Morgunblaðið - 17.01.2003, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 17.01.2003, Blaðsíða 37
okkur út á hlað. Þar sátum við hnugg- in úti á stéttinni og innst inni höfum við sennilega skynjað að stríðið var tapað. Svo var líka og það leið ekki á löngu þar til Gestur hætti að heita bara Gestur, hann fór að heita Gestur og Rúna. Þó Rúna hafi unnið orrustuna hafði hún ekki unnið stríðið alveg, því Gest- ur hélt uppteknum hætti að ærslast með okkur krökkunum, og svo mikið er víst að í Laugarneshverfinu hefur aldrei sést annar eins meistari í drullukökubakstri. Hann var svo flinkur að ég sagði honum, í föðurleg- um tóni, að hann ætti að verða bakari, og það gerði hann líka, – á sinn hátt. Ég hef ákveðið að trúa því að Gesti hafi allt til loka tekist guðsblessunar- lega að komast hjá því að verða „full- orðinn“. Þorgrímur Eiríksson. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.) Þetta erindi kom upp í hugann þeg- ar ég frétti lát Gests Þorgrímssonar. Gestur og Rúna, þetta hefur alltaf verið samtvinnað í huga mér. Rúna og Gestur voru falleg hjón, ekki síst á efri árum og studdu þau og styrktu hvort annað. Aðdáunarlega annaðist Rúna hann þessi síðustu ár. Hefur mér alltaf fundist ást þeirra líkjast hinni sönnu ást. Rúna hefur mér fundist vera mín önnur systir alla tíð og Gestur var mér eins og besti bróðir, kom að nokkru leyti í stað bræðranna sem ég fékk ekki að eiga hér á jörðinni. Gestur var einn besti myndhöggvari þessa lands og skilur eftir ótal listaverk bæði hér- lendis og erlendis. Myndirnar – stein- arnir – eru yndislega fallegir. Einnig voru leirverkin hlý og mjúk, ég lít í kringum mig og horfi á vasana og skálarnar sem þau gáfu mér á liðnum árum og finn hvað mér þykir innilega vænt um þau. Þegar ég var krakki montaði ég mig af að þekkja Gest, einn af bestu skemmtikröftum okkar, ég man hvað mér fannst stórkostlegt að heyra hann herma eftir og hann gat framkallað hin ýmsu hljóðfæri með nefinu. Ég kynntist samt Gesti best þegar við unnum, ásamt Guðjóni Guð- jónssyni á Fræðslumyndasafni ríkis- ins við Laufásveg. Þar var oft glatt á hjalla, að Gesti laðaðist alls konar fólk og sat ég þar stelpan og drakk í mig ýmsa háleita speki. Þessar kaffipásur voru mér kærkomnar því þá gat ég tekið mér frí frá að gera við filmur, sem var mitt aðalstarf. Það var gott að tala við hann, hann kunni bæði að hlusta og segja frá. Hann var ótrúlega fróður og fyndinn. Gestur hafði ynd- islegar hendur og man ég að mamma hafði tröllatrú á lækniskunnáttu hans. Hún mamma hafði ekki trú á læknum, hennar helstu læknar voru Gestur og Helga Vigfúsdóttir, enda varð hún 98 ára. Að lokum langar mig að þakka Gesti og Rúnu fyrir allt gott og sér í lagi fyrir góðmennsku og hlýju sem þau gáfu móður minni. „Elsku Rúna og fólkið þitt. Megi Guð styrkja ykkur og styðja.