Morgunblaðið - 13.03.2003, Side 10
FRÉTTIR
10 FIMMTUDAGUR 13. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Á ALÞINGI er nú til umræðu frum-
varp Guðna Ágústssonar landbún-
aðarráðherra um breytingu á lögum
um lax- og silungsveiði. Gangi eftir
að frumvarpið verði afgreitt sem lög
verður innleidd tilskipun ESB um
flutninga á laxfiskum, en samkvæmt
lögum og reglugerðum ESB er ekki
skylt að setja eldislax í sóttkví og
heimilt er að flytja hann án tak-
markana á milli landa.
Við aðild að EES-samningnum
var Íslandi veitt undanþága frá fyrr-
nefndri reglugerð ESB, en sú und-
anþága rann út í janúarlok í fyrra.
Er því um það bil ár síðan und-
anþágan féll úr gildi og er þess nú
krafist af hálfu ESB að tilskipunin
verði tekin upp hér á landi. Í þing-
plöggum frá landbúnaðarráðherra
er lögð áhersla á að nauðsynlegt sé
að fella innflutningsbannið úr gildi
vegna þess að það stríði gegn til-
skipun ESB, en hins vegar sé gert
ráð fyrir því í frumvarpinu að land-
búnaðarráðherra setji með reglu-
gerð, byggðri á tilskipun 91/67/
EBE, með síðari breytingum,
ákvæði sem nauðsynleg eru með til-
liti til smitsjúkdómahættu vegna
innflutnings sem leyfður verður á
grundvelli þessara laga.
Náttúruhamfarir
Óðinn Sigþórsson, formaður
Landssambands veiðifélaga, sagði í
samtali við Morgunblaðið að þessi
lagabreyting gæti hæglega kallað
náttúruhamfarir yfir laxastofna hér
á landi. „Þetta frumvarp kemur okk-
ur gersamlega í opna skjöldu. Við
áttum ekki von á því að þetta mál
yrði afgreitt á þessu þingi og sér-
staklega ekki núna undir lok þings
þegar mál eru mörg hver ekki að fá
eðlilega umfjöllun vegna vinnuhrað-
ans. Það verður róið að því öllum ár-
um að þetta frumvarp verði ekki að
lögum enda stóralvarlegt mál á ferð-
inni. Samkvæmt lögum og reglu-
gerðum ESB er ekki skylt að setja
eldislax í sóttkví og heimilt er að
flytja hann á milli landa, svo og þann
búnað sem notaður er við eldið. Með
því að innleiða tilskipun ESB erum
við að opna fyrir allt sem við höfum
óttast mest í sambandi við sjókvía-
eldi. Notkun brunnbátanna svoköll-
uðu, seiðaflutningabátanna, sem eru
þekktir smitberar. Það er gefið
grænt ljós á flutning landa á milli á
lifandi fiski sem þarf ekki í sóttkví
og við þurfum að treysta alfarið á
þau vottorð sem honum fylgja að ut-
an. Samkvæmt þeim er hann sjúk-
dómalaus þangað til hann sýkist í
eldisstöðinni. Það gerist í eldisstöð-
inni en ekki á pappírnum og þá er
skaðinn skeður.“
Ótrúleg áhætta
Óðinn sagði ennfremur, að með
þessu frumvarpi væri verið að taka
„ótrúlega áhættu með þessa auðlind
okkar sem villti laxinn er“ eins og
hann komst að orði og sagði svo:
„Við eigum hiklaust að leggja meiri
vinnu í að halda sérstöðu okkar í
stað þess að opna landið fyrir vanda-
málum sem þekkt eru í Evrópu. Við
höfum rætt við þingmenn og land-
búnaðarnefndarmenn og látið þá
skoðun í ljós að fráleitt sé annað en
að við fáum að tjá okkur um frum-
varpið sem hagsmunaaðilar og að
Landssamband veiðifélaga veiti um-
sögn sína um það. Það er óþolandi
að reynt sé að lauma svona mik-
ilvægu máli þegjandi og hljóðalaust í
gegnum þingið í þeirri von að það
taki enginn eftir því,“ sagði Óðinn.
