Morgunblaðið - 30.12.2004, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. DESEMBER 2004 11
FRÉTTIR
Jón á að baki meira en 20 ára samfelltstarf í Iðnaðarbanka og síðar Íslands-banka og kom uppsögnin mörgumstarfsmönnum bankans í opna skjöldu.
Frá því í mars á þessu ári hefur Jón verið að-
stoðarforstjóri Íslandsbanka og borið að mestu
ábyrgð á viðskiptabankastarfseminni hér á
landi, með yfirstjórn á nærri 600 starfsmönnum
í 30 útibúum, eignastýringu, fyrirtækjasviði,
Glitni, lánastýringu og markaðs -og sölumálum.
Áður en hann yfirgaf vinnustaðinn í gær-
morgun sendi hann samstarfsmönnum sínum
orðsendingu þar sem hann kvaddi þá eftir langt
og farsælt samstarf. Þegar heim var komið
hringdi síminn látlaust og á meðan Morgun-
blaðsmenn ræddu við Jón á heimili hans síðdeg-
is í gær fékk hann blómasendingu og hlýjar
kveðjur frá starfsmönnum bankans.
Jón segist hafa orðið fyrir miklum von-
brigðum með ákvörðun forstjórans og telur að
til þessa hafi ekki þurft að koma. En hvaða
skýringar hefur hann á þessum ágreiningi og
hvers eðlis er hann?
Tveir pólar komu saman
Jón svarar því fyrst til að rótina megi vænt-
anlega rekja til þeirra miklu breytinga sem orð-
ið hafa á bankastarfsemi hér á landi. Margt hafi
gerst á skömmum tíma og íslenska bankakerfið
sé nýkomið í þann búning sem það sé í í dag.
Fyrir stuttu síðan hafi einn banki verið í hluta-
félagaformi, hinir verið í eigu ríkisins og svo
sparisjóðirnir. Innan bankanna þriggja hafi
myndast „viðskiptabankamenning“, þar sem
viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki voru á
grundvelli langtíma samstarfs. Áherslan hafi
verið lögð á að tryggja hagsmuni beggja og
bankarnir hafi leitast við að þekkja starfsemi og
hagi viðskiptavinarins sem best. Einnig hafi at-
vinnuvegasjóðirnir komið til sögunnar og með
ákvörðun ríkisins um að stofna og síðar selja
Fjárfestingabanka atvinnulífsins, FBA, hafi
nýr tónn verið sleginn í íslensku banka-
samfélagi.
„Í ljós kom að þeir menn sem tóku við FBA
voru stórhuga og reiðubúnir til að taka mikla
áhættu. Þá sást fyrst þessi
hugsun fjárfestingabankans
sem þróast hefur síðar hér á
landi og erlendis. Síðan kom
að sameiningu FBA og Ís-
landsbanka og þá var orðið til
fyrirtæki sem reist var á hin-
um gamla merg viðskipta-
bankahugsunarinnar annars
vegar og hins vegar á snún-
ingsliprum fjárfestinga-
bankamönnum,“ segir Jón og
bætir við að þarna hafi komið saman tveir pólar
sem gengu hvor fyrir sínueldsneytinu, þó ekki
andstæðir pólar.
„Í viðskiptabanka gengur allt út á að gera
hlutina eins hagkvæma og einfalda og hægt er,
með þeim hætti að viðskiptavinurinn sé sem
ánægðastur. Þetta er mannfrek starfsemi, það
er dýrt að halda útibúum gangandi með þeirri
þjónustu sem þar er veitt. Þess vegna skiptir
miklu að allt sé gert af yfirvegun og hugsað
langt fram í tímann. Starfsemi fjárfestinga-
banka gengur út á aðra þætti, eða að gera við-
skipti þegar andinn blæs mönnum það í brjóst.
Þannig er hægt að ná í miklar tekjur á stuttum
tíma með tiltölulega fáum starfsmönnum, en
viðskipti af þessu tagi eru vitanlega áhættusöm
og þá viðbúið að hægt sé að tapa stórum fjár-
hæðum á skömmum tíma.“
Hugsjón fjárfestingabankans ofan á
við brotthvarf Vals Valssonar
Við þessar ólíku aðstæður hljóti að koma upp
einhver núningur milli þessara eininga. Það sé í
raun eðlilegt.