“ Gunnvör Björnsdóttir. Þegar góður og náinn vinur deyr, er líkt og skorinn sé stór geiri úr lífi manns sjálfs. En síðan gerist undrið: Minningin um samveruna við slíkan vin, allar þær gleðilegu stundir sem við áttum saman um áratuga skeið, taka að fella þennan part inn í líf manns á ný, svo allt vex aftur saman í heilt og söknuðurinn verður að þakk- læti fyrir auðugra líf á dögum okkar beggja. Það er undrið, undur lífsins og dauðans. Gestur Þorgrímsson var glaðvær og skemmtinn maður, en þar á ofan afar greindur og margfróður, einkum að því er laut að tækni eða raunvísindum, en þar var ég á núllinu. Leiðir okkar lágu víða saman, erlendis og við gerð útvarpsþátta um hverja helgi heilan vetur. Nú jaðraði það við sögufölsun ef einhver skildi orð mín svo, að hann hafi arkað sinn veg sem hver annar einstaklingur. Það var aldeilis ekki! Aldrei sögðum við Ásgerður „að fara til Gests“ eða „fara til Rúnu“. Ævin- lega „til Gests og Rúnu“. Svo eitt og heilt voru þau saman, og heimili þeirra, hvort heldur var í Vanlöse, á Hofteigi eða við Laugarásveg, var alla tíð mannræktarvé í áhugamálum um bókmenntir eða aðrar listir, enda spruttu af metnaði þeirra einstakling- ar sem eru óðum að marka sér svið í ís- lenzkri menningu, Þorgrímur, Ragn- heiður Góa og yngri systkinin. Einkum er mér minnisverður frosta- veturinn harði 1946–’47, en þá voru þau saman að listnámi í Konunglega Akademíinu í Kaupmannahöfn, Gest- ur, Rúna og Ásgerður Ester. Þennan fimbulvetur bjuggu þau í litlu húsi norður í Vanlöse, og hjá þeim öðling- shjónin, foreldrar Rúnu, Guðjón Guð- jónsson skólastjóri og Ragnheiður Jónsdóttir skáldkona. Ekki deyfði það manngöfgina á því heimili! En þar kom í vetrarhörkunum, að þau urðu að flýja húsið vegna kulda og leituðu þá inn í borgina, inn í volgraðan leiguhjall fyrir neðan Holmens Kanal. Af spaug- semi sinni sagði Guðjón (og orti ef- laust um), að ekki væri þetta nú par þjóðlegt: Fyrr á öldum hefðu landar okkar reynt að flýja af Brimarhólmi, en nú flýðu þau inn á Brimarhólm! Síðasta heimili þeirra Gests og Rúnu var við Austurgötuna í Hafnarfirði, fagurt og að þeirra hætti í senn vinnu- stofa lista og enn hið fyrra mannrækt- arvé. Þar uxu upp til manns börn þeirra, eldri og yngri, og barnabörn á mannvænlegan legg. Þar stóðu þau öll í kringum foreldra sína sem hlýr og ástúðlegur veggur, allt til hinztu stundar föður síns og vinar okkar. Sé þeim eilíflega þökk fyrir alla þá elsku og umhyggju, og þeim Rúnu fyrir langa vináttu og auðugra líf á þessari vegferð. Björn Th. Björnsson. Gestur Þorgrímsson var óvenju- legur hvar sem að honum var komið. Óvenjulega hæfileikaríkur. Hann var leikari, söngvari, uppistandari og út- varpsmaður af vönduðustu gerð. Hann var rithöfundur og myndlistar- maður, fyrst og fremst myndhöggvari en kennari jafnframt, alla tíð með á nótunum, alla tíð með vakandi, póli- tíska vitund, var alls staðar heima, lifði lífinu lifandi og glaður. Við kynnt- umst honum fyrst sem kennara og þess vegna var hann alla tíð kennari í huga okkar en þó aðallega vinur. Sumir menn verða á svipstundu eins og hluti af manni sjálfum og við þá ræðir maður hvað sem er hvar sem er. Kannski var það hispursleysið og hlýjan í fari Gests sem gerðu hann umsvifalaust eins og einn af okkur. Hann bætti alin við hversdaginn og gerði hátíðisdaginn hátíðlegri; snjall maður, útsjónarsamur og þó fyrst og fremst tengdur okkur lifandi, sjálf- sprottinni taug sem aldrei slitnar. Gestur kom snyrtilegur í tauinu inn í kennslustofu í