Morgunblaðið - 23.11.2002, Blaðsíða 50
MINNINGAR
50 LAUGARDAGUR 23. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna,
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Kæri Torfi minn, þakka þér fyr-
ir samfylgdina í gegnum öll árin.
Sigrún (Sía).
HINSTA KVEÐJA
✝ Páll Guttormssonfæddist á Hall-
ormsstað 25. maí
1913. Hann lést á
Heilbrigðisstofnun-
inni á Egilsstöðum 17.
nóvember síðastlið-
inn. Foreldrar hans
voru Guttormur Páls-
son skógarvörður og
Sigríður Guttorms-
dóttir. Guttormur var
bóndi á Hallormsstað
jafnframt skógar-
varðarstarfinu. Páll
ólst upp á Hallorms-
stað hjá foreldrum
sínum, vann á unglingsárum al-
geng sveitastörf, auk þess að vinna
í gróðrarstöð Skógræktarinnar á
Hallormsstað. Veturinn 1933–1934
sat hann í bændadeild Bændaskól-
ans á Hólum í Hjaltadal. Árið 1936
var hann við verklegt nám í skóg-
rækt hjá þekktum, dönskum skóg-
areiganda, Muus að nafni, þar sem
fleiri íslenskir skógræktarmenn
höfðu verið áður. Árið 1937 var
hann á skógræktarskólanum í
Steinkjer í Þrændalögum í Noregi,
og lauk þaðan prófi sem skóg-
tæknifræðingur, fyrstur Íslend-
inga. Árin 1938–1939 var hann
skógarvörður Skóg-
ræktar ríkisins á
Vöglum í Fnjóskadal,
en frá 1940–1973
verkstjóri í gróðrar-
stöðinni á Hallorms-
stað. Næsta áratug-
inn til sjötugs vann
hann ýmis störf við
umhirðu í Hallorms-
staðarskógi. Hann
var formlega veður-
athugunarmaður
Veðurstofu Íslands á
Hallormsstað 1954–
1989, en hafði í raun
skráð þær athuganir
frá febrúar 1941.
Páll hlaut sérstaka viðurkenn-
ingu Skógræktarfélags Íslands
1981 og hann var heiðursfélagi
Skógræktarfélags Austurlands.
Páll flutti í íbúð fyrir aldraða á
Egilsstöðum árið 1990, en hafði áð-
ur búið í hálfan annan áratug á
Sólheimum, býli í jaðri Hallorms-
staðarskógar. Hann var ókvæntur
og barnlaus.
Útför Páls verður gerð frá Eg-
ilsstaðakirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30. Jarðsett
verður í grafreitnum á Hallorms-
stað.
„Vinir í dag, vinir á morgun, vinir
alla daga.“ Þannig kvaddi Páll
Guttormsson, móðurbróðir okkar,
okkur systkinin ævinlega þegar
hann hélt aftur austur eftir
skemmri eða lengri dvöl fyrir sunn-
an.
Skógurinn, Mörkin og fljótið tog-
uðu hann til sín, eilíflega og enda-
laust. Þar var hans heimur, hans
hugur og hans tryggð. Fljótsdals-
hérað, plönturnar og ævistarfið.
Langafi Páls, séra Sigurður
Gunnarsson alþingismaður, var síð-
asti sitjandi prestur á Hallorms-
stað. Dóttir séra Sigurðar, Elísa-
bet, féllst á um aldamótin 1900 sem
ábúandi á Hallormsstað að skóg-
urinn yrði friðlýstur og stóð jafn-
framt fyrir því að Guttormur sonur
hennar færi í skógræktarnám, einn
fyrstur Íslendinga. Guttormur, fað-
ir Páls, var skógarvörður á Hall-
ormsstað frá 1909- 1955, og því
brautryðjandi í skógrækt á Íslandi.
Segja má því að Páll hafi tekið
skógræktarstarfið í arf; það hafi
verið hans ættarfylgja.
Trúlega hafa fáir unnið harðari
höndum í skógrækt á Íslandi. Trú-
lega hefur enginn ræktað jafnmik-
inn skóg og trúlega hefur enginn
farið fram á jafnlítið fyrir sína per-
sónu.
