Morgunblaðið - 26.07.2003, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 26.07.2003, Blaðsíða 21
LISTIR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. JÚLÍ 2003 21 TÓNLEIKAR Kristjönu Stefáns- dóttur og Agnars Más Magnússonar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á þriðjudagskvöld voru svo vel sóttir, að ekki komust allir að sem vildu, og lagði hópur fólks á sig að sitja á gólf- inu framan við sætin, eða standa aft- ast í salnum til að missa ekki af. Þótt salurinn sé ekki stór segir það tals- vert um vinsældir þessara ágætu listamanna, og man gagnrýnandi varla eftir annarri eins aðsókn á tón- leikum í Sigurjónssafni. Á efnis- skránni voru einungis lög eftir Tóm- as R. Einarsson, ballöður, dansar, söngvar og lög í suðrænum stíl. Út- setningar voru allar eftir Agnar Má, og með dúóinu í nokkrum laganna lék Helga Björg Ágústsdóttir selló- leikari. Tónleikarnir hófust á tveimur lög- um af Íslandsplötu Tómasar, Land- sýn, ballöðunum Journey to Iceland við texta eftir Auden og Vorregni í Njarðvíkum við texta Guðbergs Bergssonar. Þessi tvö fyrstu lög voru feiknar- vel flutt, söngur Kristj- önu dásamlega hreinn og mjúkur og leikur Agnars Más fallega stílfærður með myrk- um „debussýskum“ hljómum sem fóru ljóð- unum afar vel. Leikur Helgu Bjargar í því fyrra var líka bragð- mikill. Þarna fóru sam- an góð lög, góðar út- setningar og frábær flutningur. Næsta laga- tvenna olli þó talsverðum vonbrigð- um eftir frábært upphaf. Lagið Job- im, af plötunni Á góðum degi, og Títómas af nýjustu plötu Tómasar, Kúbönsku – bæði í suðrænum stíl – vantaði músíkalskt líf. Útsetningin á Jobim var þung, og sama var að segja um Títómas, þar sem lagið var kaffært í ofhlöðnum píanóstílnum. Söngur Kristjönu í þessum lögum var líka of þvingaður og haminn – tæknilega fínn, en vantaði þann neista sem gerir góðan söng frábær- an. Hjartalag, af plötunni Undir fjór- um – nú komið með nýjan texta eftir Tómas sjálfan – var hins vegar í ætt við upphafslögin tvö, fallegt, „mátu- lega“ útsett og firnavel flutt. Í S.S. Montclare, af Landsýn, við texta Halldórs Laxness kvað við nýjan tón og léttari, og þar sýndi Kristjana sína bestu takta í rytmíkinni. Það var sagt um Nat King Cole að í söngstíl hans væri „tæmingin“ fullkomin, og átt við það hvenær hann nákvæm- lega renndi sér inn í taktslagið. Kristjana hefur einmitt þetta í sér, að vera flink í að „tæma“ fallega. Land, þjóð og tunga, lag Tómasar við ljóð Snorra Hjartarsonar, er ein- staklega fallegt, og myndi sóma sér meðal okkar vinsælustu og bestu einsöngslaga ef fleiri söngvarar tækju eftir því. Hér var það flutt af smekklegu látleysi sem fór því af- skaplega vel. Tónleikunum lauk á smellinum Ef það sé djass, sem var hreint frábær í flutningi þeirra og bráðlifandi. Eftir mikil fagnaðarlæti tók tríóið tvö aukalög, eitt besta lag Tómasar, Stolin stef, og Hjartalag í annað sinn. Í heild voru þetta ánægjulegir tón- leikar. Þó voru það vonbrigði að ekki skyldi takast betur til með lögin góðu Jobim og Títómas. Það sem upp úr stendur er hve góður laga- smiður Tómas R. Einarsson er og jafnljóst að miklu fleiri mættu taka þau upp á sína arma og gera þeim eins góð skil og Kristjana, Agnar Már og Helga Björg gerðu hér. Vel farið með ballöður Tómasar TÓNLIST Listasafn Sigurjóns Ólafssonar Kristjana Stefánsdóttir, Agnar Már Magnússon og Helga Björg Ágústsdóttir fluttu lög eftir Tómas R. Einarsson. Þriðjudagskvöld kl. 20.30. DJASS Bergþóra Jónsdóttir Kristjana Stefánsdóttir Tómas R. Einarsson Hotelli URKU, Kangasala, Finn- landi Aðalheiður S. Eysteindóttir opnar sýningu og er hún liður í verk- inu 40 sýningar á 40 dögum. Gallerí Nema hvað, Skólavörðu- stíg 22c Brynhildur & Finna sýna nýjar steyptar hellur, „Gelluhellur“. Opið kl. 14–17 í dag og á morgun og kl. 15.30–19 mánudag til miðviku- dags. Í DAG  Sjá einnig Staður og stund á mbl.is SÝNING tileinkuð minningu Lár- usar Sigurbjörnssonar og stofnun Árbæjarsafns í salnum í húsinu Lækjargötu 4 hefur verið fram- lengd til 30. ágúst. Lárus hefur með réttu verið nefndur Safnafaðir Reykjavíkur en hann var einn stofnandi ljósmynda- safns Reykjavíkur og gegndi fyrst- ur manna starfi Borgarskjalavarð- ar. Sýning framlengd Á VEITINGASTAÐNUM Fjöru- borðinu á Stokkseyri stendur nú yf- ir sýning á verkum Sigríðar G. Sverrisdóttur. Myndirnar eru unn- ar með akrýl-litum á striga og er myndefnið m.a. af umhverfinu á staðnum ásamt öðru. Sýningin verður fram á haustið. Sigríður G. Sverrisdóttir við eitt verka sinna. Myndlist á Fjöruborðinu Í LISTASAFNI Reykjavíkur í Hafn- arhúsinu standa nú yfir þrjár sýn- ingar; Humar eða frægð – Smekk- leysa í 16 ár, Erró – Stríð og Innsýn í alþjóðlega samtímalist á Íslandi. Um helgina verður efnt til sér- stakrar dagskrár í Hafnarhúsinu sem er hluti af þemanu Listrænn laugardagur sem Þróunarfélag mið- borgarinnar stendur fyrir. Boðið er upp á Smekkleysubíó þar sem sýnd- ar verða tvær myndir; Á Guðs veg- um, tónleikamynd Sykurmolanna og einstæð upptaka frá tónleikum Jass- hljómsveitar Konráðs Bé á Hótel Borg árið 1990. Fyrri myndin verður sýnd kl. 14 á laugardag og sunnudag og síðari myndin kl. 16 báða dagana. Á laugardaginn kl. 15 verður auk þess leiðsögn um sýninguna Humar eða frægð sem sýningarstjórinn og liðsmaður Smekkleysu, Ólafur Eng- ilbertsson, sér um. Leiðsögnin tekur um 30 mínútur en að henni lokinni mun hipp hopp hljómsveitin Kritikal Mazz leika nokkur lög. Í tilefni af Listrænum laugardegi er frítt í Hafnarhúsið frá kl. 13. Opnunartími er daglega frá kl. 10-17. Smekkleysa á Listrænum laugardegi EINN efnilegasti org- anisti Dana af yngri kynslóðinni, Lars Frederiksen, org- anisti Frúarkirkj- unnar í Óðinsvéum, gistir Ísland um þess- ar mundir og lýkur ferð sinni um landið með tvennum tón- leikum í Hallgríms- kirkju á vegum Sum- arkvölds við orgelið. Í hádeginu í dag, kl. 12, verður flutt orgeltónlist eftir Bachs. Fyrst leikur Lars Fantasíu um sálminn Komm, heiliger Geist, Herre Gott, BWV 651, því næst Tríósónötu nr. 5 í C-dúr, BWV 529 og tónleikunum lýkur með Prelúdíu og fúgu í G-dúr, BWV 541. Á efnisskrá aðaltónleika helg- arinnar, annaðkvöld kl. 20, eru tónverk eftir „nágrannatónskáld“, frá Norður-Þýskalandi og Dan- mörku. Fyrsta verkið á efnis- skránni er Tokkata í d-moll eftir Dietrich Buxtehude, sem er jafn- an kenndur við Mar- íukirkjuna í Lübeck. Þá leikur Lars Frederiksen tvö verk eftir dönsk tónskáld, bæði fædd rétt fyrir aldamótin 1900. Fyrra verkið er Són- ata nr. 1 í c-moll eftir Niels Otto Raasted. Hitt danska verkið er Tre koncertstykker for orgel eftir Rued I. Langgaard. Hann fór sínar eigin leiðir í tónlistarsköpun. Hann aðhylltist hin þjóðlegu tónskáld rómantíska tímabilsins í Dan- mörku, Gade og Hartmann, og dáðist mikið að Richard Wagner. Hann var á öndverðum meiði við Carl Nielsen og lifði í skugga hans allt sitt líf. Tónverk Lang- gaards spanna breitt svið, allt frá því að vera hugljúf og rómantísk yfir í tónverk með alls konar til- raunum brautryðjandans. Síðasta verk tónleikanna er svo Fantasía og fúga í c-moll op. 29 eftir Max Reger. Bach og dönsk orgeltónlist í Hallgrímskirkju Lars Frederiksen BÓKAFORLAGIÐ Bjartur hefur á undanförnum árum sýnt mikinn metnað í að gefa út glóðvolgar þýð- ingar. Smásagnasafnið Radiator eftir Danann Jan Sonnegaard kom út í Danmörku 1997 og fékk mjög góðar viðtökur. Nú hefur því verið snarað á íslensku en ef til vill hefði verið