„Það verður að segjast eins og er að með
brotthvarfi Vals Valssonar úr Íslandsbanka í
ársbyrjun 2003 þá varð fjárfestingabanka-
hugsjónin ofan á. Valur Valsson var og er minn
lærifaðir í bankafræðunum, kenndi mér meira
en nokkur annar og sýndi mér trúnað og traust
sem ég er mjög þakklátur fyrir,“ segir Jón.
Eftir að Valur hættir er ákveðið að hafa einn
forstjóra yfir bankanum, Bjarna Ármannsson,
sem áður hafði veitt FBA forstöðu og komið
þaðan úr Kaupþingi. Jón hafði m.a. verið úti-
bússtjóri í Íslandsbanka, borið ábyrgð á sölu-
málum bankans um tveggja ára skeið, verið
framkvæmdastjóri útibúasviðs og í mars sl. réð
bankaráð Íslandsbanka hann aðstoðarforstjóra
bankans og jafnframt staðgengil forstjórans, að
tillögu Bjarna Ármannssonar. Með því var hug-
myndin að auka kraft í útrás bankans, sem
Bjarni átti að einbeita sér að, á meðan Jóni var
ætlað að stjórna viðskiptabankastarfseminni
hér á landi.
Afdrifarík ummæli
„Við þessar aðstæður reynir verulega á að
menn hafi skilning á verkefnum og verksviði
hvor annars. Eftir því sem verkefnin eru meira
framandi þurfa menn að leggja sig meira fram
um að skilja þau. Inn í þetta blandast svo um-
ræða um hagræðingu í bankakerfinu,“ segir
Jón og telur að ummæli sem
hann lét falla í fjölmiðlum í
haust í kjölfar fundar grein-
ingardeildar Íslandsbanka,
þess efnis að sameining bank-
ans og Landsbankans væri
ekki útilokuð, hafi verið vendi-
punkturinn í samskiptum
hans og Bjarna Ármanns-
sonar.
„Ég hef deilt þeirri skoðun
með fjölda annarra að banka-
kerfið sé hægt að reka með hagkvæmari hætti
en gert er í dag, viðskiptavinum bankans og
hluthöfum til hagsbóta, það sé verulegt hag-
ræði óinnleyst í íslensku bankakerfi,“ segir Jón
og vísar til reynslu Íslandsbanka af þeim ár-
angri sem náðst hefur á þessu sviði. Þannig hafi
til dæmis tekist á árunum 1995 til 2000 að
fækka fermetrum í notkun í útibúaneti bankans
um tíu þúsund. Hagræðingin hafi síðan haldið
áfram og tekist hafi að veita þjónustuna á hag-
kvæmara verði.
„Ég hef alltaf verið hlynntur því að menn leiti
leiða til að hagræða í bankarekstri á Íslandi og
tækifærin til þess eru mýmörg. Á þeim nótum
talaði ég á fundi greiningardeildar bankans í
september síðastliðinn. Í framhaldi af þeim
fundi nefndi ég í viðtölum við fjölmiðla að við
blasti að til frekari sameininga eða uppstokk-
unar gæti komið í íslensku fjármálalífi. Þar var
ég ekkert að finna neitt upp, þetta höfðu margir
mætir menn sagt á undan mér. Ljóst er að þessi
ummæli mín vöktu upp ólund hjá forstjóra
bankans [Bjarna Ármannssyni] og stjórnarfor-
manni [Einari Sveinssyni]. Ég sá engin mál-
efnaleg rök fyrir því og taldi mig hafa skýrt mín
sjónarmið málefnalega,“ segir Jón.
Bjarni langdvölum erlendis
Í kjölfar kaupa KB banka á FIH-bankanum í
Danmörku segir Jón að þrýstingur hafi vaxið á
Íslandsbanka að taka þátt í útrás íslensku
bankanna, m.a. frá nýjum hluthöfum. Íslands-
banki hafi tekið þátt í kapphlaupinu um FIH en
orðið undir og hafi það orðið mönnum nokkuð
áfall. Yfirlýsing hafi legið fyrir um að vaxta-
möguleikar hér á landi væru takmarkaðir og að
bankinn ætlaði að hasla sér völl í alþjóðlegum
sjávarútvegi. Fljótlega hafi böndin borist að
Noregi og niðurstaðan orðið sú að Íslandsbanki
keypti Kredittbanken og BN-banka.
