Morgunblaðið - 21.07.2005, Qupperneq 36

Morgunblaðið - 21.07.2005, Qupperneq 36
36 FIMMTUDAGUR 21. JÚLÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, SIGRÍÐUR G. ANTONSDÓTTIR, Sogavegi 20, Reykjavík, verður jarðsungin frá Bústaðakirkju föstudaginn 22. júlí kl. 13.00. Birgir Guðmundsson, Ásdís Guðnadóttir, Bragi Guðmundsson, Margrét Gísladóttir, Anton Örn Guðmundsson, Guðný Björgvinsdóttir, Sigurjón Guðmundsson, Kristín Gunnarsdóttir, Stefán Guðmundsson, Stefanía Muller, barnabörn og barnabarnabörn. Þökkum auðsýnda samúð og vinarþel vegna andláts ÁSTU EINARSDÓTTUR frá Reykjadal, Uppsölum, Vestmannaeyjum. Dætur og tengdasynir. Við þökkum innilega öllum þeim er sýndu okkur samúð og stuðning við andlát og útför AÐALBJARGAR SIGURÐARDÓTTUR. Alveg sérstaklega þökkum við starfsfólki líknar- deildar Landspítalans Landakoti og á deild B7 fyrir frábæra umönnun í veikindum hennar. Valgeir Sigurðsson, Sigríður E. Sveinsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Eygló, Ingibjörg, Erla Bil og Magnús Bjarnarbörn. Sá vinur, sem ég hefi bestan átt og tryggastan á ævileið, er nú horf- inn yfir mærin miklu, sem skilja tímann og eilífðina að. Sr. Ragnar Fjalar Lárusson er genginn á Guðs fund. Við vorum því sem næst jafnaldrar, fæddir á sama árinu, og systrasynir. Mér er kunnugt um að mæður okkar, sem voru mjög nánar og samrýndar, ólu frá upphafi þá von í brjósti, að frumburðir þeirra mættu verða samstíga í lífinu, í vináttu og starfi. Þeim varð að ósk sinni. Frá öndverðu var vinátta okkar frænd- anna svo einlæg, sterk og traust, að þar bar aldrei nokkurn minnsta skugga á, og þegar þar að kom, völdum við okkur sama ævistarfið. Sólskinsstundir æskudaganna norður í Skagafirði voru margar. En bjartast er yfir þeim, sem við Ragnar áttum saman. Þá var alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast. Áhugamálin voru mörg, en það gerðist ótrúlega oft, að þau féllu í sama farveg. Þótt talsvert langt væri lengst af milli heimila okkar á þess tíma mælikvarða, þegar oft- ast var farið fótgangandi og ekki um neitt símasamband að ræða. RAGNAR FJALAR LÁRUSSON ✝ Séra RagnarFjalar Lárusson, fyrrverandi prófast- ur, fæddist í Sól- heimum í Skagafirði 15. júní 1927. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 26. júní síðastliðinn og var útför hans gerð frá Hallgrímskirkju 5. júlí. Við byrjuðum fljót- lega að skrifast á eft- ir að við fórum að draga til stafs. Og þegar við hittumst, eins oft og mögulegt var, þá máttum við varla vera að því að sofa, svo mikið þurft- um við að ræða sam- eiginleg áhugamál og bregða okkur í þau hlutverk, sem stóðu huganum næst um þær mundir. Einu sinni voru það ís- lensku fornkapparnir. Ragnar hélt mest upp á Gunnar á Hlíðarenda, en Skarphéðinn Njálsson var minn maður. Við vígbjuggumst að þeirra hætti, með atgeir og öxina Rímmugýgi, og reyndumst harla sigursælir gegn ímynduðum óvin- um, sem ýmist voru úr snjó eða öðrum jarðneskum efnum, eftir því hvernig á árstíðum stóð. Svo voru það kóngarnir úr þrjátíu ára stríðinu. Þar átti Gústaf Adolf Svíakonungur heiðurssæti í huga Ragnars, en ég mat Kristján 4. Danakonung allra mest. Ekki vor- um við alltaf sammála um ágæti þessara tignarherra, en þar stóð hvor um sig fast á sínu og hélt sín- um hlut til streitu. Enn má nefna grísku ólympsguðina tólf, sem á tímabili skipuðu mjög háan sess á áhugasviði okkar. Goðafræði