Morgunblaðið - 01.10.2003, Side 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 1. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
MARGIR þeir þingmenn sem
Morgunblaðið ræddi við í gær búast
við snörpu þingi á komandi vetri en
Alþingi Íslendinga, 130. löggjafar-
þing, verður sett í dag. Er það í
annað sinn sem þing verður sett eft-
ir alþingiskosningarnar í vor, en Al-
þingi var sett í lok maí sl., þar sem
m.a. var kosið í fastanefndir þings-
ins.
Fæstir eiga von á því að stór-
pólitísk átakamál, í líkingu við Kára-
hnjúkamálið, eigi eftir að einkenna
þingið en líklegt er talið að þingið
muni bera þess merki hve stutt er
frá kosningum sem og sú staðreynd
að átján nýir þingmenn voru kjörnir
á þing í síðustu kosningum. Er
sennilegt að það verði nýjum þing-
mönnum kappsmál að minna á sig
og „stimpla sig inn í umræðuna.“
Minna má á að fjárlagafrumvarp-
ið fyrir næsta ár, sem kynnt verður
í dag, sem og stefnuræða forsætis-
ráðherra, Davíðs Oddssonar, sem
flutt verður annað kvöld og umræð-
ur um hana muni og gefa tóninn að
því sem koma skal. Í fjárlagafrum-
varpinu sem og í stefnuræðunni
koma m.a. fram áherslur ríkis-
stjórnarinnar í efnahagsmálum. Má
búast við að þar komi m.a. fram til-
lögur ríkisstjórnarinnar í skattamál-
um og öðrum þeim málum sem
kynnt voru í kosningabaráttunni.
Aukinheldur munu stjórnarand-
stöðuflokkarnir leggja fram sínar
áherslur í umræðum um stefnuræðu
ráðherra.
Minni styrkur stjórnarflokka
Því má heldur ekki gleyma, í
þessari umfjöllun, að sú ríkisstjórn
sem nú situr við völd, þ.e. ríkis-
stjórn Sjálfstæðisflokksins og
Framsóknarflokksins, er með minni
þingstyrk en ríkisstjórn sömu
flokka á síðasta kjörtímabili. Á síð-
asta kjörtímabili hafði ríkisstjórnin
samanlagt 38 þingmenn, þ.e. 12
framsóknarþingmenn og 26 sjálf-
stæðisþingmenn. Frjálslyndi flokk-
urinn hafði þá 2 þingmenn, Sam-
fylkingin 17 og Vinstrihreyfingin –
grænt framboð sex þingmenn.
Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar
34 þingmenn; 22 sjálfstæðisþing-
menn og 12 framsóknarþingmenn.
Frjálslyndi flokkurinn hefur 4 þing-
menn, Samfylkingin 20 og VG fimm
þingmenn. Þetta þýðir að aðeins
þrjá stjórnarþingmenn þarf til að
fella þingmál ríkisstjórnarflokk-
anna. „Þessi staða kann að verða til
þess að stjórnarþingmenn hafa
minna svigrúm en áður til að snúast
á sveif með málefnum stjórnarand-
stöðunnar í einstökum málum,“
sagði einn heimildarmaður Morgun-
blaðsins. Benti hann sömuleiðis á að
þetta gæti leitt til þess að þing-
flokkar stjórnarflokkanna þyrftu að
beita meiri „flokksaga“ en oft áður.
Þessi staða ríkisstjórnarflokk-
anna birtist einnig í fastanefndum
þingsins. Í flestum nefndunum sitja
níu þingmenn. Á síðasta kjörtímabili
voru stjórnarþingmennirnir að jafn-
aði sex og þingmenn stjórnarand-
stöðunnar að jafnaði þrír, en nú er
hlutfallið fimm stjórnarþingmenn á
móti fjórum þingmönnum stjórnar-
andstöðunnar. Það þýðir að stjórn-
arflokkarnir þurfa að halda vel um
taumana til að halda meirihlutanum
í einstökum málum.
Þá var vakin athygli á því, í þessu
sambandi, að Kristinn H. Gunnars-
son, fyrrverandi þingflokksformað-
ur Framsóknarflokksins, kynni að
verða Framsóknarflokknum „tregur
í taumi“. Miðað við málflutning hans
í sumar megi búast við því að hann
telji sig ekki „bundinn einum né
neinum“. Þar með sé ekki ólíklegt
að ætla að hann muni fylgja stjórn-
arandstöðunni í einstökum málum,
ef honum býður svo við að horfa.
