Morgunblaðið - 30.01.2003, Qupperneq 12
FRÉTTIR
12 FIMMTUDAGUR 30. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
EKKI er ástæða til að ætla að raf-
skautaverksmiðjur valdi mikilli
mengun í dag, ef kröfur eru uppfyllt-
ar um mengunarvarnabúnað, skv.
upplýsingum Andrésar Svanbjörns-
sonar hjá Fjárfestingarstofu – orku-
sviði. Eins og fram kom í Morgun-
blaðinu í gær hefur þýska fyrirtækið
RAG Traiding sýnt áhuga á að reisa
340 þús. tonna rafskautaverksmiðju
hér á landi og að gert verði mat á
umhverfisáhrifum af starfsemi slíkr-
ar verksmiðju.
Í áætlunum Fjarðaráls og Norsk
Hydro um álver í Reyðarfirði var á
sínum tíma gert ráð fyrir byggingu
223.000 tonna rafskautaverksmiðju á
iðnaðarlóð í Fjarðabyggð. Fór sú
framkvæmd í gegnum umhverfismat
og féllst Skipulagsstofnun á þær
framkvæmdir í ágúst 2001 í skýrslu
sinni um mat á umhverfisáhrifum.
Viðræður við Norðurál um sölu
rafskauta vegna stækkunar
Fulltrúar þýska fyrirtækisins
RAG Traiding hafa verið í sambandi
við forsvarsmenn Norðuráls á
Grundartanga um möguleika á að
selja rafskaut til álversins í tengslum
við fyrirhugaða stækkun þess.
Ragnar Guðmundsson, fram-
kvæmdastjóri fjármála- og stjórnun-
arsviðs Norðuráls, segir að forsvars-
menn RAG Traiding hafi sýnt áhuga
á að selja Norðuráli rafskaut fyrir
frekari álframleiðslu ef af stækkun
verður og einnig á að framleiða síðar
meir rafskaut vegna núverandi
framleiðslu álversins þegar gildandi
samningur um innflutning rafskauta
rennur út eftir nokkur ár.
Hugmyndir um sölu til
Norðuráls og álvers Alcoa
„Við höfum hitt þá þrisvar sinnum
en þeir voru hér til að kynna sér að-
stæður. Það kom fram á fundi í gær
[þriðjudag] að þeir hafa áhuga á að
grunnurinn að rekstrinum yrði
framleiðsla fyrir Fjarðarál og
stækkunina hjá okkur ef nægilegri
stærðarhagkvæmni yrði náð,“ segir
Ragnar.
Hann segir öflugt fyrirtæki
standa að baki RAG Traiding, sem
er dótturfyrirtæki RAG Coal Int-
ernational, og þeir séu greinilega að
skoða þessa hugmynd í fullri alvöru.
„En þeir eiga auðvitað eftir að fara í
gegnum umhverfismat lögum sam-
kvæmt og það á eftir að ræða um
verð. Við höfum líka rætt við fleiri
aðila um rafskaut fyrir væntanlega
stækkun en höfum ekki getað tíma-
sett hvenær við þurfum á skautunum
að halda vegna þess að við vitum
ekki ennþá hvenær orkan [vegna
stækkunarinnar] verður tilbúin til
afhendingar,“ segir hann.
Rafskautaframleiðsla hefur ekki
verið starfrækt hér á landi í
tengslum við álframleiðslu heldur
hafa álverin í Straumsvík og á
Grundartanga flutt inn rafskaut til
álframleiðslu sinnar. Bandaríska ál-
fyrirtækið Alcoa ákvað einnig fyrir
nokkru að rafskautaverksmiðja
verði ekki byggð við hlið fyrirhugaðs
álvers heldur sé ætlunin að flytja inn
rafskautin, sem notuð eru við fram-
leiðslu áls, sjóleiðina frá Bandaríkj-
unum.
Að sögn Ragnars þarf að ná
ákveðinni stærðarhagkvæmni til að
framleiðsla rafskauta borgi sig.
„Með því að framleiða fyrir fleiri en
einn aðila næst nauðsynleg stærðar-
hagkvæmni. Við höfum ekki getað
farið út í þetta sjálfir vegna þess
hversu verksmiðjan er lítil hjá okkur
en gætum það hugsanlega síðar meir
eftir stækkun. En ef þessir aðilar
geta gert þetta á hagkvæmu verði þá
höfum við náttúrlega áhuga á þessu,“
segir Ragnar.
Forsenda verkefnisins að
einhver kaupandi finnist
Andrés Svanbjörnsson hjá Fjár-
festingarstofu – orkusviði, segir hug-
myndina um rafskautaverksmiðju á
algjöru frumstigi enn sem komið er.
,,Þetta er eingöngu fræðileg hug-
mynd. Það getur dottið úr þessu
botninn hvenær sem er. Það hafa
bara átt sér stað þreifingar um hvort
þetta sé mögulegt og forsendan er sú
að einhver kaupandi finnist að raf-
skautunum. Það er alls ekki borð-
leggjandi.“
Andrés kveðst ekki eiga von á að
neitt gerist í þessu máli á næstunni.
