Morgunblaðið - 27.01.2005, Síða 30
30 FIMMTUDAGUR 27. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Davíð Guðmunds-son fæddist á Ísa-
firði 7. júní 1919.
Hann andaðist á LSH
í Fossvogi 19. janúar
síðastliðinn. Hann
var sonur hjónanna
Guðmundar Jónsson-
ar skipstjóra frá
Tungu, Ísafjarðar-
djúpi, f. 25. nóvember
1881, d. 5. ágúst 1953,
og Kristínar Hans-
dóttur húsfreyju úr
Reykjavík, f. 26. októ-
ber 1883, d. 19. maí
1968. Systkini Davíðs
voru Hans Vilberg, f. 23. mars
1911, d. 2. júlí 1987, Sigríður
Soffía, f. 8. október 1913, d. 12.
október 1965, Unnur, f. 30. janúar
1915, d. 24. júlí 1916, Jóhannes, f.
3. janúar 1917, d. 21. des. 1935, og
Unnur, f. 6. maí 1921, d. 26. júní
1943.
Davíð kvæntist 25. nóvember
1943 Ingibjörgu Friðfinnsdóttur,
f. í Reykjavík 8. júlí 1924. Foreldr-
ar hennar voru Friðfinnur Gísla-
son fiskmatsmaður í Reykjavík, f.
18. okt. 1893, d. 13. júní 1959, og
Stefanía Guðlaug Guðmundsdóttir
húsfreyja frá Hvassahrauni, f. 11
apr. 1900, d. 28. júlí 1983. Börn
Davíðs og Ingibjargar eru: 1) Stef-
anía Þórunn, f. 24. nóvember 1941,
gift Sverri Sigfússyni, f. 1. sept.
1939. Börn þeirra eru: a) Sigfús
Bergmann, f. 22. sept. 1959,
kvæntur Vilborgu Eddu Jóhanns-
dóttur, f. 15. jan. 1963, börn þeirra
eru Sverrir, f. 24. ág. 1990, og
Alexandra, f. 12. apr. 1996, og b)
Stefanía Ingibjörg, f. 2. mars 1973,
gift Cary Yacca-
bucci, f. 27. nóv.
1975. 2) Guðmundur,
f. 11. ágúst 1948,
kvæntur Sjöfn Egg-
ertsdóttur, f. 7. mars
1949. Börn þeirra
eru: a) Guðbjörg, f.
29. júlí 1967, gift
Hauki Guðjónssyni,
f. 20. okt. 1966, börn
þeirra eru Andri
Steinn, f. 4. des.
1990, og Torfi Jökull,
f. 5. feb. 1997, b)
Ingibjörg, f. 20. feb.
1971, var gift Magn-
úsi Eyjólfssyni, f. 16. júlí 1971,
dóttir þeirra er Kristín, f. 24. okt.
1994, c) Davíð, f. 21. júlí 1975, sam-
býliskona Margrét Sigurðardóttir,
f. 29. júlí 1981, börn þeirra eru
Guðmundur, f. 4. mars 1999, og
Viktoría Emma, f. 21. jan. 2001. 3)
Kristín, f. 10. maí 1954. Davíð ólst
upp á Ísafirði til fimm ára aldurs
en fluttist þá með fjölskyldunni til
Reykjavíkur. Hann lærði vélvirkj-
un hjá Vélsmiðjunni Héðni, varð
meistari í greininni 1958 og varð
það hans ævistarf. Hann var hjá
Héðni til 1960, þegar hann stofn-
aði Beltasmiðjuna og rak hana þar
til hann lét af störfum. Hann var
hagur í höndum, hvort sem var á
járn eða tré. Davíð var virkur fé-
lagi í Lionsklúbbnum Frey og
Oddfellowstúkunni Þorkeli Mána
auk þess að syngja tenór með
Karlakórnum Stefni og Vorboð-
um, kór eldriborgara í Mosfellsbæ.