Páll Guttormsson, skógfræðingur
var alinn upp í anda skyldurækni
og vinnuhörku 19. aldar, og fæðing-
arstaðurinn Hallormsstaður varð
starfsvettvangur hans alla ævi ef
undan er skilin skólaganga hans í
Noregi er hann lærði til skógfræð-
ings.
Palli frændi var í okkar augum
ókrýndur konungur í skógræktar-
stöðinni á Hallormsstað, Mörkinni,
sem verkstjóri yfir sumarfólki
skógræktarinnar. Þar komu saman
úr öllum áttum lífsglaðar ungmeyj-
ar, harðduglegar matráðskonur og
stálpaðir strákar og reyndir skóg-
ræktarmenn sem sváfu í tjöldum
allt sumarið, ræktuðu skóg á dag-
inn og sungu og spiluðu á gítar og
mandólín á kvöldum við niðinn í
Kerlingará, í návist skálda, skóla-
fólks og ungra húmanista sem sog-
uðust að Hallormsstað eins og að
lífsins einu tæru lind.
Páll Guttormsson var óvenjuleg-
ur maður og margslunginn og
nokkuð sérstakur í háttum þannig
að ókunnugir áttu ekki auðvelt með
að átta sig á manninum. Þess vegna
var hann miklu áhugaverðari en
flestir samferðamenn hans. Páll
kunni frekar illa við sig í marg-
menni en í fámenni var Páll hvers
manns hugljúfi og átti þá til óborg-
anlegt látbragð og tilsvör sem gátu
fengið nærstadda til að veltast um
af hlátri. Ekki voru hans eigin við-
brögð síðri ef hann heyrði góða at-
hugasemd eða hnyttin tilsvör. Átti
hann þá til að reka upp roknahlátur
svo að undir tók í húsakynnum
jafnframt því að taka feiknarleg
bakföll og slá sér á lær.
Páll var skarpgreindur með
óbrigðult minni og mikið næmi fyr-
ir umhverfi sínu. Hætt er við að
með andláti hans sé farinn forgörð-
um hafsjór af miklum fróðleik í
náttúrufræðum og veðurfræði sem
hann hafði viðað að sér á nær 60
ára starfsævi. Þó er ekki að vita
nema í kompum hans og dagbókum
geti leynst mikill fróðleikur sem
bíður þess að unnið verði úr. Í því
sambandi voru veðurathuganir Páls
fyrir Veðurstofu Íslands sérstakur
kapítuli en hann hafði með höndum
veðurathuganir í 48 ár eða frá febr-
úar 1941 til janúar 1989, enda var
veðurfar Fljótsdalshéraðs honum
lifandi reynsla sem hann gat vitnað
til sí og æ.
Nú þegar Páll er allur hlýtur að
koma upp í hugann hið fórnfúsa
lífsstarf hans, enda má með nokkr-
um sanni segja að hver lundur á
Hallormsstað beri merki umhyggju
hans, hver planta hans ástúðar og
hver reitur nærfærni hans og
skyldurækni.
Íslensk skógrækt og Austurland
eiga honum mikið að þakka. Við
systurbörn hans og fjölskyldur
okkar þökkum honum yndislegar
samverustundir um leið og við
þökkum samfylgdina og vináttu í
áratugi.
Að leiðarlokum finnst okkur sem
við skynjum að bjarkirnar brosi
gegnum tárin og bjóði honum góða
nótt.
Eggert, Guttormur,
Sigríður og Þorsteinn.
Hláturinn ólgaði úr brjósti hans,
góðlátlegur fyrst, svo ofsakátur, sló
höfðinu aftur, vinstri fóturinn small
við gólfið og höndin líkt og féll nið-
ur á við og svo búkurinn á eftir í
snöggri hliðarsveiflu og upp aftur.
