Morgunblaðið - 27.01.2005, Side 28
28 FIMMTUDAGUR 27. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
Í
sland er sannarlega smá-
ríki. Hvar annars staðar
myndi maður taka upp
dagblað (Morgunblaðið sl.
mánudag) og sjá umfjöll-
un um væntanlegt formannskjör í
næststærsta stjórnmálaflokki
landsins en þar stendur baráttan á
milli fólks, sem tengt er nánum
fjölskylduböndum.
Og á opnunni fyrir framan eru
ummæli Einars Odds Kristjáns-
sonar, varaformanns fjár-
laganefndar Alþingis, varðandi
framboð Íslands til öryggisráðs
Sameinuðu
þjóðanna bor-
in undir
tengdason
hans, Illuga
Gunnarsson,
en þannig vill
til að hann er aðstoðarmaður Dav-
íðs Oddssonar utanríkisráðherra.
Já, Ísland er sannarlega smá-
ríki. Við yrðum fámennasta ríkið í
öryggisráði SÞ ef við næðum kjöri
þangað í kosningunum sem eiga að
fara fram haustið 2008. En erum
við of smá til að eiga erindi þangað
inn? Um það eru skiptar skoðanir.
Ég hafði heyrt orðróm um að
sjálfstæðismenn – sem tóku við ut-
anríkisráðuneytinu í september sl.
þegar Halldór Ásgrímsson varð
forsætisráðherra – vildu helst
hætta við öryggisráðsframboðið.
Nú virðast þær sögusagnir hafa
fengist staðfestar, a.m.k. ef eitt-
hvað er að marka útspil Einars
Odds, að ekki sé talað um viðbrögð
Sólveigar Pétursdóttur, formanns
utanríkismálanefndar Alþingis.
Það er nefnilega ekki hægt að tala
um að Sólveig virðist mjög sann-
færð um réttmæti þeirrar ákvörð-
unar (sem tekin var 1998) að sóst
verði eftir sæti í öryggisráðinu.
Segir Sólveig að þetta sé sú
stefna sem stjórnarmeirihlutinn
hafi komið sér saman um og að
henni verði fylgt „þangað til annað
verði ákveðið“.
Virðist manni af þessu að eig-
inlega sé það bara tímaspursmál
hvenær „annað verður ákveðið“;
kannski þegar Davíð Oddsson
kemur úr leyfi sínu í Bandaríkj-
unum.
Framboðsmál þessi ræddi ég í
viðhorfspistli 16. desember sl. en
þar rifjaði ég upp fyrri hugmyndir
um að Ísland sæktist eftir sæti í ör-
yggisráðinu. Kom þar m.a. fram að
hugmyndin hefði fyrst skotið upp
kollinum í utanríkisráðherratíð
Geirs Hallgrímssonar um miðjan
níunda áratuginn. Var ákveðið að
bíða með að hrinda henni í fram-
kvæmd. Það var ekki fyrr en Hall-
dór Ásgrímsson hafði setið nokkur
ár í stóli utanríkisráðherra sem
málið komst á rekspöl á ný.
Ég verð að gangast við því að
hafa verið tiltölulega spenntur fyr-
ir þeirri hugmynd, að Ísland
reyndi að komast í öryggisráð SÞ.
Hefur þessi afstaða einfaldlega
skýrst af áhuga mínum á alþjóða-
málum, einkum og sérílagi sögu
SÞ og hlutverki samtakanna und-
anfarin sextíu ár. Mér þykir því
heldur lítið leggjast fyrir menn
sem tekið hafa ákvörðun um að fara
í framboð, ef þeir heykjast á verk-
efninu strax á fyrstu metrunum
(nefna má að Ísland er ekki byrjað
að dreifa kosningabæklingum;
Tyrkir gerðu það hins vegar strax
síðasta sumar).
Í þessum efnum sýnist mér bar-
asta sem það vanti alla staðfestu í
þetta stjórnarlið. Já, hvað varð um
hina staðföstu þjóð? Á nú að hætta
við framboð fyrirvaralaust af því að
Einar Oddur heyrði útundan sér að
við ættum ekki möguleika á að hafa
betur en Austurríki og Tyrklandi í
kosningu í allsherjarþingi SÞ? Er
Einar Oddur ekki þarna að taka að
sér hlutverk „meinfýsnishlakkandi
úrtölumanna“?
Allt að einu. Ég get ekki ímyndað
mér að Halldór Ásgrímsson sé
ánægður með að sjálfstæðismenn
skuli ætla að slá þetta gæluverkefni
hans af. Nema hann hafi sjálfur
verið farinn að efast, kannski er
verkefnið einfaldlega farið að vaxa
öllum í augum?
