Morgunblaðið - 06.02.2003, Qupperneq 43
ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. FEBRÚAR 2003 43
VALA Flosadóttir, stangar-
stökkvari úr ÍR, lyfti sér yfir 4,10
metra á boðsmóti í Chicago um síð-
ustu helgi. Þetta var fyrsta mót
hennar á þessu ári, en hún ætlar ekki
að taka þátt í mörgum mótum innan-
húss í vetur heldur einbeita sér að
utanhúss keppnistímabilinu sem
nær hámarki á HM í París í ágúst.
Hanna Mia Persson frá Svíþjóð
stökk hæst á mótinu í Chicago, 4,20
metra.
ÞÓRÐUR Guðjónsson og félagar
hans í Bochum voru slegnir út af
Kaiserslautern í 8-liða úrslitum
þýsku bikarkeppninnar í knatt-
spyrnu í gær. Staðan eftir venjuleg-
an leiktíma var 2:2 og 3:3 eftir fram-
lengingu. Þórður kom inn á sem
varamaður á 80. mínútu og skoraði
eitt marka sinna manna úr víta-
spyrnukeppninni.
JONATHAN Woodgate verður
ekki í liði Newcastle þegar það sækir
fyrrum félaga hans í Leeds heim í
ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu
þann 22. febrúar. Leeds óskaði eftir
því við Newcastle að hann kæmi ekki
aftur á Elland Road svona skömmu
eftir hið umdeilda brotthvarf hans
þaðan. Newcastle samþykkti það en
Woodgate, sem er að jafna sig eftir
meiðsli, átti ágæta möguleika á að ná
leiknum.
LEEDS freistaði þess að ná sams
konar samkomulagi við West Ham
vegna Lee Bowyers en forráðamenn
West Ham harðneituðu að hlusta á
slíkt. West Ham sækir Leeds heim á
laugardaginn, með Bowyer innan-
borðs.
STUÐNINGSMENN Leeds ætla
að efna til ýmiss konar mótmæla á
leiknum við West Ham. Þeir eru æfir
yfir því að búið sé að selja flesta
bestu menn liðsins og krefjast af-
sagnar Peters Ridsdales, stjórnar-
formanns félagsins.
MARK Viduka, framherji Leeds
United, þarf að taka út þriggja leikja
bann eftir að aganefnd enska knatt-
spyrnusambandsins ákvað að verða
ekki við beiðni um að fella niður
rauða spjaldið sem Viduka fékk að
líta á í leiknum við Gillingham á dög-
unum.
PETER Hoekstra, sóknarmaður-
inn leikni, verður að öllu óbreyttu
ekki í liði Stoke City þegar það tekur
á móti Eiði Smára Guðjohnsen og fé-
lögum í Chelsea í 16 liða úrslitum
ensku bikarkeppninnar í knatt-
spyrnu um aðra helgi. Hoekstra er
kominn í eins leiks bann og tekur það
út gegn Chelsea, nema til komi
færslur á leikjum í millitíðinni.
LEE Mills, lánsmaður frá Cov-
entry, og Frazer Richardson, láns-
maður frá Leeds, geta heldur ekki
leikið með gegn Chelsea. Mills lék
með Coventry í 3. umferð keppninn-
ar og Leeds vill ekki leyfa Richard-
son að spila þar sem liðið gæti þurft
að grípa til hans síðar í keppninni.
PETER Schmeichel, markvörður
Manchester City, er vongóður um að
geta mætt fyrrum félögum sínum í
Manchester United en liðin eigast
við í ensku úrvalsdeildinni á Old
Trafford á sunnudaginn. Schmeichel
hefur misst úr síðustu þrjá leiki City
vegna meiðsla í kálfa en hann er á
batavegi að sögn Kevins Keegans,
knattspyrnustjóra félagsins.
UNITED hefur harma að hefna því
City hafði betur í leik liðanna á
Maine Road í haust, 3:1, en 33 ár eru
liðin síðan Manchester City hafði
betur í báðum deildarleikjum lið-
anna á sama tímabili.
TOTTENHAM ætlar að bjóða
Teddy Sheringham að framlengja
samning við félagið um eitt ár. Sher-
ingham, sem verður 37 ára gamall í
apríl, hefur staðið fyrir sínu með
Lundúnarliðinu á leiktíðinni og hef-
ur skorað 8 mörk í 26 leikjum.
GUÐFINNUR Kristmannsson
skoraði 5 mörk fyrir Wasaiterna sem
tapaði fyrir Alingsäs, 27:22, í sænsku
1. deildinni í handknattleik í gær.
