Morgunblaðið - 14.06.2005, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 14.06.2005, Blaðsíða 34
34 ÞRIÐJUDAGUR 14. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Jón Hallgrímssonfæddist á Felli í Mýrdal 21.4. 1910. Hann lést á Vífils- stöðum 2. júní síðast- liðinn. Foreldrar hans voru Hallgrím- ur Brynjólfsson frá Litlu-Heiði í Mýrdal og Sigurveig Sveins- dóttir frá Miðeyjar- hólmi í Landeyjum. Eftir tveggja ára bú- setu í Miðeyjarhólmi fluttu þau að Felli og bjuggu þar allan sinn búskap. Systkini Jóns eru Sveinn, Vilhjálmur, Sigurleif, Jónas, Brynjólfur, lést ungur, Þorgerður, Ísbjörg, Jóhann, Er- lendur, Brynjólfur og Óskar, sem einn lifir systkini sín. Eiginkona Jóns var Steinvör Sigríður Jónsdóttir, frá Sól- heimahjáleigu, f. 14.10. 1903, d. 16.4. 1987. Börn þeirra eru: 1) Inga, f. 12.3. 1935, d. 12.2. 1945. 2) Sigurgrímur, maki Sigrún Schev- ing. Synir Sigurgríms og fyrri konu hans Magnhildar Ólafsdótt- ur eru Ólafur og Jón og þrjú barnabörn. 3) Erlen, maki Matth- ías Gíslason. Þau eiga þrjá syni, Gísla Jón, Sigurð Steinar, f. 17.9. 1969, d. 26.4. 1970, Steinar Inga og tvö barna- börn. 4) Elín Jóna, maki Gunnar Gunn- arsson. Þau eiga tvo syni, Trausta og Snorra og fimm barnabörn. Fósturson- ur Jóns var Trausti Ei- ríksson, f. 29.6. 1924, d. 7.12. 1946, sonur Sigríðar og fyrri manns hennar, Eiríks Sverrissonar. Jón ólst upp á Felli. Hann stundaði hefðbundin störf til sjós og lands, þar til hann settist að í Vík og hóf störf hjá Kaupfélagi Skaftfellinga sem afgreiðslumaður og síðar verslunarstjóri. Árið 1963 fluttu Jón og Sigríður til Reykjavíkur. Heimili þeirra var á Kleppsvegi 28. Hóf hann þá störf hjá Ríkisútgáfu námsbóka, síðar Námsgagnastofnun, við verslunar– og innheimtustörf þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Útför Jóns verður gerð frá Bú- staðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11. Jarðsett verður í Vík- urkirkjugarði sama dag. Tengdafaðir minn, Jón Hallgríms- son frá Felli í Mýrdal, er látinn. Hann bar sig með reisn til hinstu stundar, háaldraður. Vil ég með nokkrum orð- um kveðja og þakka allar góðar stundir í návist hans. Eftir öll árin í Mýrdalnum og Vík fluttu þau hjónin til Reykjavíkur 1963 og héldu heimili á Kleppsvegi 28. Þangað lágu leiðir þegar ég kynntist Elínu Jónu dóttur þeirra og hóf dans lífsins með henni. Ætíð var gott að koma á Klepps- veginn, hlýleiki og traust svo aldrei bar skugga á. Ógleymanlegir verða dagarnir með Jóni og börnum hans og yngri bróður Brynjólfi á „bakkanum“, eins og við kölluðum það. Affalls-bakkinn í V- Landeyjum var okkur griðastaður mörg sumur sem við nutum með Jóni og gæðingum hans. Snyrtimennskan og reiðsnilldin, fumlaus handtök og sterk, gleði og glæsileiki einkenndi allt í fari Jóns. Umhyggja hans og auga við val á reiðhestum og eðlislæg greind og reynsla gaf okkur sjóð, fjársjóð minn- inga um „knapa á hesti – kóng um stund“. Ekki var leiðinlegt að fylgjast með samheldni og hug Jóns með systkin- um sínum þegar þau fengu ráð yfir foreldrahúsum á Felli, sem höfðu