Morgunblaðið - 26.02.2005, Qupperneq 11
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. FEBRÚAR 2005 11
FRÉTTIR
ÞAÐ var glatt á hjalla þegar hópur
fólks frá Fjölmennt, fullorð-
insfræðslu fatlaðra, mætti til
Hróksmanna og tók skák og gæddi
sér á pönnukökum. „Pönnukökur
eru einskonar vörumerki Hróks-
ins,“ sagði Hrafn Jökulsson, for-
maður Hróksins. „Við leggjum mik-
ið uppúr því að pönnukökuilmurinn
umlyki gesti okkar.“ Margt annað
hafa Hróksmenn á sinni könnu því
um helgina efna þeir ásamt Íslands-
banka til Tívolísyrpu Íslandsbanka
2005 sem haldin verður í höf-
uðstöðvum bankans og hefst á
sunnudaginn klukkan eitt. Bryndís Ósk Gísladóttir með bókina Skák og mát sem allir fengu.
Pönnsur
og skák
Morgunblaðið/Ómar
Í ALMENNUM umræðum á
flokksþingi Framsóknarflokksins
fjölluðu margir ræðumenn um þær
deilur sem hafa verið í kringum
flokkinn að undanförnu. Vildu
menn leggja áherslu á nauðsyn
þess að fólk ynni saman í sátt og
samlyndi. Ekki ætti að ýta undir
sundrungu meðal samherja.
Hjálmar Árnason þingflokksfor-
maður reið á vaðið og líkti átökum
framsóknarmanna við baráttu
múkka um bitana sem féllu frá
fiskiskipum þegar gert væri að afl-
anum um borð. Sagði hann kjörna
fulltrúa flokksins þarna ekki und-
anskilda. Fjölmiðlar birtu fréttir
af trúnaðarmönnum í stríði hverj-
um við aðra. „Flokkur sem hagar
sér svoleiðis þarf ekki á óvinum að
halda,“ sagði hann og spurði af
hverju þetta væri svona: „Getur
verið að af því við erum lítill flokk-
ur með mikil völd að þá verði
margir svo óskaplega hungraðir?“
Deilumál í fjölmiðla
Hjálmar taldi upp þau mál sem
Framsóknarflokkurinn hefði barist
fyrir og spurði hvort það væru þau
mál sem framsóknarmenn töluðu
um í fjölmiðlum. Svaraði hann því
neitandi og sagði persónuleg deilu-
mál rata frekar í fjölmiðla. Þetta
ætti líka við um þingflokkinn og
síðustu tvö ár hefðu verið sérstak-
lega erfið. Engum liði vel í ófriði
og markvisst hefði verið unnið að
því að bæta vinnulagið. Kristinn
H. Gunnarsson hefði t.d. verið tek-
inn inn í nefndir. Þingflokkurinn
væri orðinn lið aftur og sóknar-
hugurinn gilti. „Þingflokkurinn er
staðráðinn í að halda því að vinna
sem samherjar að málefnum en
láta þessi persónulegu atriði for-
tíðar liggja á milli hluta þó að þau
auðvitað gleymist ekki.“
Hvatti til samstöðu
Halldór Ásgrímsson, formaður
Framsóknarflokksins, hafði áður í
yfirlitsræðu sinni rætt um nauðsyn
þess að efla samstöðu innan
flokksins. Stjórnarandstaðan væri
sífellt að reyna að veikja hann.
Vissulega hefðu framsóknarmenn
sjálfir skapað þeim tækifæri til
þess með lítt hugsuðum ummælum
sem síðan væru hártoguð og slitin
úr samhengi.
„Ég tel að deilur innan flokksins
séu okkur ekki til framdráttar.
Mér er það ljóst að það er ekki
létt að ganga fram í umdeildum
málum iðulega gegn straumnum.
Það getur þó verið hlutverk okkar
og skylda að gera einmitt það,“
sagði Halldór og hvatti þingfull-
trúa til að sýna samstöðu þó að
skoðanaskipti væru eðlileg. „En
þegar niðurstaðan er fengin verða
allir að ganga fram sem einn mað-
ur.“
Hafliði Jósteinsson sagði að ekki
ætti að persónugera stjórnmála-
baráttuna en framsóknarmenn
ættu að svara fyrir sig. „Við skul-
um bara gera okkur grein fyrir því
að það eina sem hjálpar okkur í
framtíðinni og íslensku samfélagi
er að við förum einhuga út úr
þessum sal með það að markmiði
að við höldum áfram að byggja
upp þetta land eins og við höfum
gert til þessa.“
Sigrún Jónsdóttir sagði að það
þyrfti líka að ræða leiðindamálin.