Kennaraskólanum, lét lítið fara fyrir sér og ætlaði alls ekki að berja neina list eða list- kennsluaðferð inn í okkur heldur fá okkur til að hugsa á forsendum mynd- listar. Og varð á sömu stundu sá sem maður gat reitt sig á og spurt í þaula, ekki aðeins í kennslustundum heldur allan daginn alla daga allt til enda. Ár- um saman sáumst við ekki en vissum hvert af öðru. Svo allt í einu var þráð- urinn tekinn upp aftur. Mörg andar- tök ógleymanleg. Eitt dýrt: Meistar- inn með göngustaf og hefur upp ásjónuna, syngur Alþjóðasönginn með tár á hvörmum á fjölmennum úti- fundi fyrsta maí í Toledo. Ég fer horfi yfir farinn veg kem aftur og verð. (G.Þ.) Þannig orti Gestur. Við rengjum hann ekki. Gunnar og Hildur. Kveðja frá Kennara- háskóla Íslands Gestur Þorgrímsson var kennari við Kennaraskóla Íslands frá 1963 til 1971 og við arftaka hans Kennarahá- skóla Íslands frá 1971 til 1984. Eftir tuttugu ára starf í þágu kennara- menntunar ákvað hann að láta af störfum sextíu og þriggja ára gamall til að einbeita sér að listsköpun sinni. Gestur hafði alla starfsævina sinnt myndlistinni, einkum keramik og höggmyndalist, samhliða störfum við kennslu. Það var ánægjulegt að fylgj- ast með því gróskumikla tímabili í listsköpun Gests sem tók við að loknu farsælu starfi við Kennaraháskólann. Listsköpun Gests á umræddu tímabili sannaði að skapandi starf er ekki bundið við ungan aldur eins og stund- um er haldið fram. Við Kennaraskól- ann og Kennaraháskólann kenndi Gestur myndlist, en líka kennslufræði og kennslutækni. Hann gerðist frum- kvöðull á sviði nýsitækni og lagði grunninn að gagnasmiðju skólans sem hann stýrði frá stofnun hennar 1979 þangað til hann lét af störfum. Gagnasmiðjan var algjör nýjung á sviði skólastarfs hér á landi og er nú hluti af metnaðarfullri starfsemi Menntasmiðju Kennaraháskólans. Gestur Þorgrímsson var einstakt ljúfmenni, skemmtilegur og einlæg- ur. Hann er minnisstæður mörgum eldri starfsmönnum Kennaraháskól- ans og fjölmörgum starfandi kennur- um víða um land sem nutu tilsagnar hans og framsýni við upphaf mikillar tæknibyltingar á sviði kennslufræði og kennslutækni. Fyrir hönd Kennaraháskólans sendi ég Sigrúnu, börnunum og öðr- um aðstandendum Gests Þorgríms- sonar innilegar samúðarkveðjur. Ólafur Proppé rektor.  Fleiri minningargreinar um Gest Þorgrímsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. JANÚAR 2003 37 þakka henni alla þá hlýju og um- hyggju sem hún hefur veitt mér frá barnsaldri. Allt frá því er ég var að alast upp heima á Hlíðarenda á Ísa- firði, hjá móðurafa mínum, Jóni Andréssyni, og konu hans, Guðrúnu frænku minni. Þá var Lovísa líka á heimilinu og tók hún mig undir sinn verndarvæng. Alla tíð síðan hefur samband okkar verið náið og hefur hún reynst mér sem besta móðir. Fyrir kærleika hennar til mín og fjölskyldu minnar færi ég henni hjart- ans þakkir. Ég kveð Lovísu frænku mína með söknuði og bið Guð að blessa minn- ingu hennar. Þorgerður Arnórsdóttir. Þú áttir auð er aldrei brást, þú áttir eld í hjarta, sá auður þinn er heilög ást til alls hins góða og bjarta. Til meiri starfa guðs um geim þú gengur ljóssins vegi. Þitt hlutverk er að hjálpa þeim er heilsa nýjum