Var í kaffi á afmælisdaginn sinn,
42 ára, hjá bróður sínum og mág-
konu og börnum þeirra fjórum og
við höfðum fært honum greiðu í af-
mælisgjöf, öll fjögur hátíðlega borið
hana fram. Kyssti okkur á ennið og
á eftir fórum við í Willis-jeppanum
hans út á Hallormsstað yfir sex
læki á þessari stuttu en löngu leið í
heimi okkar barnanna og skyrtan
hans aldrei almennilega ofaní
buxnastrengnum að aftanverðu
sem gerði auðvitað ekkert til því
hann var ekki að fara að gifta sig
hvort eð var. Svona var allt rökrétt
í þá daga og Palli frændi setti í
lágadrifið og ók afar varlega upp úr
Sellækjargilinu því þetta voru
börnin hans bróður hans og mág-
konu og hann ræddi um tíðarfarið
við okkur eins og veðurglögga
bændur. Lerkitrén voru sprungin
út en birkiskógurinn beið varfær-
inn enn um sinn. Við Kerlingarána
stoppaði Palli frændi bílinn, snar-
aðist út og fór úr peysunni og síðan
aftur í norsku ullarbandsúlpuna
með aflöngu trétölunum. „Þetta er
hríslan,“ sagði hann og benti á
birkitréð á lækjarbakkanum á móti.
„Jú, þetta er hún!“ Þar stendur hún
enn, þótt gömul sé, en nýir elsk-
endur hvísla ástarorðum hennar og
lækjarins í eyru hvort annars en við
héldum áfram förinni í gráa Willis-
jeppanum með Palla frænda og út
um gluggana sáum við veröldina
sem beið okkar.
Gunnlaugur Sigurðsson.
Fyrstu minningar mínar um
Palla frænda eru frá því þegar
hann kom í bæinn oftast tvisvar á
ári og gisti heima. Mjög snemma
fékk ég það hlutverk að fylgja föð-
urbróður mínum um bæinn. Elsta
minningin úr þeim ferðum var þeg-
ar við fórum í verslunina Geysi til
að kaupa gæruúlpu. Oft lá leiðin
líka á Veðurstofuna sem þá var í
Sjómannaskólanum en Palli sá ár-
um saman um að taka veðrið á
Hallormsstað og oft höfum við Palli
rætt um veður og veðurfar á þeim
stað. Minn áráttukenndi áhugi á
veðri er eflaust frá Palla kominn.
Þegar ég fór í sveit á Hallorms-
stað til Arnþrúðar og Sigurðar
kynntist ég Palla í sínu náttúrulega
umhverfi. Hann var alinn upp í
skóginum en fór til skógræktar-
náms til Noregs fyrir stríð. Fyrir
tíu árum hitti ég stúlku frá Stein-
ker og þar mundu menn enn eftir
Palla og kölluðu hann „Islending-
en“.
Þeir sem dvalist hafa á Hall-
ormsstað losna aldrei undan álög-
um skógarins. Eftir að ég varð fjöl-
skyldumaður hef ég haft það fyrir
reglu að láta aldrei tvö sumur líða
án þess að fara austur og heim-
sækja Palla og fá hann til að fara
með okkur um Mörkina og segja
frá trjánum, nöfnum þeirra, aldri
og hæð. Mest sé ég eftir því að hafa
ekki farið með honum í skóginn að
haustlagi eða um vetur. Seint
gleymi ég því þegar ég heilsaði upp
á Palla sumarið 1976. Ég og þrír
vinir mínir vorum þá á leið til Evr-
ópu með Smyrli. Við tjölduðum í
Atlavík og litum svo inn á Sólheim-
um til að heilsa upp á Palla. Hann
stóð á hlaðinu þegar við komum og
réð sér varla fyrir kæti þegar hann
sá frænda sinn stíga út úr rúg-
brauðinu og kyssti mig í bak og fyr-
ir eins og hans var vandi. Félagar
mínir höfðu sjaldan séð jafninnileg-
ar móttökur.
Persónu Palla á ég erfitt með að
lýsa. Ég þekkti hann fyrst og
fremst sem afar kæran og frænd-
rækinn föðurbróður og skógar-
mann. Hin síðari ár borðaði hann
með okkur á jólunum og færði þá
börnunum alltaf bækur að gjöf. Jól-
in áður en dóttir mín fermdist færði
hann henni Litlu hafmeyjuna í fal-
legri útgáfu. Eitthvað hafði amma
hennar nefnt að telpan væri að full-
orðnast og þetta mundi Palli og
færði henni um næstu jól ástarsög-
una Á vængjum morgunroðans. Nú
fer ég austur í fyrsta skipti að vetr-
arlagi en þá er Palli ekki lengur þar
til að fylgja mér um skóginn.
