Morgunblaðið - 26.02.2005, Síða 41
Á vordögum 1940 kom lítil þriggja
ára stúlka til fósturs til móðursystur
sinnar Áslaugar Stephensen og
manns hennar Jóns Pálssonar dýra-
læknis á Selfossi í Hlöðum. Þennan
sama dag kom næst elsti sonurinn í
því húsi, 18 ára, heim í Hlaðir með
Esjunni frá Petsamo. Hann tók litlu
stúlkunni sem himnasendri systur
sinni og bar hana á höndum sér,
hann hélt því áfram allt sitt líf.
Þessi ljóshærði snaggaralegi pilt-
ur var Ólafur Jónsson, sem nú hefur
lokið lífsgöngu sinni, líklega saddur
lífdaga skömmu fyrir 83 ára afmæli
sitt 29. marz, sem var einmitt trúlof-
unardagur litlu stúlkunnar árið 1961,
og þess sem hér heldur á penna.
Mínar fyrstu minningar um Ólaf
eru fyrir þá dagsetningu. Hann bjó á
Selfossi eins og aðrir úr stórfjöl-
skyldu Jóns dýra eins og þjóðin
þekkti hann. En þeir voru fjórir
bræðurnir, Garðar skógarvörður,
Ólafur iðjuhöldur, Páll tannlæknir
og Helgi bankastjóri. Þetta var mjög
lífleg fjölskylda þar sem hvergi var
talað á lágu nótunum. Allir hnakkrif-
ust í pólitíkinni, nema hvað, þeir
voru allir á sama máli. Og raunar var
Hlaðaíhaldið landsfrægt fyrir atorku
sína við að breiða út guðspjallið og
boða villutrúarmönnum sannleik-
ann. Heimilið stóð um þjóðbraut
þvera, bændur knúðu dyra seint og
snemma að sækja meðul og mixtúrur
handa beljunum sem Áslaug hús-
freyja afgreiddi oftar en ekki. Jón
var á sífelldum ferðalögum um sveit-
irnar að skera upp eða baksa við bú-
smalann eða bændurna, sem voru
ekki aldeilis á því sumir hverjir að
láta baða hjá sér. Þeir sem nutu
þeirra forréttinda að fá að vera bíl-
stjórar hjá Jóni Pálssyni gleyma því
aldrei. Hann hræddi krakkana, kleip
kellingarnar og skammaði kallana.
Og allir elskuðu dýralækninn en
gleymdu samt margir að borga hon-
um eða þeir bara gátu það ekki.
Margir þeirra voru sárafátækir og
áttu ekki aura. Svo þeir komu seinna
með ýmislegt matarkyns að færa
húsfreyjunni í Hlöðum.
Í þessu umhverfi ólst Ólafur upp
og varð snemma lagtækur aðstoðar-
dýralæknir, hann skar, gelti og
sprautaði ef sá gamli var upptekinn.
Hann hafði verið í Danmörku að
læra til mjólkurfræði þegar stríðið
braust út og Danmörk var hernumin.
Þá dreif Óli sig heim með Esjunni frá
Petsamo. Hann starfaði í Mjólkur-
búinu í einhver ár en fór svo að
versla með Þorvarði Sölvasyni á Sel-
fossi. En Vassi kom að austan þar
sem þau voru áður Jón og Áslaug og
fæddu upp syni sína. Hann var svo
lengst af til heimilis hjá þeim í Hlöð-
um á Selfossi meðan verzlun þeirra
stóð. Óli byggði verzlunarhús mikil,
sem enn standa við Austurveginn og
var verzlunin niðri en Óli bjó á loft-
inu með Hugborgu konu sinni og 3
sonum.
Ólafi fylgdi ávallt mikill léttleiki.
Hann var ákaflega frændrækinn og
hans frændur voru bestir af öllum og
gætti hann heiðurs þeirra í hvívetna.