Illt mál og óviðráðanlegt að
mati landbúnaðarráðherra
„Þetta er illt mál og óviðráðan-
legt,“ segir Guðni Ágústsson land-
búnaðarráðherra. „Við undirritun
EES-samningsins skuldbundu ís-
lensk stjórnvöld sig til að innleiða
þessa tilskipun. Undanþága var felld
úr gildi 30. júní og því ríkir hér
óvissa. Klögumálin ganga yfir okkur
og málið er að færast á slæmt stig
fyrir stjórnvöld. Alvarlegast í mál-
inu er hættan á að hingað berist
smitsjúkdómar í lifandi fiski með
innflutningi sjávardýra án takmark-
ana. Ég tel mikilvægast að vinna úr
okkar stöðu, koma okkur frá kæru-
málum og koma okkur upp vörnum
til að hindra að við fáum hingað
sýkta stofna. Sem landbúnaðarráð-
herra hefur mér þótt óhjákvæmi-
legt, vegna kærumála ESA, að málið
færi fyrir þingið og hef því lagt það
fram til þess að koma þessum sjón-
armiðum á framfæri. Ég er algjör-
lega sammála laxveiðimönnum um
að hingað megi hvorki koma brunn-
bátar né laxastofnar sem valda okk-
ur hættu. Ég tel það versta valkost-
inn að búa við það ástand eins og
það er komið þegar búið er að fella
undanþáguna úr gildi. Þess vegna
vantar okkur nýtt skjól sem frum-
varpið gerir ráð fyrir, til að standa
vörð um þann hreinleika og sérstöðu
sem við búum við og höfum varð-
veitt.“
Frumvarp leyfir inn-
flutning á lifandi eldislaxi
Morgunblaðið/Ágúst
Starfsmenn Sæsilfurs gera fyrstu eldiskvína í Norðfirði tilbúna.
NEYTENDAVERND er aukin í
frumvarpi til laga um vátrygginga-
samninga sem lagt hefur verið fram
á Alþingi. Þannig er upplýsinga-
skylda tryggingafélaga aukin og
takmarkaðar heimildir félaganna til
að slíta samningi hvort sem er á
miðju tímabili eða við endurnýjun
vátryggingasamnings.
Í frumvarpinu er að finna ákvæði
um upplýsingaskyldu vátrygginga-
félaga, einkum við gerð vátrygg-
ingasamninga, en í núverandi lögum
eru engin ákvæði um skyldu trygg-
ingafélaga til að veita upplýsingar,
eingöngu um skyldur þess sem
kaupir sér tryggingu. Er trygginga-
félögum einnig gert skylt að upp-
lýsa í vátryggingaskírteini hvaða
varúðarreglur séu í samningnum
sem geti leitt til takmörkunar á
ábyrgð félagsins. Frumvarpið bann-
ar að félagið beri fyrir sig fyrirvara
vegna brota á varúðarreglum, ef
ekki er við vátryggðan að sakast
eða ef sök hans er óveruleg. Þá er
hugtakið „varúðarreglur“ skýrt víð-
tækar en gert er í núgildandi lögum.
Í frumvarpinu er jafnframt að
finna reglur um uppsögn vátrygg-
ingasamninga þannig að sá tryggði
hefur mikið svigrúm til að slíta
samningi af sinni hálfu en miklar
takmarkanir eru á heimildum fé-
lagsins til að slíta vátryggingasamn-
ingi, ekki einungis á tímabilinu,
heldur líka við endurnýjun hans. Þá
eru sett inn ákvæði um að vátrygg-
ingafélög geti ekki krafið þann sem
óskar eftir persónutryggingu um
heilsufarsupplýsingar er lúta að
erfðafræðilegum þáttum.
Í athugasemdum með frumvarp-
inu segir að ljóst megi vera að mörg
atriði í frumvarpinu muni leiða til
nokkurs kostnaðarauka fyrir trygg-
ingafélögin, verði frumvarpið að
lögum. Á móti komi að gera megi
ráð fyrir að skýrari og ítarlegri
reglur um ýmis atriði muni leiða til
fækkunar ágreiningsmála og þar
með til minni kostnaðar sem tengist
þeim. „Verður að telja að aukin
neytendavernd sé samfélaginu til
hagsbóta þegar til lengri tíma er lit-
ið,“ segir í athugasemdum með
frumvarpinu.
