Morgunblaðið - 30.12.2004, Page 37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. DESEMBER 2004 37
MINNINGAR
næmissmitaðar og þurfa lyfjagjöf.
Nokkrar eiga börn, sem þær taka
með sér í kertagerðina og bak við hús
er athvarf, þar sem kona gætir
barnanna á meðan mæðurnar vinna.
Enda þótt þær séu komnar inn undir
verndarvæng hjálparstarfsins er ljóst
að lífsbaráttan er hörð og það skiptast
á skin og skúrir. Eitt litlu barnanna,
sem ég sá þarna, lést aðeins viku síð-
ar. Stúlkurnar eru komnar mislangt í
námi. Sumar eru að læra að lesa og
skrifa, aðrar eru í verknámi og ein er í
háskólanámi. Allar eiga það sameig-
inlegt að eiga von um betra líf og það
eiga þær Erlu að þakka.
Ég heillaðist af starfi Erlu þarna og
satt að segja vonaðist ég til að geta
tekið þátt í því með henni í framtíð-
inni. Vonandi tekst hinu nýstofnaða
félagi, sem Erla stofnaði um þetta
verkefni sitt og heitir Alnæmisbörn,
að halda starfi hennar áfram án henn-
ar.
Ég kveð merka konu, sem ég var
svo heppin að eiga að vini.
Við Hjálmar vottum Gesti og fjöl-
skyldunni samúð okkar.
Ragna Karlsdóttir.
Á aðfangadag jóla fékk ég þær
fréttir að kær vinkona mín, Erla Hall-
dórsdóttir, væri látin. Það var sem
jólaljósin fölnuðu og tíminn stöðvaðist
um stund. Minningar um þessa ótrú-
legu konu flugu í gegnum huga minn.
Kertaljósin öll og kryddið í eldhús-
inu minnti svo á hana og minningarn-
ar sóttu á hvert sem litið var. Ævi-
starf hennar hefur breytt lífi svo
margra og fært þeim sem minna
mega sín tækifæri til betra lífs. Með
sanni má segja að Erla hafi gert
heiminn að betri stað.
Síðast er við hittumst, rétt áður en
að hún veiktist hafði hún á orði að
verkefnið gengi svo vel í Úganda að
senn liði að því að hún gæti farið að
hjálpa fleirum. Verkefnið var orðið
sjálfbært og þá vildi Erla finna sér
annan hóp að styðja og styrkja. Henni
hefur svo sannarlega verið úthlutað
nýju verkefni.
Um leið og ég kveð hana vinkonu
mína vil ég þakka fyrir að hafa verið
svo heppin að fá að kynnast henni og
taka þátt í að bæta heiminn við hlið
hennar. Erla var einstök kona, hún
var góð vinkona og ekki síst mikil fjöl-
skyldumanneskja. Hún elskaði og var
elskuð. Samband hennar og Gests var
fádæma. Þó að heimsins höf og álfur
skildi þau að voru þau ávallt sem einn
maður í lífi og starfi. Það var einstakt
að fá að upplifa og sjá samheldni
þeirra og einhug. Sárastur er harmur
þeirra Gests, Ragnars, Hildar, Ósk-
ars og Unnar litlu, sem núna sér á eft-
ir elskulegri ömmu sinni.
Mig langar að senda ykkur þessar
fallegu línur úr ljóði Megasar um
Tvær stjörnur
Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á
eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert
hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið
hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.
Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það
alltaf skýrt,
augnlínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er
best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem
er verst.
(Megas.)
Megi Guð og allar góðar vættir
styrkja fjölskylduna hennar Erlu í
gengum sorgina og söknuðinn.
Kær kveðja
Ágústa Birna Árnadóttir.
Erla var kjarkmikil og ósérhlífin
baráttukona. Ríkulegur ávöxtur af
starfi hennar í fjarlægum menning-
arheimi ber þess glöggt vitni að hér
var á ferðinni óvenjuleg manneskja
með sérstaka hæfileika. Framtíðar-
áformin voru mikil og metnaðarfull,
en enginn sem Erlu þekkti efaðist um
að hún myndi koma þeim í fram-
kvæmd.
Það er okkur mikill heiður að hafa
fengið að kynnast Erlu og hennar
starfi, hún hefur snert okkur meira en
orð fá lýst. Gestur, Hildur, Raggi,
Óskar og Unnur litla, söknuður ykkar
er mikill, en ótímabært fráfall Erlu
skilur einnig eftir sig tómarúm hjá
þeim fjöldamörgu sem hana þekktu,
og nutu góðs af í lífi hennar og starfi.
