kvæði Björnsterne Björn- son, um Ólaf Tryggvason, tvær út- setningar eftir Grieg (einsöngvarar Hinrik Karlsson og Johan Sunde- löf), þá Kung Liljekonvalje, eitt vin- sælasta lag sænska tónskáldsins Davíðs Wikander (1884–1955) og eftir Folke Rabe (1935–) var fluttur sérlega skemmtilegur kórleikur, þar sem tónskáldið leikur sér að alls konar óvenjulegum hljóðmynd- unum og atferli kórfélaga, á mjög gamansaman máta. Tónleikunum lauk svo með hefðbundnu söngverki eftir Agust Södermann (1832–1876), er heitir I bröllopsgården, sem er mikið gleðisöngverk. Orphei Drängar er sannarlega frábær kór, þar sem saman fer ein- stök hljómfegurð og agaður söngur. Túlkun og mótun stjórnandans, Ro- bert Sund, er blátt áfram stórkost- leg, hvort sem fengist var við al- vöruþrungin verkefni eða leikið á gamansama strengi, svo að tónleik- arnir í heild verða þeim er á hlýddu, hreint út sagt, ógleyman- legir. Jón Ásgeirsson Ógleyman- legur söngur TÓNLIST Hallgrímskirkja Orphei Drängar, undir stjórn Robert Sund, fluttu karlakórsverk samin um og eftir aldamótin 1900. Föstudagurinn 14. júní 2002. KARLAKÓRSTÓNLEIKAR HOLLENSKI listamaðurinn Aernout Mik er Íslendingum ekki með öllu ókunnur, eftir að hafa haldið vinsælt námskeið í Listaháskóla Ís- lands í meðferð myndbanda og mynd- bandsupptöku, og með því miðlað upprennandi listamönnum hér heima af viðamikilli reynslu sinni sem kenn- ari. Hafi Mik ekki verið mönnum kunnur fyrr þá má segja að hann hafi staðfest frægð sína árið 1997, þegar hann var valinn sem fulltrúi lands síns á Tvíæringinn í Feneyjum. Nú er hann gestur Listahátíðar í Nýlista- safninu nýja. Höfuðeinkenni á verkum Mik er nákvæmt fyrirkomulag hans á mynd- varpinu í sölum þeim sem hann hefur til umráða. Þannig eru verk hans sambland af myndbandsverkum og innréttingum, gaumgæfilega smíðuð- um. Í Nýlistasafninu heppnast þessi smíði vel því Mik leyfir sér meiri sveigjur í þilinu en hann er vanur að bjóða. Að vísu saknar maður letisóf- anna frá Feneyjum, en þröngur gang- urinn meðfram þilbyggingunni býður ef til vill ekki upp á mikla flatmög- unarstemmningu. Hins vegar verða til villugangar sem ekki leiða til verka, en skapa umgjörðinni þess í stað nýstárlega virkni völundarhúss sem vekur spurn um frekari þróun Aernout Mik. Það vill nefnilega gleymast að Mik er myndhöggvari að mennt, og áhugi hans á fólki sem fóðri fyrir upptöku- vélar stafar af tilfinningu hans fyrir líkamshreyfingu í rými. Í vissum skilningi er hann nokkurs konar nú- tímalegur Degas. Ungfrú Lala sem hékk á kjálkunum hátt yfir Sirkus Fernando, 1879, þegar Degas „náði“ henni hangandi á kaðlinum, gæti fullt eins hafa sprottið fram í myndbandi eftir Mik. Eins og impressjónistinn frægi reynir Mik að hemja alla aug- ljósa myndbyggingu og áherslu á ákveðin atriði sem stýrt gætu ein- stökum merkingarmiðum. Eins og Degas veit Mik nefnilega ofurvel að raunveruleikanum er ekki raðað heldur ræður hending ein hvernig við höfnum í ákveðnu rými á gefinni stund. Tilviljun án reglu stýrir hópi fólks og þar er sjaldnast nokkur í fyrirrúmi. Myndbygging, uppbygg- ing, ákveðin framvinda og leiðarstef eru listrænir taktar úr málverkum og bókmenntum, til þess gerðir að hag- ræða mynd okkar af tilverunni, ef til vill til að sætta okkur við heim sem fer sínu fram án þess að við fáum mikið að gert. Þannig hafa listamenn og rithöf- undar ætíð hegðað sér eins og grískir guðir og gripið inn í óreiðuna til að fylgja henni til fagurfræðilegs sam- ræmis. Mik forðast slíkan guðdóm- legan hamingjuendi. Til þess notar hann endurtekning- ar, ásamt gervimennum sem hegða sér ávallt með sama hætti. Mik bendir okkur á hve nauðhugul við erum í hegðun okkar, jafnvel þegar himinn og jörð eru að farast eins og jafnan gerist í hringtengdum myndböndum hans. Óeirðirnar í Glutinosity, verð- bréfahrunið í Middlemen, veðraham- urinn í 3 Laughing and 4 Crying, og frauðplastsatið og moldarsturtan í Piñata, gefa allgóða mynd af ástandi því sem Mik skapar til að kanna mannlegt atferli á stundum múgæs- ingar og uppþota, þegar venjulegt hversdagslíf fer úr skorðum og við gleymum háttvísi okkar og yfirvegun. Þá taka við vélræn viðbrögð sem ekki eru alltaf eftir bókinni en grundvall- ast þó á einhvers konar ósjálfráðri neyðaráætlun, væntanlega svo við fáum komist sæmilega óbuguð gegn- um skyndilegt áfall. Hafi einhver efa- semdir um að svona viðfangsefni hæfi myndhöggvara ætti sá hinn sami að skoða Auguste Rodin ögn betur. Hvað hefði hann ekki gert hefði hann átt handhæga myndbandstökuvél? Úr einu af myndbandsverkum Aernouts Mik í Nýlistasafninu. Hegðunarmynstur hópsins MYNDLIST Nýlistasafnið, Vatnsstíg 3 Til loka júní. Opið miðvikudaga til sunnu- daga frá kl. 13–17. MYNDBÖND OG MYNDVARP AERNOUT MIK Halldór Björn Runólfsson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.