„Það er langur vegur frá því að hug-
mynd fæðist og þar til eitthvað ger-
ist. Þetta er alls ekki á næstu grös-
um,“ segir hann.
Að sögn Þorsteins Hilmarssonar,
upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar,
hafa hugmyndir þýska fyrirtækisins
ekki komið inn á borð Landsvirkj-
unar, enda séu verksmiðjur af þess-
um toga ekki orkufrekar.
Rafskaut eru notuð í álvinnslu en
framleiðslu þeirra hefur fylgt mikil
losun mengunarefna, einkum
brennisteinsdíoxíðs og svonefndra
PAH-efna. Skv. upplýsingum Andr-
ésar er hins vegar alls ekki sjálfgefið
að slíkar verksmiðjur valdi mikilli
mengun í dag, þar sem kröfur eru
gerðar um fullkominn mengunar-
varnabúnað. Unnt sé að halda meng-
un í algjöru lágmarki með hreinsun-
arbúnaði og endurvinnslu. „Þetta er
tiltölulega hreinlegt,“ segir hann og
telur ekki að hugsanleg rafskauta-
verksmiðja í Hvalfirði myndi hafa í
för með sér mengunarvandamál.
Í matsskýrslu sem samin var á
sínum tíma um álver og rafskauta-
verksmiðju sem Norsk Hydro hugð-
ist reisa í Reyðarfirði kemur fram að
rafskautaverksmiðju megi skipta í
þrjá meginþætti: Skautsteypu,
skautbökun og þjónustueiningar
(skautsmiðju og skautgeymslu). Af-
sogi frá mótum skautanna, sem inni-
heldur bik, er safnað saman og það
sent í þurrhreinsistöð þar sem koxi
er blandað í loftstrauminn. Koxið
hreinsar bikið úr útblæstrinum og
bætta koxið síðan notað í framleiðslu
forskautanna. Rafskautin eru mótuð
úr koxi og kolefni úr gömlum skaut-
um og fljótandi biki og síðan bökuð í
lokuðum ofnum. Þegar bökun og
kælingu er lokið eru skautin flutt í
sérstakar hreinsistöðvar sem eru
tengdar við afsogskerfi fyrir ryk.
Gert var ráð fyrir að komið yrði
fyrir öflugu loftsogi og rykhreinsun
og að megnið af því ryki sem safn-
aðist yrði endurunnið í lokuðu kerfi
og færi aftur í framleiðslu forskauta.
RAG Traiding hefur áhuga á að fram fari mat á umhverfisáhrifum rafskautaverksmiðju á Íslandi
Umhverfis-
mat fram-
kvæmt áður
Þýska fyrirtækið hefur sýnt áhuga á að rafskautaverksmiðja rísi í landi
Kataness í nágrenni við Grundartangahöfn og austan við lóð Norðuráls.
ÓLÖF Guðný Valdimarsdóttir, for-
maður Landverndar, og Árni Finns-
son, formaður Náttúruverndarsam-
taka Íslands, fagna hugmyndum
Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra
Ísafjarðarbæjar, í Morgunblaðinu í
gær, um að nýta kraftinn, sem býr í
unnendum náttúrunnar til uppbygg-
ingar á Vestfjörðum, og segja þarna
ákveðin sóknarfæri fyrir Vestfirð-
inga, sem þau vilji leggja lið.
„Þetta er eins og ljós í myrkrinu
og ég fagna þessu,“ segir Ólöf Guðný
Valdimarsdóttir um hugmyndir
Halldórs. „Mér finnst frábært að
þarna skuli vera maður í þessari
stöðu með svona nútímalega fram-
tíðarsýn,“ bætir hún við og segist
hafa hringt í bæjarstjórann í gær-
morgun og óskað eftir fundi með
honum um málið í næstu viku.
Ólöf Guðný segir að málið standi
sér nær en aðeins sem formaður
Landverndar, því hún sé varaþing-
maður Vestfirðinga og fædd og upp-
alin á Vestfjörðum. „Ég hef þá löng-
un í brjósti að verða þessu fólki að
liði. Innan náttúruverndarsamtak-
anna allra er geysilega mikið af öfl-
ugu, vel menntuðu og upplýstu fólki
með framtíðarsýn og það getur orðið
hér að liði með því að vinna saman að
þessum málum.“
Hún segir að ekki þýði að leggja
fram einhverjar „patent“-lausnir að
sunnan fyrir Vestfirðinga heldur
ætli hún að ræða við Halldór hvernig
Landvernd geti komið að málum, til
dæmis með því að stofna vinnuhóp
og byrja þannig að ræða og vinna
saman. Hann hafi lagt áherslu á gerð
svæðisskipulags fyrir Vestfirði alla
og það sé rétt metið hjá honum að
byrja á því og tengja það þessari
nýju hugsun og framtíðarsýn. „Ég er
sannfærð um að það liggja þvílík
sóknartækifæri í svona hugmynda-
fræði eins og Halldór hefur lagt fram
og það verður bæði fengur fyrir
Vestfirðinga og landið allt og kemur
Vestfirðingum í forystusveit inn í
nýja öld.“
WWF tilbúið í samstarf
Árni Finnsson segir að hugmynd
Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra
Ísafjarðarbæjar, sé mjög spennandi.