þá verið í eyði um skeið. Þau strituðu við að lagfæra á Fellinu góða og hlúðu að yl minninganna. Þannig var Jón, ætíð traustur og skipulagður og naut virðingar og vin- áttu samferðamanna, hvort sem var í leik eða starfi. Með honum gengur hluti af þeim kynslóðum sem í stórfjölskyldum ög- uðu með sér óbilandi trú, traust og elsku til þessa lands og þjóðar. Þökk fyrir allt. Gunnar Gunnarsson. Elsku afi Jón. Mig langar með þessum fáu orðum mínum að þakka þér samfylgdina í gegnum árin. Mitt fyrsta æviár bjó ég ásamt foreldrum mínum heima hjá þér og ömmu Sig- ríði á Kleppsveginum. Var ég mikið hjá ykkur enda þið amma ávallt reiðubúin að gæta mín í fjarveru mömmu og pabba. Gleymi ég aldrei þessum dýrmætu samverustundum frá bernskuárum mínum sem ég bý að enn í dag. Við fjölskyldan fluttum síðar til Víkur þar sem þið voruð tíðir gestir, sérstaklega yfir stórhátíðir og man ég að ég gat varla hugsað mér nokkur jól án ykkar. Jafnframt var oft gist hjá ykkur á ferðum okkar fjölskyld- unnar til Reykjavíkur á þessum ár- um. Við feðgar byrjuðum svo í hestun- um fyrir austan meðal annars vegna smitandi áhrifa frá þér og frænda. Þú varst hestamaður af lífi og sál og stundaðir hestamennskuna fram á háan aldur. Þið amma gáfuð mér Gjafar minn í fermingargjöf sem ég svo tamdi sjálfur. Átti ég með honum margar gleðistundir. Eftirminnilegar eru líka hestaferðirnar okkar fjöl- skyldunnar úr Landeyjum að Felli í sumarhús ykkar systkinanna. Ávallt höfðum við um nóg að spjalla en hest- ar og hestamennska voru alltaf vin- sælasta umræðuefnið hjá okkur. Á yngri árum lærði ég að fljúga og varst þú einn af mínum fyrstu flug- farþegum. Fyrsta flugferðin með mér var jafnframt þitt fyrsta flug þrátt fyrir 77 ára aldur. Það vildi svo til að í þessari ferð opnaðist hurð í flugtaki. Man ég að þú bara brostir, treystir mér og hélst hurðinni lokaðri til lend- ingar. Þrátt fyrir þetta atvik flugum við um Suðurlandið nokkrum dögum seinna og var það í fyrsta skipti sem þú sást æskuslóðirnar úr lofti. Þar sem ég hef búið til fjölda ára erlendis höfum við aðeins hist einu sinni til tvisvar á ári og varst þú alltaf jafn spenntur að fá mig heim til Ís- lands. Spurðir þú mig síðast um væntanlega heimsókn mína til Ís- lands nokkrum dögum fyrir andlát þitt. Þrátt fyrir fjarlægðina vorum við ávallt í góðu símasambandi. Þú varst alltaf duglegur að hringja í mig ef þér fannst líða of langt á milli sam- tala. Einu má ég ekki gleyma: Alltaf þegar ég kom heim pantaðir þú hjá mér eina flösku af Vodka. Elsku afi Jón, ég ætla ekki að hafa þetta lengra þótt ég gæti talið upp ótal fleiri góðar minningar. Ég þakka þér innilega fyrir allar ógleymanlegu samverustundirnar þar sem ég reyndi sérstaklega síðustu árin að slá á létta strengi því þinn hlátur er mér ógleymanlegur. Guð geymi minningu þína. Þinn Gísli Jón í Berlín. Okkur hjónin langar til að kveðja Jón frænda, eins og konan mín kallaði hann jafnan, með fáeinum orðum, sem vonandi verða ekki öll fátækleg. Þótt við hefðum vitanlega þekkt Jón lengi þá fórum við að