FÓLK
Gústaf Adolf Björnsson, þjálfariHauka, var að vonum kátur
með sínar stúlkur í leikslok. „Við
byrjuðum ekki nógu
vel í upphafi leiks,
vorum með alltof
mikið af töpuðum
boltum og að mínu
mati var bara of mikill æsingur í lið-
inu. Við áttum ágætis möguleika til
að koma okkur í góð færi og klára
þetta en töpuðum boltanum of oft á
leiðinni upp völlinn. Svo er það út úr
okkar leik og við fórum að skila
þessu með mörkum. Þá vorum við
komin inn í þann leik sem við vorum
að leita eftir, að spila þétta vörn,
verja teiginn og fá boltann í hraða-
upphlaup og eftir það fór að skilja á
milli liðanna,“ sagði Gústaf.
En í lok leiks, þegar þið eruð kom-
in með góða forystu, þá setur þú inn
unga og óreynda leikmenn. Var það
einhver fyrirfram ákveðin taktík af
þinni hálfu?
„Nei nei, FH-ingar eru vinir okk-
ar. Við komum úr sama bæjarfélagi
og við vildum skilja vel við í þessum
leik. Eina markmið okkar í þessum
leik var að vinna og koma okkur í
Höllina.“
Reyndum að halda í trúna
Kristín Guðjónsdóttir, fyrirliði
FH, var vonsvikin í lok leiks. „Við
spiluðum ágætlega fyrstu 20 mínút-
ur leiksins en svo var eins og við
hættum gjörsamlega og við gerðum
ekkert af viti síðustu 10 mínútur
fyrri hálfleiks. Við vissum það alveg
þegar við komum út eftir leikhlé að
þótt við værum 5 mörkum undir þá
væri leikurinn alls ekki búinn en svo
þegar við byrjuðum seinni hálfleik-
inn alveg eins og hálfvitar og fengum
á okkur tvö, þrjú mörk strax, þá var
þetta náttúrlega bara búið. Við
reyndum samt að halda í trúna, bik-
arleikir eru alltaf bikarleikir, en
þetta tókst samt ekki núna,“ sagði
Kristín Guðjónsdóttir, fyrirliði FH.
Höfum verið að bæta okkur
„Í rauninni er fimm marka munur,
þegar upp er staðið, ekki mikið, sér-
staklega ekki þegar horft er til þess
hvernig leikurinn þróaðist. Við byrj-
uðum reyndar mjög illa en náðum
mest tveggja stafa tölu á þær og auð-
vitað hefðum við átt að halda því út.
En FH-liðið er gott lið og við hleypt-
um þeim óþarflega mikið inn í leikinn
aftur í lokin,“ sagði Harpa Melsted,
fyrirliði Hauka, í leikslok.
„Það komu kaflar í þessum leik
þar sem við spiluðum mjög vel. Vörn-
in small og þá komu hraðaupphlaup-
in og við sýndum að við höfum bætt
okkur í sókninni jafnt og þétt í vetur,
og leikur okkar er að verða betri.“
Þið keyrið á 9 leikmönnum stærst-
an hluta þessa leiks og eruð búin að
fá Brynju Steinsen aftur í liðið, hvers
virði er það fyrir ykkur? „Það munar
rosalega miklu. Við höfum verið
mjög óheppnar með meiðsli og það
er ómetanlegt að fá Brynju aftur inn,
eins og Nínu Björnsdóttur, sem
komu þegar það var kallað á þær.
Þær eru okkur ómetanlegar og þótt
þær hafi ekki æft á fullu með okkur í
vetur þá vita það allir að þetta eru
stelpur sem kunna þetta og eftir
smátíma verða þær 100% klárar. En
Brynja er okkur mikill styrkur. Hún
er mjög sterk félagslega, hún er mik-
ill leiðtogi og hún hjálpar mér mjög
mikið. Hún er óhrædd við að segja
manni til og maður hlustar hvað hún
er að segja. Hún á örugglega eftir að
hjálpa okkur mjög mikið á loka-
sprettinum,“ sagði Harpa.
Eitt skref í átt-
ina að bikarnum
ÞAÐ var mikil gleði í herbúðum Hauka eftir sigurinn á FH í undan-
úrslitum í bikarkeppni kvenna í handknattleik í gærkvöld í Kapla-
krika. Haukar fá úr því skorið í kvöld hverjir andstæðingar þeirra í
úrslitunum verða, þá eigast ÍBV og Stjarnan við í Eyjum.
Ingibjörg
Hinriksdóttir
skrifar
ÓLAFUR Þór Gunnarsson
knattspyrnumarkvörður er
orðinn löglegur með Vals-
mönnum en gengið var frá fé-
lagaskiptum hans í gær. Eins
og fram kom í Morgunblaðinu
á laugardag gekk hann til liðs
við Valsmenn frá ÍA í kjölfarið
á því að Þórður Þórðarson
kom til Skagamanna frá KA.
Ólafur skrifaði undir tveggja
ára samning við Hlíðarenda-
félagið og getur leikið með því
gegn Létti í lokaumferð riðla-
keppninnar í Reykjavíkur-
mótinu annað kvöld en þar
hafa Valsmenn þegar tryggt
sér sæti í undanúrslitum.
