Morgunblaðið - 08.04.2004, Side 12
12 D FIMMTUDAGUR 8. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Íslenskir fjárhundar í
fullri vinnu í Svíþjóð
Hér á landi hafa íslenskir fjárhundaraðallega verið þekktir fyrir smöluntil sveita, auk þess að hafa gegnumtíðina vaktað bæi og tún. Þeir hafaorð á sér fyrir að vera háværir, en
ekki eru allir sammála um það. Þeir sem vel til
þekkja staðhæfa að auðvelt sé að venja þá af
óþarfa gelti, en þeim sé þó eðlislægt að láta vita
ef gesti ber að garði auk þess sem eðlilegt sé að
þeir gelti við smölun.
Íslenskir fjárhundar voru í útrýmingarhættu
um miðbik 20. aldar en með markvissu átaki hef-
ur þeim verið forðað frá því að deyja út. Stofn ís-
lenskra fjárhunda telst þó enn mjög lítill og hafa
ræktendur tegundarinnar notið aðstoðar og leið-
sagnar erfðafræðinga og fagfólks á sviði rækt-
unar lítilla dýrastofna. Áhugamenn um ræktun
íslenska fjárhundsins stofnuðu Hundarækt-
arfélag Íslands fyrir tæpum 35 árum og eru í
nánu samstarfi við áhugafólk víða um heim,
einkum á Norðurlöndunum. Íslenskur fjár-
hundur er eini þjóðarhundur Íslendinga og talið
er að forfeður hans hafi fylgt víkingum til lands-
ins á landnámsöld.
Svíar áhugasamir um íslenskan fjárhund
Félag íslenskra fjárhunda í Svíþjóð var stofn-
að árið 1991 og eru félagar þar nú um 430 tals-
ins. Hans Åke Sperne, varaformaður félagsins,
segir að um 1.100 íslenskir fjárhundar hafi verið
skráðir í Svíþjóð frá árinu 1985 og talsverður
áhugi sé meðal Svía á tegundinni, enda séu
hundarnir blíðlyndir, vökulir og skemmtilegir
heimilis- og vinnuhundar. Hans Åke hefur á
liðnum árum átt náið samstarf við íslenska rækt-
endur og áhugamenn um íslenska fjárhundinn
og á sjálfur fimm hunda af þessari tegund, unga
sem aldna.
Á Íslandsdeginum, sem haldinn var hátíðleg-
ur í Stokkhólmi síðastliðið vor, var íslenski fjár-
hundurinn í veigamiklu hlutverki. „Svavar
Gestsson sendiherra bauð okkur að taka þátt í
hátíðahöldunum og við vorum þakklát fyrir það.
Íslenskur fjárhundur er sannarlega hluti af ís-
lenskum menningararfi og þess vegna þótti
okkur afar vænt um að sendiherrann skyldi
óska eftir því að hundarnir yrðu með í hátíða-
höldunum,“ segir Hans Åke.
Hann segir að útbúið hafi verið margvíslegt
kynningarefni um íslenska fjárhundinn fyrir há-
tíðahöldin auk ýmiss konar listmuna. „Við sett-
um upp sýningartjald og mikill fjöldi kom til
okkar. Svíar eru áhugasamir um þessa tegund
og höfðu gaman af að heilsa upp á hundana og
afla sér upplýsinga um þá. Við höfðum líka sér-
lega gaman af að fá íslenska gesti til okkar í
tjaldið, ekki síst börnin sem nutu þess innilega
að heilsa upp á þessa ferfættu landa sína.“
Auk þess að heilsa upp á gesti og gangandi
sýndu hundarnir ýmsar kúnstir á Íslandsdeg-
inum, meðal annars hlýðniæfingar og segir
Hans Åke það hafa komið sumum á óvart
hversu hlýðnir hundarnir geta verið. „Við
dreifðum bæklingum um íslenska fjárhundinn
og sýndum myndbönd sem menn höfðu mjög
gaman af að horfa á enda er þetta ákaflega
heillandi hundategund.“
Björgunarhundurinn Mímir
Fimm íslenskir fjárhundar hafa fengið mark-
vissa þjálfun sem vinnuhundar í Svíþjóð, einn
sem björgunar- og leitarhundur og auk hans
eru fjórir í eftirlitssveit sænska hersins. Gunilla
Lekselius er sænsk björgunarsveitarkona og á
íslenska fjárhundinn Mími.