umgangast hann meira eftir því sem aldurinn færðist yfir hann og reyndar okkur líka, einkum eftir að við fluttum úr Miðbænum inn á Rauðalæk, í nánasta nágrenni við hann fyrir níu árum. Já, samverustundum okkar fjölgaði verulega, þessarar litlu og samstilltu þrenningar, sem ég voga mér varla að kalla heilaga til óblandinnar ánægju og varanlegrar gleði. Við hittumst ýmist á heimili okkar eða hjá Jóni á Kleppsvegi 28. Það var föst venja á hvorum staðnum sem við vorum að lyfta glösum fyrir matinn og þótt lygilegt megi heita var Jón í rauninni enginn eftirbátur konunnar minnar í matargerðarlistinni. Eftir að hann var kominn á tíræðisaldur bar hann á borð fyrir okkur saltkjöt og síðan grjónagraut með kanel og rjómablandi. Geri aðrir betur. Á þessum góðu og ógleymanlegu þrenningar- eða þremenningafund- um okkar bar vissulega margt á góma og slegið á létta strengi. Þegar Jón frændi var t.a.m. orðinn smáreif- ur átti hann það til að breyta sér í gervi gamalla og skringilegra karla og kerlinga úr Mýrdal með tilheyr- andi svipbrigðum og málkækjum og töktum, enda óviðjafnanleg eftir- herma eins og hann á kyn til. Fáa menn höfum við hjónin þekkt sem létu sér jafnannt um útlit sitt og klæðaburð og Jón. Það mátti jafnvel skera sig á brotunum í buxunum hans, svo stífpressaðar voru þær af honum sjálfum. Engum öðrum var til þess treystandi. Það er ekki ofmælt að hann hafi verið snyrtimenni fram í fingurgóma eins og hann á kyn til. Jón var fastur fyrir og lét aldrei neinn hræra í sér eða með öðrum orð- um ekkert gefinn fyrir að dansa eftir höfði annarra frekar en ættmenn hans flestir. Hann gerði sem sagt allt með sínu lagi og í því var að vissu leyti fólginn styrkur hans og járnvilji. Þegar litið er yfir langa ævi þá finnst okkur hjónum að Jón hafi í einu orði sagt verið gæfumaður. Hann átti góða konu, sem andaðist fyrir nokkr- um árum, og eignaðist með henni góð börn. Vel á minnst, þau hjón gerðu okkur einu sinni greiða, sem aldrei verður ofþakkaður né fullmetinn. Við erum þeim líka óendanlega þakklát fyrir þá miklu ræktarsemi sem þau sýndu syni okkar, Gnúpi, alla tíð. Jón Hallgrímsson rækti störf sín af stakri samviskusemi og stundum jafnvel ótrúlegri fórnfýsi hvort held- ur var í Kaupfélagi Skaftfellinga í Vík í Mýrdal eða síðar hjá Ríkisútgáfu námsbóka og ég hugsa að það sé ekki orðum aukið að hann hafi verið hvers manns hugljúfi á þessum fyrrnefnd- um vinnustöðum sínum. Enda þótt tekjur Jóns hafi aldrei verið ýkja háar um dagana, var hann hagsýnn maður og gætinn, sem aldrei eyddi um efni fram. Skuldum hlaðnir Nútíma-Íslendingar gætu mikið lært af ráðdeild hans og hófsemi. En lífið var sem betur fer ekki tómt púl og strit og Jón naut þess m.a. að taka lagið, enda raddmaður góður eins og hann á kyn til. Hann var bæði í kirkjukórnum í Vík svo og í Söng- félagi Skaftfellinga, sem gerðu hann að heiðursfélaga ekki alls fyrir löngu. Auk þess hafði hann af því yndi mest að bregða sér á hestbak og það vita- skuld með sínu lagi. Ég þori að full- yrða að fáir færu í fötin hans