Gretar og Anna Dís.
Víða loga kertin skært, sem Erla
steypti til styrktar stúlkunum sínum í
Úganda. Stelpum sem voru hjálpar
þurfi. Ekki óraði okkur fyrir að kveikt
yrði á Erlu-kertum til að minnast
hennar í upphafi alnæmisbaráttu sem
enginn sér fyrir endann á.
Erlu kynntumst við fyrst þegar
hún kom með Gesti Gíslasyni manni
sínum á mannamót innan Orkustofn-
unar, þar sem starfsmenn og makar
hittust til að blanda geði saman. Erla
var ákaflega opin persónuleiki og við-
ræðugóð. Hún náði trúnaðarsam-
bandi við marga starfsfélaga sína sem
hélst til æviloka. Mörg okkar voru á
svipuðu reki og á þeim tíma að ná fót-
festu með fjölskyldur. Þessi sameig-
inlega lífsreynslu leiddi til sterkra
vináttubanda. Um árabil gerðu þau
hjón víðreist og starfaði Gestur fyrir
Sameinuðu þjóðirnar við sérfræði-
störf í jarðhitarannsóknum. Fyrst í
Mið-Ameríku og síðar í Afríku. Marg-
ir samstarfsmenn á Orkustofnun
nutu gestrisni þeirra hjóna í Kenýa
og ómetanlegrar aðstoðar. Öðru
hvoru komu þau heim og unnu m.a.
bæði um tíma hjá Orkustofnun. Erla
notaði tímann vel og lauk stúdents-
prófi hér heima, háskólanámi í mann-
fræði í Kenýa og var byrjuð í mast-
ersnámi við Háskóla Íslands.
Þegar Erla var í Kenýa og Úganda
kviknaði áhugi hennar á að láta gott
af sér leiða til hjálpar heimamönnum í
lífsbaráttunni og var af nógu að taka.
Henni hugnaðist ekki þessi mismun-
un í samfélaginu sem hún upplifði og
sinnuleysi gagnvart heilbrigðisvanda-
málum. Hún lyfti Grettistaki í barátt-
unni gegn alnæmi með verkefninu
„Candle Light Foundation“, sem fólst
í að hjálpa eyðnismituðum stúlkum
eða munaðarleysingjum mæðra, sem
dáið höfðu úr þeim sjúkdómi. Þar
vann hún mikið og óeigingjarnt starf.
Erla hreif marga með eldmóði sínum
bæði hér heima og í Úganda. Ekki er
hægt að láta hjá líða að nefna kerta-
gerðina sem hún vann við í öllum frí-
stundum til afla fjármagns til þess að
nokkrar ungar stúlkur í Úganda
mættu lifa betur og lengur en ella.
Hugur Erlu leitaði ávallt sterkt til
Afríku.
Fyrir um ári réðst hún til starfa hjá
okkur á Íslenskum orkurannsóknum.
Starf hennar var einkum fólgið í að
ganga frá svarfsýnum úr borholum,
skrá í gagnagrunn og gera gagna-
grunninn aðgengilegan. Hún var ör-
skotsstund að ná áttum, gekk hratt og
skipulega fram í að koma röð og reglu
á allt sem viðkom vörslu sýnanna, og
var óhrædd við að benda okkur hinum
á hvað betur mætti fara í þeim mál-
um.
Öll lútum við á endanum mannin-
um með ljáinn. Erla var ekki tilbúin,
hún átti svo mörgu ólokið, hafði svo
marga drauma og óskir sem áttu að
verða að veruleika. Við fylgdumst
með baráttu hennar í veikindunum
frá degi til dags. Í fyrstu voru vonir
litlar, síðan kom ljóstýra sem glædd-
ist hægt og rólega, en slokknaði
skyndilega að morgni aðfangadags
jóla.
Erla var mannvinur með köllun til
að bæta líf allra í kringum sig og sér-
staklega þeirra sem minnst mega sín.
Hún hafði undirbúið jarðveginn á
þann hátt að hjálparstarfið mundi
halda áfram ef hennar nyti ekki við.
Sá kyndill sem hún kveikti logar
skært, og nú er það okkar hinna sem
á eftir koma að gæta þess að ljósið
dofni ekki. Við færum fjölskyldu Erlu
okkar innilegustu samúðarkveðjur,
Gesti, og börnum þeirra Hildi og
Ragnari, tengdasyni og ömmubarni.