Neytendavernd við gerð
vátryggingasamninga aukin
Í FYRRA urðu tvö dauðsföll vegna
sjóslysa sem komu til kasta rann-
sóknarnefndar sjóslysa. Þá varð og
banaslys þegar erlendur sjómaður
féll milli skips og bryggju í íslenskri
höfn. Til samanburðar má nefna að
árið 2001 voru dauðaslysin sjö en
þrjú árið 2000.
Þetta kemur m.a. fram í skýrslu
samgönguráðherra, Sturlu Böðvars-
sonar, um störf rannsóknarnefndar
sjóslysa. Skýrslunni hefur verið
dreift á Alþingi.
Í skýrslunni kemur fram að rann-
sóknarnefnd sjóslysa hafi rannsakað
fjögur mál vegna skipa sem höfðu
sokkið hér við land og ellefu mál
vegna skipa sem höfðu strandað. Í
103 af þeim 149 málum sem komu til
kasta rannsóknarnefndarinnar í
fyrra urðu slys á fólki og eru það
nokkru fleiri tilvik en mörg undan-
farin ár. Í fyrra urðu þannig slys á
fólki í 63 tilvikum. Heildarfjöldi mála
er engu að síður svipaður og verið
hefur að teknu tilliti til bættra til-
kynninga um slys, einkum úr vöru-
flutningageiranum.
Fleiri tilvik
á sjó þar
sem slys
urðu á fólki
ÞINGMENN Vinstrihreyfingarinn-
ar – græns framboðs gagnrýndu við
upphaf þingfundar á Alþingi í gær
að þingsályktunartillaga þeirra um
að ríkisstjórnin beiti sér gegn
áformum um innrás í Írak hefði
ekki fengist afgreidd úr utanrík-
ismálanefnd Alþingis fyrr um
morguninn. Þingmenn stjórnar-
meirihlutans höfnuðu því að tillagan
yrði afgreidd úr nefndinni. Þar með
fer hún ekki til síðari umræðu á Al-
þingi.
Í umræddri tillögu VG segir m.a.:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn-
inni að koma þeirri afstöðu á fram-
færi á vettvangi Sameinuðu þjóð-
anna og annars staðar þar sem við
á, að leita skuli allra leiða til að af-
stýra innrás í Írak, þar á meðal að
veita vopnaeftirlitsmönnum Sam-
einuðu þjóðanna nægan tíma til að
ljúka störfum sínum.“
Utanríkisnefnd taki
sjálfstæða afstöðu til mála
Steingrímur J. Sigfússon, for-
maður VG, benti á að eins og stað-
an væri núna í Íraksdeilunni snerist
málið um það hvort það væri rétt-
lætanlegt að ráðast á Írak á allra
næstu dögum eða ekki. Hann sagði
að það þyrfti að ræða þessi mál og
að fram þyrfti að koma hvar Ísland
stæði í þessu máli. Ögmundur Jón-
asson, þingflokksformaður VG, tók
í sama streng.
Í máli Halldórs Ásgrímssonar ut-
anríkisráðherra kom fram að um-
rædd afgreiðsla málsins hefði ekki
verið rædd í ríkisstjórn. Utanrík-
ismálanefnd tæki sjálf afstöðu til
afgreiðslu mála. Þá sagði hann ljóst
að meirihluti þingsins útilokaði ekki
valdbeitingu í Írak.
Davíð Oddsson forsætisráðherra
tók í sama streng. Hann benti m.a.
á að Saddam Hussein Íraksforseti
væri kannski mesti óvinur írösku
þjóðarinnar um þessar mundir.
Hann sagði ennfremur að margoft
hefði komið fram hjá utanríkisráð-
herra að hann og íslenska ríkis-
stjórnin hefði vilja fara með frið-
samlegum hætti gagnvart Hussein
en „þó með fullum þunga hótana“
eins og forsætisráðherra orðaði
það.
