Morgunblaðið - 20.06.2002, Side 30
LISTIR
30 FIMMTUDAGUR 20. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Á
17. júní var karnival-
stemning á Hverf-
isgötunni, dans og
tónlist úr öllum
heimshornum, m.a.
bongótrommuleikur og afródans.
Í sjónarrönd við Ingólf stendur
Alþjóðahúsið og þar er nýjasta
kaffihúsið í bænum, Café Culture,
á matseðlinum þennan þjóðhátíð-
ardag voru m.a. réttir frá Suð-
vestur-Afríku.
Þjóðhátíðardagurinn með
ítalskt kaffi í bolla, framandi mat í
disk, konur í afródans í augum,
bongótrommur í eyrum, og loks
íslenska fánann í höndum, ásamt
list annarra þjóða á veggjum.
Fyrir ári var spurt á málþingi:
„Þjóðhátíð
hverra?“ og
sagnfræð-
ingur spurði:
„Gleymast
einhverjir
hópar á þess-
um degi? Eru einhverjir útilok-
aðir frá fögnuðinum og þjóðlífinu
yfirleitt?“ Og sagði: „Íslendingar
eru að breytast, mynd þeirra er
að breytast, og nýir hópar inn-
flytjenda geta auðgað hugmynd-
ina um þjóðernið, þess vegna
þurfum við að spyrja hvort eitt-
hvað hindri aðgang aðfluttra að
þjóðerninu, hvort þeim séu settar
einhverjar skorður uppruna, lit-
arháttar, trúarbragða, málhreims
eða einhvers annars.“ (Guðfríður
Lilja Grétarsdóttir. Mbl. 16/6 ’01).
Spurningunni „Þjóðhátíð
hverra?“ var varpað fram á ell-
eftu stundu, því miklar umræður
spunnust í samfélaginu í kjölfar
fregna af átökum unglingahópa í
miðborg Reykjavíkur að kvöldi
þjóðhátíðardagsins. Sú stað-
reynd, að unglingar af asísku
bergi brotnir lentu í útistöðum við
önnur ungmenni, varð til þess að
fólk spurði hvort fordómar gegn
útlendingum birtust nú í ofbeldi?
Það gerist afar sjaldan, þótt at-
hyglin verði mikil. Kynþátta-
fordómar birtast aftur á móti í
flestum tilfellum á dulinn og
lúmskan hátt (e. every day rac-
ism), sem mun erfiðara er að
vinna gegn. Hér eru nokkur
dæmi: „„Þetta fólk er bara svo
ólíkt okkur að það getur aldrei að-
lagast“, „ég hef ekkert á móti
þessu fólki, en mér finnst bara að
það eigi að vera heima hjá sér“,
eða „ég hef ekkert á móti þeim í
sjálfu sér, ég vil bara halda Ís-
lendingum „hreinum“.“ (Dæmi
Guðrúnar Pétursdóttur. Mbl. 8/6
’01).
Alþjóðahús er sjálfstæð stofn-
un, en Reykjavík, Kópavogur,
Hafnarfjörður, Seltjarnarnes og
Reykjavíkurdeild Rauða Kross
Íslands leggja fram fé til rekstr-
ar. Alþjóðahúsið var sett á fót eft-
ir að Miðstöð Nýbúa lokaði. Á
þjóðhátíðardaginn kom mikilvægi
staðsetningarinnar í ljós. Það var
í kvikunni og starfsmenn og gest-
ir tóku þátt í gleðinni, og lögðu
fram sinn skerf.
Húsið stendur við Hverfisgötu
og er númer 18. Það er hátt og
skemmtilegt að sjá og gluggar
þess eru stórir og geta gestir á
Café Culture verið sýnilegir og
séð margt sjálfir. Magnús Th. S.
Blöndahl teiknaði og byggði húsið
árið 1906 fyrir Gest Einarsson frá
Hæli og Pétur Brynjólfsson ljós-
myndara.
