Morgunblaðið - 06.05.2005, Blaðsíða 6
6 FÖSTUDAGUR 6. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
GH
-AN
05
04
005
Fjarðargata 13-15 Hafnarfirði
565 7100
Vertu þú sjálf.
VEL á þriðja hundrað hjólreiða-
menn á öllum aldri hjóluðu um höf-
uðborgarsvæðið í köldu en sólríku
veðri í gær, í tilefni af fyr-
irtækjakeppninni Hjólað í vinnuna
sem nú er í gangi. Lagt var af stað
frá Spönginni, Mjódd og Smára-
torgi, og hittust hóparnir í Naut-
hólsvík og hjóluðu í lest í Fjöl-
skyldu- og húsdýragarðinn.
Mikið var um að heilu fjölskyld-
urnar hjóluðu saman, þó þeir sem
yngstir eru hafi gjarnan fengið far
með mömmu eða pabba. Jón Steinn
fékk einmitt að fylgja með föður
sínum, Erni Jónssyni, á nokkurs-
konar þríhjóli, og var Jón Steinn,
sem er 4 ára gamall, duglegur að
hjóla með til að létta undir með
pabba sínum.
Örn átti þó ekki í vandræðum
með hjólatúrinn, enda alvanur hjól-
reiðamaður. „Ég hjóla í vinnuna á
hverjum degi, ég bý í Mosfellsbæ og
vinn niðri í Ármúla, svo þetta eru
um 15 kílómetrar.“ Það tekur Örn
rúmar 30 mínútur að hjóla þessa
leið, og þó hann væri eflaust fljótari
að keyra segist hann engu að síður
spara tíma á því að hjóla í vinnuna.
„Ég hef aldrei komið mér í lík-
amsrækt í þessum tækjasölum, ég
endist ekkert í svoleiðis. Ég lít á
hjólreiðarnar sem leið til að gera
tvennt í einu; hreyfa mig og fá ein-
hverja líkamsrækt, og komast til og
frá vinnu. Maður er kannski svona
90 mínútur í svona tækjasal, og ég
tek þann tíma í samgöngurnar í
staðinn. Maður fær hreyfinguna og
sparar sér að eiga annan bíl,“ segir
Örn.
Mikilvægt er að gæta öryggis við
hjólreiðarnar, og Örn segir að þeir
feðgar noti aðallega hjólreiðastíga
og gangstéttar til að komast leiðar
sinnar. „Það er ekki mikil virðing
borin fyrir hjólreiðamönnum í um-
ferðinni, maður tekur enga sénsa
þar.“
Marel Snær, sem er 9 ára, segist
líka hjóla mikið, og er núna að búa
sig undir skátaferð um hvítasunnu-
helgina, þegar skátahópur ætlar að
hjóla upp að Úlfljótsvatni. Hann fer
væntanlega létt með það, enda hjól-
ar hann stundum með pabba sínum
þegar hann fer heim úr vinnunni.
Elín G. Guðmundsdóttir og Lúð-
vík Gústafsson hjóluðu líka í gær
með börnum sínum Dagmar Þór-
hildi, 8 ára, og Benedikt Mána, 3
ára. Elín segir að þau hafi ekki hjól-
að mikið undanfarið, en fjölskyldan
sé að reyna að drífa sig út að hjóla.
Spurð hvað það sé sem dragi þau
út að hjóla segir hún: „Það er bæði
góða veðrið og líkamsræktin. Svo
er bara gaman að hjóla.“
Það þarf ekki að vera dýrt að
koma sér upp búnaði segir Elín.
„Ég er á 20 ára gömlu hjóli sem ég
átti þegar ég bjó úti í Þýskalandi og
flutti með mér heim. Það hefur ekki
verið notað mikið á Íslandi en ég er
svona aðeins að byrja aftur. Svo eru
þau hin á eitthvað nýrri hjólum. En
við erum ekki einhverjir sportistar
með allar græjur,“ segir Elín, þó öll
væri fjölskyldan að sjálfsögðu með
hjálm á höfði.
Tæplega 300 hjólreiðamenn tóku þátt í hjólalest sem endaði í Fjölskyldu-
og húsdýragarðinum. Hjólreiðafólkið var á öllum aldri og margar fjöl-
skyldur. Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi var einn lestarstjóra.
Elín G. Guðmundsdóttir og Lúðvík Gústafsson ásamt börnum sínum, Dag-
mar Þórhildi og Benedikt Mána, hjóluðu hluta af leiðinni. Þau ætla að vera
dugleg að hjóla í sumar. Öll eru þau að sjálfsögðu með hjálm á höfði.
Hjólalest hlykkjaðist um höfuðborgarsvæðið í sólskininu
Morgunblaðið/Árni Torfason
Örn Jónsson og synir hans, Marel Snær og Jón Steinn, fengu sér hjólatúr í
sólskininu í gær. Þeir feðgar segjast duglegir að hjóla, en þeir reyna að
halda sig á hjólastígum og gangstéttum öryggisins vegna.
Margar fjöl-
skyldur hjól-
uðu um bæinn
Eftir Brján Jónasson
brjann@mbl.is
Á SUNNUDAG verður síðasta kvik-
myndasýningin í bíósal MÍR við
Vatnsstíg (Menningartengsl Íslands
og Rússlands) en félagið hefur selt
húsnæðið. Þar hefur MÍR verið til
húsa í 20 ár. Að sögn Ívars H. Jóns-
sonar, formanns MÍR, stendur til að
rífa húsið en félagið flytur að Hverf-
isgötu 105 þar sem unglingadeild
Rauða krossins var áður til húsa.