En það er ekki hlaupið að því að
draga í land svo sómi sé að. Ísland
nýtur stuðnings hinna Norð-
urlandaþjóðanna, er hluti af „róta-
sjón“ Norðurlandanna hvað fram-
boð til öryggisráðsins varðar.
Finnar voru víst ekki kátir á sínum
tíma þegar Ísland ákvað að taka
sæti þeirra á Parísarhjólinu – enda
ýtti það framboði þeirra aftur um
fjögur ár – og verða eflaust enn
minna hrifnir ef þetta reynist hafa
verið eitthvert plat af okkar hálfu.
Það verður varla kappsmál meðal
Norðurlandaþjóðanna að hleypa
okkur aftur inn í rótasjónina síðar.
Sjálfsagt telja margir það hið
besta mál – og kannski verður ekk-
ert „næst“. Og þjóðir hafa svo sem
hætt við framboð án þess að það
teldist vera stórmál. Mér skilst
t.a.m. að Ástralar hafi dregið fram-
boð til baka árið 1996, einfaldlega af
þeirri ástæðu að þeir sáu ekki fram
á að geta haft erindi sem erfiði.
Ég veit ekki hvað er til í því, sem
Einar Oddur hefur eftir mönnum
„sem eru hnútum mjög kunnugir í
utanríkisþjónustunni“, að Ísland
eigi litla möguleika á að hafa betur í
baráttunni við Austurríki og Tyrk-
land um sæti í öryggisráðinu. En
það hefur lengi legið fyrir að við
myndum þurfa að hafa mikið fyrir
þessu – eða voru menn að vona að
Ísland flyti inn í öryggisráðið án
baráttu (þ.e. að aðeins tvö ríki
sæktust eftir tveimur sætum Vest-
urlandahópsins í ráðinu starfsárin
2009–2010)?
Og það hefur lengi legið fyrir að
framboð yrði kostnaðarsamt. Það
er ekki eins og stjórnarskipti hafi
orðið hér á landi og að ný stjórn sé
að taka aftur ákvarðanir fyrri
stjórnar, það situr sama stjórn í
landinu og sat þegar ákvörðun um
framboð var tekin 1998. Það er því
ekki út í hött að spyrja hvers konar
hringavitleysa þetta sé eiginlega.
En við getum auðvitað ekki farið
hálfvolg í svona framboð. Annað-
hvort fara menn í þetta af krafti eða
ekki. Ef við erum í þessu af hálfum
hug er sannarlega betra að hætta
við og hætta við strax.
Hvar er nú
staðfestan?
En það hefur lengi legið fyrir að við
myndum þurfa að hafa mikið fyrir þessu
– eða voru menn að vona að Ísland flyti
inn í öryggisráðið án baráttu […]? Og
það hefur lengi legið fyrir að framboð
yrði kostnaðarsamt. […] Það er því
ekki út í hött að spyrja hvers konar
hringavitleysa þetta sé eiginlega.
VIÐHORF
Eftir Davíð Loga
Sigurðsson
david@mbl.is
UNDANFARNA mánuði hefur
pólitísk umræða á Íslandi verið með
nokkuð einkennilegum hætti. Stjórn-
arandstaðan hefur þrástagast á því
að tveir ráðherrar,
Halldór Ásgrímsson og
Davíð Oddsson, hafi
brotið lög og sniðgengið
ríkisstjórn og Alþingi
og farið í stríð við Sadd-
am Hussein umboðs-
lausir. Þetta er und-
arlegur málflutningur,
sérstaklega hjá fólki
sem veit betur og hefur
frá gamalli tíð reynslu
úr ríkisstjórn og af
þingstörfum.
Það er mála sannast
að þróun mála í Írak
hefur ekki orðið gæfuleg síðan vorið
2003 og þær upplýsingar sem Banda-
ríkjamenn lögðu fram um eitur-
efnavopn þá voru rangar. Það er auð-
velt að vera vitur eftir á og mönnum
er vorkunn þótt þeir sæju ekki þró-
unina fyrir.
Mér sýnist aðalatriðið í umræðu
dagsins vera hvort ráðherrarnir tveir
voru bærir til að taka þá afstöðu sem
þeir tóku og hvort þeir hefðu getað
gert annað.
Vilji utanríkismálanefndar
Íraksmálið var oftsinnis rætt á Al-
þingi þennan vetur svo sem sjá má í
Alþingistíðindum.
Ögmundur Jónasson, ásamt öðrum
þingmönnum Vinstri grænna, lagði
fram tillögu til þingsályktunar 21.
janúar 2003, mál nr. 491. Niðurlag til-
lögunnar hljóðaði svo: „Komi til hern-
aðaraðgerða gegn Írak á næstu mán-
uðum skal Ísland tilkynna að ekki
verði heimiluð afnot af aðstöðu á ís-
lensku yfirráðasvæði né verði um
neins konar þátttöku að ræða af Ís-
lands hálfu í slíkum aðgerðum.“
Þessi þingsályktun fór til utanrík-
ismálanefndar 17. febrúar. 12. mars
var það fellt í nefndinni að afgreiða
tillöguna og þar með lá afstaða meiri-
hluta utanríkismálanefndar ljós fyrir
og ástæðulaust að búast við því að sú
afstaða breyttist skyndilega.
