Morgunblaðið - 24.07.2003, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 24.07.2003, Blaðsíða 32
MINNINGAR 32 FIMMTUDAGUR 24. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Elsku Hemmi frændi. Mikið óskaplega finnst mér sárt að þurfa að kveðja þig svona langt um aldur fram. Allt fram á síð- ustu stundu vonaðist ég eftir krafta- verki en nú er víst kominn tími til þess að gefa þá von upp á bátinn. Miklu myndi ég fórna fyrir eina úti- legu til viðbótar með ykkur Möttu. Það er orðið allt of langt síðan við fór- um síðast. Mikið afskaplega var samt alltaf gaman að vera í kringum þig; þegar þú lékst Fjalla-Eyvind í hell- inum og kallaðir á Höllu þína í bólið; þegar þú raðaðir okkur upp á rollu- stíginn, lést okkur labba kiðfætt á eft- ir þér og jarma og baðst svo Möttu um að taka mynd af „kindarlegu fjöl- skyldunni“; þegar við dönsuðum á fjöllum við tónana frá bílútvarpinu; þegar þú kenndir mér að hrækja „dömulega“, með því að rúlla upp tungunni og spýta í gegn; þegar við sátum heima í stofu og hnoðuðum horkúlur og skutum þeim svo um öll gólf; þegar við grilluðum í Garða- bænum og þú lánaðir pabba kjána- legu rollustuttbuxurnar af því að það var svo gott veður; þegar þú reyndir að kenna okkur að verða listamenn eins og þú; þegar þú spilaðir og söngst. Í fermingunni minni eyddirðu miklum tíma í að skrautskrifa „Haus- inn“ á laust blað sem ég átti að leggja inn í gestabókina til þess að stríða mömmu. Síðan hlóstu að öllu saman, svona í gegnum nefið, eins og þér ein- um var lagið. Þannig varstu, með ein- hverja stærstu djókkúlu í manna minnum, hrókur alls fagnaðar. Þann- ig ætla ég alltaf að muna þig. Skilaðu kærri kveðju til Bjössa afa og Dodda frænda míns. Núna get- urðu strítt þeim að vild. Elsku amma, Matta, Katrín Brynja og Máni Freyr. Megi góður Guð veita ykkur styrk í sorginni. Helga Jóna. Tíminn er ávallt of skammur þegar horft er á bak góðum dreng. Minnir stundum á íslenska sumarið, sem í fegurð sinni líður alltof fljótt. Fund- um bar ekki oft saman í seinni tíð, en menn vissu vel hver af öðrum. Æv- inlega hress og kátur í bragði þegar við hittumst og heyrðumst. Slegið á létta strengi og gamanið græsku- laust. Margs að minnast frá skólaár- um í M.A. og ekki hvað síst stundin, þegar ég var þess heiðurs aðnjótandi að vígja þau Möttu og Hemma saman í hjónaband. Það var látlaus, en ljúf stund í Norðfjarðarkirkju, í heima- sveitinni, þangað sem hugurinn hvarflaði ósjaldan til. Hemmi var hæfileikaríkur mann- kostamaður. Vel af Guði gerður, námsmaður góður, las lögfræði eftir stúdentspróf. En lögfræðingurinn helgaði sig fréttamennsku. Laðaðist að spennu atburðarásar og augna- bliks. Þó sjálfur fremur hlédrægur, yfirvegaður í fasi og vandvirkur. Virt- ist þrífast vel í iðu mannlífsins og stutt í breitt brosið. Listrænn með af- brigðum. Góður teiknari og hljóm- listamaður. Honum margt gefið, en galt einnig sinn toll. Að sigrast á sjálfum sér er lífsins viðfangsefni og að finna sig virkan á þeirri brautu, verður hverjum tími fagnaðar. Það fékk Hemmi að reyna. Um það vitnaði hann sterkt. Á seinni árum vakinn til lífsins. Í trú og lifandi von, sem studdi hann í gegnum dag- inn. Innileg gleði í röddinni, er hann kvaðst hafa fundið fjölskyldu sína á ný. Uppgötvað, þótt seint væri, hversu ríkur hann var og stoltur af því ríkidæmi. Eignast síðustu árin og HERMANN SVEINBJÖRNSSON ✝ Hermann Þor-valdur Svein- björnsson fæddist í Neskaupstað 5. mars 1949. Hann lést á heimili sínu í Garða- bæ 16. júlí síðastlið- inn og var útför hans gerð frá Víðistaða- kirkju í Hafnarfirði 22. júlí. ekki síst í strangri bar- áttu, dýrðlegar stundir í samfélagi