degi. (Hrefna Tynes.) Margs er að minnast frá árum okk- ar með Lúllu frænku, eins og við köll- uðum hana alla tíð. Við vorum alin upp í návist Lúllu hvern dag. Aldrei leið sá dagur að þær systur töluðust ekki við í síma. Marga skemmtilega ökutúra fórum við með þeim Begga og Lúllu. Afmæli Lúllu í apríl og svo jólaboð á jóladag voru fastir liðir, hangikjötið, laufabrauð og ekki má gleyma ,,gyðingakökunum“, alveg sérstakar hjá henni, síðan var spiluð félagsvist og allir með, börn og full- orðnir. Lúlla frænka bjó á Frakkastígnum frá árinu 1953 eftir að hún hóf búskap með sambýlismanni sínum, Bergþóri Jónssyni (d. 2001). Þau áttu engin börn, en stórfjölskyldan eru hennar afkomendur. Lúlla var traust og trygg við hlið Begga alla tíð. Hún hjúkraði honum vel fram í háa elli. Jón, bróðir Begga, bjó í nágrenni við þau og Lúlla var sömuleiðis hans hægri hönd alla tíð. Jón dó 26. des. sl. Lovísa vann lengst af með heim- ilinu við verslunarstörf í Liverpool við Laugaveg, búsáhaldaverslun og síðan hjá Kron, búsáhaldadeild, einnig við Laugaveginn. Hún var Reykjavíkur- kona, í miðbænum vildi hún helst vera. Hún var natin við litla garðinn sinn og málaði húsið þegar þess þurfti. Hún var vön að bjarga sér. Alltaf hugsaði hún fyrst um vilja Begga í öllu er hún tók sér fyrir hend- ur. Þau voru með eindæmum gestris- in, öllum ættingjum Lúllu var tekið opnum örmum. Lúlla frænka fylgdist vel með öllu sínu fólki og var alltaf sú fyrsta sem rétti fram hjálparhönd í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, hún hafði sín sambönd, eins og sagt er. Ásta, Magga og Lúlla, þrjár yngstu systurnar, voru mjög ungar að árum þegar þær tengdust órjúfanlegum til- finningaböndum við móðurmissi. Þegar að er gáð sjáum við að Lúlla var rauði þráðurinn í gegnum þennan stóra systkinahóp, sáttasemjarinn og alltaf til reiðu, boðberi og hjálpar- hönd. Eftirlifandi systurnar fjórar; Ásta, Magga, Gugga og Sigga, hafa þurft að horfa á eftir nánum ástvinum sl. tvö ár, spor sem skila eftir minn- ingar og söknuð í daglegu lífi þeirra. Góður guð, gef þeim styrk og mátt til að horfa jákvæðum og björtum aug- um fram á veginn með hækkandi sól. Þorgerður, dóttir Siggu, skipaði alla tíð sérstakan sess í heimi Lúllu. Þorgerður reyndist henni trygg og traust alla tíð. Áður en hún veiktist, hvort sem það var að halda upp á stór- afmæli eða annað. Síðustu árin hefur hún staðið við hlið hennar í öllu sem hún gerði, hvort sem um var að ræða útréttingar eða læknaheimsóknir. Sl. mánuði vék hún vart frá henni og síð- ustu ævidagana vakti hún nótt sem nýttan dag í von um að geta hjúkrað henni eða linað hennar þjáningar á einhvern hátt. Hafi hún hjartans þökk fyrir, við frændsystkinin höfum fylgst með Þorgerði með mikilli virð- ingu. Góði Guð, mér líður vel, mig ég þinni forsjón fel. Á mér, Guð minn, hafðu gætur, annast þú mig daga’ og nætur. Vertu öllum skjól og vörn, blessa, Faðir, öll þín börn. Elsku frænka, guð blessi þig og minningu þína og veit systrum þínum, Þorgerði, öðrum ættingjum og vinum styrk og blessun. Gunnsteinn, Þorgerður Ester, Jón Grétar, Anna Sigríður og makar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.