„Þetta útheimti mikið af stjórnendum bank-
ans og mæddi auðvitað mest á Bjarna Ár-
mannssyni. Hann var langdvölum erlendis og á
meðan bar ég meginábyrgð á starfsemi bank-
ans á Íslandi. Það var því eðlilegt að ég leysti úr
mörgum daglegum viðfangsefnum og ekki hjá
því komist að ég kæmi stundum fram fyrir hönd
bankans.“
Skynjaði vaxandi tómlæti Bjarna í sinn
garð og áhugaleysi á samskiptum
Að mati Jóns liggur væntanlega fleira að baki
ákvörðun forstjórans um að reka sig en þessi
ummæli í fjölmiðlum. Í kjöl-
far hluthafafundar Íslands-
banka 3. nóvember sl. segist
hann hafa skynjað vaxandi
tómlæti Bjarna í sinn garð og
áhugaleysi á samskiptum og
þeim verkefnum sem við-
skiptabankasviðið hafði á
sinni könnu. Smám saman
segist Jón hafa gert sér það
ljóst að Bjarni gæti vel hugs-
að sér að losna við sig úr
bankanum og myndi væntanlega leita fyrsta
færis að finna átyllu til þess.
„Það er ærinn starfi að reka 600 manna ein-
ingu með 300 milljarða króna í útlánum í 30
útibúum og því enginn tími aflögu til að vera
stöðugt í einhverju plotti. Þannig var það alls
ekki. Ég hef einfaldlega verið að vinna fyrir
hluthafa Íslandsbanka og gert það samkvæmt
bestu samvisku og velti þessari stöðu ekki mik-
ið fyrir mér þá.“
Hluthafafundurinn var haldinn í kjölfar
breytinga á eigendahópi bankans. Steinunn
Jónsdóttir úr Byko-fjölskyldunni keypti hluti,
Karl Wernersson jók sinn hlut og Lífeyris-
sjóður verslunarmanna seldi af sínum hluta. Að
sögn Jóns var í aðdraganda fundarins tekist á
um niðurstöðu hans. Sjálfkjörið var í bankaráð-
ið og segir Jón að í framhaldi fundarins hafi orð-
ið vatnaskil í samskiptum hans og Bjarna Ár-
mannssonar, enda hafi staða Bjarna styrkst.
„Bjarni lýsti því sjálfur að undanfarna tvo
mánuði hefði samskiptum okkar hrakað mjög.
Kjarni málsins er sá að hann vildi draga úr sam-
skiptum við mig en var á sama tíma meira og
minna í Noregi vegna verkefna sinna við yfir-
töku á Kreditbanken og síðar BN-bankanum.
Ég taldi mig vera að vinna þá vinnu sem ég
hafði umboð til og ekki hafa verið gerðar at-
hugasemdir við þar til nú.“
Ráðning útibússtjóra í Lækjargötu
tylliástæða fyrir brottrekstrinum
Þegar Jón leitaði skýringa hjá Bjarna Ár-
mannssyni á brottrekstrinum var nefnd nýleg
ráðning hans í stöðu útibússtjóra Íslandsbanka í
Lækjargötu. Staðan var auglýst nýlega og tók
Jón þá ákvörðun að velja Svein Hannesson,
framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, úr hópi
60 umsækjenda. Á Sveinn að hefja störf eftir
áramótin, ef ákvörðun Jóns gengur eftir. Var
hún ekki borin undir Bjarna en Jón telur sig
ekki hafa borið skyldu til þess, ekki síst þar sem
Bjarni hafi verið lengi fjarverandi frá banka-
starfseminni hér á landi og að auki verið í fæð-
ingarorlofi þegar ráðningin fór fram. Þá hafi
Bjarni aldrei spurst fyrir um framvindu máls-
ins, hvaða umsækjendur kæmu helst til greina.
