Morgunblaðið - 30.09.2003, Blaðsíða 35
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. SEPTEMBER 2003 35
Það var sunnudagskvöldið 21.
september, sem Bogga frænka mín
kvaddi þetta jarðneska líf, þetta var
drungalegt kvöld, úti geisaði storm-
urinn í öllu sínu veldi og greinarnar
sveifluðust til og frá og laufin fuku.
Maður fann fyrir návist haustsins.
Bogga föðursystir mín ólst upp í
Gröf hjá foreldrum sínum. Hún varð
snemma dugleg og vinnusöm og
hafði gaman af allri útivinnu og
hjálpaði mikið til við búskapinn.
Hún var mikill dýravinur, sérstak-
lega var hún lagin við hesta og oft
brá hún sér á hestbak og heimsótti
kunningja sína á næstu bæjum, því
hún var félagslynd að eðlisfari.
Rúmlega tvítug stundaði hún nám
í tvo vetur í Húsmæðraskólanum á
Staðarfelli. Kom nám þetta henni
vel á lífsleiðinni, þar sem hún vann
ávallt mikla handavinnu, meðan
heilsan leyfði. Er Hjörtur faðir
Boggu lést 1943 var hætt búskap í
Gröf og fluttumst við öll til Flat-
eyjar. Bogga vann á sumrin í Hval-
látrum hjá Jóni Daníelssyni og Jó-
hönnu Friðriksdóttur og var henni
dvölin þar ánægjulegur tími. Bar
hún ávallt mikinn hlýhug til fólksins
þar.
Árið 1951 flutti Bogga tíl Reykja-
víkur. Hún og Sigga systir hennar
bjuggu saman á Ránargötu 4 og síð-
ar Otrateigi 10, þar sem Sigga lést
árið 1965.
Bogga vann á þessum árum við af-
greiðslustörf í þvottahúsinu í Gnoð-
arvogi. Síðar vann hún í Afurðasölu
SÍS um tíma. Síðustu 15 ár starfs-
ævinnar vann hún á Hrafnistu í
Reykjavík og líkaði henni starfið vel
þótt vinnan væri erfið.
Bogga hafði mikinn áhuga á ætt-
fræði og sótti nokkur námskeið til
að fræðast um þau efni og var hún
virkur félagi í Ættfræðifélaginu til
æviloka.
Hún var einnig virkur félagi í
Barðstrendingafélaginu og sótti
flesta fundi þess og skemmtanir.
Hún naut þess að vera í félagsskap
fólksins að vestan.
Bogga bar sterkar taugar til
sveitarinnar fyrir vestan og Breiða-
fjarðareyjanna, þar sem hún hafði
dvalið og fylgdist með líðan fólksins,
sorgum þess og gleði.
Bogga hafði gaman af ferðalögum
og fór m.a. í ferðalag til Ísraels með
mér og Skúla manni mínum og var
það mikil upplifun fyrir hana.
Bogga kynntist manni stuttu eftir
að hún kom til Reykjavíkur sem hún
var hrifin af og reyndist hann henni
vel og var það áfall fyrir hana er
hann féll frá skyndilega.
Bogga var ákaflega traust mann-
eskja, hún gat stundum verið dálítið
hrjúf, það var skel sem brotnaði
fljótt og var stutt í brosið hjá henni.
Hún var ákaflega hjálpsöm og
rétti þeim hjálparhönd sem höfðu
farið halloka í lífinu.
Ég vil að síðustu flytja Boggu
innilegar þakkir fyrir skemmtilegar
samverustundir og allt sem hún hef-
ur gert fyrir mig og börnin mín.
Ég bið guð að blessa hana og óska
henni góðrar komu til ljóssins
byggða.
SIGURBORG
HJARTARDÓTTIR
✝ Sigurborg Hjart-ardóttir fæddist í
Gröf í Gufudalssveit
14. janúar 1915. Hún
lést á Hrafnistu í
Reykjavík 21. sept-
ember síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru Hjörtur Jóns-
son, f. 3. apríl 1875,
bóndi í Gröf, d. 15.
mars 1943, og Val-
gerður Jónsdóttir, f.