Gagn-
rýndu
málsmeð-
ferð
ar Framsóknarflokks, Samfylkingar
og einn fulltrúi Frjálslyndra skipuðu
meirihlutann. Að sögn Þorgerðar K.
Gunnarsdóttur, Sjálfstæðisflokki,
formanns allsherjarnefndar, vildu
sjálfstæðismenn afgreiða frumvarp-
ið út úr nefndinni til umræðu og af-
greiðslu á þinginu, þar sem um
starfsréttindamál væri að ræða. „Við
teljum, að fyrst búið er að heimila
öðrum háskólum en Háskóla Íslands
að útskrifa lögfræðinga, þá sé eng-
um stætt á því að hafa ákvæði þess
efnis í lögmannalögum að eingöngu
lögfræðingar frá Háskóla Íslands
geti orðið lögmenn,“ segir hún. „Það
er einhugur í allsherjarnefnd um að
BREYTINGAFRUMVARP Sól-
veigar Pétursdóttur dómsmálaráð-
herra um lögmenn verður ekki af-
greitt á yfirstandandi þingi eftir
ákvörðun meirihluta allsherjar-
nefndar þingsins um að vísa frum-
varpinu til umsagnar hagsmuna-
aðila. Umdeildasta breytingin sem
frumvarpið hefur í för með sér er sú
að Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn
á Akureyri og Viðskiptaháskólinn á
Bifröst fá að útskrifa lögmenn líkt og
Háskóli Íslands.
Ágreiningur var milli fulltrúa
stjórnarflokkana um afgreiðslu
málsins frá nefndinni og lentu sjálf-
stæðismenn í minnihluta, en fulltrú-
frumvarpið verði einhvern tíma að
lögum, þótt sjálfstæðismenn vilji að
það gerist strax á þessu þingi.“
Jónína Bjartmarz, Framsóknar-
flokki og varaformaður allsherjar-
nefndar, sagðist fagna fjölbreytni á
sviði laganáms, en hins vegar hefði
frumvarpið komið of seint fram og
ekki hefði unnist tími til að setja það
í hefðbundna þinglega meðferð og
senda það út til umsagnar. Sagði hún
að rétt væri að nýta sumarið til þess
og að ná fram sátt milli háskólanna.
„Ég held að ágreiningur milli skól-
anna þjóni engum tilgangi heldur
verða menn að ná sátt um efnislegar
lágmarkskröfur,“ sagði hún.
Lögmannafrumvarpið ekki
afgreitt á þessu þingi
SJÁVARÚTVEGSNEFND
Alþingis mælir með samþykkt
þingsályktunartillögu um að
nefnd verði skipuð til að meta
kosti og galla færeyska fisk-
veiðistjórnarkerfisins. Hjálmar
Árnason, þingmaður Fram-
sóknarflokksins, lagði tillöguna
upphaflega fram á Alþingi fyr-
ir jól.
Í nefndaráliti sjávarútvegs-
nefndar segir að margir í þjóð-
félaginu hafi lagt til að tekið
verði upp hið færeyska kerfi
hér á landi. „Engin úttekt hef-
ur hins vegar verið gerð á því í
samanburði við núverandi fyr-
irkomulag fiskveiða á Íslandi,“
segir í álitinu. „Nefndin telur
mikilvægt að slík úttekt verði
framkvæmd þannig að hægt
verði að bera saman kerfin tvö
með hliðsjón af sem flestum
þáttum, svo sem þjóðhagslegri
hagkvæmni, áhrifum á byggð-
ir, fiskgengd, tengslum vinnslu
og útgerðar, brottkasti, veið-
arfærum, stærð fiskiskipa
o.s.frv.“
Niðurstaða kynnt
í nóvember
Nefndin leggur til í fram-
haldinu að þingsályktunartil-
laga Hjálmars verði samþykkt.
Auk þess leggur hún til að
sjávarútvegsráðherra kynni
Alþingi niðurstöðu nefndarinn-
ar eigi síðar en 1. nóvember
2003.
Kostir
og gallar
verði
metnir
♦ ♦ ♦