við sína. Tækifæri, sem hann nýtti og naut til hins ítr- asta. Fékk mikinn styrk og lífsfyllingu í gegnum það innilega og gefandi samfélag. Þá rómaði hann þann jákvæða félagsskap, sem studdi hann í bar- áttu sinni. Stuðning fjöl- margra. Þakkaði Guði það allt og tækifærin til að leggja virkilega rækt við listræna hæfileika sína og þá helst tónsmíðar. Í þessari stöðu sinni birtist mér vinur sem endurborinn væri. Vinur sem ræddi sjúkdómsstöðu sína af óvenjulegri stillingu, æðruleysi og hugarró. Lét hvern dag nægja sína þjáningu. Einbeitti sér að því að gefa öðrum hlutleild í lífi sínu og hugar- efnum og miðla af sér öllu því sem hann gat gefið. Fárveikur hélt hann í vor austur til fundar við móður sína og ættingja, til að gleðja hana á merk- isafmæli. Staldraði við í kirkjunni á Eskifirði og þar áttum við saman góða stund. Hemmi horfði fram á við. Vissi að hann gekk ekki einn dimma dalinn. Hann fann sig í góðum höndum. Sömu líknarhöndum og umvefja hann nú kærleika sínum og náð. Samfylgd og samverustundir eru þakkaðar. Minningin fyllir hugann birtu og yl. Við hjónin biðjum góðan Guð að styrkja eiginkonu, afkomend- ur, ástvini og vini og veita þeim hugg- un sína. Guð blessi minninguna um ljúfan vin. Davíð Baldursson. Hermann Sveinbjörnsson, fyrrver- andi samstarfsmaður minn við blaðið Dag á Akureyri, er látinn eftir erfiða sjúkdómslegu. Það var sumarið 1979 að við Hermann kynntumst. Það þurfti að finna nýjan ritstjóra og kom það í minn hlut að ræða við Hermann og fá hann til að taka það að sér. Her- mann sýndi þessu strax áhuga og við hittumst fyrst í Reykjavík og rædd- um mikið um framtíðarmöguleika Dags. Hann kom svo nokkru síðar norður þar sem gengið var frá því að hann tæki við sem ritstjóri Dags 1. janúar 1980. Það kom fljótt í ljós að Hermann var vandanum vaxinn. Blaðið tók fljótt allverulegum breyt- ingum er voru til góðs. Hermann var fljótur að setja sig inn í mál, þó alveg sérstaklega þegar um sjávarútvegs- mál var að ræða. Strax tókst með okkur vinátta mikil er síðan hefur haldist. Hann var ætíð heiðarlegur og hreinskilinn í okkar samstarfi. Hann var oft ákafur og hafði mikinn metnað fyrir starfinu. Það var svo snemma árs 1981 að ákveðið var að stefna skyldi í rekstur á eigin prentsmiðju og auka útgáfu blaðsins. Það kom því í hlut okkar Hermanns öðrum fremur að vinna að undirbúningi og síðan framkvæmd. Við þetta fjölgaði starfs- mönnum og sýndi Hermann nú líka betur hversu vel honum fórst að leiða ritstjórn, sem áfram fjölgaði í á næstu árum. Stofnun Dagsprents sem Her- mann átti stóran þátt í að koma á fót varð síðan grunnurinn að því að Dag- ur fór að koma út 5 sinnum í viku og komst þar með í hóp dagblaða á Ís- landi og það fyrsta og eina hingað til utan Reykjavíkur. Allir starfsmenn Dags og blaðstjórn áttu tvímælalaust sinn þátt í því að Dagur varð að dag- blaði en það er ekki að lasta neinn að segja að þáttur Hermanns í því sé stærri en nokkurs annars. Ég efa að ef jafn kraftmikils ritstjóra hefði ekki notið við, með þann metnað fyrir blaðinu sem hann hafði og ódrepandi vilja fyrir því að gera stöðugt betur, að okkur hefði tekist að láta þann gamla draum rætast að Dagur yrði dagblað. Það þarf bæði metnað og vilja til að láta svona hluti ganga og það hafði Hermann öðrum fremur. Stöðug uppbygging sem var á rekstrinum með sífellt aukinni útgáfu tekur á við stjórnun blaðsins, ekki síst hjá ritstjóranum er stöðugt verður að finna nýtt efni, fleiri þætti og að sam- nýta starfsfólkið við allt þetta. En Hermann brást ekki og sýndi enn og aftur hversu hæfur hann var til að fást við þessi verkefni. Á miðju ári 1987 ákvað hann að hætta