Morgunblaðið - 08.01.2005, Blaðsíða 36
36 LAUGARDAGUR 8. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Magnús Krist-jánsson (Gutti)
fæddist 9. september
1946. Hann lést á
gjörgæsludeild
Landspítalans við
Hringbraut 28. des-
ember síðastliðinn.
Magnús, eða Gutti
eins og flestir Ísfirð-
ingar þekktu hann,
var menntaður járn-
iðnaðarmaður (plötu-
smiður) og húsasmið-
ur. Hann var sonur
Kristjáns J.M. Jóns-
sonar, sem lést fyrir
tveimur árum, og Jónu Örnólfs-
dóttur, sem nú býr á Hlíf á Ísa-
firði. Eftirlifandi systkini Magn-
úsar eru Jón Þ., f. 12. mars 1945,
kvæntur Hjördísi Ólafsdóttur, búa
í Reykjavík, Þorgerður Margrét,
f. 1. október 1947, gift Pétri I. Pét-
urssyni, búa á Akureyri, Indriði
Arnar, f. 27. apríl 1951, kvæntur
Carolyn M. Kristjánsson, búa í
Kanada, Hörður, f. 8. júní 1955,
kvæntur Fríðu K. Albertsdóttur,
búa í Reykjavík, og Kristján Frið-
rik, f. 15. október 1962, kvæntur
Guðnýju Heiðu Yngvadóttur, búa
í Fljótshlíð. Eigin-
kona Magnúsar er
Hildur Jósefsdóttir
frá Vopnafirði. Þau
eiga fjögur börn,
þau eru Grétar Þór,
f. 10. apríl 1971,
kvæntur Jónínu Þor-
kelsdóttur, búsett á
Ísafirði og eiga þrjú
börn; Lindu Krist-
ínu, f. 13.10. 1992,
Gunnar Þór, f. 1.11.
1994, og Samúel
Þóri, f. 17.1. 1996.
Edda Björk, f. 29.
maí 1972, gift Stein-
þóri Auðuni Ólafssyni, búsett í
Hjarðardal í Dýrafirði og eiga
þrjú börn; Ólaf Auðun, f. 18.6.
1991, Magnús Ellert, f. 17.4. 1993,
og Vilhelm Stanley, f. 30.7. 1998.
Hilmar, f. 11. maí 1976. Hann
stundar nám í Danmörku. Árni, f.
10. desember 1977, kvæntur Ernu
Fannbergsdóttur, búsett í Vest-
mannaeyjum og eiga tvö börn; Ar-
on Tryggva, f. 9.6. 1999, og Lilju
Hildi, f. 10.11. 2002.
Útför Magnúsar fer fram frá
Ísafjarðarkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Stundum verður manni orðfátt
þegar óvæntir atburðir eiga sér stað
og svo var einmitt þann 28. desem-
ber síðastliðinn. Þá hringdi eiginkon-
an í mig í vinnuna og bar mér þau
skilaboð að Gutti bróðir (Magnús
Kristjánsson) væri orðinn langt
leiddur þar sem hann lá á Landspít-
alanum við Hringbraut. Búið væri að
flytja hann á gjörgæsludeild og útlit-
ið mjög dökkt. Ég sat um stund sem
lamaður við tölvuna á vinnustað mín-
um og vissi eiginlega ekki hvað til
bragðs skyldi taka, eða hvernig ég
ætti að vera. Ég stóð þó upp, dreif
mig í yfirhöfn og lagði af stað út á
sjúkrahús.
Útlit hafði verið fyrir að hann
næði sér upp úr þessum ömurlega
sjúkdómi sem var sjaldgæft afbrigði
blóðkrabbameins sem hann hafði
barist við í eitt og hálft ár. Þrátt fyrir
að læknar hans reyndu allt hvað þeir
gátu urðu þeir að lokum að játa sig
sigraða. Þetta stríð varð Gutta um
megn og lauk hetjulegri baráttu
hans rétt eftir að klukkan sló tólf á
hádegi þann 28. desember 2004.
Hildur konan hans stóð vaktina
við hlið hans allan tímann. Sú bar-
átta reyndi sannarlega á hans and-
lega þrek og maður fann að hann var
mest ósáttur við sitt eigið bjargar-
leysi. Það að hann gæti ekki gert það
sem hann vildi, gripið hamar og sög
eins og hann var menntaður til, dytt-
að að húsinu sínu, né sinnt neinu sem
hét vinna að einhverju marki, var
eitthvað sem Gutti átti afar bágt með
að þola. Hann hafði nefnilega aldrei,
alla sína ævi, þolað iðjuleysi eða leti.