Jóns, þ.e.a.s. reiðfötin hans. Að lokum þetta: Jón kunni sér hóf í öllu, nema vera skyldi í manngæsku. Við hjónin vottum börnum hans og öðrum aðstandendum hjartanlega samúð okkar. Andrea Oddsteinsdóttir og Halldór Þorsteinsson. Fallinn er öldungurinn Jón Hall- grímsson frá Felli í Mýrdal. Þeim fer fækkandi, sem bornir voru til þessa heims í byrjun síðustu aldar. Jón var einn þeirra. Hann fæddist árið 1910 á Felli í Mýrdal og ólst þar upp í faðmi stórfjölskyldu, eins og títt var á þeim tíma. Jón var þriðja yngsta barn af ellefu börnum þeirra hjónanna Hall- gríms Brynjólfssonar og Sigurveigar Sveinsdóttur er þar bjuggu. Hann naut æskuáranna og bar alla tíð mikla virðingu fyrir eldri systkinum sínum, sem voru honum og yngri bræðrum fyrirmyndir. Jón stundaði alla al- menna vinnu til sjós og lands eins og títt var, en var lengst af verslunar- maður og síðar verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Skaftfellinga. Þar naut hann mikils trausts sakir framúr- skarandi þjónustulundar, dugnaðar og trúmennsku. Árið 1963 fluttu þau hjónin Jón og Sigríður kona hans til Reykjavíkur, þar sem hann vann hjá Ríkisútgáfu námsbóka, síðar Námsgagnastofnun, þar til hann hætti sökum aldurs. Það er til marks um vinsældir Jóns hjá þeirri stofnun að löngu eftir að hann var hættur störfum var kallað til hans, þegar starfsfólkið gerði sér glaðan dag. Hann eignaðist þar góða vini, sem héldu góðu sambandi við hann til hins síðasta. Það ber að þakka. Jón var fagurkeri mikill, naut þess að vera í góðra vina hópi og taka lag- ið, söng í mörg ár með Söngfélagi Skaftfellinga og var meðlimur í kirkjukór Víkurkirkju í um tuttugu ár. En bestu stundir Jóns voru á hest- baki. Hann var góður hestamaður, snyrtimennskan í blóð borin svo eftir var tekið. Á síðari árum áttu þeir góð- ar stundir saman í hestamennsku Jón og Brynjólfur yngsti bróðirinn. Það voru ógleymanlegar stundir fyrir þá báða, aldna höfðingja og ávallt vel ríð- andi. Á hestbaki verður maðurinn frá sér numinn, nýtur hann þar sjálfs sín heill og óskiptur í ríkara mæli en nokkurs staðar ella. Þar kennir hann þrek sitt og lífsþrótt og sifjar sínar við máttugt og mikið líf. Þannig mun ég minnast Jóns og ósjálfrátt kemur upp í hugann brot úr kvæðinu Fákar eftir Einar Benediktsson: Maður og hestur, þeir eru eitt fyrir utan hinn skammsýna, markaða baug. Þar finnst, hvernig æðum alls fjörs er veitt úr farvegi einum, frá sömu taug. Þeir eru báðir með eilífum sálum, þó andann þeir lofi á tveimur málum, - og saman þeir teyga í loftsins laug lífdrykk af morgunsins gullroðnu skálum. Jón var höfðingi í lund og hefði e.t.v. viljað stjórna lífshlaupi sínu á annan veg. Hann varð fyrir miklu áfalli í lífinu, missti dóttur sína unga og fósturson úr berklaveiki og sjálfur varð hann fyrir líkamlegum áföllum, og beið hann þess aldrei bætur síðar á ævi. Ég vil í lokin færa hjúkrunar- og öðru starfsfólki Vífilsstaða, sérstakar þakkir, fyrir frábæra umönnun. Víf- ilsstaðir eru einstakur staður og þar er valinn maður í hverju rúmi. Einnig vil ég fyrir hönd