„Mér finnst það leiðindamál þegar
kjörnir fulltrúar okkar verða fyrir
aðkasti og árásum frá eigin flokks-
mönnum,“ sagði hún og fylgja
þyrfti leikreglum lýðræðisins.
Kjörnir fulltrúar flokksins ættu
ekki að niðurlægja aðra kjörna
fulltrúa sem kjósendur flokksins
hefðu valið. „Jafnrétti, samstaða
og umburðarlyndi hefur þurft að
víkja fyrir sundrunginni, klíku-
myndunum og valdabrölti. Þessu
verðum við að breyta.“ Hvatti hún
Halldór Ásgrímsson til að láta
þingflokkinn gera út um sín deilu-
mál.
Framsóknarfélagi rænt
Einar Sveinbjörnsson, formaður
sveitastjórnarráðs flokksins, sagði
sem dæmi að borgarfulltrúi Fram-
sóknarflokksins hefði verið rægður
opinberlega af trúnaðarmanni
flokksins. Framsóknarfélagi í
Kópavogi hefði verið rænt, nýtt fé-
lag stofnað fyrir luktum dyrum
auk annars félags. „Til að bíta höf-
uðið af skömminni tók landsstjórn
flokksins undir í þessum skrípaleik
með því að samþykkja nýju félögin
inn í flokkinn í gær.“
Samstaða hefði verið í eina tíð
aðalsmerki Framsóknarflokksins
en nú læki allt í fjölmiðla jafnóðum
og fundi lyki. „Þessir starfshættir
eru lýsandi fyrir það versta í inn-
rætingu mannskepnunnar – taki
það til sín sem eiga,“ sagði Einar.
Snarpar umræður urðu um innan-
flokksátök á flokksþinginu í gær
Erfið tvö ár hjá
þingflokknum
Morgunblaðið/Golli
Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, heilsar Steingrími
Hermannssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, við upphaf flokksþings.
„MARGAR þeirra kvenna sem nú
skipa áhrifastöður í viðskiptalífi og
opinberu stjórnkerfi hafa látið þau
orð falla að kyn skipti ekki máli og
[…] að þær séu ekki þar sem þær
eru vegna þess að þær séu konur
heldur á eigin verðleikum,“ sagði
Þorgerður Einarsdóttir í erindi sínu
á morgunverðarfundi Lands-
sambands framsóknarkvenna í gær.
Þorgerður velti því fyrir sér í er-
indinu hvað þarna héngi á spýtunni.
Hvers vegna því væri þráfaldlega
lýst yfir að kyn skipti ekki máli.
Hún benti m.a. á að ekki þyrfti
annað en að líta í nýlegt rit Hagstof-
unnar um konur og karla á árinu
2004 til að finna rök fyrir því að kyn
skipti máli. Í ritinu vitnaði hver kafl-
inn á fætur öðrum um valdamisræmi
kynjanna í samfélaginu. Hún benti
einnig á að atvinnuþátttaka ís-
lenskra kvenna væri með því mesta
sem gerðist í heiminum og að
menntunarbili kynjanna hefði verið
lokað. „Kannanir sýna hins vegar að
konur búa við víðtækar hindranir á
vinnumarkaði. Þær búa við glerþak
á vinnumarkaði sem lýsir sér m.a. í
því að menntun skilar körlum lengra
en konum.“ Hún sagði einnig að
launamunur kynjanna væri viðvar-
andi; rannsóknir sýndu að ekki
drægi lengur saman með kynjunum.
Þorgerður sagði að menn greindi
á um ástæður þessa og fjallaði um
nokkrar þeirra.
Hugtakið „slæðukona“
Þorgerður sagði að menning-
arbundnar hugmyndir um kynin,
um karlmennsku og kvenleika,
gegnsýrðu öll svið mannlegra sam-
skipta; þær bæru uppi hina ýmsu
þætti kynjakerfisins. „Stjórnmálin
og hið opinbera valdakerfi eru að
sjálfsögðu ekki undanþegin menn-
ingarbundnum kynjamyndum og
orðræðum og þau eiga alveg tví-
mælalaust sinn þátt í hægagang-
inum og bakslaginu,“ sagði hún.
„Við síðustu alþingiskosningar varð
til hugtakið „slæðukona“ hjá ungu
frjálshyggjudrengjunum í Sjálfstæð-
isflokknum. Hugtakið er kannski til-
viljun en hliðstæðan við slæðuklædd-
ar múslímskar konur lét engan
ósnortinn og þetta reyndist líka
mjög áhrifarík leið til þöggunar.
Enda tókst þeim ætlunarverkið,“
sagði hún, þ.e. að fjölga körlum í
efstu sætum á kostnað kvenna.