Þarna var hann í þeirri stöðu að geta
ekki ráðið sinni eigin ferð. Hann var
algerlega upp á aðra kominn og með
líkama sem hann réð heldur ekki al-
mennilega yfir. Hann var eins og
fangi í veikum líkama og verra gat
það varla verið.
Gutti var alla tíð mikill baráttu-
maður. Frá barnæsku var hann
ærslafullur og með mikinn lífskraft
og það skilaði sér m.a. í öflugu starfi
hans hjá Knattspyrnufélaginu
Herði. Undir merki félagsins keppti
hann oft, ekki síst á gönguskíðum.
Ómæld handtökin átti hann líka
varðandi viðhald á Harðarskálanum
sem nú er ekki lengur til. Honum
auðnaðist líka sá heiður að verða for-
maður Harðar, félagsins sem hann
mat svo mikils. Þá keppti hann líka á
gönguskíðum fyrir hönd Ísafjarðar á
landsmótum og vann til verðlauna.
Þegar ég, sem er 9 árum yngri, fór
að muna eftir honum, þá eru það
prakkarastrikin hans og ærslafullur
leikur sem helst koma upp í hugann
og þar er af nógu að taka. Hann átti
svo sem ekki langt að sækja glað-
hlakkalega stríðnina, hún var honum
sannarlega í blóð borin. Prakkara-
skapurinn og fiktið féll reyndar ekki
alltaf öllum í geð. Þau voru hins veg-
ar mörg prakkarastrikin, enda sam-
safn prakkara meðal púkanna í hlíð-
inni. Auk Nonna og Gutta og Óla
Njáls, sem reyndar átti heima niðri á
Eyri, þá voru þarna prakkarar á
svipuðu reki eins og Palli Krist-
mundar, Palli Sturlaugs, Addi Kitta
Gauj, Njalli, Bjössi Boggu frændi
okkar og fleiri slíkir. Í kringum þá
var sjaldan lognmolla og eflaust
hefði þeim aldrei komið til hugar að
setjast klukkustundum saman yfir
tölvuleik sem reyndar var ekki til í
þá daga, hvað þá sjónvarp. Þessi
púkar voru allt of orkumiklir til að
slíkt væri hugsanlegt. Sennilega
hefðu þeir allir verið skilgreindir of-
virkir í dag og settir á sterkustu sort
af geðdeyfðarlyfjum.
Gutti byrjaði ungur að stunda
vinnu í búskapnum hjá afa á Hlíð-
arenda, í fiskvinnu, vegagerð og víð-
ar, en hugur hans stóð snemma til
sjómennsku. Ég man að mér stóð þó
ekki á sama þegar hann gerðist há-
seti hjá Magnús Þórarinssyni, mann-
inum hennar Halldóru Örnólfsdótt-
ur, frænku okkar á Sjónarhæð. Gutti
var mjög hændur að Magnúsi nafna
sínum, eða Manga gamla eins og
hann kallaði hann. Mangi tók Gutta
sem félaga um borð og fullgildan há-
seta á þriggja tonna trilluhorninu
sínu, en þá var hann varla nema 15
ára gamall. Ég man hvað mér fannst
hvítmálaði báturinn hans Manga
agnarlítill í samanburði við ógnandi
hafið eftir að Gutti ákvað að gerast
þar háseti. Þar lærði Gutti handtökin
sem leiddu hann áfram á stærri fley
eins og Gylfa ÍS 303, Guðnýju ÍS 266
og fleiri báta.
Með Gutta á sjónum var m.a. Óli
Njáll og þeir brölluðu aldeilis margt
saman. Eitt sinn kom Óli Njáll ak-
andi inn á Skriðu að vetrarlagi á
Moskvitch-bifreið sinni með hnísu í
eftirdragi. Hann þurfti ekki mikið að
dekstra Gutta til að fara á rúntinn
með hnísuna um bæinn. Ekki veit ég
hvort hnísan var þá hugsuð sem agn
fyrir væntanlegar konur þeirra
beggja sem þeir nældu sér í í Hús-
mæðraskólanum Ósk. Allavega
fréttist það næst af hnísunni að hún
var snyrtilega lögð til sem aðalréttur
á matarborð í Grautó með fínasta
borðbúnaði skólans. Þegar skóla-
stýran kom þar inn um morguninn
mun henni hafa brugðið all-hastar-
lega, enda engu líkara en á borðinu
lægi maður sem búið var að stinga á
kvið með heljarstórum búrhníf. Eftir
á þótti þó jafnvel skólastýrunni
merkilegt að prakkararnir, sem að
þessum verknaði stóðu, sem trúlega
voru þó fleiri en tveir, skyldu komast
óséðir með hnísuna inn um glugga í
Grautó meðan skólastúlkur sváfu
rótt í rúmum sínum. Síðan dunduðu
þeir sér lengi nætur við að dekka
veisluborð án þess að nokkur yrði
þeirra var.