Stolls með myndum, þýdd af Steingrími Thorsteinssyni, varð okkur hálfgerð biblía í þeim fræð- um. Við vorum svo heppnir, að sú merka bók fannst í hinu fjölskrúð- uga bókasafni móðurafa okkar, sr. Björns Jónssonar á Miklabæ. Mörg fleiri áhugamál fundu sér farveg í hugum okkar frændanna, sem hér yrði alltof langt upp að telja. En þess má minnast með gleðiblandinni þökk, að virkir og góðir þátttakendur í æskulífi okk- ar og æskugleði voru bróðir Ragn- ars, Stefán Lárusson, síðar sókn- arprestur í Odda á Rangárvöllum og frænkan okkar fallega og góða, Ragnheiður Jónsdóttir, dóttir Jóns Björnssonar móðurbróður okkar í Sólheimum. Hún og Ragn- ar ólust upp saman og voru nánast sem systkini í vináttu og kærleika. Oft var líka elskulegur vinur og nágranni, Ingimar Þorkelsson frá Miðsitju, með í hópnum. Þegar ég í minningunni horfi á þennan æskuglaða hóp, þá finnst mér sem hann sé sveipaður sólarljóma. En ljúfust birtan ljómar þó úr augum Ragnars, hins ljóshærða, svip- heiða og svipbjarta vinar míns. Um hann sagði eitt sinn gáfaður bóndi í Blönduhlíð, er hann horfði á eftir honum: „Þarna fer gæfu- maður.“ Skólaárin okkar liðu að mestu leyti sameiginlega að öðru leyti en því, að Ragnar fór beint í Mennta- skólann á Akureyri en ég las utan skóla fyrstu árin. Frá skólaárun- um er margs að minnast og margt að þakka, þótt það verði að mestu látið liggja í þagnargildi. En þó skal því ekki gleymt, hve Bjarm- anssystkinin og vinátta þeirra var okkur mikils virði, og hve háan sess þau hjónin, Sveinn og Guð- björg Bjarman, skipuðu í hugum okkar. En Guðbjörg var móður- systir okkar. Eftir að Ragnar hóf nám í Há- skóla Íslands var stefnan mörkuð. Hann hlýddi köllun trúar sinnar og stundaði guðfræðinámið af lif- andi alvöru. Svo var hann líka ást- fanginn og átti yndislega heitmey sér við hlið, Herdísi Helgadóttur, hjúkrunarfræðing frá Akureyri. Framtíðin var brosandi björt og heillandi fögur. Ragnar hóf prestsstarf í Hofsósprestakalli í Skagafirði. Þaðan lá leiðin til Siglufjarðar og síðustu þrjátíu starfsárin var hann sóknarprestur við Hallgríms- kirkju í Reykjavík. Alls staðar var hann virkur og lifandi í starfi, vin- sæll, virtur og að verðleikum mik- ils metinn hvar sem hann kom við sögu. Þjónustu hans á kirkjuleg- um vettvangi hefir þegar verið lýst svo vel af öðrum að þar er engu við að bæta. Hann „gekk heill að hollu verki“, eins og skáld- ið segir, og uppskar í samræmi við það. Hann lifði og starfaði í anda hinna helgu orða sálmaskáldsins er segir: „Treyst Drottni og gjör gott.“ Og sinn skerf lagði hann fram til þess að búa fjölskyldu sinni, bæði eiginkonu og börnum, traust og hamingjuríkt heimili með því að lifa í anda hinna forn- helgu orða: „Í grandvarleik hjart- ans vil ég ganga um í húsi mínu.“ Það gerði hann flestum fremur. Um söfnunaráhuga sr. Ragnars hefir mikið verið rætt. Bókasafn hans er einstætt. Tel ég víst, að enginn Íslendingur hafi nokkru sinni eignast jafn heildstætt safn af bókum prentuðum á Hólum og í Skálholti og hann. Það safn á hvergi heima nema á Hólum að sr. Ragnari gengnum. Leyfi ég mér að skora á þá, sem þar eiga hlut að máli, að sjá til þess að svo verði. Margar stundir áttum við, vin- irnir, saman við hugleiðingar um bækur og bókfræðileg efni. Að undanskildum kirkju- og kristni- dómsmálum, sem alltaf áttu vissu- lega sterkan hljómgrunn í hjört- um okkar, voru