fjölskyldu minnar þakka vinum og vandamönnum fyrir ræktarsemi í hans garð og sérstak- lega eru þeim Andreu og Halldóri Þorsteinssyni, einnig Árna og Ragn- hildi Vilhjálmsbörnum og fjölskyld- um þeirra færðar innilegar þakkir fyrir allt sem þau gerðu fyrir Jón alla tíð. Að leiðarlokum þökkum við fjöl- skylda mín Jóni fyrir samfylgdina. Minningin lifir. Matthías Gíslason. Vinur okkar, Jón Hallgrímsson, er látinn í hárri elli. Ég kynntist Jóni fyrst þegar ég var ungur kennari og hann verslunar- stjóri í Skólavörubúðinni, sem þá var á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis. Þar fór afar samviskusamur starfs- maður. Nákvæmnin nánast í ætt við smásmygli. Jón Hallgrímsson mátti aldrei vamm sitt vita. Síðar lágu leiðir okkar saman er við deildum húsakynnum í Kennslu- miðstöð Námsgagnastofnunar á Laugavegi 166 um þriggja ára skeið. Hann hafði þá látið af verslunarstjórn fyrir aldurs sakir en var ráðinn til innheimtustarfa, enda sérlega laginn við að innheimta skuldir, sem hann gerði með góðlátlegri og árangurs- ríkri ákveðni. Í Kennslumiðstöðinni tókst með okkur góð vinátta sem hélst æ síðan, þótt fjörutíu ár væru á milli, og á köflum talsverðar vega- lengdir. Stundum leið nokkur tími milli þess að við hittumst, en við héld- um jafnan þeim sið að hittast upp úr hádegi hvern aðfangadag. Þó það þyki ekki jólalegur siður, þá hafa jólin hjá okkur Jóni, undanfarinn aldar- fjórðung, hafist með því að við feng- um okkur einn sterkan saman, áður en við héldum til jólahalds hvor með sinni fjölskyldu. Jón var alltaf mikill höfðingi heim að sækja. Í síðasta sinn er við hittumst, nú á útmánuðum, í herbergi hans á Vífilsstöðum, stakk hann að mér fleyg með eðalrommi um leið og hann kvaddi mig með kank- vísu brosi. Ef til vill fann hann á sér hvað var í vændum, enda hafði hann ekki leynt því um skeið, að hann gæti meira en vel hugsað sér að hverfa til fundar við Guð sinn. Jón var ákaflega skemmtilegur persónuleiki, sögumaður góður, ræð- inn og áhugasamur um þjóðmál. Framsóknarmaður fram í fingur- góma og ef umræðuefni skorti var alltaf hægt að koma umræðu af stað með því að víkja að frammistöðu for- svarsmanna flokksins og urðu það oft heitar samræður. Jón hafði mikið yndi af að segja frá uppvaxtarárum sínum í Mýrdalnum. Á góðri stund hafði Jón sérdeilis gaman af söng og leiddi oft með sinni djúpu röddu. Jafnan var hann glæsilegur til fara og gaman er að minnast þess að hann pressaði fötin sín með heimatilbúinni aðferð þar sem strokjárn kom hvergi við sögu, en tilfæringar nokkrar. Á hátíðarsamkomum þakkaði Jón gjarnan fyrir sig með stuttri ræðu. Minnisstætt er þegar hann talaði til sonar okkar og tengdadóttur við brúðkaup þeirra fyrir sex árum. Þau orð munu aldrei líða viðstöddum úr minni. Þar talaði vitur öldungur sem hitti unga fólkið beint í hjartað. Jón var mikill hestamaður og elsk- aði útreiðar. Síðast átti hann gæðing- inn Víking sem hann unni mjög. Fyrir ofan skrifborðið mitt er mynd af Jóni á baki – þar sem hann situr hestinn eins og höfðingi. Ég gleymi aldrei þeirri