Það átti þó ekki fyrir Gutta að
liggja að gerast sjómaður til fram-
búðar því hugur hans stefndi lengra.
Hann fór að vinna í skipasmíðastöð-
inni hjá Marsellíusi Bernharðssyni
og settist á skólabekk í Iðnskólanum
hjá Aage Steins sem hann mat mjög
mikils. Lærði hann þar plötusmíði og
tók þátt í mesta skipasmíðaævintýri
sem fram hefur farið á Ísafirði þegar
fyrstu stálbátarnir voru smíðaðir
þar. Hann var mjög stoltur af sínum
hlut í þeirri smíði. Gutti var líka með
meirapróf og var því oft fenginn til
að grípa í að keyra trukkana með
Högna Massa. Meiraprófið nýttist
honum líka ágætlega þegar hann
stofnaði ásamt Guðmundi Þórðar-
syni, Jóni Gunnarssyni og Jens
Kristmannssyni trésmíðafyrirtækið
Kubb hf., sem byggði m.a. skrif-
stofuhúsnæði Norðurtangans og
Orkubúshúsið sem upphaflega var
reist sem verkstæði fyrirtækisins.
Gerðist Gutti þá húsasmiður og
byggði sér m.a. hús við Skipagötu 10.
Við þessa grein starfaði hann í fjölda
ára utan þess að hann reyndi fyrir
sér tímabundið sem togarasjómaður
um borð í Guðbjarti ÍS með Hörra
skipstjóra Guðbjartssyni. Þá keypti
hann sér trilluhorn sem hann gerði
út frá Ísafirði um skamman tíma.
Menntun hans sem iðnaðarmaður
nýttist honum síðan vel þegar hann
réð sig til að sjá um viðhald og vafst-
ur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísa-
firði. Þar starfaði hann síðan, allt þar
til veikindin drógu úr honum mátt
fyrir einu og hálfu ári.
Nú er vinnudegi Gutta lokið á
þessari jörð, en án efa situr hann nú
með gamla félaga sínum Óla Njáli að
upphugsa ný prakkarastrik með öðr-
um góðum stríðnispúkum sem á und-
an þeim fóru.
Ég bið góðar vættir að styðja þig,
Hildur mín, Grétar Þór, Edda Björk,
Hilmar og Árni, sem og maka ykkar
og börn. Einnig þig, mamma mín, við
sorglegt fráfall sonar, því sannarlega
er mikið á þig lagt. Ég get hins vegar
lítið annað gert að lokum, Gutti bróð-
ir, en að þakka samfylgdina og góð
kynni í gegnum árin. Þær þakkir
hygg ég að við systkinin, makar og
börn getum öll verið sammála um að
færa þér af vanmætti okkar gagn-
vart því óréttlæti að missa þig svo
allt of fljótt.
Bless, Gutti, og hafðu þökk fyrir
allt.
Hörður, Fríða og fjölskylda.
Í dag kveðjum við Magnús Krist-
jánsson, góðan vin og skólafélaga til
margra ára. Í okkar huga verður
hann þó alltaf Gutti (hans Kitta á ýt-
unni). Þegar litið er til baka til æsku-
áranna á Ísafirði og ætíð síðan hefur
Gutti verið órjúfanlega partur af „’46
árganginum“. Margs er að minnast
en efst í huganum og ógleymanleg-
ust eru þó ærslin og fjörið í honum
Gutta. Alltaf gat hann séð eitthvað
spaugilegt við tilveruna. Alltaf var
hann hrókur alls fagnaðar og gat
sagt skemmtilega frá hversdagsleg-
um viðburðum.
Í fersku minni eru þær helgar sem
árgangurinn hefur komið saman á
Ísafirði til að endurnýja gömul
kynni. Fjölmarga fundi þurfti til að
undirbúa helgarnar og þar var Gutti
alltaf hrókur alls fagnaðar. Hans
verður sárt saknað við næsta und-
irbúning.