Hjalti Franzson og
Ásgrímur Guðmundsson.
Vinkona mín Erla Halldórsdóttir
lést á gjörgæsludeild Borgarspítalans
á aðfangadag eftir erfið veikindi sem
höfðu staðið yfir í tæpa tvo mánuði.
Elsku Erla mín, hvernig gat þetta
gerst, þú svo full af orku og sást ekki
út úr hlutunum eins og venjulega, svo
mikið hafðir þú að gera og áttir svo
margt eftir ógert, að þér fannst. Helst
dettur manni í hug að almættið hafi
nú þegar sárvantað dugmikla konu til
einhverra mikilla starfa þarna hinum
megin. Svo lengi höfum við Erla
þekkst og okkar fjölskyldur að við
vorum orðnar stór partur af lífi hvor
annarrar.
Við Erla vorum bara stelpur þegar
við kynntumst, hún fimmtán ára og
ég sextán. Við urðum strax vinkonur,
alltaf saman, unnum á sama stað, og
um tíma bjó ég heima hjá henni og
foreldrum hennar, þeim Laufeyju og
Halldóri í Bogahlíð. Á þessum tíma
snerist lífið helst um útlit og stráka og
man ég að drjúgur tími fór í það hjá
Erlu að slétta úr krullunum í sínu
óstýriláta hári, var þá undirrituð oft
orðin afar óþolinmóð þegar átti að
hraða sér út á lífið, já, það er orðið
ansi langt síðan þetta var.
Á þessum tíma kynntist Erla
manni sínum Gesti Gíslasyni. Þau
byrjuðu að búa uppi í Hraunbæ og
Hildur fæddist, síðan fluttist fjöl-
skyldan upp í Mosfellsbæ, og þar sem
við bjuggum í sama bæ, var stutt á
milli okkar og nær daglegur sam-
gangur.
Þegar annað barn þeirra Raggi var
eins árs gamall fóru þau til Hondúras
í Mið-Ameríku. Gestur til að vinna
fyrir SÞ að jarðhitaverkefni. Þau
bjuggu þar á annað ár og fórum við til
þeirra ásamt foreldrum Erlu. Það var
ógleymanleg ferð og mikið ævintýri,
seinna fór fjölskyldan til Kenýa, Gest-
ur aftur að vinna hjá SÞ þau bjuggu í
Nairobi í 7 ár. Erla varð hrifin af Afr-
íku. Á meðan þau dvöldu þar lagði
Erla stund á mannfræði og lauk
mannfræðinámi við Háskólann í
Nairobi. Eftir að heim var komið átti
Afríka allan hennar hug. Hún ein og
óstudd að mestu kom upp hjálpar-
starfi í Kampala í Úganda fyrir stúlk-
ur sem eru alnæmisveikar eða tengd-
ar alnæmi á einhvern hátt, voru
einstæðar og heimilislausar. Þar
stofnaði hún kertagerð, þar sem
stúlkurnar gátu unnið og þannig séð
fyrir sér og átt sér samastað.
Erla varði því miklum tíma í Úg-
anda og ófáar ferðirnar sem hún fór
þangað í sambandi við þetta hjálpar-
starf, og sýndi hún ótrúlegan dugnað
og seiglu í þessu verkefni.
Við Sigurður áttum ótal samveru-
stundir með þeim Erlu og Gesti og
fórum í margar ógleymanlegar ferðir
um heiminn sem er okkur dýrmæt
minning.
Elsku Gestur, Hildur, Raggi, Ósk-
ar og litla Unnur, sem fékk allof stutt-
an tíma með ömmu sinni, en þær
nýttu tímann vel og náðu þær vel
saman, þetta hefur verið erfiður tími
og við fjölskyldan biðjum guð að
styrkja okkur í sorginni. Blessuð sé
minning Erlu.
Lilja.
Hún Erla er farin frá okkur. Við
náum ekki alveg að átta okkur á því
vegna þess að Erla var í svo mörgum
verkefnum alla tíð að manni datt aldr-
ei í hug að það kæmi til greina að hún
færi frá þessu öllu saman. En svona
er lífið – og dauðinn og sýnir okkur
hversu litlu við fáum ráðið.