stundu þegar Jón sagði mér að nú kæmist hann eiginlega ekki lengur hjálparlaust á bak Víkingi sínum. Hann hafði því ákveðið að hætta út- reiðum og láta fella hestinn. Eftir það var eins og lífsneistinn hefði dofnað. Nú sé ég Jón fyrir mér á Víkingi sín- um – þar sem þeir skeiða hratt yfir sandana hjá Vík og fýlsunginn á fót- um fjör að launa. Við Lilja sendum börnum og öðr- um ættingjum Jóns okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Við kveðjum tryggan vin með söknuði. Það hafa verið okkur og fjölskyldunni mikil forréttindi að hafa fengið að kynnast þessum ljúfa öðlingi sem nú er farinn í friði. Um heiðursmanninn Jón Hall- grímsson eigum við aðeins hlýjar minningar. Ingvar og Lilja. Það var sumarið 1985 sem leiðir okkar Jóns Hallgrímssonar lágu fyrst saman. Þetta sumar hafði ég fengið vinnu í Kennslumiðstöð Náms- gagnastofnunar og strax á fyrsta degi veitti ég athygli þessum virðulega eldri manni sem, að því er mér var tjáð, sá um innheimtu fyrir stofn- unina. Hann var yfirvegaður og fág- aður í allri framkomu og bar strax af sér þann þokka sem þeim einum er gefinn sem eru fullkomlega trausts- ins verðir. Fljótlega varð okkur afar vel til vina og sú vinátta hélst til hans hinsta dags. Þetta sumar varð það fljótlega vani hans að gauka að mér konfektmolum og fleiru góðgæti sem hann taldi að mér, þessari horrenglu, veitti ekki af til að halda starfsorku og mætti kannski verða til þess að ég dytti ekki í sundur. Þegar leið á sumarið fórum við í sameiningu að grafa upp upp- runa minn og kom þá í ljós að Jón hafði alist upp í Mýrdalnum eins og föðuramma mín, Elín. Kannski var það þessi tenging sem varð til þess að ýta enn frekar undir kynni okkar Jóns og vinskap. Kynni, sem urðu mér og fjölskyldu minni uppspretta gjöfulla samverustunda þar sem skipst var á glensi og gamanmálum sem stundum voru krydduð með sér- stökum hestaskálum sem blandaðar voru að hætti Jóns. Já, oftast var stutt í gamanið hjá Jóni sem tókst með sinni fáguðu og hárbeittu kímni að laða fram hlátur og gleði. Mér er það t.d. afar minn- isstætt þegar þeir bræður Jón og Vil- hjálmur komu til okkar í Hallorms- staðaskóg með Árna syni Vilhjálms. Við áttum góða stund í stofunni við arininn sem lauk undir morgun með því að þeir bræður sungu tvísöng fram af svölunum hjá okkur, með sín- um skæru og miklu skaftfellsku rödd- um svo undirtók í skóginum. Og endalaust var gantast og hlegið. Þó annar væri á tíræðisaldri og hinn á ní- ræðisaldri hafa sjaldan ómað ferskari raddir í skóginum. Það traust og sú tryggð sem Jón sýndi mér og fjölskyldu minni komu glöggt í ljós árið 2000 þegar dóttir mín fermdist, en þá fór Jón sérferð austur á Fljótsdalshérað, þá níræður, og vann með tignarlegri framkomu sinni hug og hjörtu allra þeirra sem fögnuðu með okkur þessum tímamót- um. Sjaldan hafa sést betur klæddir menn á Héraði enda Jón einstakt snyrtimenni og skartaði klæðskera- saumuðum fötum frá toppi til táar. Og margir spurðu: „Hver er hann JÓN HALLGRÍMSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.