Davíð verður jarðsunginn frá
Bústaðakirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.
Elsku afi.
Þá er komið að leiðarlokum hjá
þér, þú barðist hetjulega sem þín
var von og vísa. Ég uppgötvaði
snemma að þú varst mjög sérstakur
meðal afa, allir vinir mínir áttu afa
með staf og köflótta inniskó, þú
fékkst þér ekki svoleiðis fyrr en þú
varst kominn á níræðisaldurinn. Í
mínum huga varstu ofurhetja, sem
sveif upp stillansana á Hallgríms-
kirkjuturni til að setja ljósin í kross-
inn, aldrei þorði ég þangað upp,
veiddir hákarla sem ungur maður
eða þegar þú tókst upp á því á sjö-
tugsaldri að læra á seglbretti. Þegar
þú mættir á staðinn þá var fjör,
söngur og gleði, þú gafst þér alltaf
tíma fyrir okkur krakkana milli þess
sem þú reistir verksmiðjur, lagðir
hitaveitu, smíðaðir jarðýtuhús, já
smíðaðir og smíðaðir. Þegar maður
kom í heimsókn í Beltasmiðjuna,
fékk maður óáreittur að ferðast um
ævintýralandið enda hafðir þú ein-
stakt lag á að kenna án þess að nota
boð og bönn. Ég man ekki eftir að þú
hafir nokkurn tímann skammað mig
og þó var ég uppátektarsamur
krakki. Ég á mínar bestu minningar
með þér að Hafravatni, í sundi í Ak-
urholtinu og í svaðilförum um
óbyggðir þar sem þú þekktir hvern
krók og kima, enda fjallamaður mik-
ill.
Ég er lánsamur að hafa fengið að
dveljast hér á þessari jörð með þér
en það fær maður seint fullþakkað
og vona ég að við hin sem eftir lifum
höfum lært og tileinkað okkur ein-
hverjar af þínum lífshugsjónum.
Maður vissi alltaf þegar þú varst
að koma, afi minn, blístrið kom á
undan, við blístruðum líka oft saman
en núna blístra ég einn.
Þinn
Sigfús (Fúsi).
Elsku afi minn, núna ertu farinn
frá okkur öllum sem þykir svo ótrú-
lega vænt um þig. Mér sem fannst
þú eiga svo mikið skilið að fá að lifa
lengur, þú varst svo duglegur uppi á
spítala. Alltaf að æfa þig að labba og
svo duglegur að borða þótt þú værir
ekkert svangur eftir þessa stóru að-
gerð. Þú varst byrjaður að labba og
ég var farin að hlakka til að hitta þig
aftur heima hjá henni ömmu en þá
fékkstu flensu og hafðir bara ekki
næga krafta til að láta þér batna á
ný. Ég get ekki trúað að hægt sé að
taka svona yndislegan mann frá
okkur öllum ástvinum hans afa míns,
hann afi var alls staðar velkominn og
allir voru velkomnir til hans.
Ég trúi núna að afi sé kominn á
betri stað þar sem honum líður vel
og að hann vaki yfir okkur hvernig
sem stendur á. Ég bið elskulegan
Guð að vaka yfir henni ömmu okkar
og gæta hennar, henni líður illa eins
og öllum hinum sem elska afa, hún
amma er svo sterk og dugleg og
gætir þess að öllum í kringum hana
líði vel. Svona er þetta yndislega fólk
og þakka ég innilega fyrir að hafa
kynnst þeim.
Elsku afi minn, megir þú hvíla í
friði.
Þín
Anna María.
Kveðja frá Karlakórnum Stefni
Karlakórinn Stefnir er heldur
hnípinn þessa dagana. Um miðjan
desember sungum við yfir moldum
eins af fjórum heiðursfélögum kórs-
ins, Þórðar Guðmundssonar, og nú
er látinn annar heiðursfélagi, Davíð
Guðmundsson.