Hann var trölltryggur vinum sínum
og frændfólki. Hann var óheyrilega
duglegur í allri sinni starfsemi, hvort
það var verzlunin, lakkrísgerðin
Surtsey sem hann stofnaði og rak
um árabil og svo Steypustöð Suður-
lands sem hann rak í nær 30 ár. Því-
líkur eldlegur áhugi á rekstri alls
þess sem honum var trúað fyrir
gleymist samstarfsmönnum seint.
Eins og áður sagði þá bar Ólafur
hagsmuni Sjálfstæðisflokksins mjög
fyrir brjósti. Sá flokkur hafði ávallt
rétt fyrir sér og foringjar hans voru
vinir hans og vopnabræður. Allir
aðrir skildu ekkert í pólitík sem hann
þurfti augljóslega að skýra fyrir
þeim. Svona menn, hreinir og beinir,
eru fágætir. Þeir bregðast aldrei vin-
um sínum hvað sem á dynur. Traust-
ari vin hef ég aldrei átt. Mig tók það
þungt að hann skyldi fá þann sjúk-
dóm sem felldi föður minn og frænda
Ólafs að velli 1981. Það er fátt erf-
iðara en horfa upp á vini sína og ætt-
menni í hrömmum þessa hræðilega
sjúkdóms.
Pólitíkin var svo sem ekki það eina
sem Óli lét sig varða. Hann var eld-
legur áhugamaður um skógrækt og
sér til handaverka hans víða um land
en þó mest í Árnessýslu.
Engan mann hef ég hitt hans jafn-
ingja að dugnaði og brennandi áhuga
á að láta gott af sér leiða. Hann var
ekkert að spekúlera um daglaun að
kveldi. Hann var að því leyti líkur Al-
exander mikla, sem reyndi að skýra
út fyrir hermönnum sínum, að her-
förin sjálf væri dýrðleg í sínum eigin
ljóma, en ekki aðeins tilgangur henn-
ar. Að framkvæma hlutina og leita
sífellt hærra og meira er fyrir öllu.
Á yngri árum fórum við Ólafur
mikið í veiðiskap, bæði með byssur
og stengur. Hann hafði sama brenn-
andi áhuga á því sem öðru sem hann
tók sér fyrir hendur. Það eru óborg-
anlegar minningar frá þessum ferð-
um. Nú lauga þessar minningar um
svaðilfarir á hálendi Íslands í gulli
gærdagsins, sem aldrei kemur aftur.
Ólafur reisti sér veglegt sveitaset-
ur á Lækjartúni í Ölfusi, þar sem
heimili hans og Hugborgar stóð um
30 ára skeið. Gróðrarparadís sem
blasir við þeim sem vilja sjá.
Að leiðarlokum getum við öll að-
eins sagt: Hafðu þökk fyrir allt þitt
líf, Ólafur Jónsson, betri manni höf-
um við ekki kynnst.
Halldór Jónsson verkfr.
Það er ávallt erfitt að sjá á eftir
ástvinnum sínum í svefninn langa.
Þetta skiptið er það sýnu erfiðara
þar sem nú er horfinn móðurbróðir
minn, „Óli-pabbi“ eins og ég kallaði
hann.
Ég naut þeirra forréttinda frá
unga aldri, að dvelja um lengri eða
skemmri tíma á hefðarheimili þeirra
Ólafs og Hugborgar. Heimilið ráku
þau af miklum myndar- og rausnar-
skap. Þar var haldið í gömlu góðu
gildin. Á strákapörum tóku þau með
strangri mildi, þannig að maður
lærði af reynslunni. Hjá þeim var
ávallt gott að dvelja og njóta um-
hyggju þeirra og alúðar. Ólafur var
útsjónarsamur og hélst vel á því sem
hann aflaði og naut þar einnig hag-
sýni Hugborgar. Hann var glaðlynd-
ur maður en fastur fyrir og ákveð-
inn. Þar var hann líkur feðrum
sínum og bræðrum. Sérstaklega átti
þetta við um sterkar skoðanir hans á
stjórnmálum og lét Ólafur þær í ljós
umbúðalaust. En íhaldsmaður var
hann af gamla skólanum. Illa þoldi
hann væru menn beittir órétti og var
hann þá ómyrkur í máli. Það er
helsta ástæða mikils ímugusts hans á
Hriflu-Jónasi og öðrum slíkum
ójafnaðarmönnum, eða Hildiríðar-
sonum samtímans.