Fyrsta hæðin ilmar, enda
markmið Alþjóðahúss fyrst og
fremst að vera vettvangur fjöl-
menningarlegs samfélags á Ís-
landi þar sem virk samskipti milli
þeirra sem eru af erlendum upp-
runa og þeirra sem eru af íslensk-
um uppruna, eiga sér stað. Mark-
miðið er að menningarhópar
standi jafnfætis, beri gagnkvæma
virðingu hver fyrir öðrum, og
vinni saman að uppbyggingu hins
fjölmenningarlega samfélags.
Í Alþjóðahúsinu á að vinna
gegn fordómum í samfélaginu
með margvíslegri fræðslu, kynn-
ingu á ólíkri menningu, menning-
arviðburðum og með því að skapa
sameiginlegan vettvang inn-
fæddra og aðfluttra íbúa landsins
(www.ahus.is).
Nákvæmlega þetta var upp á
teningnum í Alþjóðahúsinu á
þjóðhátíðardaginn, og þar var
ekki þögn heldur umræða. Stað-
setningin vinnur gegn þögninni
sem talað var um á þjóðhátíð-
armálþinginu 2001: „Þögnin er
eitt sterkasta vopn kynþátta-
fordóma, því þögn jafngildir sam-
þykki.“ Þögnin er úti, og ástæða
til að ræða betur um ósýnilegu
fordómanna.
Fjölmiðlar eru meðal þeirra
sem eiga ekki að þegja í upplýs-
inga- og skoðanaflóðinu um inn-
flytjendur, þeir þurfa að greina
og varpa skýru ljósi á málið. Samt
held ég að það sé betra að þegja
heldur en að nálgast málin óhugs-
að. Blaðamaður þarf að undirbúa
sig vel, hann þarf að þekkja að-
ferðina til að falla ekki sjálfur í
pytt fordómanna. Vinnan gegn
fordómum mun að einhverju leyti
fara fram í fjölmiðlum, því sam-
félagið allt er ábyrgt, og nefna má
að einstaklingar með erlent rík-
isfang með lögheimili á Íslandi
eru nú um tíu þúsund.
Bakslagið verður harðara og
erfiðara ef fjölmiðlar hafa illa bú-
ið sig undir breytta sjálfsmynd
þjóðarinnar. Þetta er ekki létt-
vægt. Þjóðin þarf að gera allt sem
hægt er að gera til að koma í veg
fyrir ofbeldisfulla árekstra á milli
mismunandi hópa. Meginverk-
efnið og það erfiðasta er að vinna
bug á duldu fordómunum, og þá
þarf umræður á heimilum, í skól-
um, í fjölmiðlum og á vinnustöð-
um og einhver sameiginleg verk-
efni milli hópanna til að skapa
samkennd.
Reyndar er þetta starf löngu
byrjað og hafa ýmsar stofnanir og
skólar unnið gott starf, t.d. Fé-
lagsþjónusta Reykjavíkur og
ýmsir góðir skólar á öllum stig-
um. Ef til vill verður nýja Al-
þjóðahúsið til þess að endurnýj-
aður kraftur færist í verkefnið,
þögnin hverfi og umræðan verði
linnulaus. En á sömu stundu og
umræðan hikar eða hættir skjót-
ast fordómarnir aftur fram úr
skúmaskotunum.
Að minnsta kosti geta allir
fengið sér kaffi í Alþjóðahúsinu,
aðra drykki eða rétti og freistað
þess að láta menningar mætast,
og kanna hvað gerist.
Alþjóðleg
þjóðhátíð
Þjóðhátíðardagurinn með ítalskt kaffi í
bolla, framandi mat í disk, konur í afró-
dans í augum, bongótrommur í eyrum,
og loks íslenska fánann í höndum,
ásamt list annarra þjóða á veggjum.