sem rit- stjóri og fór til starfa hjá Sambandinu sem blaðafulltrúi. Honum þótti rétt að breyta til. Er ég sat með honum nýlega og við ræddum gamla tíma og það að fyrrverandi starfsmenn okkar hefðu komið saman til sömu erinda og skemmt sér saman eina kvöldstund fann ég glöggt hversu vænt honum þótti um sitt samstarfsfólk frá þess- um tíma. Hann spurði margs og við töluðum saman í drjúga stund þrátt fyrir að veikindi hans gerðu honum orðið erfitt fyrir um samræður og hann þreyttist fljótt. Ég kveð þennan góða vin með söknuði og sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til eigin- konu, móður, dóttur og annarra að- standenda. Jóhann Karl Sigurðsson. Hermann Sveinbjörnsson var öfl- ugur fréttamaður enda skarpgreind- ur, þrautseigur og með djúpt innsæi. Hann var líka góður félagi og var í mörg ár gjaldkeri í stjórn Félags fréttamanna, stéttarfélagi frétta- manna hjá Ríkisútvarpinu. Þar kom næmi hans og hæfni til að greina aðal- atriði frá aukaatriðum að góðum not- um líkt og í fréttamannsstarfinu. Hann var réttsýnn og fastur fyrir þegar samið var um kaup og kjör nú síðast við gerð kjarasamninganna 2001. En Hemmi var líka svo skemmti- legur. Hann hafði mikla kímnigáfu og var sérlega hress í viðmóti. Þetta hressa eða káta fas heyrðist meira að segja í fréttum hans og viðtölum. Þó svo að það hafi verið bræla, Hafró með slæm tíðindi eða efnahagsmálin í kaldakoli þá höfðu þær fréttir líka þetta yfirbragð þegar Hemmi sagði frá. Þannig viðmóti mættu frétta- menn og fylgifiskar þeirra hjá hon- um, Möttu og Norðfirðingum þegar farið var í skíðaferð í Oddsskarð um páskana 1997. Þar í brekkunum var gestgjafinn Hermann í essinu sínu. Listrænir hæfileikar Hermanns voru ótvíræðir. Hann var einkar flinkur málari og tónlistargáfu hans nutu fé- lagar hans í Félagi fréttamanna. Hann gat spilað nánast hvað sem var á píanó. Hann lék á píanó við fjöl- margar uppákomur fréttamanna í af- mælisveislum og á árshátíðum félags- ins. Margir fréttamenn eru liðtækt söngfólk og tækifærisskáld en það var tóneyra Hemma sem oftar en ekki gerði gæfumuninn þannig að úr urðu fínustu skemmtiatriði. Tæpt ár er síðan hann flutti síðast afmælis- brag með félögum sínum. Fyrir tveimur árum lenti Fréttastofa Út- varpsins í 3. sæti í Rúvóvísíon, söngvakeppni Ríkisútvarpsins. Þar fluttu fréttamenn íslenska útgáfu af sigurlagi hinna dönsku Olsen bræðra. Þar stjórnaði og lék á píanó Hermann Sveinbjörnsson. Útlitið og spilið hjá Hemma var þá eins og hjá flottasta djassara í New York. Félag fréttamanna vottar Möttu, Katrínu Brynju, Laufeyju og öðrum ættingjum og venslafólki dýpstu sam- úð. F.h. stjórnar Félags fréttamanna, Þórdís Arnljótsdóttir varaformaður. Kær vinur er fallinn frá. Á stundu sem þessari koma margar minningar um góðan mann upp í hugann. Við systkinin vorum svo heppin að fá að kynnast honum Hemma en hann var góðvinur fjölskyldu okkar. Þegar við vorum yngri hittum við hann stundum í Neskaupstað en þar býr móðir hans og amma okkar. Allt- af var gaman að hitta Hemma. Hann var alltaf hress og sýndi okkur krökk- unum mikinn áhuga. Í okkar augum var hann ekki týpískur fullorðinn maður heldur góður vinur. Fyrir rúmum áratug kynntist Hemmi henni Möttu. Þar var ekki síðri manneskja á ferð. Það var eins og maður hefði alltaf þekkt Möttu. Eftir að þau giftu sig sáum við Hemma oftar en áður því þau komu nokkuð oft austur á Höfn til okkar. Alltaf var beðið með eftirvæntingu eftir þeim. Margt var brallað í þess- um heimsóknum þeirra. Hemmi lék við okkur krakkana, sagði okkur skemmtilegar sögur og hjálpaði okk- ur að mála myndir en hann var mikill listamaður. Það má eiginlega segja