meiri fengur að því að fá það inn í bók- menntaumræðuna hér á landi á nýlið- inni öld. Þýðing Hjalta Rögnvalds- sonar er misgóð og ég furða mig stórlega á þýðingunni á titlinum. Orð- ið „ristavél“ er barnamál og talmál, en „radiator“ merkir miðstöð, ofn eða hitagjafi sem á ekkert skylt við brauðrist. Bjartur hefur farið eigin leiðir í einfaldri, smekklegri og staðl- aðri hönnun bókakápu neonklúbbs- bóka sinna en þessi kápa er ekki vel heppnuð, gulllitaðir stafirnir eru svo til ólæsilegir á koparfleti. Ristavél er fyrsti hluti þríleiks Sonnegaards og gaman væri að sjá hin smásagnasöfn- in tvö í vandaðri útgáfu á íslensku. Í bókinni eru tíu sögur sem eiga sitthvað sameiginlegt. Allar gerast þær í Kaupmannahöfn og fjalla um mannlega niðurlægingu, hatur, of- beldi og vesöld. Persónur sagnanna eru utangarðs og einmana, öryrkjar, atvinnuleysingjar, geðsjúklingar eða fólk sem hefur misst vonina. Í sög- unum er dregin upp grimmdarleg samfélagsmynd, skuggahlið danska velferðarríkisins. Í t.d. Þjófnaði er hópur ungra manna, með vasana fulla af örorku- og atvinnuleysisbótum, sem hatar ríku, vel klæddu smáborg- arana og heimsku yfirstéttarkerling- arnar með Gucci-töskurnar. Þeir eru uppfullir af reiði og ætla að hirða það sem þeim ber, hefna sín en vita samt að það er ósköp tilgangslaust. Í Nettó og Fakta segir frá atvinnuleysingja sem er handviss um að hann muni drepast úr sjúkdómum vegna þess að hann lifir á ruslfæði úr ódýrum mat- vörubúðum; upplituðu áleggi, salmon- ellukjúklingum og skemmdu græn- meti. Hann er fastur í vítahring, á sér enga von, ekkert líf: „Og svona hefur þetta verið svo lengi og ég man. Ná- lægt mánaðarmótum eru peningar millifærðir, og ég get lifað sómasam- legu lífi í nokkra daga og keypt nokk- urn veginn nýtt kjöt og grænmeti sem er ekki ennþá úldið í gegn, og ég ímynda mér í hvert sinn að núna gangi allt vel aftur, að núna sé ég ekki lengur í skítnum og nú sé hægt að djamma dálítið aftur. Bara dálítið“ (108). Áhrifarík er fyrsta sagan í safninu, William, sem lýsir viðbjóðslegu of- beldi og einelti og Steggjapartí sýnir vel hversu lítið þarf út af að bera til að allt fari úr böndunum. Steggjapartí sker sig úr hinum sögunum þar sem frásagnarhátturinn er allt öðru vísi, sögumaður talar í 1. persónu, hlutlaus og afar dularfullur. Sögurnar eru annars mjög misjafnar að gæðum; sagan um manninn í fataskápnum og Gjaldþrot eru bæði stuttar og lítt eft- irminnilegar og Lotta er ansi reikul saga með „óvæntum“ endalokum. Stíll sagnanna er talmálskenndur og stundum barnalegur, sagt er frá skip- broti fólks, sjálfsvorkunn þess og botnlausri eymd með afskipta- og kæruleysi. Það er erfitt að finna til samlíðunar með persónunum, þær eru ógeðfelldar og ömurlegar. Harm- ur þeirra liggur samt milli línanna, í fortíð eða skapgerð sem stundum glittir í undir hráu yfirborði. Í flestum sögunum er kaldlyndi ráðandi ásamt beiskri ádeilu sem bæði beinist gegn samfélaginu og einstaklingunum. Samfélagið er stéttskipt; sumir fæð- ast með silfurskeið í munni, eiga gott bakland, hafa góða menntun og vel launaða atvinnu sem hentar þeim; aðrir fá fátæktina í vöggugjöf og eru allar bjargir bannaðar. Bilið breikkar milli hinna ríku og fátæku, stolt sem bíður hnekki snýst upp í siðblindu og hatur, bæði á þeim sem betur mega sín og á samfélaginu sem skammtar fátæklingunum skít úr hnefa. Smá- sögur Sonnegaards eru hvorki skemmti- né náttborðslesning og sennilega ráðlegast að lesa bara eina sögu í einu, a.m.k. fyrir viðkvæmar sálir. Beygluð brauðrist BÆKUR Smásögur eftir Jan Sonnegaard. Hjalti Rögnvalds- son þýddi. 158 bls. Bjartur 2003. RISTAVÉL Steinunn Inga Óttarsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.