Morgunblaðið - 21.07.2005, Qupperneq 32
32 FIMMTUDAGUR 21. JÚLÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
ég veit að var í miklum metum hjá
öllu sínu frændfólki. Ég hef kynnst
lítillega syni hans Ingvari og séð að
hann hefur erft eftir pabba sinn hið
góða, káta og létta skap. Þó að mikið
hafi dunið á hjá honum í lífinu vona
ég að hann varðveiti þessa eftir-
minnilegu kosti föður síns.
Helgi Lárusson.
Helgi Ingvarsson frændi okkar er
fallinn frá langt fyrir aldur fram. Við
höfum þekkt Helga alla okkar ævi,
enda við bræður og Helgi systkina-
börn og við höfum ávallt umgengist
hann, sem bróðir væri. Sjaldan liðu
meira en nokkrir dagar á milli þess
að við hittumst eða hefðum símasam-
band. Tilefnin voru fjölmörg – að
ræða saman um lífið og tilveruna,
fjölskylduna, vini og vandamenn,
spila bridge og stangveiði.
Helgi var vænn yfirlitum, ljósleit-
ur, freknóttur og rauðhærður, mjög
hávaxinn og sterkbyggður en samt
fínlegur. Hann var góður maður, vin-
ur, frændi og bróðir, skarpgreindur,
réttsýnn, ráðhollur og kurteis, en gat
verið stríðinn og kaldhæðinn, án þess
að vera meiðandi. Helgi var hægur í
hreyfingum en kvikur í hugsun og
fljótur til svars. Hann var ávallt yf-
irvegaður en samt var stutt í gam-
ansemi og léttleika. Lipurð hans var
einstök jafnt við skyldmenni, vini
sem og viðskiptavini og hafði hann
jafnan gaman af að koma mönnum á
óvart á jákvæðan hátt. Hann gerði
oft góðlátlegt grín af sjálfum sér og
hafði gaman af að því að gleðja aðra
og börn sérstaklega – „ég er stærsti,
feitasti, sterkasti og besti frændi
þinn, hvað get ég gert fyrir þig?“
Sögumaður var hann góður og ætl-
um við að minnast hans með nokkr-
um frásögnum.
Helgi var alnafni afa okkar Helga
Ingvarssonar yfirlæknis á Vífilsstöð-
um. Sú regla var í fjölskyldu okkar
að á sunnudögum svo og á helstu há-
tíðisdögum hittist stórfjölskyldan
hjá afa og ömmu á Vífilsstöðum.
Ekki ósjaldan voru þarna um og yfir
30 manns, skyldmenni, vinir og oft
fyrrum sjúklingar afa. Það var því oft
glatt á hjalla heima á Vífilsstöðum,
enda heimilisandinn sá að maður
væri manns gaman. Venjulega voru
fjörugar umræður í bland við leiki,
gönguferðir og eftirmiðdagskaffi í
Heiðmörk og árlega fór afi í göngu-
ferð frá Vífilstöðum að Stranda-
kirkju. Við barnabörnin gistum oft
hjá afa og ömmu á Vífilsstöðum, leik-
svæðið var stórt eða allt Vífilsstaða-
svæðið, túnin, skógurinn, krokket-
völlurinn, fjósið og hlaðan stóra svo
ekki sé minnst á Vífilsstaðavatnið.
Þar var bryggja og tveir seglbátar
sem sjúklingar höfðu byggt í smíða-
stofu hælisins, forlátasmíð. Afi hafði
alla jafna net í vatninu og var þess
vitjað kvölds og morgna. Einnig tók
Helgi frændi fljótlega upp á því að
veiða á stöng og veiddi oft vel. Við
krakkarnir máttum líka fara út á
hæli, en reglur afa voru afar skýrar:
Við áttum að vera kurteis og tillitsöm
og háreysti í námunda við hælið var
bönnuð á hvíldartíma sjúklinga.