Gunilla hefur þjálfað Mími markvisst til
björgunar- og leitarstarfa á síðustu misserum
og hafa þau fengið margvíslegar viðurkenn-
ingar fyrir frammistöðu sína og árangur. „Ég
hef komist að því,“ segir Gunilla, „að íslenskir
fjárhundar hafa eiginleika sem eru eftirsókn-
arverðir við leitar- og björgunarstörf, til dæmis
forvitni, hugdirfsku og mikinn áhuga á sam-
skiptum við fólk. Forvitnin gerir að verkum að
þeir eru dugmiklir við vinnu. Hugdirfska er
nauðsynleg við erfiðar aðstæður eins og við
björgunarstörf og áhugi á samskiptum við fólk
er undirstaða þess að hægt sé að nota hunda við
vinnu af þessu tagi. Auk þess hefur íslenski fjár-
hundurinn líkamlega burði til að vinna við erf-
iðar aðstæður. Hann er sterkbyggður og feld-
urinn er bæði vatns- og veðurþolinn.“
Gunilla leggur áherslu á að lundarfar leitar-
og björgunarhunda skipti höfuðmáli og íslensk-
ir fjárhundar með gott lunderni hljóti að geta
nýst vel við björgunarstörf á Íslandi eins og
annars staðar, en hér á landi er lítil eða engin
reynsla af íslenskum fjárhundum á þessu sviði.
Skáti í sænska hernum
Skáti heitir íslenskur fjárhundur í eigu Cecil-
iu Trehn sem vinnur daglega með eiganda sín-
um við eftirlitsstörf fyrir sænska herinn. „Frá-
bær heyrn Skáta og lyktarskyn gerir að
verkum að hann verður strax var við óeðlilegar
mannaferðir á eftirlitssvæðinu og hann vísar á
óboðna gesti. Snerpa íslenskra fjárhunda nýtist
mjög vel við þessi störf og einnig rólegt lund-
erni þeirra, því hundarnir þurfa að geta slakað á
og verið hljóðlátir þegar allt er með kyrrum
kjörum. Íslenskum fjárhundum er eðlislægt að
„segja frá“ einhverju óvenjulegu með því að
gelta. Þannig nýttust þeir bændum upphaflega
við smölun og gæslu búfjár. Þessir eiginleikar
eru nauðsynlegir við eftirlitsstörf og koma sér
mjög vel í mínu starfi.
Skáti er bæði traustur og góður hundur og ég
gæti ekki hugsað mér betri vinnufélaga en
hann,“ segir Cecilia sem hvetur eigendur ís-
lenskra fjárhunda til að huga betur að frábær-
um eiginleikum þessarar hundategundar og
nýta þá til ólíkra starfa.
Ljósmynd/Elisabeth Folkeson
Íslenskur fjárhundur stekkur yfir þjóðlega hindrun.
Ljósmynd/Elisabeth Folkeson
Cecilia Trehn ásamt Skáta, sem vinnur með
henni á vegum sænska hersins.
Ljósmynd/Elisabeth Folkeson
Gunilla Lekselius ásamt björgunarhundinum Mími. Gunilla hrífst
mjög af lunderni og hugdirfsku íslenska fjárhundsins og segir að
eiginleikar hans nýtist afar vel við björgunarstörf.
Ljósmynd/Johan Frick-Meijer
Íslensku forsetahjónin og Viktoría Svíaprinsessa voru meðal gesta og fylgdust
með hundum og hestum af áhuga.
Ljósmynd/Johan Frick-Meijer
Fallegur íslenskur fjárhundur fær klapp frá sænskum aðdáanda.
Íslenski fjárhundurinn hefur, líkt og íslenski hesturinn,
smám saman haslað sér völl á erlendri grund á síðustu árum.
Brynja Tomer ræddi við sænska áhugamenn og komst
að því að íslenskir fjárhundar þykja afbragðsgóðir til
vinnu, til dæmis við björgunar- og leitarstörf.