Morgunblaðið - 12.05.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 12.05.2003, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 MÁNUDAGUR 12. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ HALLDÓR Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að hann hafi alla tíð sóst eftir að leiða ríkisstjórn. Hann vill hins vegar á þessu stigi ekki ræða hvaða stöðu flokkurinn hefur til að setja fram kröfur gagnvart öðrum flokkum um að verða í forystu fyrir ríkisstjórn. „Ég er ánægður með niðurstöðu Framsóknarflokksins í þessum kosningum. Ég tel að kosningabar- áttan hafi gengið vel hjá okkur. Ég er sáttur við hana á allan hátt og er afskaplega þakklátur fyrir þann góða anda sem ríkti meðal okkar fólks. Það er ástæðan fyrir því að við fengum ágæta niðurstöðu miðað við allar aðstæður.“ Halldór sagði að því hefði verið mjög haldið á lofti af andstæðingum flokksins að framsóknarmenn réðu litlu í stjórnarsamstarfi við Sjálf- stæðisflokkinn. „Það er algerlega rangt. Við höfum þurft að eyða miklum tíma og kröftum í að svara slíkum áróðri. Því er ekki að neita að það hefur reynst okkur oft á tíð- um erfitt. Við höfum borið uppi mörg mikilvæg og umdeild mál í þessu stjórnarsamstarfi. Oft á tíð- um höfum við verið í vörn vegna þeirra, en þegar upp er staðið tel ég að það hafi verið metið í þessum kosningum hversu einarðlega við sóttum fram á ýmsum sviðum, t.d. á sviði virkjana- og stóriðjumála og einnig á sviði endurskipulagningar fjármálamarkaðarins.“ Halldór sagði að úrslit kosning- anna sýndu að ríkisstjórnin hefði haldið meirihluta sínum. „Sjálf- stæðisflokkurinn tapar fjórum þingmönnum núna. Framsóknar- flokkurinn tapaði þremur þing- mönnum 1999. Flokkarnir hafa því tapað sjö þingmönnum frá því að þeir hófu samstarf árið 1995.“ Stjórn Samfylkingar og Fram- sóknarflokks yrði mjög veik Halldór sagði að þingflokkur Framsóknarflokksins kæmi saman til fundar í dag. Lagt yrði til við flokkinn að hefja formlegar stjórn- armyndunarviðræður við Sjálf- stæðisflokkinn. Hann sagði ekkert hægt að segja meira um það á þessu stigi, hvorki hvað þær tækju langan tíma né um niðurstöður þeirra. Halldór sagði á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í september í fyrra að aðalmarkmið Framsóknar- flokksins í komandi alþingiskosn- ingum ætti að vera að stýra næstu ríkisstjórn. Hann var spurður hvort hann teldi líkur á að flokkurinn næði þessu markmiði sínu eftir þessar kosningar. „Ég hef alltaf sóst eftir því að leiða ríkisstjórn og að Framsóknar- flokkurinn nái afli til þess. Það er eins núna. Við höfum ekki hafið neinar umræður um þetta, en þetta er eitt af því sem flokkarnir munu ræða í þeim viðræðum sem fram- undan eru. Í mínum huga eru mál- efnin aðalatriði og sá vilji okkar að halda áfram að byggja upp blóm- legt atvinnulíf og öflugt velferðar- kerfi.“ Framsóknarflokkurinn og Sam- fylkingin gætu myndað meiri- hlutaríkisstjórn, en meirihluti hennar væri aðeins einn þingmað- ur. „Ég dreg enga dul á að slík ríkis- stjórn yrði mjög veik. Ég er reynd- ar þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðis- flokks sem hefði aðeins 32 þing- menn væri jafnframt veik.“ Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að hann sjái ekki að mál- efnaleg samstaða sé milli Samfylk- ingar og Sjálfstæðisflokks og nefndi þar þrjú mál; fyrningarleið í sjávarútvegi, skattamál og að land- ið yrði gert að einu kjördæmi. Halldór sagði að framsóknar- menn væru andvígir því að gera landið að einu kjördæmi. Hann sagði að sér litist ekki vel á skatta- tillögur Samfylkingar og enn verr litist sér á fyrningarleiðina. „En ég veit ekki hvað Samfylkingin er staðföst í því að gera þessi mál að algjöru skilyrði. Ég tók það nú ekki jafnalvarlega enda væri Samfylk- ingin þá að útiloka sig frá stjórnar- þátttöku í landinu.