Til margra ára hefur Gutti verið
ráðsmaður á Fjórðungssjúkrahúsinu
á Ísafirði og þar muna flestir Vest-
firðingar þennan glaðlynda mann.
Dæmigert var fyrir Gutta að þegar
hann veiktist gat hann meira að
segja gert góðlátlegt grín að veik-
indum sínum. Hann barðist hetju-
legri baráttu við veikindin, vel studd-
ur af eiginkonu sinni Hildi og allri
fjölskyldunni. Allaf var hann þó
hress og leit björtum augum til bat-
ans. Rétt fyrir jólin var hann mjög
bjartsýnn á framtíðina og engan ór-
aði fyrir að svona stutt væri eftir.
Hildi og fjölskyldu sendum við inni-
legar samúðarkveðjur. Minning um
góðan dreng mun ætíð lifa.
Far þú í friði, friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Kveðja frá
árgangi ’46 á Ísafirði.
Það er með mikilli eftirsjá sem við
samferðamenn Magnúsar Kristjáns-
sonar horfum á bak honum af heimi
héðan. Hann var óvenjulegur maður
með gerðarþokka, gæddur ein-
stökum félagsþroska, glaðværð og
lífsorku og af þeim sökum var hann
og verður minnisstæður öllum, sem
honum kynntust.
Magnús ólst upp í stórum systk-
inahópi, þar sem samheldni stórfjöl-
skyldunnar var á þeim tíma mikil og
samgangur milli fjölmargra jafn-
aldra því umtalsverður. Snemma bar
því á félagslyndi hans og athafna-
semi sem alla tíð aflaði honum mik-
illa vinsælda. Hann fór snemma að
gera gagn og var því við brugðið
hversu viljugur hann var til allra
snúninga og verka. Þennan eigin-
leika hans nýtti stórfjölskyldan sér
sem og velflestar húsmæður í ná-
grenninu. Mun hann sjaldan hafa
verið aðgerðalaus og hafði lag á að
gera æsku sína viðburðaríka. Festist
snemma við hann gælunafnið Gutti,
sem hann gekk undir alla tíð meðal
þeirra sem þekktu hann. Hefur þar
hugsanlega gætt einhverra áhrifa
frá Guttavísum Stefáns Jónssonar.
Þegar Gutti komst á fullorðinsár
tókst honum að varðveita þessa
framantöldu eiginleika sína auk
barnsins í sjálfum sér. Hann var
heimsmaður og glæsimenni og hrók-
ur alls fagnaðar hvar sem hann kom,
því hann hafði mjög líflegt hug-
myndaflug þegar að því kom að lífga
upp á tilveruna. Fremur en margir
aðrir ungir menn á Ísafirði þá gerði
hinn glaðværi heimsmaður ekkert til
að forðast umgengni við námsmeyj-
ar Húsmæðraskólans Óskar á Ísa-
firði. Þurfti þá oft að beita hug-
kvæmni og áræði eins og sést af því,
þegar nokkrir félagar tóku sig sam-
an um að dekka upp veizluborð að
næturlagi með myndarlega útilátnu
sjávarfangi, námsmeyjum og kenn-
urum til yndisauka. Að lokum sótti
hann sér þangað konu sína, sem síð-
an reyndist honum tryggur lífsföru-
nautur og akkeri í lífsins ólgusjó og
ól honum fjögur myndarbörn, sem
öll eru nýtir þjóðfélagsþegnar. Gutti
var traustur og góður fjölskyldufaðir
og börnum sínum mikils virði.
Gutti lærði plötusmíði og húsa-
smíði og vann í fyrstu við skipasmíð-
ar en síðar húsasmíðar og rak ásamt
þremur öðrum byggingafyrirtækið
Kubb á Ísafirði. Hann stundaði einn-
ig sjómennsku af og til og síðustu ár-
in var hann ráðsmaður og húsvörður
sjúkrahúss og heilsugæzlustöðvar á
Ísafirði. Hann var ötull verkmaður,
laginn og ráðagóður. En mest áber-
andi í fari hans var glaðbeitt hjálp-
semi, ósérhlífni og vilji til að leysa
hvers manns vanda. Það voru ófá
dagsverkin í sjálfboðavinnu sem
hann lagði af mörkum til uppbygg-
ingar íþróttastarfs á Ísafirði og enn-
fremur var hann ólatur og ötull liðs-
maður í hvers konar öðru
félagsstarfi, því hann var hugsjóna-
maður með ríka réttlætiskennd.