Hún sagði að nú hefðu framsókn-
armenn sömuleiðis fengið nýtt hug-
tak í sama anda „og það er „hatta-
kona“,“ sagði hún. „Og hvað er
hattakona? Það er ólýðræðisleg
kona með hatt sem drekkur kaffi
með hattaklíkunni Freyju í Kópa-
vogi, skv. varaþingmanni Fram-
sóknarflokksins Guðjóni Ólafi Jóns-
syni. Hún hefur af þessu að dæma
ekki mikla pólitíska verðleika.“
Þorgerður hélt áfram að tala um
verðleika. „Hvað sem fólki kann að
finnast um stefnu Framsókn-
arflokksins þá hefur hann haft nú-
tímalega ásjónu í jafnréttismálum. Í
upphafi síðasta kjörtímabils bjarg-
aði Framsóknarflokkurinn rík-
isstjórninni algjörlega frá kynja-
pólitísku gjaldþroti þegar
Sjálfstæðisflokkurinn skipaði enga
konu í ráðherraembætti. En svo var
eins og eitthvað gerðist í Framsókn-
arflokknum þegar líða tók á kjör-
tímabilið.
Það eru líka margir sem furða sig
á núverandi ráðherraskipan Fram-
sóknarflokksins. Það er athyglisvert
hve illa ráðherrarnir dreifast á kjör-
dæmin. Það er greinilegt að það er
ekki nóg að leiða lista – ekki einu
sinni í stóru kjördæmi – og hafa
mörg atkvæði á bak við sig til að
njóta trausts í ráðherraembætti. Og
það vekur auðvitað líka athygli að
körlum í öðru sæti er treyst betur en
konum sem eru oddvitar í kjör-
dæmum.
Hvað veldur þessu? Er það ekki
besta fólkið sem leiðir listana? Nú
veit ég auðvitað að það er til eitt-
hvað sem heitir „pólitískt mat“ eins
og það var kallað í kringum ráð-
herraskiptin 15. september. En það
var aldrei útskýrt í hverju það fólst.
Og meðan það er ekki útskýrt þá
vakna grunsemdir.“
Þorgerður fjallaði því næst um
átök framsóknarkvenna í Kópavogi,
en tók fram að hún ætlaði ekki að
halda því fram að hún skildi þau
átök. „Ég held að framsóknarkonur,
einkum og sér í lagi Brynjukonur,
verði að útskýra málin svolítið betur
fyrir almenningi. Ef konur í Brynju
ætla sér eitthvað í pólitík, af hverju
buðu þær sig ekki fram í stjórn
Framsóknarfélags Kópavogs hinn 3.
febrúar þegar 250 manna fundur
kaus fimm manna hreinræktaða
karlastjórn? Felst pólitískur metn-
aður kvennanna í Brynju bara í því
að skáka öðrum konum í kven-
félögum? Og mynda svo nýtt félag ef
þær komast ekki í stjórn? Hefði ekki
verið táknræn og metnaðarfull jafn-
réttisaðgerð að hnekkja karlastjórn-
inni í Kópavogsfélaginu? Og þessari
spurningu má auðvitað á sama hátt
varpa til Freyjukvenna.“
Snýst um völd
og valdatengsl
Þorgerður sagði að síðustu að
málið snerist um völd og valdatengsl
ráðandi hópa og jaðarhópa. „Það
snýst um yfirráð, forréttindi og við-
mið.“
Þorgerður sagði að forsenda þess
að hægt væri að ná frekari árangri í
jafnréttisbaráttunni væri ekki bara
að konur litu í eigin barm og skoð-
uðu hvað þær skorti eða gerðu vit-
laust, heldur ekki síður að karlar
skoðuðu sína stöðu og litu á konur
sem jafningja. Einn liður í því væri
að skoða, með gagnrýnum augum,
hugtakið verðleika og hvernig það
væri skilgreint. Hún sagði að ef kyn
skipti ekki máli og ef hugmyndir um
verðleika væru kynhlutlausar þyrftu
konur ekki að afsaka sig með því að
þær hefðu náð langt „ekki sem kon-
ur heldur á eigin verðleikum“.
Morgunverðarfundur Landssambands framsóknarkvenna
Hattakonan nýtt hugtak
í Framsóknarflokknum?
Um sextíu konur og tveir karlar sóttu morgunverðarfund Landssam-
bands framsóknarkvenna á Hótel Nordica í gær. Arna Schram hlýddi á
erindi dr. Þorgerðar Einarsdóttur, dósents í kynjafræði við HÍ, um kyn,
verðleika og samfélagslega þátttöku karla og kvenna.
Morgunblaðið/Golli
Framsóknarkonur fjölmenntu á morgunverðarfund fyrir setningu flokks-
þingsins í gær. Siv Friðleifsdóttir þingmaður er fremst á myndinni.
arna@mbl.is