Þorsteinn Þórhallsson.
Mig langar að kveðja vin minn til
margra ára, Pál Guttormsson,
nokkrum orðum. Kynni okkar Páls
hófust árið 1974 þegar ég ásamt
fjölskyldu minni flutti austur að
Hallormsstað og ég hóf þar starf
sem aðstoðarskógarvörður. Afi
minn Einar E. Sæmundsen og faðir
Páls Guttormur Pálsson voru á sín-
um tíma fyrstu Íslendingarnir sem
fóru í skógræktarnám erlendis og
þar bundust vináttubönd sem æ
síðan hafa tengt fjölskyldurnar
saman. Páll var mikill vinur vina
sinna og þegar við settumst að í
gamla Hallormsstaðarbænum,
æskuheimili Páls, tókust við hann
mikil og náin kynni.
Páll starfaði alla sína starfsævi
hjá Skógrækt ríkisins, hafði aflað
sér skógræktarmenntunar erlendis
og var fróður og athugull um allt
sem viðkom fræðunum. Ómetanlegt
er starf Páls við plöntuuppeldi í
gróðrarstöðinni á Hallormsstað,
sem var framan af hans aðalstarf.
Sérstakt áhugamál Páls voru veð-
urathuganir. Þar hafði hann yfir-
gipsmikla þekkingu og hafði á hrað-
bergi meðaltöl og frásagnir af
einstökum veðrum sem skipt höfðu
máli um vöxt og afkomu trjánna.
Í upphafi starfsferils míns hér
fyrir austan var það mikils virði að
hafa Pál sem leiðbeinanda um skóg-
inn og landshlutann og hann miðl-
aði sinni yfirgripsmiklu þekkingu á
sinn sérstaka og einlæga hátt. Þá
var líka gaman og fróðlegt að kynn-
ast sögu Hallormsstaðarbæjarins
og fólksins sem þar hafði búið, sem
varð nú hluti af lífi mínu og fjöl-
skyldunnar.
Ég tel mig mikinn gæfumann að
hafa átt Palla sem vin og samstarfs-
mann, mann sem nánast spannar
alla sögu skógræktar á Íslandi og
var sannarlega einn af brautryðj-
endum íslenskrar skógræktar. Sá
árangur að skógrækt er í dag al-
vöru atvinnugrein er ekki síst að
þakka mönnum eins og Páli sem
höfðu starf sitt sem hugsjón, lögðu
sig alla fram og létu ekki deigan
síga þótt oft væri á brattann að
sækja. Blessuð sé minning hans.
Jón Loftsson.
PÁLL
GUTTORMSSON
✝ Torfi Nikulássonfæddist á Stokks-
eyri hinn 15. septem-
ber 1915. Hann lést á
gjörgæsludeild
Landspítalans við
Hringbraut hinn 17.
nóvember síðastlið-
inn. Foreldrar Torfa
voru Helga Júlía
Sveinsdóttir og
Nikulás Torfason frá
Söndu á Stokkseyri.
Eftirlifandi systkini
Torfa eru Þorkell og
Matthildur en látin
eru Guðrún, Ingi-
björg, Sigríður og Bjarni.
Hinn 12. júní 1943 kvæntist
Torfi eiginkonu sinni, Þórunni
Ólöfu Jónsdóttur, f. 4. júlí 1911, d.
6. mars 1999.
Torfi og Þórunn
Ólöf voru barnlaus.
Þau bjuggu alla sína
hjúskapartíð á Eyr-
arbakka, fyrst í
Sandvík og síðan á
Smáravöllum.
Frá unga aldri
stundaði Torfi sjó-
mennsku í verstöðv-
um sunnanlands en
einnig á síldarvertíð-
um fyrir norðan.
Torfi hóf störf á
Litla-Hrauni árið
1942, fyrst sem bif-
reiðastjóri en síðan
sem fangavörður og varðstjóri
allt til starfsloka.
Útför Torfa fer fram frá Eyr-
arbakkakirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Nú þegar komið er að kveðjustund
langar mig að minnast Torfa í nokkr-
um orðum.