Það er skarð fyrir skildi hjá fjöl-
skyldunni að Óla-pabba gengnum.
Hans er sárt saknað. Von okkar
hinna er að treysta á fyrirheit Frels-
arans þess efnis, að við munum hitta
fyrir Ólaf á ný, í upprisu dauðra á
efsta degi.
Ég bið nánustu fjölskyldu Ólafs
Guðs blessunar á stund minninga og
saknaðar.
Þorsteinn Halldórsson.
Óli á Selfossi var einn af okkar
uppáhaldsfrændum og sá allra
skemmtilegasti. Hann var alltaf svo
hress og kátur og í góðu skapi. Það
var alveg einstaklega gaman að
spjalla og diskútera við Óla frænda,
hvort sem það var um pólitík eða
bara um daginn og veginn. Mörg
samtölin eru ógleymanleg og
skemmtilegu tilsvörin hans Óla
verða lengi í minnum höfð. Það er
mikill missir af Óla frænda og verður
hans sárt saknað.
Við sendum ættingjum hans okkar
innilegustu samúðarkveðjur og al-
veg sérstaklega fylgja góðar kveðjur
frá Gyðu systur og fjölskyldu í Til-
burg, Hollandi.
Eiríkur Stephensen og
Borghildur Stephensen.
Við andlátsfregn Óla í Hlöðum
flugu ótal minningar um huga minn
um liðna tíð aftur til bernsku minnar
er ég var polli sem bjó í jaðri Hlaða-
hverfisins á Selfossi. Foreldrar Óla,
Jón Pálsson dýralæknir og Áslaug
kona hans, höfðu byggt upp hálf-
gerðan herragarð í miðju þorpinu;
íbúðarhús, fjárhús, hesthús, hlöðu og
stórt gerði fyrir hrossin. Synir
þeirra höfðu síðan byggt þar allt í
kring í jaðri Hlaða. Á neðri hæðinni í
húsi Óla og fjölskyldu hans var versl-
un sem hann rak í félagi við Vassa.
Ég er svo lánsamur að einn af mín-
um bestu vinum er Jón, sonur Óla,
og fylgdumst við að heim úr skól-
anum. Þá var komið við í búðinni og
oft var stungið upp í okkur vínberi,
brjóstsykri eða Blöndals karmellu.
Þetta voru miklar hátíðisstundir í þá
daga enda lítið til. Ég man enn hvað
mér fannst verslunin flott og allt sem
hugurinn girntist fékkst þar. Hlaðir
voru eitt aðalleiksvæði okkar strák-
anna og lítið verið að amast við leik
okkar þar. Þar var mikið umleikis við
að temja hross enda átti Jón Pálsson
úrval góðra hrossa og var þekktur
ræktunarmaður. Það var falleg sjón
að sjá Jón og hans glæsilegu afkom-
endur á þessum fallegu hestum. Á
vorin gekk mikið á við geldingar á
folum og aðstoðaði Óli föður sinn í
því. Eins var mikil heimaslátrun
þarna á haustin og komu karlar með
úr kofum sínum lömb til slátrunar og
var Óli aðalmaðurinn við að hjálpa
þeim. Það var lítið um boð og bönn í
þá daga og engum varð meint af.