Djúp vinátta var með afa og Helga,
enda gisti hann á Vífilstöðum flestar
helgar og starfaði þar nokkur sumur
við garðyrkju. Hann fylgdi afa gjarn-
an í ferðalögum og var með honum í
nokkrum ferðum starfsmanna og
sjúklinga á Vífilstöðum. Ætti Helgi
þess kost vitjaði hann netsins í Víf-
ilstaðavatninu með afa. Helgi fékk
frá afa það hlutverk gagnvart hinum
börnunum að gæta þess að reglum
væri fylgt. Hann mátti fara með okk-
ur hin börnin í fjósið, hlöðuna, báts-
ferðir á vatninu og að vitja netsins.
Helgi var leiðtogi okkar og virtist
þekkja flesta starfsmenn og sjúk-
linga. Á kvöldin fór hann gjarna út á
hæli til að tefla og spila við sjúklinga
eða horfa á kvikmyndir eða sjónvarp,
hægt var að horfa á kanasjónvarpið
þar.
Góður keppnisandi ríkti heima á
Vífilstöðum jafnt í líkamlegum sem
andlegum íþróttum, en tekist var á í
góðu.
Helgi starfaði lengst af við bílafyr-
HELGI
INGVARSSON
irtæki fjölskyldunnar. Hann hafði
gaman af að keyra góða bíla og var
einstakur ökumaður. Hann var vel
lesinn um kosti og galla bíla og ekki
bara þeirra sem Ingvar Helgason
hafði umboð fyrir. Þótt ótrúlegt sé
voru bílar honum ekki áhugamál og
sjaldan ræddi hann þá að fyrra
bragði. Helgi sagði um fyrirtæki föð-
ur síns, Ingvars Helgasonar, þegar
það var í sem mestum blóma: „Við
sem fyrirtæki erum kannski stór á ís-
lenska vísu, en í reynd erum við bara
bílasalinn á horninu. Við verðum að
vera aðgengileg og vilja þekkja við-
skiptavininn og óskir hans, við þurf-
um líka að hafa að markmiði að veita
góða, skjóta og sanngjarna þjónustu.
Ef þetta gleymist er voðinn vís.“
Helgi var náttúruunnandi og hafði
gaman af dýrum, einkum fuglum og
fiskum. Hann gerði sér far um að
skilja hver væri drifkrafturinn á bak-
við hegðun þeirra og ferðir. Hann
var veiðimaður góður og kættist ef
hann var kallaður Helgi veiðimaður.
Helga afa þótti bleikjan í Vífilsstaða-
vatninu lostæti, en urriðann sagði
hann kattamat. Eitt haustið þegar
Helgi var unglingur vaktaði hann lít-
inn læk, sem rennur út í Vífilsstaða-
vatnið. Í októberlok hafði urriðinn
gengið upp í lækinn til hrygningar.
Lækurinn var girtur af með neti,
nokkur hundruð urriðar veiddir,
mikil veisla fyrir ketti á Vífilsstöðum
og víðar. Bleikjustofninn í vatninu
styrktist verulega eftir þetta. Helgi
vildi gera lax- og silungsveiði að fjöl-
skylduíþrótt. Hann hefur haft á leigu
veiðiréttindi í Laxá á Refasveit um
árabil, í seinni tíð með okkur bræðr-
um ásamt Ingvari bróður sínum. Af-
ar góð og ánægjuleg samvinna hefur
verið við heimamenn, einkum for-
menn veiðifélagsins, þá Árna á
Sölvabakka, sem féll frá sviplega í
fyrra, og síðan Magnús á Syðra Hóli.
Áhersla lögð á fagurt umhverfi og
veiði fyrir fjölskylduna.
Eftir að Helgi veiktist þá talaði
hann um að ekki yrði hann langlífur
og við ræddum tilgang lífsins. Helgi
sagði að í sínum augum væri höfuð-
tilgangur að vera hamingjusamur og
í því sambandi mikilvægt að láta gott
af sér leiða.
Það var gott að eiga þig að sem
hauk í horni og við munum sakna
samverustundanna, en eins og höf-
uðskáldið sagði: „En eg veit, að lát-
inn lifir, það er huggun harmi gegn“.