Við sem eftir sitjum erum harmi
slegin en á sama tíma þakklát fyrir að
hafa fengið að vera vinir hennar ára-
tugum saman. Það var aldrei hægt
annað en að dást að þessari konu sem
alltaf var tilbúin að létta undir með
öðrum og lét aldrei telja úr sér kjark-
inn til að gera það sem henni datt í
hug þótt það virtist vera vonlaus bar-
átta.
Með ótrúlegri þrautseigju setti
Erla á fót heimili og kertagerð fyrir
heimilislausar stúlkur í Úganda og
náði þannig að gera þeim lífið bæri-
legra. Þar gátu þær unnið undir
handleiðslu Erlu og átt þar samastað.
Þetta framtak hennar hefur gjör-
breytt lífi þessara stúlkna og víst er
að svo mun verða um ókomna fram-
tíð, því fyrir áræði Erlu er nú svo
komið að aðrir aðilar hafa nú einnig
lagt hönd á plóginn.
Fjölskyldur okkar hafa lengi átt
samleið og minningarnar eru margar,
ferðalög í Tansaníu, jól í Kenýa, ára-
mót í Hjallaselinu og alltaf munum við
Erlu með skemmtilega brosið sem
var eins og hún lumaði á einhverju.
Elsku Gestur, Hildur, Oscar Unn-
ur og Raggi, við vottum ykkur og öðr-
um aðstandendum dýpstu samúð.
Einar, Kristín, Helga Soffía
og Einar Örn.
✝ Alda BjarnheiðurJónsdóttir fædd-
ist á Fáskrúðsfirði 1.
júlí 1931. Hún lést á
Vífilsstöðum að
kvöldi 22. desember
síðastliðins. Foreldr-
ar Öldu voru þau Jón
Austmann Bjarna-
son, sjómaður og
verkamaður, ættað-
ur frá Breiðdalsvík,
f. 19.1. 1880, d. 17.9.
1962, og Katrín Páls-
dóttir húsmóðir, ætt-
uð af Héraði, f. 3.3.
1887, d. 30.9. 1967.
Systkini Öldu eru þau Dagný (lát-
in), Helgi (látinn) og Sigrún.
Eiginmaður Öldu er Róbert
Lárusson sjómaður, f. 1.11. 1924.
Þau eiga þrjú börn saman, þau
Katrínu Jónu, f. 4.8. 1951, Jónínu,
f. 1.7. 1953 og Lárus, f. 1.10. 1954.
Fyrir átti Róbert
dótturina Dórótheu
Sigríði, f. 1.10. 1950.
Barnabörnin eru 11
og barnabarnabörn-
in 8.
Alda fluttist ung
að árum til Reykja-
víkur og bjó fyrst hjá
systur sinni Dag-
nýju. Starfaði hún
sem þjónustustúlka
hjá Ólafíu og Birni í
Tjarnargötu 10c.
Einnig við konfekt-
gerð, eldamennsku,
fiskvinnslu og ker-
amikframleiðslu ásamt húsmóð-
ur- og uppeldisstarfinu. Lengst af
vann hún á Grensásdeild Borgar-
spítala eða í u.þ.b. 23 ár.
Alda verður jarðsungin frá
Digraneskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Þegar ég ákvað að skrifa minning-
arorð um tengdamömmu var það
mér ofarlega í huga að hafa þau orð
án væmni og málalenginga. Því
þannig var hún, blátt áfram og bein-
skeytt, var ekki mikið fyrir að fara í
kringum hlutina heldur gekk hreint
til verks.
Okkar leiðir lágu saman fyrir 18
árum, það fór fljótt vel á með okkur.
Í Hólmgarðinum skemmtum við okk-
ur gjarnan yfir kaffi og góðu spjalli,
hún hafði gaman af því að fræðast
um mína hagi og hlustaði af áhuga.
Hún var góður sögumaður, í frásögn-
um og samtölum lét hún gamminn
geisa og sagði frá af mikilli innlifun
og svipbrigðin og handahreyfingar
voru ekki undanskildar. Svo var
hlegið að öllu saman og hún manna
mest.
Alda hafði það albesta minni sem
ég hef kynnst nokkru sinni hjá nokk-
urri manneskju, hún rakti heilu at-
burðina og samtöl sem áttu sér stað
mörgum og jafnvel tugum árum áð-
ur. Mér fannst oft þessi eiginleiki
hennar verðugt rannsóknarefni, á
þessum tímum sem allt þarf að vist-
ast í tölvum.