21. mars 1869, d. 5.
des. 1953. Sigurborg
átti þrjú hálfsystkini.
Þau voru: Sigríður
Matthíasdóttir, f. 11. nóv. 1898,
Jón Matthíasson, f. 7. maí 1901, og
Fanney Sigurrós Matthíasdóttir,
f. 16. nóv. 1903. Þau er öll látin.
Útför Sigurborgar verður gerð
frá Kópavogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.30.
Blessuð sé minning
hennar.
Aðalbjörg
Jónsdóttir.
Haustar að, fölnar
gróður og laufin taka
að falla. Bogga frænka,
eins og við kölluðum
hana hefur nú kvatt
okkur eftir langa lífs-
göngu og farsæla ævi.
Ég hef þekkt Boggu
meira en hálfa öld eða
frá því að hún passaði
mig í árdaga. Reyndar
var Bogga ekki sérlega lagin að eiga
við óþekkan strákpjakk og fyrir
bragðið var eiginlega enn meira
gaman að láta hana passa sig. Bogga
átti sinn þátt í því að ég komst í sveit
hjá öndvegisfólki, Jóni og Jóhönnu í
Hvallátrum í Breiðafirði, en hún
hafði verið kaupakona þar. Var hún
þar fyrsta sumarið mitt, mín stoð og
stytta. Dvölin þar var mér ómetan-
leg lífsreynsla sem ég mun búa að
alla ævi og er ég Boggu ævinlega
þakklátur fyrir það. Í Hvallátrum
kynntist maður gamla tímanum,
menningu eyjarskeggja sem hafði
lítið breyst í aldanna rás; sel- og
fuglaveiðar, dúntekja, fara í sel til
heyöflunar, o.s.frv. Ég greindi að
fólkið í Hvallátrum mat Boggu mik-
ils og þótti sérlega vænt um hana.
Bogga vílaði ekki fyrir sér að
vinna hin erfiðustu verkamanna-
störf framan af ævi og man ég það
vel að körlunum í Afurðasölu SÍS
þótti mikið til þessarar hörkukonu
koma.
Hún var sérlega góð við þá sem
voru minni máttar og gátu ekki var-
ið sig af ýmsum ástæðum og var
mikill dýravinur.
Hún var einstök kona í góðri
merkingu þess orðs, stjórnaðist af
rödd hjartans og sigldi á móti
straumnum ef samviska hennar
bauð svo að vera.
Guð blessi minningu Sigurborgar
Hjartardóttur.
Rafn H. Skúlason.
Ætt Hjartar föður Boggu hafði
búið í Gröf allt frá landnámsöld.
Bogga var eini afkomandi hans og
síðasti ættliðurinn sem bjó í Gröf.
Við andlát Hjartar fluttist fjölskyld-
an að Flatey í Breiðarfirði og bjó
þar í tíu ár. Mál höfðu æxlast á þann
veg að móðir mín Aðalbjörg, dóttir
Jóns hálfbróður Boggu, þau voru
sammæðra, var alin upp í faðmi fjöl-
skyldunnar í Gröf. Þær frænkur ól-
ust því upp nánast eins og systur og
alla tíð var sterk taug á milli þeirra.
Afkomendur átti Bogga ekki en þá
átti hún þó í Aðalbjörgu móður
minni og Lilju hálfsystur hennar svo
og þeirra afkomendum. Þær systur
reyndust henni einnig sem slíkir alla
tíð. Í uppvexti mínum var hún hjá
okkur fjölskyldunni allar hátíðar og
við aðra fjölskylduviðburði. Bogga
var ættrækin kona og ekki síður
þegar nýjar kynslóðir komu til sög-
unnar í fjölskyldunni. Alltaf var hún
traust eins og klettur á meðal okkar
hún Bogga frænka.
Ég var svo lánsöm að ferðast
vestur með Boggu í tvígang fyrir all-
mörgum árum. Betri leiðsögumann
var ekki hægt að hugsa sér til þess
að fræðast um staðhætti og lífið
þarna eins og það var og var það
mér mikils virði. Fyrri ferðin var
farin að Gröf í Þorskafirði og sú síð-
ari, á vegum Barðstrendingafélags-
ins, um Breiðafjarðareyjarnar.