Við sendum að lokum samúðar-
kveðjur til hans nánustu, Sigríðar
Gylfadóttur eiginkonu, Sigríðar Guð-
mundsdóttur móður, Ingvars Júl-
íusar sonar, uppeldisbarna, tengda-
barna, barnabarna, systkina og
annarra ástvina og biðjum þann sem
öllu ræður að varðveita Helga Ingv-
arsson, frænda okkar og fóstbróður.
Helgi, Stefán og Grétar
Már Sigurðssynir.
Kæri vinur. Nú nýtur þín ekki
lengur við. Mikið er það sárt. Og
hver á nú að kenna manni alla spila-
klækina?
Okkar kynni voru ekki löng en mér
finnst eins og ég hafi þekkt þig alla
tíð. Fyrir 8 eða 9 árum sá ég þig
fyrst. Á Ekru heima hjá Ingvari. Til
stóð að spila. Ég var búinn að telja
mér trú um að nú kæmi einhver stór-
bokkinn sem líklega liti stórt á sig.
Það hlyti að eiga við stórbílasalann
Helga Ingvarsson. En það var nú
aldeilis ekki. Fljótt kom í ljós hvaða
mann þú hafðir að geyma. Ef ég væri
spurður hvað orðið góður þýddi
mundi ég segja „eins og hann Helgi
Ingvars var“. Göfugmenni sem aldr-
ei skipti skapi en var stundum góð-
látlega stríðinn. Það var nú helst við
spilaborðið þegar einhver undarleg
sögn kom frá þér inn á milli þegar
samningur var að nást. Allt fór á
versta veg og þið bræður toppuðuð
spilið. Svo lærðum við á þig með tím-
anum og stundum mistókst að plata
okkur hina. Þá kom „Sorry makker,
geri þetta ekki aftur“.
Þetta voru yndislegar stundir.
Snilli þín í spilamennskunni var
áberandi og fór ekki á milli mála að
þú kunnir ýmislegt fyrir þér. Kennd-
ir manni margt. Þú komst ýmsu á,
eins og að leggja peninga í ferðasjóð,
að bjóða öllum klúbbnum með mök-
um í villibráð sem þú hafðir sjálfur
veitt. Þú kenndir okkur að borða
sushi.
Síðastliðin misseri fór sjúkdómur-
inn að segja meira til sín og það var
greinilegt að þú naust þess ekki eins
og áður að eiga góðar stundir. Ég er
viss um að þér leið oft illa, en aldrei
heyrðist kvörtunarorð. Þú vildir
frekar láta okkur heyra þinn sér-
staka hlátur, klóra þér í hnakkanum
og spila svo út eitruðu spili.
Kæri vinur, ég vil fá að þakka þér
fyrir stundirnar sem ég upplifði með
þér. Þær voru einstakar enda fá-
dæma þægilegt að umgangast þig.
Þráðurinn til þín er lengri þessa
stundina en einhvern tíma styttist í
honum aftur.
Elsku Sigga og fjölskylda, kæri
Ingvar og fjölskylda, Ingvar sonur
og allir ættingjar, ég og Lóa vottum
ykkur öllum okkar dýpstu samúð.
Megi Guð vera með ykkur öllum.
Konráð Konráðsson.
Helgi Ingvarsson hafði stærsta
faðm sem ég hef kynnst. Faðm sem
rúmaði alla, ekki bara fjölskyldu og
vini heldur líka þá sem minna máttu
sín í samfélaginu.
Við Helgi tengdumst fjölskyldu-
böndum þegar Bjarni sonur minn
kom inn í fjölskyldu hans fyrir 11 ár-
um. Frá fyrsta degi urðu þeir mjög
nánir og Bjarni gat leitað til Helga
sem föður. Á erfiðleikatímum þegar
stundum var erfitt að segja hlutina
eins og þeir voru, átti Helgi það eyra
sem alltaf var hægt að treysta að
hlustaði og hann réði heilt. Hann var
heill í öllum sínum gjörðum, ótrúleg-
ur mannvinur. Ef dimmdi yfir hjá
einhverjum var öruggt að það lýsti
aftur í návist Helga.