Ólafur
löglegur
með Val
CRYSTAL Palace stal heldur
betur senunni í gærkvöldi, með
því að slá Liverpool út í 4. um-
ferð bikarkeppninnar og það á
Anfield. Palace, sem leikur í 1.
deild, sigraði, 2:0, en liðin
höfðu áður gert markalaust
jafntefli á Shelhurst Park. Jul-
ian Gray skoraði fyrra markið
á 55. mínútu og þrátt fyrir að
Dougie Freedman, liðsmanni
Palace, væri vikið af velli á 70.
mínútu bættu þeir marki við,
eða réttara sagt Stephen
Henchoz sem varð fyrir því
óláni að skora í eigið mark á 79.
mínútu. Crystal Palace mætir
Leeds í 5. umferð keppninnar.
Liverpool
slegið út
KRISTJÁN Halldórsson hand-
knattleiksþjálfari skrifar í dag
undir tveggja ára samning við
danska kvennaliðið Skovbakken/
Brabrand. Kristján er þjálfari
karlaliðs Haslum í Noregi en tekur
við danska liðinu í sumar. Haslum
vildi gera við hann nýjan samning
og eins var hann með tilboð frá
norska kvennaliðinu Bækkelaget
en eftir að hafa velt málunum vel
fyrir sér ákvað hann að ganga til
samnings við Skovbakken/
Brabrand.
Mikill hugur er í forráðamönn-
um danska liðsins, sem kemur frá
Árósum og leikur líklega undir
merkjum Århus á næstu leiktíð.
Til stendur að styrkja leik-
mannahóp félagsins og samkvæmt
heimildum Morgunblaðsins er
klásúla í samningi Kristjáns um að
fengnir verði þrír sterkir leikmenn
á alþjóðamælikvarða til liðsins.
Kristján hefur gert góða hluti
með lið Haslum á leiktíðinni en
með liðinu leika þrír Íslendingar,
Daníel Ragnarsson, Heimir Örn
Árnason og Theodór Valsson. Lið-
ið lék í 1. deildinni fyrir áramót og
vann sér sæti í millikeppni deild-
arinnar. Þar er liðið í góðri stöðu
og stendur vel að vígi um að kom-
ast í úrslitakeppni um norska
meistaratitilinn. Verði liðið í einu
af fjórum efstu sætunum í úr-
slitakeppninni vinnur það sér sæti
í úrvalsdeildinni.
Kristján til
Danmerkur
SÖREN Hermansen, nýi Daninn í
knattspyrnuliði Þróttar úr Reykja-
vík, sagði í samtali við danska blaðið
Århus Stiftstidende í gær að hann
væri með svipuð laun hjá Þrótti og
gengur og gerist í dönsku úrvals-
deildinni. Þá kemur fram að hann
eigi umtalsverð laun inni hjá belg-
íska félaginu Mechelen, sem er
gjaldþrota og hann reikni ekki með
að þau skili sér.
Hermansen er frá Árósum og lék
bæði með AGF og Aarhus Fremad
þar í borg en síðan með Lyngby og
Mechelen í Belgíu, eins og áður hef-
ur komið fram í Morgunblaðinu.
Hann sagði við blaðið að sig og eig-
inkonu sína hefði langað til að prófa
fleira áður en hann legði
knattspyrnuskóna á hilluna, ekki
síst vegna þess að börnin þeirra
væru enn ekki komin á skólaaldur.
„Ég er orðinn 32 ára og því kom-
inn tími til að huga að lokum ferils-
ins. Kannski spila ég eitt tímabil í
Danmörku, eftir að við komum aftur
heim í lok þessa árs, jafnvel með
Lyngby í 2. deildinni,“ sagði Her-
mansen, en fram kemur að samn-
ingur hans við Þrótt sé til 1. októ-
ber.
Þjálfar yngri leikmenn
Í greininni er sagt að markmið
Þróttara sé að festa sig í sessi sem
nýliðar í efstu deild og liðið sé skip-
að áhugamönnum, ef Hermansen og
írskur leikmaður (Charlie McCor-
mick) séu undanskildir. Liðið æfi
því aðeins á kvöldin en Hermansen
muni taka þátt í þjálfun ungra leik-
manna hjá félaginu. Laun hans séu
ágæt þó ekki sé um atvinnu-
mennsku að ræða á Íslandi.
„Knattspyrnumenn hér æfa mest-
allt árið þótt meistarakeppnin sé
stutt. Hér eru góðar upphitaðar
knattspyrnuhallir og í þeim eru spil-
uð hin ýmsu mót,“ segir Daninn um
aðstæður á Íslandi.
Svipuð laun hjá
Þrótti og í Danmörku
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Harpa Melsted úr Haukum
brýtur sér hér leið framhjá
Dröfn Sæmundsdóttur og
skorar eitt níu marka sinna
gegn FH í gær.