Bogga var vel kunnug þarna og
þekkti ábúendur Flateyjar og Skál-
eyja vel. Hún var virkilega í essinu
sínu og var ekki verra að sólin skein
glatt á okkur á siglingu um eyjarn-
ar. Þannig minningu kýs ég að varð-
veita í huga mér um hana Boggu
frænku og aðrar álíka frá mörgum
góðum samverustundum í gegnum
árin.
Það hefur verið erfitt að horfa
uppá byrðar þær er elli kerling hef-
ur lagt á herðar Boggu síðastliðin ár
og það helsi sem það hefur haft í för
með sér. Sannreynst hefur sú sterka
taug sem var á milli Boggu og Að-
albjargar móður minnar og hefur
verið aðdáunarvert af hversu mikl-
um kærleik hún annaðist föðursyst-
ur sína og þá ekki síður Lilja systir
hennar.
Að leiðarlokum vil ég þakka henni
Boggu frænku minni fyrir allt gam-
alt og gott.
Sigríður Rut Skúladóttir.
Bogga frænka, þegar ég hugsa til
þín streyma minningar um huga
minn sem ég mun aldrei gleyma…
bleikar buxur, appelsínugul treyja,
græn kápa og vínrautt hár, sem
klæddi þig svo vel. Þetta var eitt-
hvað svo mikið þinn stíll, beint frá
þínu hjarta, og þegar þú komst í
heimsókn til mín austur, með lamba-
lærið undir handleggnum og fjalla-
grös sem meðlæti, við skyldum sko
fá að smakka afbragðskjöt frá
Króksfjarðarnesi kryddað með
fjallagrösum! Þú kunnir best við þig
í sveitinni, þar var þinn staður innan
um gróðurinn og dýrin.
Hvað mér þótti ég eiga einstaka
frænku þegar þú barst krossinn á
bakinu sem átti að fara á leiði föður
þíns vestur á Barðaströnd. Seigla
þín var mér ætíð minnisstæð.
Og eins þegar þú jarðsettir síð-
ustu kisuna þína, hann Malla 19 ára,
úr kattarfjölskyldu þinni við tréð,
það var sérstakt að upplifa þá stund
með þér. Þú unnir köttunum þínum
heitt, Malla, Lubba, Móra og Gamla
Kisa sem nú höfðu kvatt þig. Þeir
verða fegnir að fá að hjúfra sig í
kjöltu þinni núna.
Bogga mín, þú áttir fáa þína líka
og ég er fegin að hafa getað verið
hjá þér síðustu dagana áður en þú
kvaddir. Ég man friðinn sem færðist
yfir þig þegar haustsólin skein inn í
herbergið þitt og lágvær söngur við
lagið „Undir bláhimni“ ómaði í eyr-
um.
Þín frænka
Valgerður Margrét
Skúladóttir.
Það er einkennilegt til þess að
hugsa að við eigum aldrei eftir að
hitta Boggu frænku aftur, þar sem
hún hefur verið hluti af okkar lífi frá
því við munum eftir okkur. Ein-
hvern veginn finnst okkur Bogga
frænka alltaf hafa verið eins, hvort
sem við hugsum um persónuleika
hennar eða útlit. Þegar við hugsum
um Boggu frænku koma fyrst upp í
hugann minningar um Boggu og kis-
urnar, sem áttu hug hennar allan, en
hún var mikil kattakona. Einnig
munum við vel eftir henni þar sem
hún kom gangandi eftir Bjarnhóla-
stígnum með poka í hendinni, því
aldrei kom hún tómhent. Bogga var
einstaklega frændrækin enda hafði
hún mikinn áhuga á ættfræði og var
fróð um sitt fólk. Það var ósjaldan
sem hún fræddi okkur um að fólk
sem við þekktum, væri í raun nokk-
uð skylt okkur, án þess að við hefð-
um haft hugmynd um.