Fyrir nokkrum misserum tók
Gutti að kenna banvæns sjúkleika.
Hann gekkst undir erfiða læknis-
meðferð og þurfti m.a. að dvelja er-
lendis í rúma fjóra mánuði á síðasta
ári. Allan þann tíma stóð Hildur
kona hans sem klettur við hlið hans
og studdi hann með ráðum og dáð.
Horfur hans voru eftir það taldar
vænlegar, þótt meðferðin tæki sinn
toll. Það var því mikið reiðarslag
þegar þessi bjartsýni og lífsglaði
maður lézt óvænt af völdum öndun-
arfærasýkingar um síðustu jól.
Ég votta aðstandendum hins látna
samúð mína og vona að jákvæðar
minningar þeirra um þennan vamm-
lausa drengskaparmann geti með
tímanum sefað harm þeirra.
Pétur Pétursson.
Sárt er vinar að sakna.
Sorgin er djúp og hljóð.
Minningar mætar vakna.
Margar úr gleymsku rakna.
Svo var þín samfylgd góð.
Daprast hugur og hjarta.
Húmskuggi féll á brá.
Lifir þó ljósið bjarta,
lýsir upp myrkrið svarta.
Vinur þó félli frá.
Góða minning að geyma
gefur syrgjendum fró.
Til þín munu þakkir streyma.
Þér munum við ei gleyma.
Sofðu í sælli ró.
(Höfundur ók.)
Elsku Hildur, börn og fjölskyldur.
Við Gréta og stelpurnar sendum
ykkur okkar innilegustu samúðar-
kveðjur og biðjum góðan guð að
styðja ykkur og styrkja í sorginni.
Gunnar.
Drúpir dimmviður
dökku höfði,
dagur er dauða nær.
Hrynja laufatár
litarvana
köldum af kvistsaugum.
(Jóh. S.)
Magnús Kristjánsson, sjúkrahús-
ráðsmaður á Ísafirði, er látinn mjög
um aldur fram. Hann er eiginkonu,
aldraðri móður, fjölmennri fjöl-
skyldu og okkur öllum öðrum, sem
hann átti ágætt samneyti við, mikill
harmdauði.
Við höfðum sannarlega vonað að
hann hefði betur í hetjulegri baráttu
sinni við illvígan sjúkdóm, sem hann
barðist við seinustu eitt til tvö árin.
En þó að óhjákvæmileg endalokin
yrðu fyrr og sneggri en okkur varði
þá naut Gutti, eins og hann var
nefndur meðal fjölskyldu og vina, vel
þeirrar skapgerðar sinnar, sem ein-
kenndi hann öðru fremur. En óbil-
andi jafnaðargeð, þrautseigja og
fyrst og fremst léttleiki í öllu dagfari
voru þeir eiginleikar, sem dugðu
honum best þar til yfir lauk ásamt
þrotlausri umhyggju eiginkonu og
annarra nánustu ástvina.
Grónir vestfirskir kynstofnar
stóðu að honum í báðar ættir þar
sem eiginleikarnir höfðu sannpró-
fast við margs konar mismunandi að-
stæður. Kristján faðir hans var
t.a.m. þekktur vegagerðarmaður hér
um slóðir, sem hafði þurft að kljást
við marga snarbratta urðina og haft
betur, þannig að okkur nútímafólki
yrði ferðin fær.
Gutti bjó allan aldur sinn hér á
Ísafirði. Hann tók af heilum hug þátt
í lífsbaráttunni hér á eyrinni á seinni
hluta liðinnar aldar. Hann skipaði
sér óhikað í sveit með félagshyggju-
fólki og var jafnaðarmaður að lífs-
hugsjón.
Frá því að við fluttum hingað vest-
ur reyndust Gutti, Hildur og fjöl-
skyldur þeirra allar okkur einstakir
haukar í horni. Fyrir það þökkum við
af alhug um leið og við sendum ást-
vinum hans innilegar samúðarkveðj-
ur og biðjum minningu Magnúsar
Kristjánssonar blessunar Guðs.
Margrét og Guðbjartur.
MAGNÚS
KRISTJÁNSSON
Okkar ástkæra
ELÍN SÆMUNDSDÓTTIR,
Vesturbergi 38,
Reykjavík,
lést á heimili sínu miðvikudagskvöldið
22. desember.
Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar
látnu.
Innilegar þakkir öllum þeim er veittu okkur
stuðning og samhryggð við fráfall hennar.
Aðstandendur hinnar látnu.