Þegar börnin komu til sögunnar
sýndi hún þeim mikinn áhuga og
naut þess að spjalla og spila við þau,
henni var lagið að sjá og heyra
skondnar hliðar á því sem þau sögðu
og athöfðust. Börnin hændust að
ömmu og fannst mikið koma til at-
hyglinnar og trakteringanna sem
alltaf voru á boðstólum.
Það gleymist aldrei þegar afi og
amma voru á heimili okkar í viku-
tíma, á meðan við foreldrarnir vorum
erlendis. Börnin kunnu svo sannar-
lega að meta þann tíma, amma og afi
glaðvöknuð með mat á borðum fyrir
skólatíma og nokkrar sjóarasögur
frá afa sem meðlæti. Þannig leið dag-
urinn, heitar pönnukökur og óvænt-
ar mataruppákomur í öll mál. Þó að
liðin séu 2 ár eru börnin enn að
minna móður sína á hvernig þetta
var þegar hún amma sá um heim-
ilishaldið. Hún var höfðingi heim að
sækja og með eindæmum snyrtileg
og vandvirk í öllu því sem hún tók sér
fyrir hendur.
Alda vann á Grensási í rúm 20 ár,
þar naut hún sín, í starfi innan um
hressa vinnufélaga, og var óþreyt-
andi í að segja frá skemmtilegum
uppákomum í vinnunni, stundum
svo, að fjölskyldunni þótti nóg um, en
Alda lét það ekki á sig fá, og hélt sínu
striki. Hún fann til sín í vinnunni og
var vel liðin fyrir vel unnin störf og
létta lund.
Þó svo hún hafi átt góða ævi að
mörgu leyti átti hún sinar erfiðu
stundir og var stundum döpur. En
oftast var hún fljót að hrista það af
sér og gat séð spaugilegu hliðarnar á
sjálfri sér. Húmorinn var aldrei langt
undan, jafnvel á dánarbeðnum þegar
hún gat vart talað vegna veikinda.
Það gustaði af henni og hún lá ekki
á skoðunum sínum þegar við átti. En
þegar öllu er á botninn hvolft og sem
öllu máli skiptir var hún heil og
fölskvalaus gagnvart sínum. Þannig
vil ég muna hana og geri um ókomin
ár.
Hafðu þökk fyrir allt.
Að lokum vil ég koma á framfæri
þökkum til starfsfólks hjúkrunar-
heimilisins á Vífilsstöðum fyrir ómet-
anlega hlýlega umönnun.
Þín vinkona og tengdadóttir
Harpa.
Elsku hjartans amma Alda. Nú ert
þú horfin frá okkur og þrautum þín-
um lokið eftir erfitt ár.
Alltaf leit ég á þig sem þvílíkan
dugnaðarfork, þó að hnén væru að
gefa sig hélstu samt alltaf áfram að
vinna á Grensási. En ávallt þegar ég
hitti þig gastu sagt mér einhverja
nýja brandara sem þú hafðir heyrt
þar. Ég man að ég hugsaði oft þá að
ekki væru örugglega margar ömmur
svona sem segðu barnabörnunum
sínum svona skemmtilega brandara.
Eftir að Lísa Rán fæddist fylgdistu
alltaf vel með hvað væri að gerast hjá
henni, og þú hlakkaðir alltaf til að
mæta í afmælin hennar. Ég man dag-
inn áður en áfallið dundi yfir þá
varstu að tala um að Lísa ætti nú
bráðum afmæli og hvað þú hlakkaðir
til að koma. En þú passaðir samt upp
á þó að þú værir helsjúk að afi myndi
samt örugglega mæta.
Elsku amma mín, margar fallegar
minningar á ég um þig og hefði ég
viljað hafa þig hérna hjá okkur miklu
lengur en ég veit að þú varðst hvíld-
inni fegin vegna veikinda þinna.
Margt er það og margt er það
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina
sem enginn frá mér tekur.
(Davíð Stefánsson.)
Guð geymi þig.
María Lísa.
Elsku amma mín, eftir gott líf hef-
ur þú kvatt þennan heim. Langar
mig til þess að senda þér þetta fal-
lega ljóð;
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Takk fyrir allar góðu stundirnar
sem við höfum átt og allan stuðning-
inn og hlýhuginn sem þú hefur veitt
mér undanfarið ár. Þín
Guðrún Inga.
ALDA B.
JÓNSDÓTTIR