Morgunblaðið - 14.06.2005, Blaðsíða 14
14 ÞRIÐJUDAGUR 14. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Washington. AP, AFP. | Dick Cheney, varaforseti
Bandaríkjanna, segir að fangabúðum Bandaríkja-
hers við Guantanamo-flóa á Kúbu verði ekki lokað
þrátt fyrir þráláta gagnrýni á aðbúnað fanganna
og þær yfirheyrsluaðferðir sem notaðar hafa verið
í búðunum.
„Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir
að fangarnir í Guantanamo eru vont fólk. Ég
meina, þetta eru hryðjuverkamenn upp til hópa.
Þetta er fólk sem var tekið höndum á átakasvæð-
um í Afganistan eða vegna tengsla sinna við al-
Qaeda,“ sagði Cheney í viðtali við Fox-sjónvarps-
stöðina á sunnudagskvöld að staðartíma. „Við höf-
um nú þegar skimað yfir hópinn, sent marga til
heimkynna sinna og þeir sem eftir sitja eru harð-
svíraðir hryðjuverkamenn.“
George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í síð-
ustu viku að hann væri tilbúinn til þess að íhuga
aðra möguleika varðandi þá 540 fanga sem nú eru
vistaðir í Guantanamo. Það sagði hann eftir að
Jimmy Carter, fyrrverandi forseti landsins, gekk í
lið með þeim sem vilja láta loka fangabúðunum.
Bush segir Bandaríkjamenn fylgja Genfar-sátt-
málanum um meðferð stríðsfanga.
Mannréttindasamtök og nokkrir þingmenn,
flestir demókratar, vilja að búðunum verði lokað.
Nokkrir repúblikanar hafa jafnvel snúist á þeirra
band. Öldungadeildarþingmaðurinn Chuck Hagel
hefur þannig lýst yfir að fangabúðirnar við Guant-
anamo-flóa komi óorði á Bandaríkjamenn og bar-
áttu þeirra gegn hryðjuverkum. Mel Martinez,
sem einnig situr fyrir repúblikana í öldungadeild
þingsins, tekur undir með Hagel og segir að eins
og staðan er nú hljóti ríkisstjórnin að þurfa að
meta kosti og galla þess að halda fangabúðunum
gangandi.
Berháttaður og látinn gelta
Á sunnudag birti tímaritið Time yfirheyrsludag-
bækur bandarískra hermanna í Guantanamo-fang-
elsinu. Þar er því lýst hvernig þremur og hálfum
poka af vökva var sprautað í æð sádi-arabísks
fanga gegn vilja hans, hvernig hann var yfirheyrð-
ur í þaula í viðurvist sérþjálfaðra hunda og hvernig
kvenkyns hermaður settist klofvega á fangann, en
það er sérlega niðurlægjandi fyrir múslima.
Mohammed al-Qahtani var tekinn höndum í
Afganistan í desember árið 2001 og fluttur til Gu-
antanamo þar sem hann sætti yfirheyrslum frá
byrjun nóvember 2002 til janúar 2003. Bandarísk
yfirvöld höfðu þá komist að því að hann hefði reynt
að komast inn í Bandaríkin í ágúst 2001 en ekki
fengið. Mohamed Atta, sá sem fór fyrir hryðju-
verkamönnunum 11. september 2001, var á sama
flugvelli á sama tíma.
Við yfirheyrslu var vatni hellt yfir höfuð al-Qaht-
ani, skegg hans og höfuðhár var rakað af og hann
neyddur til að standa upp er þjóðsöngur Banda-
ríkjanna var leikinn. Auk þess kemur fram í dag-
bókunum að hann hafi verið berháttaður og látinn
gelta eins og hundur og að um háls hans hafi verið
hengdar myndir af fáklæddum konum. Líkamlegt
ástand hans varð brátt svo slæmt að hann þurfti
læknisaðstoð. Í fyrrnefndum dagbókum kemur
fram að hann hafi sagst vilja fremja sjálfsmorð.
Tilkynning barst fjölmiðlum frá bandaríska
varnarmálaráðuneytinu þar sem segir að starfs-
menn Guantanamo-búðanna noti yfirheyrsluað-
ferðir sem séu „samþykktar og undir eftirliti“. Í til-
kynningunni stendur: „… yfirheyrslurnar yfir
al-Qahtani voru framkvæmdar eftir mjög ná-
kvæmri áætlun sem miðaði að því að ná mikilvæg-
um upplýsingum sem hægt væri að nota til að
koma í veg fyrir frekari árásir á Bandaríkin.“
Chuck Hagel sagði það ekki einungis heimsku-
legt heldur hreint og beint stórhættulegt og lýsa
heilmikilli skammsýni ef þannig væri í raun farið
með fanga á vegum Bandaríkjahers.