18. mars var málið rætt í rík-
isstjórn. Eg var erlend-
is þann dag og veit því
ekki orðaskipti manna á
þeim fundi. Ríkisstjórn
er ekki fjölskipað
stjórnvald, hver ráð-
herra ber ábyrgð á sín-
um málaflokkum. Mál
eru ekki afgreidd í at-
kvæðagreiðslu á rík-
isstjórnarfundum.
Ráðherra í sam-
steypustjórn fer hins-
vegar ekki fram með
mál ef hann veit að
veruleg andstaða er fyr-
ir hendi í stjórnarliði og þingmeiri-
hluti ekki tryggður. Það er algjör
fjarstæða að svo reyndir stjórnmála-
foringjar sem Halldór Ásgrímsson og
Davíð Oddsson létu sér detta í hug að
taka ákvarðanir nema þeir vissu að
þeir hefðu umboð til þess frá meiri-
hluta Alþingis.
Sagan öll
1952 áttu Bandaríkjamenn í stríði í
Kóreu. Sá ófriður var notaður til að
réttlæta gerð herverndarsamnings
okkar við Bandaríkin. Sá samningur
orsakaði illvígar deilur um árabil,
ekki síst í Framsóknarflokknum.
Með herverndarsamningnum höfðu
Bandaríkjamenn vald á að nota
Keflavíkurflugvöll og að fljúga um ís-
lenska lofthelgi.
Það gerðu þeir í Víetnamstríðinu,
Kúveitorustunni, loftárásunum á
Kosovo og við hernám Afganistan.
Þrátt fyrir það minnist eg þess ekki
að nokkur maður héldi því fram að
við ættum í stríði við þessar þjóðir.
Að undanförnu hafa Bandaríkja-
menn viljað draga sem mest úr um-
svifum sínum á Keflavíkurflugvelli.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað
fallast á áform þeirra, m.a. af því þá
mundu margir Suðurnesjamenn
missa vinnu sína. Ef við hefðum
bannað Bandaríkjamönnum milli-
lendingar í Keflavík og flug í lofthelgi
Íslands hefði það tæplega greitt fyrir
samkomulagi um veru hersins.
Einfalt ráð
Vorið 2003 fóru fram kosningar til Al-
þingis. Eg minnist þess ekki að for-
menn stjórnarflokkanna þyrftu þá að
sæta verulegum ákúrum vegna af-
stöðunnar sem þeir tóku, eða flokkar
þeirra.
Nú, tveimur árum seinna, ásakar
stjórnarandstaðan þá fyrir brot á
stjórnarskrá, lögbrot við ákvarð-
anatöku og að hafa sniðgengið Al-
þingi. Ef foringjar stjórnarandstöð-
unnar tryðu því sem þeir eru að
segja, mundu þeir auðvitað bera fram
vantraust á þá ráðherra sem þeir
bera svo þungum sökum. Þá kæmi í
ljós hvort þeir hefðu starfað í umboði
meirihluta Alþingis eða ekki. Ég er
ekki í neinum vafa, frekar en stjórn-
arandstaðan, að þeir Halldór og Dav-
íð höfðu fullt umboð og vantraust yrði
fellt.
Rugluð stjórnarandstaða
Páll Pétursson fjallar
um utanríkismál ’Það er algjör fjarstæðaað svo reyndir stjórn-
málaforingjar sem Hall-
dór Ásgrímsson og Dav-
íð Oddsson létu sér
detta í hug að taka
ákvarðanir nema þeir
vissu að þeir hefðu um-
boð til þess frá meiri-
hluta Alþingis.‘
Páll Pétursson
Höfundur er fv. alþingismaður
og ráðherra.
ER brauð fitandi? Eftir að við gáf-
um út bókina um samlokugerð hafa
margir spurt okkur þessarar spurn-
ingar. Við urðum fyrst hissa á spurn-
ingunni en svöruðum því til að gróf
brauð í réttu magni væru ekki fitandi
ein og sér og að sleppa þeim úr mat-
aræðinu myndi ekki bæta það. Eins
og allir vita innihalda góð gróf brauð
mörg mikilvæg næringarefni, vítam-
ín, steinefni og margs kyns trefjar og
eru því flestum heilsusamleg.