Þótt fjölskyldubönd okkar Helga
hafi aðeins varað í ellefu ár, þekkt-
umst við mun lengur því hann var
vinur eiginmanns míns heitins, Sig-
urðar Friðrikssonar. Það kom okkur
Helga því þægilega á óvart þegar
leiðir barnanna okkar lágu saman.
Frá þeim tíma hef ég átt ógleyman-
legar samverustundir með þeim
hjónum, Sigríði og Helga, jafnt utan
lands sem innan þar sem við nutum
samvista með börnum okkar og
barnabörnunum.
Helgi var sérstakur fjölskyldu-
maður og einstakt hvernig hann
hafði alltaf tíma til að sinna barna-
börnunum sínum, jafnt með um-
hyggjusemi og kátínu. Það lýsir
kannski Helga einmitt hver viðbrögð
yngsta barnabarnsins míns voru
þegar honum var tilkynnt um lát afa
síns: ,,En hver á þá að djóka í okkur
fyrst afi er dáinn?“ Það er gott að
geta kvatt með minningum sem
þessum hjá afkomendum.
Ótal sinnum fylltu rauðar rósir af
hæstu gerð heimili mitt, enda lét
Helgi sér ekki nægja að kaupa slíkar
handa Siggu sinni heldur líka handa
tengdamömmu Maríu. Svona rósum
lét hann líka senda eftir síðasta dag-
inn sem hann var í meðferð á Land-
spítalanum, til að færa starfsfólki
deildarinnar. Ekki til að kveðja það,
heldur aðeins til að gleðja. Daginn
eftir hafði hann kvatt þetta líf.
Helga Ingvarssyni þakka ég langa
og góða samfylgd, fyrir allar góðu
minningarnar sem hann skilur eftir
sig hjá mér, en mest fyrir það hversu
vel hann reyndist Bjarna syni mínum
og barnabörnunum.
Valborg Bjarnadóttir.
„Sæll vertu vinur, ævinlega“, voru
upphafsorð félaga míns og vinar
Helga Ingvarssonar þegar við hitt-
umst eða ræddum málin.
Hægt er að fullyrða að þær sam-
verustundir hafi haft góð áhrif á sál-
artetrið enda málin tekin til skoðun-
ar og rædd til hlítar.
Þessar lærdómsríku, góðu og oft
sársaukafullu stundir eru nú að baki
og eftir situr minningin ein, um góð-
an dreng, sem var vinur vina sinna
og náði sú vinátta til allra í minni
stórfjölskyldu enda vorum við í dag-
legum samvistum á árum áður.
Upphafsár vináttu okkar má rekja
til námsáranna að Laugarvatni en
þar var námið sótt af hörku í lífsins
skóla, auk þeirra fræða sem okkur
var ætlað að nema af skólastjórnend-
um á þeim góða stað. Við vorum nær
allan tímann herbergisfélagar enda
bekkjarbræður og útskrifuðumst á
sama ári.
Við tóku aðrir tímar, annað um-
hverfi og vissulega nýir félagar en sú
vinátta sem varð til á þessum árum
og er aðalsmerki þeirra sem útskrif-
ast frá Laugarvatni, hélst allt til
lokastundar sem Helga var ætluð
hérna megin.
Þegar Halldóru þína þú hittir
það var lán þitt og hamingjuspor
í gegnum sælu í sorgina glittir
geymd sem hugljúfust minning um vor.
Að loknum skúrum kom sólin þó aftur
skín í fegurð og heiðloftið blátt.
Með Sigríði kom sumar og kraftur,
saman tilveru nutuð í sátt.