„Það er mjög óheppilegt að nafn Sveins
blandist inn í þessa umræðu því Sveinn er hinn
mætasti maður. Mér fannst það blasa við að
hann væri fremstur meðal margra hæfra um-
sækjenda. Út af fyrir sig eru athugasemdir ekki
gerðar við hann, hann á að baki mikla reynslu
úr atvinnulífinu og það væri sérkennileg ráð-
stöfun af hálfu Íslandsbanka að ætla að senda
öllu því fólki sem treysti honum til trún-
aðarstarfa um langt árabil kaldar kveðjur með
því að vinda ofan af minni ákvörðun. Bjarni
hafði fyrst og fremst athugasemdir við það að
ég skyldi ekki hafa ráðfært mig við hann um
þetta. Þau viðbrögð komu mér verulega á óvart
því ég hafði áður staðið að fleiri ráðningum með
sama hætti,“ segir Jón og telur ráðningu Sveins
vera tylliástæðu forstjórans fyrir brottrekstr-
inum. „Það er verið að leita að einhverju sem
hægt væri að nota til að ná fram þessari nið-
urstöðu, sem mér virðist hafa verið búið að
ákveða löngu áður. Ég held að Bjarni hafi verið
búinn að einsetja sér að koma mér út úr bank-
anum og það skyldi þá gert við fyrsta hent-
ugleika. Þarna hefur hann talið tækifæri vera
komið sem hann ákvað að nýta sér. Annars
verður Bjarni þá að skýra betur út í hverju
ágreiningur okkar er fólginn, sem hann nefnir í
tilkynningu til Kauphallar Íslands.“
Brottreksturinn mikil vonbrigði
Jón segir að andrúmsloftið síðustu vikur og
mánuði hafi vissulega verið sérkennilegt en
hann hafi einbeitt sér að því að ná eins miklum
árangri og hægt var á því sviði sem honum var
falið að stýra. Hann hafi notið til þess trúnaðar
og trausts sinna nánustu samstarfsmanna.
„Að sjálfsögðu er brott-
reksturinn mikil vonbrigði
fyrir mig. Ég hef helgað bank-
anum og forvera hans starfs-
krafta mína í meira en 20 ár,
allt frá því að ég fór út á
vinnumarkaðinn. Ég er stolt-
ur af mínum ferli og ánægður
með margt af því sem áunnist
hefur í bankanum í góðu sam-
starfi við fjöldann af mjög
hæfu samstarfsfólki. Banka-
starfsemi snýst um fólk, venjulegt fólk að eiga
viðskipti við venjulegt fólk. Það hefur verið
minn útgangspunktur,“ segir Jón undir lok
samtals okkar.
Spurður um hvað taki við segist hann ekkert
hafa hugsað út í það. Þegar í gær hafi honum
borist aragrúi símtala sem hann hafi ekki náð að
svara. Hvort það hafi m.a. verið frá hinum bönk-
unum, keppinautum Íslandsbanka, vill Jón Þór-
isson engu svara. „Nú draga menn bara andann
en það hlýtur að koma að því að ég freisti gæf-
unnar á nýjum slóðum. Ég hef ekki stórar
áhyggjur.“
Jón Þórisson, aðstoðarforstjóri Íslandsbanka þar til í gær, telur brottrekstur sinn hafa verið
ákveðinn fyrir löngu af hálfu forstjórans, Bjarna Ármannssonar
Ummæli um mögulega banka-
sameiningu vöktu upp ólund
Morgunblaðið/Kristinn
„Það er verið að leita að einhverju sem hægt væri að nota til að ná fram þessari niðurstöðu,
sem mér virðist hafa verið búið að ákveða löngu áður,“ segir Jón Þórisson m.a. í viðtali við
Morgunblaðið um brottrekstur hans frá Íslandsbanka.
Vegna ágreinings sem „ekki
varð brúaður“ ákvað for-
stjóri Íslandsbanka, Bjarni
Ármannsson, að víkja að-
stoðarforstjóranum, Jóni
Þórissyni, úr starfi. Jón yf-
irgaf bankann í gær og rek-
ur í samtali við Björn Jó-
hann Björnsson skýringar
sínar á brottrekstrinum og
aðdraganda hans.
bjb@mbl.is
’Ég taldi mig veraað vinna þá vinnu
sem ég hafði umboð
til og ekki hafa verið
gerðar athugasemdir
við þar til nú.‘
’Ég held að Bjarnihafi verið búinn að ein-
setja sér að koma mér
út úr bankanum og
það skyldi þá gert við
fyrsta hentugleika. ‘