Óhóf er óhollt
Ofneysla á öllum mat getur valdið
þyngdaraukningu á sama hátt og
neysla undir orkuþörf getur valdið
þyngdartapi. Brauð getur verið jafn
stór hluti af mataræðinu í báðum til-
vikum hjá bæði þeim sem þyngist og
léttist. Það er samsetning fæðunnar
sem skiptir höfuðmáli, þ.e. heild-
armagn af mat, og þá meðal annars
hvaða álegg er sett á brauðið.
Áhrif brauðs á blóðsykur
Ástæða spurningarinnar er eflaust
að hluta umræðan um blóðsykurstuð-
ulinn, sem einnig hefur verið nefndur
glýkemískur stuðull, en hann mælir
áhrif matvæla á sykur í blóði. Mat-
væli með lágan stuðul þykja í þessu
sambandi æskilegri en önnur en
mörg brauð mælast með há gildi.
Þessi stuðull er að mörgu leyti ágæt-
ur og hann á eftir að rannsaka betur.
Eins og hann er notaður í dag hefur
hann þó nokkra veikleika. Eitt sem
vert er að benda á er að einn og sér
tekur hann ekki tillit til þess magns
sem neytt er í hverri máltíð. Hann
tekur heldur ekki tillit til samsetn-
ingar máltíðar. Mörg brauð fá þannig
hátt gildi ein og sér, en brauð með
viðbiti af einhverri gerð lægri stuðul.
Þegar grænmeti hefur bæst á brauð-
ið svo sem tómatar, kál og paprika þá
lækkar stuðullinn jafnvel meira. Með
dálítilli einföldun er hægt að segja að
það góða við stuðulinn er að hann
styður greinilega að almennt er betra
að neyta grófra brauða og eru heil-
kornabrauð og brauð úr minna unn-
um afurðum þar fremst í flokki. Þetta
eru einmitt grófu næringarríku
brauðin sem mælt er með út frá nær-
ingarfræðilegum sjónarhóli.
Gróft er betra
Í nýlegum leiðara eins virtasta nær-
ingarfræðitímaritsins (Am J Clin
Nutr) kom fram að einungis með lít-
illi breytingu á neyslu í þá átt að
neyta grófari tegunda af brauðum í
stað þeirra sem fínni eru væri hægt
að bæta heilsu þjóða verulega. Með
neyslu grófari brauða gætum við því
tryggt, að færri fengju ákveðna sjúk-
dóma. Það eru þannig minni líkur á
að þjóðin, sem samanstendur m.a. af
okkur sjálfum og okkar nánustu, fái
þessa sjúkdóma ef við veljum gróf
brauð (bæði mjúk
brauð og hrökkbrauð) í
stað fínna. Að gefa öðr-
um að borða fylgir
næringarfræðileg
ábyrgð sem ekki er
hægt að skorast undan,
hvort sem við erum að
fæða börn okkar,
maka, gesti eða okkur
sjálf, að ekki sé nú tal-
að um ef við rekum
matsölustað eða mat-
vælaframleiðslu.
Gott skal það vera
Brauðgerðir í landinu, bæði stórar og
smáar, hafa haft heilmikla hug-
myndaauðgi við gerð á góðum gróf-
um brauðum. Enn má þó bæta um
betur og fjöldi möguleika í stöðunni;
gaman væri að sjá enn girnilegri
grófari brauð úr mismunandi gerðum
af korni, ekkert eða mismikið möl-
uðum, þar sem fræ, hnetur eða jafn-
vel grænmeti eða mismunandi olíur
eru notaðar til að gefa mismunandi
bragð, og í kjölfarið mismunandi
gerðir af næringarefnum og trefjum.
Jafnvel væri hægt að hugsa sér að
kanna sérstaklega glýkemíustuðul ís-
lenskra brauða og stefna flestum á
lág gildi. Við sem neytendur hljótum
að fagna slíkum nýjungum sem geta
haft áhrif á okkar eigin heilsu verði
þær hluti af fæði okkar. Hægt er að
skapa heilsusamlega máltíð með að-
stoð grófa brauðsins og grænmetis á
einfaldan hátt og í nútíma þjóðfélagi
hraða og spennu er brauðið og sam-
lokan fljótlegur og handhægur mat-
ur. Það sem öllu skiptir er að máltíðin
sé ljúffeng og haganlega samsett
með tilliti til magns og næring-
argildis. Þannig njótum við brauð-
anna best.
Er brauð fitandi?
Bryndís Eva Birgisdóttir og
Heiða Björg Hilmisdóttir skrifa
um hollustu brauðs
’Með neyslu grófaribrauða gætum við því
tryggt að færri fengju
ákveðna sjúkdóma.‘
Greinarhöfundar eru höfundar bók-
arinnar Samlokur – grípandi góðgæti
fyrir nautnafólk.
Heiða Björg
Hilmisdóttir
Bryndís Eva
Birgisdóttir