Hægt væri að rifja upp góðar
stundir er við áttum hjónin með
Helga og Halldóru, sem var fyrri
kona hans, m.a. við veiðar í Andakíln-
um eða á heimili þeirra á Seltjarn-
arnesi en Helgi missti Halldóru langt
fyrir aldur fram og við tóku sárs-
aukafullir tímar hjá Helga, mikið
vinnuálag og mikil uppbygging í fyr-
irtæki Ingvars Helgasonar sem
Helgi átti stóran þátt í að byggja upp
með stórfjölskyldu sinni.
Helgi fann síðar tryggan förunaut,
hana Sigríði og áttum við einnig
margar góðar stundir með þeim
hjónum við veiðar í ám og vötnum
m.a. á Valshamri eða í frábærum
menningarferðum um Reykjavík eða
París, svo eitthvað sé nefnt. Góðar
stundir í sumarhúsi á Spáni eru einn-
ig ofarlega í huga okkar hjóna.
Synir mínir minnast samveru-
stunda með Helga með þakklæti,
enda var hann einstakur í nærveru
barna og unglinga og kom það vel í
ljós þegar hann tók að sér föðurhlut-
verk sinna lífsförunauta.
Helgi eignaðist son sinn Ingvar
fljótlega eftir menntaskólaár sín á
Laugarvatni. Ingvar sér í dag á bak
föður en áður hefur hann kvatt móð-
ur sína og hálfbróður. Átökin eru því
mikil hjá syni Helga og er það von
okkar að hann nái að vinna úr sorg
sinni í þeim anda sem faðir hans
hefði viljað.
Ófáa bíla hef ég átt eða ekið sem
tengdust eða komu frá Helga. Eitt
símtal varð að kaupum á nýjum bíl
sem ég hafði ekki ráðgert þá stund-
ina en varð að góðri minningu um
frábær samskipti sem ég mun búa að
alla tíð.
Oft við brosum er lítum til baka
býsna margt er sem segjum ei frá.
Þó af ýmsu er þar til að taka
sem trauðlega fer okkur frá.
Ætíð glatt var á hjallanum hjá þér
hljóðlát kímnin og létt var þín lund
og það létti á lífinu hjá mér
löngum með þér að eiga hér stund.
Hér kveðjumst við, kæri vinur.
Það er von mín og trúa að ég muni
vakna þín megin í fyllingu tímans við
þessi notalegu orð sem þú viðhafðir
hérna megin; „Sæll vertu, vinur, æv-
inlega.“
Við þökkum góðar samverustund-
ir og biðjum góðan guð að halda
verndarhendi yfir fjölskyldu Helga
vinar okkar Ingvarssonar.
Sigurður Valur Ásbjarnarson
og Hulda Stefánsdóttir.
Helgi minn, mig langar að minnast
þín með nokkrum orðum.
Þar sem við vorum góðir vinir þeg-
ar ég var ung, og oft hjálpaðir þú mér
þegar ég þurfti á því að halda. Við
kynntumst þegar þú komst inn í fjöl-
skylduna og þú varst unnusti systur
minnar Sesselju (Daddý) og eignað-
ist með henni einkasoninn yndislega
Ingvar Júlíus. Svo skildu leiðir ykkar
og þú kynntist Dóru sem átti eina
dóttur og þú gerðist fósturfaðir
hennar og Ingvar kallar hana alltaf
Siggu systur þar sem Ingvar bjó hjá
þér eftir 5 ára aldur og gekk í Ísaks-
skóla. Í dag á Ingvar góða konu og
þrjú yndisleg börn. Það eru Helgi,
Sesselja Júlía og Kári Jökull.
Elsku Ingvar og Begga, sem betur
fer eigið þið mjög góða vini að sem
styðja ykkur í þessari sorg sem þið
hafið þurft að ganga í gegnum síðast-
liðin átta ár þar sem þú ert búinn að
missa bróður þinn og móður og nú
föður ykkar. Allý og Ingi hafa staðið
eins og klettar við ykkar hlið og vil ég
þakka þeim fyrir.
Elsku Sigríður mín, ég vil þakka
þér fyrir þinn hlýhug þegar ég kom
inn á heildsölu til þín.
Ég vil votta þér og systkinum hans
og öðrum aðstandendum mína inni-
legustu samúð.