Undanfarin ár hafi verið áhugaverð
þróun í ferðaþjónustu á Vestfjörð-
um. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða
hafi unnið gott starf en í því sam-
bandi hafi Dorothee Lubecki unnið
að því að finna nýjar leiðir í ferða-
þjónustu og þá ekki síst í umhverf-
isvænni ferðaþjónustu. Í ljósi þeirra
áforma sem séu um stóriðju í landinu
blasi við að Vestfirðir fái enga slíka
og bið geti orðið eftir vegafram-
kvæmdum á svæðinu á meðan fram-
kvæmdir eigi sér stað fyrir austan.
Umhverfisvæn ferðaþjónusta sé því
öflugt útspil. „Hún er örugglega
sóknarfæri fyrir Vestfirði. Þetta hef-
ur verið vaxandi atvinnugrein og er
mjög lofandi.“
Í sambandi við umhverfisvæna
ferðaþjónustu segir Árni að tekið
hafi verið visst mið af starfi umhverf-
isverndarsamtaka. Hann bendir á að
leiðbeinandi reglur Alþjóðanáttúru-
verndarsjóðsins, WWF, um vist-
væna ferðaþjónustu á norðurslóðum
hafi verið notaðar hérlendis, í Alaska
og á Svalbarða og WWF sé tilbúið að
fara í samstarf við Íslendinga um
þróun vistvænnar ferðamennsku á
Vestfjörðum og víðar, en samtökin
hafi stutt Náttúruverndarsamtök Ís-
lands undanfarin ár. „Með þetta í
huga eru ummæli Halldórs mjög
gleðjandi og við vonum að samstarf
geti tekist,“ segir hann.
Náttúruverndarsinnar taka vel í áskorun bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar
Eins og ljós í myrkrinu
ÁRNI Mathiesen sjávarútvegs-
ráðherra heimsótti á miðvikudag
sýningarbás SÍF á matvælasýning-
unni sem haldin er samhliða heims-
meistaramóti matreiðslumeistara,
Bocus d’Or, í Lyon í Frakklandi um
þessar mundir.
SÍF, Útflutningsráð, SH og sjáv-
arútvegsráðuneytið styrktu þátt-
töku Íslands í keppninni og með
kynningunni á íslenskum sjávaraf-
urðum vonast þau til að íslenskur
fiskur verði grunnuppistaðan í
næstu keppni sem haldin er árið
2005. Miklar vonir eru bundnar við
að samningar náist og er fullvíst að
það muni auka hróður íslenskra
fiskafurða.
Morgunblaðið/Jón Svavarsson
Sjávarútvegsráðherra heimsækir sýningarbás SÍF ásamt fylgdarliði. Frá vinstri: Gissur Guðmundsson, forseti
KM, Guðmundur Jónasson, SÍF, Helga Valfells, Útflutningsráði, Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra, Unnur
Orradóttir-Ramette, frá sendiráði Íslands í París, og Bjarki Hilmarsson, KM, býður þeim góðgæti frá SÍF.
SÍF kynnir
fiskafurðir
í Lyon
BJÖRGVIN Mýrdal matreiðslu-
meistari lenti í 9. sæti í keppninni
Bocuse d’Or, heimsmeistarakeppni
matreiðslumeistara, sem fram fór í
Lyon í Frakklandi í gær. Norðmað-
urinn Charles Tjessem fór með sig-
ur af hólmi, franski keppandinn,
Franck Putelat, hlaut silf-
urverðlaun en Claus Weitbrecht frá
Þýskalandi bronsverðlaun.
Björgvin matreiddi franskar
nautalundir og norska sjóbleikju.
Hann hafði fimm klukkustundir til
að laga mat fyrir 12 manns. Svo
þurfti hann að halda matnum heit-
um meðan myndataka fór fram og
þar til skammtað var af silfurfötum
fyrir framan dómarana.
Björgvin er þriðji Íslendingurinn
sem keppir á Bocuse d’Or en áður
hafa þeir Sturla Birgisson og Há-
kon Már Örvarsson tekið þátt í
keppninni. Sturla lenti í fimmta
sæti og Hákon í því þriðja.
Um 40 þjóðir sóttu um þátttöku á
mótinu í ár en aðeins 24 fengu inn-
göngu.
Hafnaði í
níunda sæti
Morgunblaðið/Jón Svavarsson
Björgvin Mýrdal skammtar
dómurum af rétti sínum.