Guantanamo ekki lokað
BIRT hefur verið myndband þar
sem sjá má Saddam Hussein, fyrr-
verandi forseta Íraks, en þetta eru
fyrstu myndirnar sem birtar eru af
honum í tæpt ár. Á myndbandinu
sést dómari yfirheyra þennan fyrr-
um einræðisherra. Myndbandið var
birt án tals og ekki kemur fram
hvar eða hvenær það var tekið
upp.
Á myndbandinu er Saddam reffi-
legur en þungbúinn, í dökkum
jakkafötum og fráhnepptri hvítri
skyrtu. Hann strýkur fingri yfir vel
snyrt skegg sitt. Myndbandið sýnir
hann svara spurningum um morð á
fjölda manna í sjítaþorpi norður af
Bagdad árið 1982. Líkur hafa verið
leiddar að því að það sé dómarinn
Raid Juhi sem sést yfirheyra hann.
Saksóknarar vonast til að hægt
verði að hefja réttarhöld yfir Sadd-
am sem fyrst en hann er ákærður
fyrir glæpi gegn mannkyni.
AP
Myndband
með Saddam
Hussein birt
Ahvaz. AFP. | Stjórnvöld í Íran lýstu
yfir því í gær að forsetakosningar
færu fram samkvæmt áætlun á föstu-
dag, 17. júní. Manna sem stóðu fyrir
sprengjutilræðum í Íran um liðna
helgi er nú ákaft leitað.
Í yfirlýsingu frá innanríkisráðu-
neyti Írans í gær segir að öfgamenn
frá Írak hafi staðið fyrir sprengju-
tilræðunum á sunnudag. Þá týndu
átta menn lífi í fjórum sprengjuárás-
um. Afar fátítt er að fregnir berist af
slíkum ódæðisverkum í Íran. Þykir
sýnt að tilræðismennirnir hafi viljað
trufla forsetakosningarnar sem fram
fara síðar í vikunni.
Í yfirlýsingu innanríkisráðuneytis-
ins sagði að Mohammad Khatami,
fráfarandi forseti, hefði falið örygg-
issveitum og leyniþjónustu Írans að
finna tilræðismennina. Sagði einn
heimildarmaður að næðust þeir yrðu
þeir teknir af lífi.
Mohammad Jafar-Sarrahmi, ráða-
maður í Ahvaz, höfuðstað Khuzestan-
héraðs þar sem sex féllu í sprengju-
tilræðum, sagði í samtali við AFP-
fréttastofuna að tilræðismennirnir
„tengdust óvinum Írana erlendis“.
Taldi hann að íranskir útlagahópar í
Írak bæru ábyrgð á sprengjutilræð-
unum. Með þessu vildu þeir draga úr
þátttöku í forsetakosningunum á
föstudag. „Þeir vilja skapa ótta í sam-
félaginu,“ sagði hann. Kosningarnar
myndu hins vegar fara fram og ör-
yggi kjósenda yrði tryggt.
Vitað er að stjórnvöld í Íran óttast
mjög að kjörsókn verði lítil líkt og
gerðist þegar þingkosningar fóru
fram í fyrra. Líklegt þykir að margir
hafi ekki fyrir því að mæta á kjörstað,
einkum þeir sem telja að gera beri
grundvallarbreytingar á flestum
sviðum samfélagsins í Íran þar sem
afar íhaldssöm klerkastjórn fer með
völdin.
Tilræðismennirnir sagðir
tengjast óvinum Írans
Reuters
Stuðningsmenn íranska forsetaframbjóðandans Mehdi Karroubi á fundi í Laleh-garði í höfuðborginni Teheran í
gær. Fólkið fordæmdi nokkur sprengjutilræði sem urðu minnst átta manns að bana á föstudag.
BRESKIR ráðherrar voru upplýstir
um það í júlímánuði 2002 að stjórn-
völd hefðu skuldbundið sig til að taka
þátt í innrás Bandaríkjamanna í
Írak. Jafnframt var ráðherrum í
ríkisstjórn Tonys Blair forsætisráð-
herra tjáð að finna yrði leið til að
tryggja að innrásin yrði lögleg.
Þetta kemur fram í minnispunkt-
um sem lagðir voru fyrir ráðherra-
fund 23. júlí 2002. The Sunday Times
birti minnisblað þetta um liðna helgi.
Þar kemur fram að Blair hafi sam-
þykkt að styðja hernað Bandaríkja-
manna gegn stjórn Saddams Huss-
eins Íraksforseta. Þessu hafi hann
lýst yfir við George W. Bush forseta
þremur mánuðum áður þ.e. í apríl-
mánuði 2002.
Fram kemur að það að þvinga
fram stjórnarskipti í Írak teljist ólög-
legt. Því þurfi „nauðsynlega að skapa
forsendur“ fyrir því að slíkar aðgerð-
ir geti talist löglegar. Þetta sé nauð-
synlegt jafnvel þótt Bretar taki ekki
beinan þátt í innrásinni. Ljóst sé að
Bandaríkjamenn muni fá afnot af
breskum herstöðvum og þannig verði
Bretar jafnframt ábyrgir fyrir ólög-
legum aðgerðum Bandaríkjamanna.