Það voru oft mikil ærsl í okkur
strákunum og ég man eftir einu at-
viki frá þessum tíma er við vopnuð-
umst dönskum blöðum, Hjemmet og
Famile Journalen, til að brenna karl
nokkurn inni að fornum sið en hann
hafði náð okkur við að hnupla rófum
og flengt okkur. Ekki heppnaðist
þessi brenna heldur brunnu nokkrar
spýtur úr girðingunni. Foreldrar
okkar héldu fund og Óli tók þetta
mál að sér. Hann fékk Jón eftirlits-
mann sem var í miklum einkennis-
búningi til að fara með okkur til Páls
Hallgrímssonar sýslumanns og voru
réttarhöld haldin og sekt ákveðin tú-
kall á hvern, en þá kostaði eina
krónu í bíó. Þetta var mikil fjárhæð
fyrir fimm og sex ára polla en Óli var
snjall og þetta svínvirkaði.
Pólitíkin á Selfossi var snörp á
þessum tíma, sjálfstæðis- og fram-
sóknarmenn voru langfjölmennastir,
einnig voru þarna nokkrir kommar
en hægt að telja kratana á fingrum
sér. Hlaðamenn eru miklir sjálfstæð-
ismenn og þar fór Óli fremstur í
flokki. Hann var sístarfandi fyrir
flokkinn og í kosningum var hann al-
ger hamhleypa. Hann var ótrúlega
athugull á að finna unga og efnilega
menn til starfa. Ég tel að þáttur Óla
sé alltof lítið metinn í flokknum enda
sóttist hann ekki eftir vegtyllum. Ég
veit að margir hrifust af eldmóði
hans og það getur varla verið tilvilj-
un að núverandi og fyrrverandi for-
maður Sjálfstæðisflokksins eru úr
þessu umhverfi enda báðir úr polla-
hópnum.
Þegar ég flutti frá Selfossi sá ég
Óla sjaldnar en alltaf var jafn hressi-
legt að hitta hann. Eftir að hann hóf
rekstur Steypustöðvar Suðurlands
var Óli alltaf tilbúinn að hjálpa þeim
sem voru illa staddir og margir hefðu
ekki byggt hefðu þeir ekki notið Óla
við.
Við félagarnir fórum mörg ár sam-
an til rjúpnaveiða inn undir Hvera-
velli á vetrartíma. Þetta voru hálf-
gerðar svaðilfarir og Óli kom oft með
okkur og var allra manna skemmti-
legastur. Heilsu hans hrakaði hratt
eftir að hann missti konu sína Hug-
borgu, sem var hans stoð og stytta.
Eitt af síðustu skiptunum sem ég
hitti Óla var þegar ég heimsótti
tengdaföður minn Ingvar Þórðarson
frá Reykjum sem þá var líkt og Óli
fluttur á hjúkrunarheimilið Ljós-
heima. Óli sat þá hjá honum og stytti
honum stundirnar í veikindum hans.
Hann varð glaður þegar hann sá mig
og fórum við að tala um liðna tíð og
mikið hlegið. Þarna þekkti ég aftur
minn gamla vin frá mínum góðu
bernskuárum á Selfossi.
Ég og fjölskyldan viljum votta
ykkur bræðrum Jóni, Benedikt,
Kjartani, frændum og öðrum ástvin-
um samúð. Minningin um Ólaf Jóns-
son frá Hlöðum verður bjartari eftir
því sem ég hugsa meira um hann.
Ólafur Hjaltason.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Í dag verður borinn til moldar
elskulegur frændi minn, Óli á Sel-
fossi.
Faðir minn og Óli voru systkina-
synir og á milli þeirra var sterkt og
kærleiksríkt samband, eins konar
bræðraband, sem hófst þegar borg-
arstrákurinn var sendur austur fyrir
fjall á sumrin til Jóns dýralæknis og
Áslaugar föðursystur sinnar. Fyrsta
minning mín um Ólaf er þegar hann
kom á hvítum Volvo fullum af lakkrís
heim í Skeiðarvog þar sem hann
hafði um tíma lager í kjallaranum.
Skildi hann þá ávallt eftir afganga í
pokum fyrir okkur systkinin og upp
frá því varð hann uppáhalds frænd-
inn minn. Reglulega fórum við fjöl-
skyldan í sunnudagsbíltúr til Selfoss
að heilsa upp á frændfólkið og hef ég
ætíð haldið þessari góðu reglu. Eftir
að ég flutti til Hollands var gott að
eiga þennan trausta klett að sem
samgladdist náðum áföngum í námi,
starfi og einkalífi og stappaði í mig
stálinu þegar ég var sorgmædd.