VIÐHORF
Eftir Gunnar
Hersvein
guhe@mbl.is
TÓNLISTARSKÓLANUM í
Reykjavík var slitið í Háteigskirkju í
72. sinn á dögunum. Þetta vor útskrif-
uðust nemendur úr tónmenntakenn-
aradeild skólans í síðasta sinn. Tón-
menntakennaradeildin var stofnuð
árið 1959 og hefur hún lagt allmikinn
skerf til tónmenntar í landinu þennan
tíma, en alls hafa 210 tónmennta-
kennarar verið útskrifaðir frá deild-
inni frá því að hún var stofnuð. Á
næstu árum mun slíkt nám flytjast yf-
ir í tónlistardeild Listaháskóla Ís-
lands (LHÍ). Tónlistarskólinn á eftir
að útskrifa aðra tónlistarkennara, þ.e.
hljóðfæra- og söngkennara, næstu
tvö árin, en 3–4 ára nám við tónlist-
ardeild LHÍ byggist upp á sama tíma.
Að þessu sinni brautskráðust 18
nemendur frá skólanum með 20 loka-
próf, en tveir nemendur lauku tvenns
konar prófum. Sjö nemendur luku
tónmenntakennaraprófi, fjórir nem-
endur blásarakennaraprófi, tveir
strengjakennaraprófi, fjórir píanó-
kennaraprófi, tveir burtfararprófi og
einn einleikaraprófi.
Verkfall tónlistarskólakennara
setti svip sinn á haustönn skólans, en
til að bæta upp kennslutap nemenda
voru sum árleg próf felld niður og
lögð áhersla á kennslu í staðinn og
einnig var kennt lengur á vorönn en
áður hefur tíðkast.
Vegna verkfalls var ekki eins mikið
um heimsóknir erlendra tónlistar-
manna til námskeiðahalds. Samt
héldu blástursleikarar frá Noregi
stutt námskeið fyrir blásaradeild og
Próf. Shoshana Rudiakov frá Tónlist-
arháskólanum í Stuttgart hélt nám-
skeið fyrir píanónemendur og kenn-
ara. Atli Heimir Sveinsson tónskáld
hélt fyrirlestra með tóndæmum um
tvo lærimeistara sína, þá Bernd Alois
Zimmermann og Karlheinz Stock-
hausen. Einnig hélt Tryggvi Bald-
vinsson tónskáld fyrirlestur um eigin
tónsmíðar með tóndæmum.
Þá hélt Eiríkur Stephensen skóla-
stjóri og trompetleikari fyrirlestur
um tónlistarkennslu á landsbyggð-
inni.
Að áhrifum verkfallsins frátöldum
var tónleikahald með mesta móti, en
samtals vorur haldnir 36 tónleikar
innan skóla og utan. Opinberir tón-
leikar utan skóla voru 20 talsins, en 16
tónleikar innan skólaveggja, samtals
36 tónleikar.
Verðlaun Listasjóðs Tónlistarskól-
ans í Reykjavík fyrir frábæran árang-
ur í námi, þ.e. ágætiseinkunn úr með-
altali allra námsgreina, hlaut að þessu
sinni einn nemandi, Þórarinn Már
Baldursson víóluleikari, en hann lauk
tvenns konar prófum, burtfararprófi
og strengjakennaraprófi.
Nemendafélag Tónlistarskólans í
Reykjavík og nemendur í skólanum
gáfu bókasafni skólans óvænta gjöf,
geisladiska og bækur að andvirði
tæplega 70 þúsund krónur. 30 ára
júbílant, Selma Guðmundsdóttir,
píanóleikari og forseti Wagnerfélags-
ins á Íslandi, færði skólanum bókar-
gjöf um Richard Wagner og 25 ára
júbílantar gáfu skólanum forláta
skrifstofustól. Þess má geta að fyrr á
vorönn hafði Félag tónlistarskóla-
kennara gefið skólanum andvirði
vandaðs píanóstóls í tilefni 70 ára af-
mælis skólans árið 2000. Að lokum
gáfu þeir nemendur sem nú útskrif-
uðust frá skólanum gjafabréf frá
versluninni 12 tónum að andvirði 31
þúsund krónur.
Tónlistarskólanum í Reykjavík slitið í 72. sinn
Átján nemendur braut-
skráðir að þessu sinni
Nemendur sem brautskráðust frá Tónlistarskólanum í Reykjavík nú í vor ásamt skólastjóra, Halldóri Haraldssyni.