Sá eiginleiki sem við kunnum
hvað best að meta í fari Boggu var
hversu hreinskilin og samkvæm
sjálfri sér hún var alla tíð. Hún kom
til dyranna eins og hún var klædd,
sagði það sem henni fannst að þyrfti
að segja og gat kveðið fast að orði.
Oftar en ekki fylgdu með nokkur vel
valin blótsyrði og fannst okkur það
alltaf jafn spaugilegt.
Bogga frænka var sterkur per-
sónuleiki og alltaf til staðar fyrir
fjölskyldu og vini, traust eins og
klettur. Þetta eru eiginleikar sem
prýða mættu hverja manneskju og
var hún okkur einstaklega góð fyr-
irmynd hvað þetta varðar.
Við þökkum fyrir góðar stundir
og fyrir að hafa fengið að hafa
Boggu frænku sem hluta af okkar
tilveru, við erum betri fyrir vikið.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Freyja, Sigurborg, Jón
Gunnar og Alma Dröfn.
Ástkær móðir okkar, amma og langamma,
THORA ÞORLÁKSSON,
er látin.
Hún verður jarðsungin í Garðakirkju á Álftanesi
föstudaginn 3. október kl. 13.30.
Sveinn Birgir Rögnvaldsson,
Guðný Kristín Rögnvaldsdóttir,
Þóra Hallgrímsdóttir,
Þuríður Hallgrímsdóttir, Erlingur Sigurgeirsson,
Anna Guðný Hallgrímsdóttir, Salvar Geir Guðgeirsson,
Snorri Hallgrímsson,
Guðný Kristín Erlingsdóttir.
Eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi,
KRISTJÁN MAGNÚSSON
ljósmyndari,
Unnarbraut 28,
Seltjarnarnesi,
lést á Landspítalanum við Hringbraut laugar-
daginn 27. sepember.
Pálína Oddsdóttir,
Oddrún Kristjánsdóttir, Leifur Magnússson,
Kristján Leifsson, Magnús Leifsson.
Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi,
JÓHANN RÓSINKRANZ BJÖRNSSON,
Ugluhólum 12,
Reykjavík,
lést að kvöldi fimmtudagsins 25. september.
Guðmundur Ægir Jóhannsson, Áslaug Gísladóttir,
Matthildur Jóhannsdóttir, René Schultz,
Rósa Guðrún Jóhannsdóttir, Reynir Þorsteinsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma,
langamma og langalangamma
EYDÍS EINARSDÓTTIR
áður til heimilis
í Víðilundi 2F,
Akureyri
sem andaðist þriðjudaginn 23. september
verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju miðviku-
daginn 1. október kl. 13.30.
Sigurður B. Jónsson, Alda Ingimarsdóttir,
Ólafur B. Jónsson, Jóna Anna Stefánsdóttir,
Þórarinn B. Jónsson, Hulda Vilhjálmsdóttir,
ömmubörn, langömmubörn
og langalangömmubörn.
Innilegar þakkir sendum við öllum þeim, sem
sýndu okkur samúð og vinarhug með fögrum
orðum, skeytum, kortum, blómum og öðru við
andlát og útför móður okkar, tengdamóður,
ömmu, langömmu og langalangömmu,
AÐALBJARGAR JÓHÖNNU
BERGMUNDSDÓTTUR
frá Borgarhól,
Vestmannaeyjum.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki deildar 13D á Landspítalanum svo
og starfsfólki og stjórnendum Hraunbúða, dvalarheimilis aldraðra í
Vestmannaeyjum, fyrir einstaka umönnun og hlýhug í hennar garð.
Guð blessi ykkur öll.
Birna Berg Bernódusdóttir, Theodór Þ. Bogason,
Elínborg Bernódusdóttir, Jón Ingi Steindórsson,
Þóra Birgit Bernódusdóttir, Sveinn G. Halldórsson,
Aðalbjörg Jóhanna Bernódusdóttir, Jóhann Halldórsson,
Helgi Bernódusson, Gerður Guðmundsdóttir,
Jón Bernódusson,
Þuríður Bernódusdóttir, Gísli Erlingsson,
Elín Helga Magnúsdóttir,
ömmubörn, langömmubörn
og langalangömmubarn.