Fylgst með samstarfi flokka
Margir þingmenn stjórnarand-
stöðunnar tala um að það verði for-
vitnilegt að fylgjast með samstarfi
Framsóknarflokksins og Sjálfstæð-
isflokksins í vetur. Ekki síst í ljósi
þess að Framsóknarflokkurinn hafi
reynt að skapa sér ákveðna sér-
stöðu gagnvart Sjálfstæðisflokknum
í kosningabaráttunni. Margir telja
sig líka hafa fundið ákveðinn „nún-
ing“ á milli stjórnarflokkanna í ein-
stökum málum í sumar. Þá telja ein-
stakir þingmenn að ráðherraskiptin
sem framundan séu – til að mynda
mun Halldór Ásgrímsson taka við
forsætisráðuneytinu að ári – eigi
eftir að veikja núverandi ríkisstjórn.
Aðrir benda hins vegar á að sam-
starf Samfylkingar, VG og Frjáls-
lynda flokksins virðist heldur ekki
upp á marga fiska. Það hafi m.a.
komið fram í kosningabaráttunni en
einnig hafi það komið fram á sum-
arþinginu. Þá hafi Samfylkingin t.d.
lagt fram tillögur að þingmönnum,
sínum þingmönnum, í fastanefndir
þingsins án samstarfs við VG og
Frjálslynda. Samfylkingin vilji
þannig njóta þess þingstyrks sem
hún hafi. Það verði því líka áhuga-
vert að fylgjast með samstarfi
stjórnarandstöðuflokkanna á Al-
þingi í vetur.
Alþingi Íslendinga, 130. löggjafarþing, verður sett í dag í annað sinn eftir alþingiskosningar
Nýir þing-
menn „stimpla
sig inn“
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Margir telja að þingið muni bera þess merki hve stutt er frá kosningum.
Alþingi Íslendinga verður sett í dag, í annað
sinn eftir alþingiskosningar. Í grein Örnu
Schram kemur fram að þingmenn búast
margir hverjir við snörpu haustþingi.
arna@mbl.is
ÞINGFLOKKUR Samfylkingarinnar hyggst á
komandi þingi leggja til það nýmæli að Sam-
keppnisstofnun verði heimilt að leita á heim-
ilum stjórnenda fyrirtækja. Segja fulltrúar
þingflokksins að með því sé verið að feta inn á
þá braut sem hefur verið farin í Evrópu. Þetta
kom m.a. fram á blaðamannafundi sem þing-
menn Samfylkingarinnar héldu í gær. Var til-
gangur fundarins, að sögn Bryndísar Hlöðvers-
dóttur, formanns þingflokksins, að kynna
áherslur Samfylkingarinnar í vetur.
Á fundinum kom fram að eitt af fyrstu málum
þingflokksins verði að leggja til breytingar á
samkeppnislögum. Ætlar þingflokkurinn m.a.
að leggja til að skýrari verkaskiptingu verði
komið á milli Samkeppnisstofnunar og rík-
issaksóknara, þannig að stofnunin rannsaki
brot fyrirtækja en ríkissaksóknari brot ein-
staklinga. „Þá verður lagt til að Samkeppn-
isstofnun tilkynni ríkissaksóknara ef rök-
studdur grunur vaknar um refsivert brot
einstaklings gegn samkeppnislögum og að síð-
arnefnda embættið taki ákvörðun um hvort
hefja eigi rannsókn,“ segir í tilkynningu frá
þingflokknum. Ennfremur verða gerðar til-
lögur um hertar refsingar vegna brota á sam-
keppnislögum. Þingflokkur Samfylkingarinnar
ætlar einnig að leggja fram á þinginu tillögu um
lækkun virðisaukaskatts á matvælum úr 14% í
7%. Bryndís minnir á að það hafi verið eitt af
þeim málum sem Samfylkingin hafi sett á odd-
inn í kosningabaráttunni. Telur þingflokkurinn
að með slíkri lækkun virðisaukaskatts megi
lækka matarreikninga Íslendinga um nær fimm
milljarða.
Þingflokkurinn boðaði aukinheldur í gær að
hann hygðist leggja fram á þingi tillögu um
nokkrar breytingar á stjórnarskrá Íslands í til-
efni af 100 ára afmæli heimastjórnarinnar. Ætl-
ar þingflokkurinn að leggja til að kosin verði níu
manna nefnd með fulltrúum allra þingflokka til
að endurskoða ákveðin atriði í stjórnarskránni.