Torfi var kvæntur Ólu, föðursyst-
ur minni, og á uppvaxtarárum mín-
um tóku Óla og Torfi mikinn þátt í
daglegu lífi okkar systkinanna enda
ólumst við upp í næsta nágrenni við
þau á Eyrarbakka. Það er ómetan-
legt að hafa notið nærveru þeirra og
góðsemi alla tíð. Torfi og Óla voru
alla sína hjúskapartíð mjög samhent.
Í veikindum Ólu, ekki síst seinustu
æviár hennar á Ljósheimum, sinnti
Torfi henni af mikilli alúð og ein-
stakri samviskusemi þrátt fyrir að
eiga oft nóg með eigin veikindi.
Torfi átti við hjartasjúkdóm að
stríða sem var farinn að há honum
töluvert í daglegu lífi undir það síð-
asta. Vegna sjúkdómsins gat Torfi
lítið sinnt gönguferðum sem voru áð-
ur daglegt brauð hjá honum og héldu
honum án efa í góðu líkamlegu formi
lengst af.
Torfi var mikið góðmenni, traust-
ur og ljúfur í lund. Hann var mikið
snyrtimenni, skipulagður og vildi
hafa hlutina í röð og reglu. Torfi var
jafnframt mikill dugnaðarforkur í
öllu sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann var mikill áhugamaður um
garðrækt og var lengi með stóra
kartöflugarða. Mörg haustin fékk ég
að aðstoða hann við að taka upp kart-
öflur og rófur og var það verk ávallt
unnið af mikilli gleði og ýtrustu ná-
kvæmni. Oft fékk ég líka að fara með
Ólu og Torfa í berjamó og var það
jafnan mikið ævintýri. Margar góðar
samverustundir höfum við líka átt nú
seinustu árin þar sem við ræddum
um allt milli himins og jarðar og þar
kynntist ég Torfa enn betur en áður.
Elsku Torfi, kærar þakkir fyrir
tryggð þína og umhyggju fyrir mér
og mínu fólki. Blessuð sé minning
þín.
Oss héðan klukkur kalla,
svo kallar Guð oss alla
til sín úr heimi hér.
Þá söfnuð hans vér sjáum
og saman vera fáum
í húsi því sem eilíft er.
(V. Briem.)
Eyrún Jónatansdóttir.
Kynslóðir koma og fara – smám
saman týnir tölunni það góða fólk
sem ég var svo heppinn að þekkja og
eiga að í æsku. Á uppvaxtarárum
mínum á Bakkanum var ég heima-
gangur hjá Torfa og Ólöfu móður-
systur minni. Enn býr maður að góð-
um minningum frá þessum tíma.
Torfi var t.d. skákkennari minn um
árabil. Kennslan var verkleg og fór
þannig fram, að fyrst var gefin
drottning í forgjöf, því næst hrókur
og loks léttur maður þar til leikar
jöfnuðust. Aftur á móti varð ekki úr
því að hann kenndi mér Lomber, en
hann var einn fárra sem kunnu það
spil.
Þótt samverustundum fækkaði er
ég fluttist af Bakkanum fylgdumst
við alltaf vel hvor með öðrum. Ekki
síst hafði hann áhuga á kvartettinum
sem ég hef verið tengdur nokkuð
lengi, enda góður söngmaður sjálfur
eins og Nikulás faðir hans, og söng
bassa í kirkjukór Eyrarbakka í
fjöldamörg ár.
Á þessari kveðjustund fljúga
margar leiftursnöggar en skýrar
myndir gegnum hugann. Torfi er að
dunda eitthvað heimafyrir, hlúa að
jarðávöxtum, nostra við bílinn eða
dytta að grindverkinu. Hann hafði
einstaklega gott lundarfar, rólegur
og jafnlyndur en ætíð glaðsinna.
„Öllu er afmörkuð stund og sér-
hver hlutur undir himninum hefur
sinn tíma,“ segir í fornri bók. Torfi er
lagður af stað í ferðina löngu. Ég veit
að hann fer gætilega – flanar ekki að
neinu. Að endingu vil ég þakka ein-
staklega ljúfa samveru og hlýhug í
minn garð alla tíð.
Bjarni Þór Jónatansson.
TORFI
NIKULÁSSON