að Hemmi hafi verið eins og afi. Hann gerði allt fyrir okkur krakkana, gerði aldrei upp á milli okkar og kom fram við okkur eins og jafningja. Því er sárt að hugsa til þess að barnabarn hans, hann Máni Freyr, fái ekki að kynnast betur þessum frábæra afa sem hann átti. Á þessum stutta tíma sem þeir áttu saman var Máni Freyr alltaf augasteinn Hemma og stoltið leyndi sér ekki. Elsku Matta, minningar um ein- stakan mann munu vonandi styrkja þig í þessari miklu sorg. Takk fyrir allt. Vilborg, Gunnhildur og Bjarni Ólafur Stefánsbörn. Það er sárt að setjast niður og kveðja þig, Hermann minn, langt um aldur fram, stríð þitt við illvígann sjúkdóm var vægðarlaust og þvílíkt æðruleysi sem þú sýndir dag fyrir dag var aðdáunarvert og hverjum manni lærdómsríkt. Þó svo að kynni okkar hæfust ekki fyrr en fyrir um það bil þremur árum þegar að þú tókst mikið gæfuspor í lífi þínu, sem mér lánaðist að taka um það bil ári fyrr þá er það útrúlegt hversu við náðum góðu sambandi á svo skömmum tíma, og hversu miklu þér var fært að miðla til mín og ann- arra af þinni lífsreynslu, við höfðum átt svo útrúlega svipaða lífsgöngu, og ósjaldan ræddum við um lífsmynstrið á undangengnum árum og gátum ávallt fundið samsvörun á okkar lífs- ferli, og mikið gátum við lært og miðl- að hvor frá öðrum. Ég ætla ekki, Hermann minn, að rekja þinn æviferil enda eru aðrir fróðari um hann, en við erum að mörgu leyti með sama lífsgrunn, þú fæddur og uppalinn í sjávarplássi á Austurlandi, en ég í sjávarplássi á Norðurlandi, ég tel að þetta hafi hjálpað til að samband okkar og skiln- ingur myndaðist á svo skömmum tíma mér til mikillar gæfu, og er því söknuður minn mikill. Ég veit, Hermann minn, að síðustu vikurnar voru þér og fjölskyldu þinni ekki léttbærar, en það stendur uppúr öllu æðruleysi þitt sem þú sýndir í baráttu þinni. Ég vil fyrir þakka þér fyrir ánægjuleg kynni og ómetanleg- an stuðning sem þú hefur veitt mér síðustu árin. Minningin um góðan dreng sem sárt er að sjá á eftir svo langt um aldur fram mun vera mér of- arlega í huga. Ég vil votta eiginkonu þinni og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð, megi minningin um þig styrkja þau öll, hvíl í friði. Guðmundur Skarphéðinsson. Hemmi var að fá sér kaffi þegar ég hitti hann í síðasta sinn. Hann hrærði rólega með teskeiðinni, enda búinn að setja molasykur útí. Hann sá alltaf um að það væri nógur molasykur til á Fréttastofunni. Ef gesti bar að garði sem vildu sykur í kaffið, var hægt að ganga að molunum í skúffunni hjá Hemma. Skyldu þeir vera þar enn? Á vinnustað þar sem er unnið myrkranna á milli, í návígi, oft undir álagi, er góður vinnufélagi gulli betri. Það var Hemmi – góður félagi. Ætíð uppörvandi, glaður, umburðarlyndur, hvetjandi. Hann lá ekki á skoðun sinni ef honum þótti eitthvað mega betur fara, en var heldur ekki spar á hrós ef svo bar undir. Ég man vel þann dag sem Hemmi hóf störf hið fyrra sinnið á Frétta- stofu Útvarpsins. Nýútskrifaður lög- fræðingur en líka skólaður í blaða- mennsku af Tímanum. Hann iðaði í skinninu að takast á við verkefnin, snöggur að skrifa og ganga frá pistl- um. Þótt dvölin væri ekki löng á Fréttastofunni áður en hann réð sig norður á Akureyri til að ritstýra Degi, hélt hann sambandi við gömlu fé- lagana. Hann var velkominn þegar hann sneri aftur um áratug síðar. Áfram snar í snúningum. Hemmi var glaður í góðra vina hópi. Ómissandi við píanóið hvenær sem komið var saman. Teinréttur spilaði hann hvað sem var. Samt sagði hann mér í vetur að hann væri löngu búinn að gleyma öllum nótum sem hann lærði í gamla daga. Hann spilaði eftir eyranu og gerði það vel. Hemmi steig dans við