Davíð söng með Stefni í 25 ár
samfleytt, og var með betri mætingu
en flestir aðrir allan þann tíma.
Hann söng ætíð 1. tenór, enda með
bjarta og fallega tenórrödd sem hélt
sér ótrúlega vel fram eftir aldri.
Davíð lærði strax alla texta, og gat
sungið blaðlaust ef á þurfti að halda
fyrr en flestir félagar hans í kórnum.
Þegar hann hætti í kórnum af
heilsufarsástæðum árið 2000 hafði
hann á þessum langa ferli starfað í
fjölda nefnda, og meðal annars verið
formaður kórsins.
Davíð annaðist lengst af, ásamt
Ingu konu sinni, alla miðasölu kórs-
ins, bæði á tónleikum og skemmt-
unum. Þegar miðasölu á skemmtan-
ir lauk brugðu þau sér gjarna bak
við barborðið og afgreiddu þar, – allt
með sömu ljúfmennskunni. Það var
eins og þau hefðu gaman af því að
rétta félögunum þessar eftirsóttu
veigar, sem þau notuðu aldrei sjálf.
Reyndar var eins og þau hefðu
ánægju af öllu sem þau gerðu.
Stefnir fór í ferðalag fyrir átta ár-
um, í fylgd fararstjóra sem virtist
vera kominn af langhlaupurum í
báðar ættir og þeyttist með okkur á
milli hetjutorga Mið-Evrópu á ógn-
arhraða. Ýmsum yngri mönnum í
kórnum þótti nóg um, en Inga og
Davíð voru ætíð fremst, og blésu
ekki úr nös. Tveimur árum síðar
skipti kórinn um þak á íbúðarhúsi
eins kórfélagans, og einnig þar var
Davíð, uppi á þaki í 20 tíma þessa
helgi, og brosti eins og ævinlega.
Það er eldmóður manna eins og
Davíðs sem kemur hlutunum í fram-
kvæmd, þótt ekki fari alltaf hátt.
Það vita ekki allir Stefnismenn að
hann átti stóran hlut í því að kórinn
eignaðist söngpalla og síðar söng-
skerma. Einnig má nefna ómetan-
lega heimildasöfnun Davíðs fyrir
kórinn, en hann tók upp á segulbönd
og síðar myndbönd alla vortónleika
kórsins um margra ára skeið. Það er
gott að vita að þessi gögn eru til.
Við hefðum gjarna viljað kveðja
þig betur. Finna þetta þétta handtak
og heyra orðin sem jafnan fylgdu:
„komdu sigursæll“. En nú stöndum
við yfir þér látnum og syngjum lögin
sem voru þér svo kær. Betur getum
við ekki gert.
Í baksýn er fáni Stefnis, fáninn
sem þú gættir af trúmennsku árum
saman.
Vertu sæll, kæri vinur.
Hörður Björgvinsson, formaður.
Kveðja frá Lkl. Frey
Við klúbbfélagar í Lkl. Frey eig-
um enn á bak að sjá góðum og holl-
um félaga. Vélsmíðameistarinn Dav-
íð Guðmundsson var í klúbbnum frá
haustdögum 1974. Hann lagði hönd
og hug að starfi í klúbbnum með al-
úð og vandvirkni frá því að hann
gekk í hann. Á þeim þremur áratug-
um sem hann „lagði lið“ í samræmi
við kjörorð Lions lét hann sig aldrei
vanta á fund eða í starfið sem klúbb-
urinn sinnti svo framarlega sem
heilsa og aðstæður leyfðu. Hann
skilaði því ávallt fullu húsi í fé-
lagsstarfi Freys.
Enda var hann kosinn Melwin
Jones-félagi 1993. Á síðasta fundi
Freys 17. janúar síðastliðinn, tveim-
ur dögum fyrir andlát hans, fengum
við góða og holla kveðju til fundarins
frá honum. Þá var hann staddur á
sjúkrabeð í LSH. Kveðjan minnti
okkur á hlýlega handtakið sem hann
heilsaði okkur öllum með á hverjum
fundi. Félagsmálaþegn í klúbbnum
var hann ætíð öflugur og styrkur.