Þau hjónin, Óli og Hugborg,
bjuggu yfir mjög náttúrulegri og
einlægri gestrisni og voru heimsókn-
irnar í Lækjartún ávallt í mjög föstu
formi. Skarpar umræður um menn,
málefni og pólitík, ilmandi bakkelsi
og flatkökur með besta hangikjöti í
heimi (frá Bassa, ekki úr Kaupfélag-
inu!), skálað fyrir lífinu og forfeðr-
unum og loks skrifað í gestabókina
sem stóð opin á fallega skrifborðinu í
stofunni. Kveðjan var svo „komið þið
fljótt aftur og farið varlega á heið-
inni“. Óli hafði mjög fastar og stund-
um mjög gamaldags skoðanir á hlut-
unum og hann sagði mér tvisvar til
syndanna. Fyrra skiptið var þegar
ég fékk kosningarétt og kaus
Kvennalistann sem honum fannst
gjörsamlega fyrir neðan allar hellur
og seinna skiptið var þegar ég pirr-
aði mig eitthvað á ættarsnobbi og
íhugaði að sleppa Stephensen-nafn-
inu og kalla mig Finnsdóttur. Þá var
frænda mínum nóg boðið og tók
hann mig á eintal. „Þú verður að at-
huga það Gyða mín að þú ert Steph-
ensen og þú átt að vera stolt af því.“
En þrátt fyrir þetta kallaði hann mig
alltaf Gyðu Finns. Mikið hafði hann
gaman af því þegar Carl eiginmaður
minn hitti hann fyrir utan gler-
augnabúð Benda í Hamraborginni
og ávarpaði hann sem Óli van Sel-
foss. Hann var svo hissa og hrærður
að Hollendingurinn skyldi hafa
þekkt sig og sl. 15 ár sagði hann mér
þessa sögu í hvert skipti sem ég hitti
hann. Eftir að Hugborg dó var hann
eins og vængbrotinn fugl. Þá kom í
ljós að hún hafði verið minnið hans
lengi vel og mér finnst einhvern veg-
inn eins og að ég hafi misst þau bæði
í einu. Símtölum okkar fækkaði
smám saman, honum gekk brösug-
lega einum að hitta á rétt númer og
gleymdi oftast einhverju núlli. Hann
hringdi síðast í apríl 2003 til að óska
okkur til hamingju með fæðingu
Kaspers litla. Þá sagði hann mér að
hann væri á leiðinni til Þýskalands til
Mundu og Steina og að við Kalli ætt-
um þá að koma með Finn og Kasper.
En því miður, Óli van Selfoss kom
ekki.
Elsku frændi, hafðu þökk fyrir allt
og allt, ég er viss um að borgarstrák-
urinn tekur vel á móti þér.
Gyða Stephensen.
Í dag kveð ég vin minn, velgjörð-
armann og atvinnuveitanda, Ólaf
Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóra
Steypustöðvar Suðurlands, Selfossi,
með söknuði.
Ég hóf störf hjá Steypustöðinni
undir hans yfirstjórn árið 1979. Nú
þegar ég horfi til baka tel ég hann
einhvern stærsta gæfuvald lífs míns.
Hann tók mér líkt og ég væri sonur
hans og hefði ekki getað reynst mér
betur þó svo hefði verið. Hjálpsemi á
öllum sviðum bæði hvað varðaði fjöl-
skyldu mína og mig sjálfan var
óþrjótandi og það voru engar redd-
ingar. Allt sem frá hans hendi kom,
var innblásið af vináttu og kærleika,
allt ekta og unnið af innri manngæð-
um.
Fyrir þetta allt og meira sem ég
læt ótalið vil ég nú þakka þessum
heiðursmanni, sem fyrir utan það
sem á undan er sagt var ákaflega
skemmtilegur í umgengni og ljúfur
yfirmaður, allar þær samverustund-
ir sem við áttum bæði í starfi og utan
þess.