VIÐURKENNING úr Listasjóði
Guðmundu Kristinsdóttur fyrir árið
2002 var afhent á Kirkjubæjar-
klaustri sunnudaginn 16. júní sl., en
þann dag var opnuð sýning á verk-
um úr Errósafni í Kirkjubæjarstofu.
Viðurkenningin var afhent við opn-
un sýningarinnar, sem haldin er í
tilefni 100 ára afmælis móður Erró,
Soffíu Kristinsdóttur, en afkom-
endur hennar komu saman á
Kirkjubæjarklaustri af því tilefni.
Erró afhenti viðurkenninguna
ásamt ungri frænku sinni, Ólöfu
Benediktsdóttur, en hana hlaut að
þessu sinni listakonan Sara Björns-
dóttir. Þetta er í fimmta sinn sem
viðurkenningin er veitt úr sjóðnum
en með henni fylgir fjárstyrkur að
upphæð 300 þúsund krónur.
Sara er fædd árið 1962. Hún sett-
ist í Myndlista- og handíðaskólann
haustið 1991 og útskrifaðist úr fjöl-
tæknideild skólans árið 1995. Eftir
það hélt hún til Englands, þar sem
hún stundaði framhaldsnám við
Chelsea College of Art and Design í
London 1996-97.
Sara hélt sína fyrstu einkasýn-
ingu á Mokkakaffi sumarið 1995.
Frá þeim tíma hefur hún haldið
fimm einkasýningar og tekið þátt í á
þriðja tug samsýninga, bæði hér á
landi og erlendis, m.a. á Norður-
löndunum, í Bretlandi, Frakklandi,
Þýskalandi og í Venezuela, þar sem
hún tók þátt í alþjóðlegri sýningu á
síðasta ári. Sara hlaut styrk úr
Myndlistarsjóði Pennans árið 2001,
hefur dvalið á gestavinnustofu í
Finnlandi og hefur hlotið ferða-
styrki menntamálaráðuneytisins í
tvígang.
Segja má að helsta einkenni á
myndlist Söru síðustu ár hafi verið
notkun gjörninga og myndbands
ásamt þeim efnivið sem þjónar hug-
myndum verkanna hverju sinni.
Verkin fjalla oftar en ekki um átök
milli andstæðna eða andstæðar hlið-
ar sama viðfangsefnis. Einnig hefur
hún unnið mikið út frá stað og
stund, og glímir þannig við ólík um-
hverfi og staði í framsetningu verka
sinna og gjörninga til að draga fram
hina ósýnilegu fegurð í umhverfinu
sem gerir lífið betra og áhugaverð-
ara. Segja má að fólk, samskipti
þess og mannlífið almennt séu hrá-
efni þeirrar listar, sem Sara Björns-
dóttir hefur kosið að fást við.
Listasjóður Guðmundu S. Krist-
insdóttur frá Miðengi er stofnaður í
tilefni af gjöf Errós á andvirði íbúð-
ar að Freyjugötu 34, er Guðmunda
móðursystir hans hafði arfleitt hann
að. Markmið Listasjóðsins er að
styrkja listakonur með því að veita
árlega sérstakt framlag til við-
urkenningar og eflingar á list-
sköpun kvenna. Sjóðurinn er sjálfs-
eignarstofnun í vörslu borgarsjóðs
Reykjavíkur en umsjón með sjóðn-
um hafa Reykjavíkurborg og Erró-
safn. Stjórn sjóðsins skipa for-
stöðumenn Listasafns Reykjavíkur,
Listasafnsins á Akureyri og Lista-
safns Íslands. Forstöðumaður Lista-
safns Reykjavíkur er formaður
sjóðsstjórnar.
Úthlutað úr Listasjóði Guðmundu Kristinsdóttur
Sara Björnsdóttir hlýtur
viðurkenninguna í ár
Morgunblaðið/Eiður Björn Ingólfsson
Erró, Ólöf Benediktsdóttir og
Sara Björnsdóttir að afhend-
ingu lokinni.