Bakkus, dans sem varð of hraður. Hann sagði honum upp, bauð upp í glímu og vann. Þá fékk hann sér hljómborð og nýjar víddir opnuðust honum. Það er ógleymanleg minning sem við eigum um Hemma austur í Gnúpverja- hreppi. Það er hátíð undir sumarnæt- urhimni og hann við hljómborðið. Hemmi spilar hvert lagið á fætur öðru með mismunandi takti og áferð. Það er eins og hann stjórni heilli hljómsveit. Aftur sumar. Við stöndum við foss í Þjórsá. Flugurnar ætla okkur lifandi að drepa í logninu og sumarhitanum. Hemmi lánar flugnanetið sitt. Þrem- ur dögum seinna skín sól í heiði, en yljar ekki lengur. Óboðinn gestur hef- ur kvatt dyra. Krabbinn skorar á Hemma í glímu. Hann tekur áskor- uninni og tekst á við hann – einn dag í einu – rétt eins og Bakkus. „Þetta hefur verið góður tími,“ seg- ir hann við mig í hálfnaðri glímu. Hann heldur uppteknum hætti, hvet- ur okkur hin og örvar. Marga daga hefur Hemmi betur. Sólin skín sem aldrei fyrr daginn sem hann ákveður að sleppa tökunum og játa sig sigr- aðan. Elsku Matta og Katrín, hugurinn er hjá ykkur. Ég sé Hemma fyrir mér. Hann stendur við hljómborðið með bros á vör og dillar sér í takt við tónlistina sem hann leikur sjálfur. Það rýkur úr kaffibollanum ... og nóg af sykri. Sigríður Árnadóttir. Fallinn er í valinn æskuvinur minn Hermann Sveinbjörnsson. Við fráfall svo náins vinar leitar hugurinn í okk- ar gömlu heimabyggð, Norðfjörð. Þar ólumst við upp í einstöku umhverfi fyrir framtakssama stráka. Fjallið, fjaran, bryggjurnar og síðar fjörður- inn var okkar leiksvæði. Í þessum hópi glaðværra drengja var Hemmi góður liðsmaður sem gaf sig ekki átakalaust. Snemma komu í ljós listrænir hæfi- leikar Hemma. Hann hóf ungur að læra á píanó og þótti efnilegur tónlist- armaður. Þessir hæfileikar áttu eftir að nýtast honum síðar á lífsleiðinni er hann hóf að leika með norðfirskum rokkhljómsveitum. Enn sé ég hann fyrir mér leika á hljómborðið og syngja þekkta slagara þessara sak- lausu ára sem við héldum að aldrei tækju enda. Æskuárin liðu og alvara lífsins tók við. Rúmlega tvítug gengu þau Hemmi og Auður Sæmundsdóttir í hjónaband. Stuttu síðar eignuðust þau sitt eina barn, Katrínu Brynju. Við Ásta vorum tíðir gestir á heimili þeirra, milli okkar var mikill vinskap- ur. Hemmi var ákveðinn í að búa þeim mæðgum gott heimili. En einhvern veginn fór svo að þau Auður áttu ekki samleið og héldu hvort í sína áttina. Þrátt fyrir góðan vinskap gat stundum liðið langur tími milli sam- verustunda. Það breyttist hins vegar mikið þegar Matta kom í spilið. Í rúman áratug höfum við átt saman margar ánægjustundir. Ofarlega er mér í huga þegar þau Hemmi og Matta giftust í Norðfjarðarkirkju. Að vígslu lokinni lék organistinn nokkur angurvær Stoneslög. Hemmi og Matta, glæsileg og brosandi, augu 68- kynslóðarinnar fylltust af tárum. Þrátt fyrir glaðan hug var Hemmi á margan hátt alvörugefinn maður. Hann var nákvæmur og góður frétta- maður sem lagði alúð í starf sitt. Oft ræddum við um fréttamennskuna og þá ekki síst samskipti hans við sjó- menn. Þar kom honum til góða reynslan að austan, að alast upp á sjó- mannsheimili og hafa sjálfur stundað sjóinn. Hemmi átti auðvelt með að tala við sjómenn mál sem þeir skildu, þar á milli ríkti gagnkvæmt traust. Hemmi var flinkur og næmur myndlistarmaður. Minnisstætt er mér atvik austur á Norðfirði fyrir rúmum áratug. Við hittumst á sól- björtum og lognkyrrum sumardegi og ákváðum að kíkja á gamalt sjóhús. Þar höfðum við átt saman margar stundir við að stokka upp línu og fleiri verk á okkar ungdómsárum. Hugur- inn hvarflaði til þessara ára. Um

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.