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
(Reinhold Niebuhr.)
Elsku Ingvar, Begga, Helgi, Sess-
elja Júlía og Kári Jökull. Megi ykkar
algóði guð styðja ykkur og styrkja í
þessari miklu sorg.
Með kveðju,
Anna frænka.
Þakklæti er það fyrsta sem kemur
upp í hugann þegar við setjumst nið-
ur og minnumst Helga vinar okkar
Ingvarssonar, þakklæti fyrir að hafa
fengið að njóta þeirra forréttinda að
kynnast og fá að eiga að vini þennan
einstaka mann.
Leiðir okkar Helga lágu fyrst
saman þegar ég kom til starfa í fyr-
irtæki föður hans við Sogaveginn
fyrir þremur áratugum. Eðlilega lað-
aðist maður strax að þessum mikla
manni því að hann hafði einstaka
nærveru. Þegar hugsað er til þeirra
eiginleika sem helst einkenndu
Helga kemur svo margt upp í hug-
ann. Hann var hjartahlýr með ein-
dæmum, góður vinur vina sinna og
einstakur afi. Það var ekki oft sem
maður sá Helga skipta skapi og þó
svo að við værum ekki alltaf sammála
gaf hann sér ævinlega tíma til að
hlusta.
Þær voru ófáar samverustundirn-
ar og þá helst í útlandaferðum sem
við fórum saman til að semja við er-
lenda birgja og var Helgi slyngur
samningamaður. Hann tamdi sér að
vingast við viðsemjendur sína og átti
í þeirra hópi marga góða vini. Við
hjónin fórum einnig í ófáar skemmti-
ferðir með Helga og Siggu og standa
þar helst upp úr ferðir til Kaup-
mannahafnar, Amsterdam og ævin-
týraleg, 10 daga ferð um 9 Evrópu-
lönd þar sem Helgi var í essinu sína
undir stýri en hann treysti fáum bet-
ur en sjálfum sér í því hlutverki.
Mest hafa þau misst Sigga, Ingv-
ar, Sigríður, barnabörnin og systkini
hans og vottum við hjónin þeim öll-
um okkar dýpstu samúð.
Megi góður Guð geyma Helga og
hjálpa ástvinum hans að ylja sér við
góðar minningar.
Jakob og Sigrún.
Lífsgleðin lá svo létt við honum og
áran hans var svo öflug í umhverfinu.
Það er grábölvað að missa hann fyrir
aldur fram, þennan öðlingsdreng
sem þekkti vandamál að því einu að
leysa þau.
Helgi Ingvarsson átti stað í hjarta
allra sem kynntust honum vegna
þess að viðmót hans var slíkt, fullt af
hlýju og glettni, hispursleysi og drif-
krafti. Hann var einn af þessum
geislandi persónuleikum og slíkir
töfrar verða ekki keyptir. Slíkir
töfrar eru meðfæddir og ræktaðir.
Það brást aldrei að það var
skemmtilegt að hitta Helga því sjálf-
ur var hann á sinn hátt hátíð. Hann
var kaupmaður og lífskúnstner af lífi
og sál og sigldi ekki alltaf hefðbundn-
ar leiðir í þeim efnum.
Ég held að hann hafi stundum not-
ið áhættunnar, en er líka jafn sann-
færður um að hann vissi nákvæm-
lega hvað hann var að gera og hvað
hann ætlaði sér þótt beitt væri upp í
á óhefðbundinn hátt með jafn snörp-
um hætti og þegar léttast leikur í
misvindi.
Helgi Ingvarsson var traustur og
stórhuga eins og ætt hans öll, ein-
stakt ljúfmenni og ötull kaupsýslu-
maður sem söknuður er að, vinur og
félagi og mikill fjölskyldumaður.
Megi góður Guð vernda vandamenn
og vini og gefa þeim styrk á erfiðum
tímamótum. Það er mikill styrkur í
því að eiga góðar minningar um
mann lífsgleðinnar.
Árni Johnsen.