„Við höldum starfinu áfram þar en
það verður kannski í breyttu formi.
Við getum ekki komið upp bíósal
eins og er á Vatnsstígnum svo við
getum líklega ekki sýnt kvikmyndir
af filmum eins og við höfum gert,“
segir Ívar og bætir við að líklega
verði notast við spólur eða DVD.
Kvikmyndin sem verður sýnd á
sunnudag heitir Sigurinn en hún er
sovésk og fjallar um tvo fyrrverandi
hermenn frá Bandaríkjunum og
Rússlandi sem hittast og rifja upp
dvöl sína í Berlín árið 1945. Sýningin
hefst klukkan 15 og að venju er að-
gangur ókeypis.
Síðasta
sýningin í
bíósal MÍR
♦♦♦
Í KRINGUM tuttugu álftir fundust
dauðar í Norður-Skotlandi á dögun-
um en talið er að þær hafi verið á leið
til sumardvalar á Íslandi. Álftirnar
virðast hafa dáið úr blýeitrun og er
talið að þær hafi étið högl.
Jóhann Óli Hilmarsson, formaður
Fuglaverndarfélagsins segir að það
sé þekkt vandamál að álftir, endur
og gæsir drepist vegna blýeitrunar
úr höglum. „Þessir fuglar éta sand til
þess að hjálpa við meltinguna.
Stundum var svo mikil veiði á Bret-
landseyjum að höglin lágu eins og
teppi yfir og fuglarnir átu höglin.“
Jóhann Óli segist halda að á flest-
um stöðum sé verið að banna notkun
á blýi í högl. Í staðinn sé notað stál
sem er ekki nærri eins skaðlegt fyrir
fugla. „Ég veit að það stendur til að
taka alfarið upp stálhögl hér á landi,“
segir Jóhann Óli.
Blýeitrun
varð álftum
að aldurtila
Morgunblaðið/Ómar
HUGMYNDIR um fækkun lög-
gæsluumdæma hafa mælst vel fyr-
ir á fundum sem Björn Bjarnason,
dómsmálaráðherra, hefur átt með
sýslumönnum og forvarsmönnum
lögreglumanna um land allt.
Björn sagðist í samtali við
Morgunblaðið hafa kynnt þessi
mál í lögregluskólanum, fundað
með sýslumönnum og nú í vikunni
einnig með Landssambandi lög-
reglumanna og formönnum aðild-
arfélaga um land allt. Umræðan í
þessum efnum byggðist á skýrslu
verkefnisstjórnar sem kynnt hefði
verið í janúar.
„Nú er ég bæði búinn að kynna
þetta fyrir sýslumönnum og einnig
fyrir lögreglunni og skýrslan og
hugmyndirnar hafa fengið góðar
undirtektir hjá báðum. Nú þarf að
fara yfir málið og leggja á ráðin
um næstu skref,“ sagði Björn.
Framkvæmdanefnd
móti tillögur í sumar
Hann sagði að í ljósi þessara
undirtekta teldi ráðuneytið skyn-
samlegt að halda áfram á þessari
braut og útfæra hugmyndirnar
nánar á grundvelli þeirra sjónar-
miða sem komið hefðu fram bæði
hjá sýslumönnum og öðrum. „Ég á
von á því að ég setji framkvæmda-
nefnd í að vinna að því á sum-
armánuðum að móta tillögur í
þessum efnum, sem gætu orðið til-
búnar með haustinu einhvern tím-
ann,“ sagði hann ennfremur.
Hann bætti því við að hann hefði
fundið greinilega á fundum með
lögreglumönnum víða um land ein-
dreginn vilja til þess að lögreglu-
umdæmin yrðu stækkuð. Hann
teldi hins vegar ekki ástæðu til
þess að fækka sýslumönnum og
því væri alveg ljóst að ekki yrðu
allir sýslumenn lögreglustjórar.
Verkefni til sýslumanna
„Ég er líka að vekja máls á því
að það sé eðlilegt að færa verkefni
til sýslumanna önnur en bara lög-
reglustjórnina og minni á að sýslu-
menn eru lögum samkvæmt fram-
kvæmdavald ríkisins í héraði og að
þeir geti haft á sínum snærum
fleiri verkefni en þau er einungis
varða lögregluna,“ sagði Björn
einnig.
Fækkun lög-
gæsluumdæma
mælist vel fyrir
SAMKEPPNISSTOFNUN telur
ekki ástæðu til þess að aðhafast neitt
vegna auglýsinga Og Vodafone á
Og1, nýrri símaþjónustu fyrir heim-
ili, en Landssími Íslands hafði kvart-
að til Samkeppnisstofnunar vegna
Og1 auglýsingana og talið þær ólög-
mætar.
Þetta kemur fram í í tilkynningu
frá Og Vodafone. „Auglýsinganefnd
Samkeppnisstofnunar taldi hins veg-
ar ekki ástæðu til þess að gera at-
hugasemdir við auglýsingar Og
Vodafone. Nefndin taldi koma skýrt
fram í meginmáli auglýsinganna
hvað þjónustuleiðin Og1 kostaði,“
segir í tilkynningunni. Þar kemur
fram að niðurstaðan sé ánægjuleg að
mati Og Vodafone, og mikill áhugi sé
á skráningu viðskiptavina í Og1.
Gera ekki at-
hugasemdir
við Og1
auglýsingar