Morgunblaðið - 30.12.2004, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. DESEMBER 2004 23
MINNSTAÐUR
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
Selfoss | „Mér finnst fólk hafa góða
vitund gagnvart umhverfisvernd og
það tekur vel eftir þeim áróðri og
áherslum sem við setjum fram um
þessi mál í fréttatilkynningum og
bæklingum,“ segir Guðmundur
Tryggvi Ólafsson, umhverfisfræð-
ingur Sorpstöðvar Suðurlands, en
hann tekur við starfi fram-
kvæmdastjóra stöðvarinnar eftir
áramótin. Hann segir starfið leggj-
ast vel í sig en fyrirliggjandi er
samkomulag um starfsemi stöðv-
arinnar og finna þarf lausn á urð-
unarmálum fyrir mitt ár 2008.
Guðmundur Tryggvi er menntað-
ur umhverfisfræðingur frá Dan-
mörku og undanfarin ár hefur
starfssvið hans verið ráðgjöf og
fræðsla til fyrirtækja og almennings
varðandi úrgangsstjórnun. Hann er
því vel að sér um verkefni Sorp-
stöðvar Suðurlands og starfsvett-
vang. „Þetta snýst um meðhöndlun
á úrgangi, að fara að lögum og
reglum og fylgja eftir þeim mögu-
leikum sem eru og kanna nýja far-
vegi. Svo er stöðugt unnið að því að
halda betur utan um tölfræðina sem
sýnir árangur íbúanna en það er
stjórntæki við að greina kostnað og
leggja mat á þær leiðir sem fyrir
hendi eru, bæði það sem fer til end-
urvinnslu og það sem fer til eyð-
ingar. Við fylgjum vel eftir þeim
ferlum sem byrjað hefur verið á svo
sem varðandi pappírinn, að hann
fari alla leið í endurvinnslu. Sama er
að segja um fernurnar. Þetta er
mikilvægt til að skapa tiltrú fólks á
endurvinnslunni.
Við erum alltaf að ná betur og
betur utan um tölfræðina svo sem
að vita hvar úrgangur fellur til og í
hve miklum mæli. Þetta er í raun
ákveðin auðlindastjórnun og með
réttri verðlagningu á auðlindunum
eru meiri líkur til að efnin, það er
að segja auðlindirnar, skili sér til
endurvinnslu. Það má og segja að
sorpið sé auðlind, í því eru efni sem
eru tiltæk og við þurfum að finna
leiðir til að nýta þau. Brotajárn er
til dæmis stór þáttur í úrgangi frá
fyrirtækjum en um þrjú þúsund
tonn af járni koma af svæðinu á ári
og fyrirtæki svara vel gagnvart
þessum þætti, menn skynja verð-
mætið í járninu. Svo erum við hér á
svæðinu með mikinn kjötiðnað og
eðlilega mikinn úrgang af því tag-
inu,“ segir Guðmundur Tryggvi og
bætir við að næsta verkefni Sorp-
stöðvarinnar sé að gera svæðis-
áætlun um meðhöndlun úrgangs og
lýsingu á stöðu mála.
Vill upplifa landið
„Svo er sveitarfélögunum ætlað
að ná árangri við meðhöndlun úr-
gangs og þess er krafist að þau geri
áætlun um hvernig þau ætla að ná
þessum árangri.“
„Ég held að ég sé með græn gen
og hef alltaf verið í góðum tengslum
við náttúruna. Afar mínir voru
ræktunarmenn og í ættinni er nátt-
úrufólk, hestamenn og fuglaskoð-
arar. Ég var á mínum yngri árum
heilu sumrin í sumarbústað foreldra
minna og fór í fuglaskoðunarferðir
með afa mínum. Náttúran togar
alltaf í mig, á sumrin eru það fjöllin
en síðustu þrjú árin hef ég ferðast
mikið um hálendið á mótorhjóli.
Maður sækist eftir að upplifa landið
og skoða það sem fyrir augu ber.
Ég byrja hvert sumar á því að fara í
Bjarnarey og síga eftir eggjum.
Lundaferð til Vestmannaeyja er
síðan alltaf á dagskrá á hverju ári.
Þannig er töluverður veiðimaður í
mér, ég fer auk þessa á rjúpu, gæs,
í stangaveiði og líka á hrein-
dýraveiðar. Þetta tengist allt því að
upplifa náttúruna og maður finnur
fyrir tómleika að geta ekki farið á
rjúpu en þá saknar maður göng-
unnar um fjöllin,“ segir Guðmundur
Tryggvi þegar hann segir frá sjálf-
um sér og áhugamálunum en hann
lætur ekki staðar numið við úti-
vistina. Hann er vel liðtækur júdó-
maður og stundar júdó sem heilsu-
rækt á veturna og hefur líka kennt
júdó til að viðhalda greininni á Sel-
fossi þar sem 30–50 manns iðka
júdó reglulega. Hann hefur einnig
starfað í björgunarsveit, róið á kaj-
ak og fengist við köfun.
„Það er svo aftur á móti mjög
gott að geta skilið vinnuna eftir á
vinnustaðnum þó svo auðvitað vaki
umhverfisvitundin alltaf með manni.
Maður fer heim til fjölskyldunnar
og þá á hún hug manns allan og
annað víkur,“ segir Guðmundur
Tryggvi Ólafsson, verðandi fram-
kvæmdastjóri Sorpstöðvar Suður-
lands, sem er nýorðinn tveggja
barna faðir og býr á Selfossi.
Verðandi stjóri Sorpstöðvar Suðurlands þeysist á mótorhjóli um hálendið, veiðir lunda og æfir júdó
Náttúran togar
alltaf í mig
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Umhverfið Guðmundur Tryggvi Ólafsson, verðandi framkvæmdastjóri
Sorpstöðvar Suðurlands, við yfirlitskort um móttökustöðvar á Suðurlandi.