Vísað er til þess að Bandaríkjamenn
muni leita eftir leyfi til að nýta her-
stöðvar Breta á Kýpur og á Diego
Garcia-eyju.
Á fundinum voru auk Blair, Geoff
Hoon, þáverandi varnarmálaráð-
herra, Jack Straw, utanríkisráð-
herra, og Sir Douglas Dearlove, þá-
verandi yfirmaður bresku leyniþjón-
ustunnar, MI6.
Höfundur minnispunktanna full-
yrðir að aðgerðir gegn stjórn Sadd-
ams Husseins verði aðeins réttlættar
með tilvísun til þess að hann hafi
hundsað eða hafnað úrslitakostum af
hálfu Sameinuðu þjóðanna. Þá er vís-
að til þess að setja beri honum úr-
slitakosti um að heimili hann ekki
vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu
þjóðanna að starfa í landinu verði
blásið til hernaðar gegn stjórn hans.
Segir í plagginu að þetta geti reynst
erfitt. „Hugsanlega er unnt að setja
fram úrslitakosti á þann veg að Sadd-
am hafni þeim,“ segir í minnispunkt-
unum. Færi hins vegar svo að hann
samþykkti úrslitakostina og réðist
ekki gegn bandamönnum væri „mjög
ólíklegt“ að fást myndi fram sú rétt-
læting fyrir innrás sem þörf væri á.
Innrásin átti að vera lögleg
Ráðherrum Blairs var tjáð árið 2002 að ráðist yrði á Írak
Róm. AFP. | Þjóðaratkvæðagreiðsla
um tilslökun frjósemislaga á Ítalíu
var dæmd ómerk vegna slakrar þátt-
töku í gær og fyrradag. Krafist hafði
verið þátttöku helmings kosninga-
bærra manna til að þjóðaratkvæða-
greiðslan hefði áhrif, en einungis
tæp 30% mættu á kjörstað. Þetta er
ákveðinn sigur fyrir kaþólsku kirkj-
una sem hafði hvatt Ítali til að snið-
ganga atkvæðagreiðsluna af „sið-
ferðislegum ástæðum“. Aðrir kenna
almennu áhugaleysi um og enn aðrir
því að Ítalir séu orðnir of þreyttir á
að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu
en þær hafa verið fjölmargar í land-
inu síðastliðinn áratug.
Lögin sem kosið var um voru sett
af ríkisstjórn Silvios Berlusconis for-
sætisráðherra í fyrra en þá þótti
honum Ítalir helst til frjálslyndir í
frjósemismálum, enda bárust oft
fréttir af því að konur á sjötugsaldri
hefðu farið í tæknifrjóvgun og bæru
barn undir belti. Nú er hins vegar
svo komið að frjósemislög Ítalíu eru
með þeim ströngustu í heimi.
Eggja- og sæðisgjafir bannaðar
Samkvæmt lögunum má aðeins
frjóvga þrjú egg fyrir hvert par og
þeim verður öllum að koma fyrir í
konunni í einu. Einnig eru eggja- og
sæðisgjafir bannaðar.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru
Ítalir beðnir að gefa álit sitt á því
hvort slaka bæri á lögunum og hvort
taka ætti upp fósturrannsóknir, sér-
staklega í þeim tilfellum þar sem for-
eldrar búa við erfðasjúkdóm.
Ómerk þjóðarat-
kvæðagreiðsla á Ítalíu
Moskvu. AP. | Vladímír Pútín, forseti
Rússlands, sagði í gær að Rússar og
vestrænar þjóðir ættu að vinna sam-
an að því að greiða fyrir framförum í
fyrrum sovétlýðveldum en ekki berj-
ast um áhrif í ríkjum þessum.
Pútín lét þessi orð falla á blaða-
mannafundi með Tony Blair, for-
sætisráðherra Bretlands, sem sótti
hann heim í Moskvu.
Pútín sagði að margar fátækar
þjóðir, sem tilheyra Samveldi sjálf-
stæðra ríkja, samstarfsvettvangi 12
fyrrum sovétlýðvelda, þyrftu á að-
stoð alþjóðasamfélagsins að halda.
„Við þurfum því ekki á því að
halda að Samveldisríkjunum sé
breytt í vígvöll. Þvert á móti ættum
við að breyta þessu landsvæði í vett-
vang samstarfs til að þessum ríkjum
auðnist að þróa fram lýðræðisskipu-
lag sitt,“ sagði forsetinn.
Ummæli Pútíns einkenndust því
af sáttfýsi en í fyrra skarst í odda
með Rússum annars vegar og Vest-
urveldunum hins vegar þegar fram
fóru forsetakosningar í Úkraínu. Þá
skiptust ráðamenn í Rússlandi og
leiðtogar Vesturlanda á hörðum
skeytum þar sem fram komu gagn-
kvæmar ásakanir um óeðlileg af-
skipti af málefnum Úkraínu.
Pútín vill
samvinnu
♦♦♦