Þessar línur eiga aðeins að undir-
strika þakklæti mitt fyrir samfylgd-
ina og alla þá visku sem hann nærði
mig á.
Góður maður er genginn, ég veit
að hann uppsker nú eins og hann
sáði. Ég og fjölskylda mín vottum
fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.
Hörður Óskarsson.
Ólafur, sem við í dag kveðjum
hinstu kveðju, kom að Selfossi innan
við fermingu ásamt fjölskyldu sinni
og átti, þegar frá eru talin þrjú ár við
nám og störf í Danmörku, þar heima.
Þegar seinna stríðið braust út komst
hann heim með hinni frægu Pets-
amoför Esjunnar. Vann hann ýmis
störf þar til hann hóf verslunarrekst-
ur á allskonar nauðsynjavörum með
Þorvarði Sölvasyni. Þróaðist það í að
verða umboðverslun fyrir landbún-
aðarvörur og margskonar tæki og
var sú fyrirgreiðsla vinsæl því Ólafur
kappkostaði að hafa á lager það sem
bændur vanhagaði um. Seinna setti
hann á stofn lakkrísgerð og starf-
rækti hana ásamt fjölskyldu sinni í
mörg ár. Líkaði framleiðslan það vel
að hún varð einnig útflutningsvara
til Færeyja. Seinna kom hann á fót
Steypustöðinni og rak hana fram yfir
sjötugt.
Eins og að framansögðu má ráða,
lagði Ólafur gjörva hönd á margt en
bæta má því við eð þeir bræður
Helgi og hann settu upp fjárbú út á
Árbæ og höfðu af því gott gagn og
fór Ólafur á fjall með Ölfusingum
sem var góð tilbreyting frá daglegu
amstri. Ólaf skorti ekki áhugamálin
og var skógræktin þar efst á blaði og
var í áratugi formaður Skógræktar-
félags Árnesinga. Eitt af hans fyrstu
verkum sem slíkur var að festa kaup
á kostajörðinni Snæfoksstöðum í
Grímsnesi sem sýnir framsýni hans
og áræði. Þar er nú kominn upp
fagur og skjólsamur skógur, sem
blasir við þegar maður ekur Gríms-
nesið.
Einnig heima, sérstaklega eftir að
þau Hugborg og Ólafur fluttu að
Lækjartúni, stundaði Ólafur tilraun-
aræktun. Hafði hann mikla ánægju
af því að sýna okkur, sem húsið stóð
alltaf opið fyrir, árangurinn. Þegar
elsta dóttir okkar, Barbara, byrjaði í
Gangfræðaskólanum var hún svo
lánsöm að fá inni hjá Hugborgu og
Ólafi og var þar eins og hver annar
heimilismaður. Þetta eins og svo
margt annað kemur upp í hugann
þegar við nú þurfum að kveðja einn
besta vin okkar og frænda í hinsta
sinn.
Blessuð sé minning hans.
Renata og Gunnlaugur.
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. FEBRÚAR 2005 41
MINNINGAR
Morgunblaðið birtir minningargreinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is
(smellt á reitinn Morgunblaðið í fliparöndinni – þá birtist valkosturinn „Senda
inn minningar/afmæli“ ásamt frekari upplýsingum).
Skilafrestur Ef birta á minningargrein á útfarardegi verður hún að berast fyr-
ir hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða
þriðjudegi). Ef útför hefur farið fram eða grein berst ekki innan hins tiltekna
skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er tak-
markað getur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skilafrestur renn-
ur út.
Lengd Minningargreinar séu ekki lengri en 2.000 slög (stafir með bilum -
mælt í Tools/Word Count). Ekki er unnt að senda lengri grein. Hægt er að
senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur, og votta þeim sem kvadd-
ur er virðingu sína án þess að það sé gert með langri grein. Ekki er unnt að
tengja viðhengi við síðuna.
Minningargreinar