“ Halldór sagði að Össur Skarp- héðinsson, formaður Samfylking- arinnar, hefði rætt við sig í gær í síma. „Við ræddum almennt um niðurstöðu kosninganna og stöðu mála. Ég skýrði honum frá því að ég og forsætisráðherra hefðum tal- að saman í dag [í gær].“ Halldór var spurður hvort hann og Össur hefðu eitthvað rætt um stól forsætisráðherra. „Ég tel að það sé tilgangslaust að ræða einhverja stóla. Það er venjan að fyrst fari menn í málefnaumræð- ur og síðan eftir það er ráðuneytum skipt.“ Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra um stöðu Framsóknarflokksins eftir kosningar Hef alltaf sóst eftir því að leiða ríkisstjórn DAVÍÐ Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þýðingarmestu tíðindi þing- kosninganna um helgina séu þau að ríkisstjórnin haldi velli með traust- um meirihluta. Hann telur eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Fram- sóknarflokkurinn gangi til viðræðna um áframhaldandi samstarf, tillaga þess efnis verði lögð fyrir fundi þingflokkanna í dag. Davíð telur það hugsanlegt að breytingar verði á ráðherraskipan, nái núverandi stjórnarflokkar saman. Þá útilokar Davíð ekki að þetta verði hans síð- asta kjörtímabil á Alþingi. „Þessi trausti meirihluti er leið- beinandi um framhaldið. Gríðarleg áhersla var lögð á það af hálfu stjórnarandstöðunnar að fella rík- isstjórnina. Ég hygg að menn hafi verið orðnir vongóðir um að það tækist en það gerðist ekki. Þetta er meginniðurstaða kosninganna,“ seg- ir Davíð. Hann segir útkomu flokkanna vera með misjöfnum hætti. Fram- sókn haldi sínu, Samfylkingin bæti við sig en minna en væntingar hafi verið uppi um. Sjálfstæðisflokk- urinn, eftir að hafa verið við lands- stjórnina í tólf ár, geti verið ánægð- ur í samanburði við Samfylkinguna, stjórnarandstöðuflokk sem hafi beitt sér afar hart. „Ég hefði samt viljað sjá meira fylgi hjá Sjálfstæðisflokknum. Einn- ig er það ljóst að Frjálslyndi flokk- urinn, sem skilgreindi sig hægra megin við miðju, tók frá okkur fylgi. Að öðru leyti er ég ánægður með niðurstöðu kosninganna í heild. Ég sakna að sjálfsögðu margra góðra þingmanna sem ekki eru með áfram og tel skaða að því hvernig fór með þá,“ segir Davíð. Nánar spurður um útkomu Sjálf- stæðisflokksins segist Davíð ekki hafa haft þá tilfinningu skömmu fyr- ir kosningar, líkt og margir og dug- legir flokksmenn hefðu sagt í sín eyru, að flokkurinn væri að vinna mikið á. Hann segist hafa haft á til- finningunni að örlítið vantaði upp á að flokkurinn næði meðalfylgi. Frjálslyndi flokkurinn hafi haft sitt að segja sem og „hatrammar árásir“ á Sjálfstæðisflokkinn. Eðlilegt að hefja formlegar viðræður Davíð átti í gær fund með Hall- dóri Ásgrímssyni, formanni Fram- sóknarflokksins, í Ráðherrabú- staðnum. „Við áttum fund þar sem við fór- um stuttlega yfir málin. Niður- staðan varð sú að vegna úrslita kosninganna, þar sem ríkisstjórnin hélt velli með þetta traustum meiri- hluta, teldum við eðlilegt að við myndum leita eftir umboði til þess hjá þingflokkunum að hefja form- legar viðræður. Það munum við leggja fyrir okkar þingflokka síð- degis á morgun [í dag]. Við fórum ekki yfir nein efnisatriði, enda rétt að fara formlega leið og heyra í okk- ar þingflokkum. Ég á von á að þeir muni samþykkja þessar tillögur og viðræður hefjist í framhaldinu. Svo verður að koma í ljós hvort menn ná saman um málefni eða aðra skipan mála. Það liggur að sjálfsögðu ekki á borðinu,“ segir Davíð. Aðspurður hvort breytingar verði á ráðherraliði stjórnarflokkanna, nái þeir samkomulagi um að starfa áfram saman, segir hann það hugs- anlegt, án þess að það hafi verið rætt formlega. Hvort Framsóknar- flokkurinn fái embætti forsætisráð- herra segir Davíð viðræður um það ekki hafa farið fram. „Sjálfstæðisflokkurinn er stærri flokkur, þrátt fyrir breytingar á fylgi, og það hljóta menn að hafa í huga. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann á og Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi í kosningunum 1999 gerðum við ekki auknar kröfur til Framsóknarflokksins. Við töldum það ekki vera gott innlegg í sam- starf sem byggðist á trausti og trún- aði. Á hinn bóginn er fullkomlega eðlilegt að maður á borð við Halldór Ásgrímsson, sem hefur verið ráð- herra í sextán ár, taki slík mál upp á borðið. Það er eðli stjórnarmynd- unarviðræðna að hafa öll mál uppi á borðinu,“ segir Davíð. – Þú getur séð Halldór fyrir þér sem forsætisráðherra? „Ég hef eingöngu sagt að hann hafi alla burði til þess. Einnig tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn geti haft slíka forystu, þetta þurfa menn bara að ræða.“ Skilyrði Samfylkingarinnar óaðgengileg – Útilokarðu að Sjálfstæðisflokk- urinn geti starfað með Samfylking- unni í ríkisstjórn? „Það hef ég ekki gert. Hins vegar setti talsmaður Samfylkingarinnar [Ingibjörg Sólrún Gísladóttir – innsk. Mbl.] fram mjög afgerandi skilyrði í sjónvarpsþætti sem ég sé að hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn gætu gengið að. Þetta eru skilyrði eins og að koma á fjölþrepaskattkerfi og eyði- leggja staðgreiðsluna, skilyrði um 10% fyrningu veiðiheimilda á ári, sem myndi setja sjávarútveginn og efnahagslífið í uppnám, og að gera landið allt að einu kjördæmi, sem myndi æsa til mikilla deilna milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þessi skil- yrði eru til þess fallin, býst ég við, að ýta Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum töluvert til hliðar, enda voru menn þá vænt- anlega að stefna að því að mynda stjórn Samfylkingarinnar, Frjáls- lyndra og Vinstri grænna. Slík stjórn fékk hins vegar ekki byr í kosningunum.“ Davíð gaf það til kynna í um- ræðum í Ríkissjónvarpinu að lokn- um kosningum að komandi kjör- tímabil yrði hans síðasta á Alþingi. Spurður um þetta segir Davíð það vera inni í myndinni að hætta, erfitt sé að fullyrða hvað hann geri. „Ég gæli við það að eiga rýmri tíma fyrir mig sjálfan einhvern tím- ann, hvernig sem þau mál þróast. Þetta er alveg eins inni í myndinni. Þó að mér sé lýst sem valdagírugum og það allt saman þá er ég ekkert háður valdinu. Svo er aldrei hægt að útiloka að ég slái til og haldi áfram. Þetta verður bara að koma í ljós,“ segir Davíð. Vaktin búin að vera heillöng – Hættirðu á Alþingi þarftu þá ekki að huga að því fyrr en seinna að einhver taki við af þér sem for- maður Sjálfstæðisflokksins og geti undirbúið næstu kosningar? „Á þessu kjörtímabili verða að minnsta kosti tveir landsfundir þannig að slík mál geta komið til at- hugunar á þeim fundum, hinum fyrri og síðari eftir atvikum. Ég tók við formennsku í Sjálfstæðis- flokknum í mars [1991], fór síðan í kosningar 20. apríl og myndaði rík- isstjórn 30. apríl þannig að þetta er allt saman til í dæminu.“ – Eru það skriftirnar sem heilla þig? „Ég vildi gjarnan hafa meiri tíma fyrir þær. Menn eru á eilífðar bak- vakt og á fundum flest kvöld og helgar. Ekki er mikill tími í annað og klukkan tifar. Ég byrjaði snemma í stjórnmálum, varð borg- arstjóri 34 ára og hef verið hvern einasta dag síðan annaðhvort borg- arstjóri eða forsætisráðherra og í einn eða tvo mánuði hvort tveggja. Vaktin er því búin að vera heillöng.“ Aðspurður hvort hann gangi á fund forseta Íslands í dag, að lokn- um kosningum, segir Davíð engin efni vera til þess. Ríkisstjórnin haldi velli og stjórnarflokkarnir stefni að því að starfa saman. Engin efni séu til þess „að raska ró“ forsetans. Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um kosningarnar Þýðingarmest að ríkisstjórnin heldur velli Nái stjórnarflokkarnir saman um nýja ríkisstjórn eru breytingar á ráðherraskipan hugsanlegar Morgunblaðið/Golli Halldór og Davíð í sjónvarpssal á kosninganótt.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.