Oft, já, áratug samtals vann hann
í einhverri af nefndum Freys, t.d. fé-
laganefnd, ferðanefnd, landgræðslu-
nefnd, Skálatúnsnefnd og skemmti-
nefnd. Stundum var hann í tveimur
nefndum samtímis, mörgum sinnum
formaður í fararbroddi og ávallt
fylginn sér vel.
Að vonum kveðja Freysfélagar
með söknuði aldursforseta sinn og
ötula félagann Davíð. Með þakkar-
kveðju fyrir allt hans fórnfúsa starf
vottum við ástvinum hans samúð og
virðingu fyrir sönnum Lionsmanni.
Davíðs haga hönd og hjálpfúsa starf
gleymist ei fljótt en geymist í þakk-
látu minni.
Freysfélagar.
Við fráfall Davíðs Guðmundsson-
ar er mér efst í huga þakklæti fyrir
þau góðu kynni sem ég hef haft af
honum og hans fjölskyldu. Okkar
leiðir lágu saman í karlakórsstarfi
og svo þurfti ég, eins og svo margir,
oft að leita til hans í smiðjuna. Davíð
var tveggja tíma maður í sínu fagi,
jafnvígur á eldra handverk og allar
nýjungar. Hugmyndaríkur og út-
sjónarsamur í besta lagi og vildi allt-
af leysa hvers manns vanda. Ég tel
að margir muni skrifa um Davíð og
hef því þessar línur ekki fleiri, en
hugsa því meira um ljóðið „Höfðingi
smiðjunnar“ eftir nafna hans frá
Fagraskógi og þá sérstaklega hend-
inguna: „Hann lærði af styrkleika
stálsins að standa við öll sín heit.“
Bestu kveðjur til fjölskyldu Davíðs.
Erlingur Kristjánsson.
Hinn 19. janúar barst mér til
eyrna sú harmafrétt að vinur minn
Davíð Guðmundsson væri látinn eft-
ir erfið veikindi. Þá kom óneitanlega
upp í hugann atvik úr kynnum okkar
í fimmtíu ár.
Fyrst kynntist ég Davíð í Vél-
smiðjunni Héðni í ársbyrjun 1954
þar sem ég var við nám í vélvirkjun
og hann verkstjóri. Á þeim tíma var
líf og fjör í Héðni, fjöldi manna að
störfum í smiðjunni og eins út um
allt land í síldarbræðslum og frysti-
húsum. Davíð var verkstjóri í svo-
kallaðri bæjarvinnu og var ég svo
heppinn að vinna undir hans stjórn
um nokkurt skeið. Verkefnin voru
fjölþætt og oft á tíðum flókin. Davíð
var oft fljótur að átta sig á bestu
leiðinni til að leysa málin og með
sínu létta skapi hafði hann góð sam-
skipti við alla. Á þessum stóra vinnu-
stað var stofnaður karlakór og söng
Davíð að sjálfsögðu í 1. tenór í kórn-
um. Kór þessi varð ekki langlífur en
ánægjuleg reynsla fyrir mig að fá að
taka þátt í karlakórssöng í fyrsta
sinn á ævinni. Það skildi leiðir hjá
okkur, við fórum á aðra vinnustaði.
Davíð rak Beltasmiðjuna lengi og
alltaf var það járnsmíðin sem var
starfsvettvangurinn.
Svo var það árið 1984 að vinur
minn Kristján Þorgeirsson varð
fimmtugur og hélt skemmtilega
veislu og voru söngmenn úr Karla-
kórnum Stefni þar fjölmennir. Ég
hafði gaman af söng og það varð úr
að ég gekk til liðs við kór þennan og
þar hitti ég Davíð aftur og sungum
við saman í 1. tenór í mörg ár. Of
langt mál væri að telja upp allar
ferðirnar sem við fórum saman með
kórnum, bæði innan- og utanlands,
og aðrar uppákomur en skemmtilegt
var það.