Verkefni nefndarinnar verði þannig m.a. að
gera tillögur um hvernig tryggja megi í stjórn-
arskrá sameign þjóðarinnar á náttúru-
auðlindum. Ennfremur verði verkefni hennar
að kanna hvort tímabært sé að huga að breyt-
ingum á ákvæðum stjórnarskrár um samband
ríkis og kirkju, svo annað dæmi sé nefnt.
Að lokum má nefna tillögu sem þingmenn
hyggjast leggja fram í haust og miðar m.a. að
því að koma á átaki til að efla iðn-, verk- og list-
nám. Í því sambandi verði skipaður starfshópur
sem vinni m.a. að því að eyða „úreltri aðgrein-
ingu á milli bóknáms og verknáms“, að því er
m.a. kemur fram í drögum að tillögunni.
Morgunblaðið/Ásdís
Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Össur Skarphéðinsson og Lúðvík Berg-
vinsson, þingmenn Samfylkingarinnar, í nýju þingflokksherbergi flokksins.
Þingflokkur Samfylkingarinnar
Leita megi á heimil-
um stjórnenda
Vilja að virðisauka-
skattur á matvæli lækki
ÞINGFLOKKUR Vinstrihreyf-
ingarinnar – græns framboðs
hyggst leggja fram á komandi
þingi frumvarp til laga um bann
við kaupum á kynlífsþjónustu.
Kolbrún Halldórsdóttir, þing-
maður VG, verður fyrsti flutn-
ingsmaður frumvarpsins, en með-
flutningsmenn verða konur úr
öllum flokkum nema Sjálfstæð-
isflokknum. Þetta kom fram á
blaðamannafundi VG í gær, en
þar voru kynnt nokkur þau helstu
þingmál sem flokkurinn hyggst
leggja áherslu á í vetur.
Meðal annarra þingmála sem
þingflokkurinn kynnti í gær var
frumvarp um að lögfest verði sér-
stakt úrræði til að vernda þá sem
verða fyrir ofbeldi á heimili sínu.
Miðar frumvarpið að því að of-
beldismaðurinn verði fjarlægður
af heimilinu og honum bannað að
heimsækja heimilið í allt að þrjá
mánuði. Einnig hyggst þingflokk-
urinn leggja fram frumvarp um vitna- og fórn-
arlambavernd og frumvarp um bann við um-
skurði á kynfærum kvenna, svo dæmi séu
nefnd.
Leikskólar verði gjaldfrjálsir
Þá hyggst þingflokkurinn leggja fram til-
lögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsa leik-
skóla. Verður í tillögunni lagt til að nefnd verði
skipuð sem fái það verkefni að undirbúa og
annast viðræður við sveitarfélögin um sameig-
inlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leik-
skóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Ögmundur
Jónasson, þingflokksformaður VG, minnti á að
tillagan væri í samræmi við þær áherslur sem
VG hefði lagt í kosningabaráttunni sl. vor.
Ennfremur hyggst þingflokkurinn, ásamt
Frjálslynda flokknum, leggja fram sameig-
inlega beiðni um skýrslu um undirbúning og
framkvæmd síðustu alþingiskosninga. „Við
höfum ástæðu til að ætla að framkvæmd kosn-
inganna hafi í mjög veigamiklum atriðum verið
ábótavant,“ útskýrði Kolbrún. „Við förum yfir
það í beiðninni hvað við viljum að verði rann-
sakað sérstaklega. Þar get ég nefnt t.d. fram-
kvæmdina á erlendri grund; hvernig sendiráð-
unum var gert kleift að kynna kosningarnar;
listabókstafi og annað.“ Sagði Ögmundur m.a.
að markmiðið með beiðninni væri að „læra af
þeim mistökum sem gerð hefðu verið“ í síðustu
alþingiskosningum.
Skilið verði á milli viðskiptabanka
og fjárfestingarbanka
Fleiri þingmál voru kynnt, m.a. frumvarp
sem felur í sér að heimildir viðskiptabanka og
sparisjóða til að fjárfesta og eiga í atvinnufyr-
irtækjum verði takmarkaðar. Ennfremur að
skilið verði á milli viðskiptabanka og fjárfest-
ingarbanka með skýrari hætti en nú er. Þá
ætlar þingflokkurinn að leggja fram tillög um
uppbyggingu sjúkrahótela og tillögu um stofn-
brautakerfi fyrir hjólreiðar, svo fleiri dæmi
séu nefnd.
Heimildir banka til að fjár-
festa og eiga í fyrirtækjum
verði takmarkaðar
Morgunblaðið/Þorkell
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson og Kolbrún Hall-
dórsdóttir, þingmenn VG, á blaðamannafundi í gær.
VG kynnir þingmál komandi vetrar