Davíð og Inga voru vinnusöm og
harðdugleg bæði og ég minnist þess
þegar raddæfingar voru heima hjá
þeim að þá voru kræsingarnar slíkar
á borðum að það var eins og að lenda
í stórafmæli.
Missir karlakórsins er mikill, tveir
af máttarstólpum hans, Davíð og
Þórður Guðmundsson, hafa fallið frá
með stuttu millibili, þeir voru báðir
ljúflingar og gáfu mikið af sér.
Kannski kemst ég aftur með þeim í
kór á hærri stöðum síðar.
Ég votta Ingu, börnunum og öðr-
um vandamönnum samúð mína og
vona að minningin um góðan dreng
verði þeim huggun harmi gegn.
Theódór Óskarsson.
Elsku Davíð.
Ég sakna þín mikið. Þú ert besti
vinur minn. Það var svo gaman að
vera hjá ykkur Ingu upp við Hafra-
vatn. Þú fórst með mig út á spíttbát-
inn flotta og margar ferðir á ára-
bátnum. Þú og Inga heimsóttuð
okkur líka í Danmörku og áttum við
góða daga saman. Þú varst alltaf svo
glaður og góður við mig. Nú veit ég
að þú og afi eruð saman uppi á himn-
um. Ég veit að þú og afi eruð bestu
vinir.
Elsku Inga, ég hlakka til að sjá
þig í sumar.
Kveðja
Karl Emil Deis (Kalli).
Elsku Davíð, hversu ótímabært
hefur söngur þinn þagnað. Þú sem
áttir að lifa í 100 ár eins og pabbi, og
nú eruð þið báðir farnir okkur frá,
alltof fljótt.
Þú og Inga hafið verið órjúfanleg-
ur hlekkur í lífi okkar. Þið pabbi
kynntust þegar pabbi kom sem ung-
lingur í læri til þín í Héðni. Þú fékkst
að vita að þú værir að fá skapstóran
og óstýrlátan ungling í læri! Er okk-
ur systrum minnisstæð sagan þegar
þið voruð sendir ungir í Sandgerði
þar sem verið var að setja upp nýja
verksmiðju. Voru þar einnig múr-
arar við vinnu. Höfðu þeir einn dag-
inn verið að rappa, og rappað góðum
múrklessum á spánnýjan rúskinns-
jakka pabba. Vildu múrararnir ekki
iðrast gjörða sinna og brugðuð þið á
það ráð að rafsjóða allar múrskeiðar
fastar við járnrörin! Þannig hófst
yndisleg vinátta ykkar. Vinátta sem
aldrei bar skugga á í tæp 60 ár.
Hafravatn var sælureiturinn ykk-
ar Ingu og þar eyddum við saman
mörgum stundum. Er okkur minn-
isstætt hvíta litla dúkkuhúsið, sem
var lítil skipsbrú, með sætum kýr-
augum og flottum stólum úr hval-
beinshryggjarliðum. Spíttbáturinn
þjótandi á vatninu og allir á sjó-
skíðum. Þvílíkt ævintýri að alast upp
við. Enda fór það svo að pabbi og
mamma festu kaup á sumarbústað
rétt hjá. Kenndir þú þá Sollu systur
að syngja hástöfum þegar hún gekk
með ströndinni heim í okkar bústað
þegar rökkva tók, svo hún mundi
ekki heyra í draugunum á leiðinni!
Á hverju sumri fórum við saman í
sumarfrí um landið á Land Rover-
unum og söngurinn þinn hljómaði
um öll fjöll. Skiptumst við systur á
að fá að vera í langa Rovernum þar
sem sungið var hástöfum „Rúgbrauð
með rjóma á“ sem aldrei tók enda!
Allar ógleymanlegu ferðirnar í Höll-
ina okkar inni í Kiðlingum sem þið
pabbi og fleiri félagar byggðu. Ferð-
in í Grundarfjörðinn gleymist seint
þegar minkurinn gerði Ingu og
mömmu bilt við, „við prívat aðstæð-
ur“, og þær hlupu á ljóshraða niður
kjarrivaxna hlíðina! Eða ferðin þeg-
ar við óðum Morsána inn í Bæjar-
staðaskóg, holdvot upp undir hend-
ur, en komum þó öll með þurra
skóna til baka! Ferðin í Flatey
gleymist þó aldrei þar sem krían
ætlaði að ganga frá mömmu,
mamma æpandi og sveiflandi vesk-
inu í allar áttir, og allt var fest á
filmu! Já, þær eru ófáar stundirnar
sem við höfum hlegið saman á
myndakvöldum!
Þú varst einstaklega handlaginn,
hvort sem var á járn eða tré, og bera
heimili okkar systra merki um fag-
urt handverk þitt.
Þegar börnin okkar uxu úr grasi
nutu þau nærveru ykkar Ingu og hin
síðari ár hefur þú gengið börnunum
okkar í afastað, þeim til ómældrar
gleði.
Elsku hjartans Davíð, við þökkum
þér alla hlýjuna, vinatryggðina og
yndislegan sönginn þinn. Elsku
Inga, Dedda, Mummi, Stína og fjöl-
skylda, megi góður Guð styrkja ykk-
ur á þessari erfiðu stundu.
Far vel, kæri vinur.
Dóra og Sólveig Karlsdætur.
Góður vinur er horfinn á braut.
Efst í huga er þakklæti til þessa
lífsglaða félaga okkar fyrir allar
ánægjustundirnar sem við áttum
með honum og Ingu. Það sem leiddi
okkur saman fyrir 30 árum var
sönglífið í Mosfellssveit, þá vorum
við öll nýflutt í sveitina. Karlakórinn
Stefnir endurvakinn, og ekki var það
lítið sem við tókum þátt í skemmt-
anahaldi sem var í kringum tónleika,
ferðalög og uppsetningar á ýmsum
leikþáttum, alltaf var opið í Akur-
holtinu til æfinga, oft fram á rauða
nótt. Gestrisni ykkar Ingu var ein-
stök.
Það er svo margt sem okkur lang-
ar til að nefna en eftir svona mörg
og viðburðarík ár vitum við ekki
hvar á að byrja eða enda. Efst í huga
er þakklæti fyrir að hafa fengið að
eiga þig að vini. Við biðjum góðan
guð að styrkja Ingu okkar í gegnum
þennan missi.
Við kveðjum þig með virðingu og
þökk og vottum fjölskyldu þinni
dýpstu samúð.
Þínir vinir,
Bjarney og Páll,
Valgerður og Grímur.
Elsku Davíð, mig langar til að
kveðja þig og þakka þér alla þá gest-
risni og hlýju sem þið Inga hafið
sýnt mér og Önnu Maríu undanfarin
ár, með texta eftir Valgeir Skag-
fjörð:
Þú tími eins og lækur áfram líður
um lífsins kröppu bugður alltof fljótt.
Markar okkur mjög svo undan svíður,
minnir á þig, gengur títt og ótt.
Ekkert kvikt sem andar fær þig flúið,
það fölnar allt og máist burt um síð.
Galdur enginn getur á þig snúið
þú glottir bara og hæðist alla tíð.
Samt linar þú og læknar hjartasárin
og leggur við þau smyrsl þín sérhvern
dag.
Svo tínast eitt og eitt í burtu árin
eins og dægrin björt um sólarlag.
Megi algóður Guð vernda og vaka
yfir elsku Ingu, Deddu, Mumma,
Stínu, fjölskyldum og vinum.
Hertha.
DAVÍÐ
GUÐMUNDSSON