bækurnar síðasta hugðarefnið, sem heillaði okkur báða sameiginlega. Þar var Hall- grímur, með sína heilögu passíu- sálma, efstur á blaði. Við brostum yfir innihaldi vísunnar sem Steinn biskup Jónsson lét eitt sinn prenta í formála upprisusálma sinna: Söngvastrengi eg sá eins að öllu vel forgyllta, Hallgríms prests og herra Steins í hörpu Guðs samstillta. Við vorum sammála Jóni Helga- syni biskupi um, að sá samjöfnuður nær vitanlega engri átt. Hins vegar lutum við í djúpri lotningu versi Hallgríms, sem sungið var við útför sr. Ragnars: Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má. Guðs míns ástar birtu bjarta bæði fæ ég að reyna og sjá. Hryggðarmyrkrið sorgar svarta sálu minni hverfur þá. Í síðasta sinn sem ég sá minn kæra vin, sr. Ragnar, í lifanda lífi var á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Þá var ljóst hvert stefndi. Rænan var horfin og hann kominn hálfa leið heim. „Vinur númer eitt“, voru síðustu orðin sem hann sagði við mig. Þar var af heil- indum mælt af hjartans innsta grunni. Við hjónin vorum að leggja af stað í langferð til Vesturheims 22. júní sl. Þegar klukkan hér heima var 11 hin 26. júní sl. þá vaknaði ég upp í annarri heimsálfu við að ég heyrði þýða rödd sem kallaði: „Hann Ragnar er dáinn!“ Máski var það rödd Jensínu, móður hans? En svona voru þau sterk og náin, kærleiksböndin, sem bundu okkur frændurna saman. Það gildir hér, sem skáldið segir, að: Anda, sem unnast fær aldregi eilífð aðskilið. Einlægar samúðarkveðjur send- um við hjónin Herdísi, systkinunum öllum og fjölskyldum þeirra og biðjum þess, að „Drottins ástar birtan bjarta“ megi ávallt verða fegursti og sannasti veruleikinn í lífi þeirra. Björn Jónsson. Sólin er hæst á lofti, sumarið á næstu grösum þegar Lilla mín vinkona og veiðifélagi kveður þetta jarðneska líf. Ég er þakklát fyrir öll árin sem við áttum saman. All- ar minningarnar úr veiðiferðunum, búðarápinu, kaffihúsaferðunum og utanlandsferðunum eru ógleyman- legar. Það var að vori sem Lilla manaði mig í að koma með sér í Elliðavatn og prófa að veiða. Ég fjárfesti í stöng og því sem þurfti. Allt sumarið fórum við margar ferðir í vatnið, en komum með öngulinn í rassinum heim. Við hitt- um marga góða veiðimenn sem af mikilli þolinmæði kenndu okkur þessa list að fá fisk. Eftir þetta sumar fórum við um Suður- og Vesturland í veiði. Nutum þess að vera úti við fallegt vatn og hlusta á fuglana og dást að landslaginu. Oft komum við fisklausar heim, þá glöddumst við yfir að þurfa ekki að fara í aðgerð þegar heim kom. Við skemmtum okkur vel og gerð- um grín hvor að annarri og öllum mistökunum sem við gerðum þann daginn. Hlíðarvatn á Snæfellsnesi var í sérstöku uppáhaldi hjá okk- ur. Þar er vík sem við köllum Lilluvík. Þar sat Lilla með stöng- ina sína og veiddi oft vel. Á kom- andi árum mun ég kasta út í Lillu- vík og reyna að fá nokkra fyrir Lillu. Ég sakna þess mikið að fá ekki lengur símhringingu. Lilla spyr hvort ekki sé veiðiveður í dag? Ég segi: „Jú, við skulum fara eitthvað eftir klukkutíma, bara JÓRUNN AXELSDÓTTIR ✝ Jórunn Axels-dóttir fæddist á Hjalteyri hinn 14. apríl 1936. Hún lést 21. júní síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Seljakirkju 29. júní. eitthvað út í busk- ann.“ Annað sameig- inlegt áhugamál hjá okkur var handa- vinna og fór góður tími í prjónaskap og bróderingar, allt sem við ætluðum að gera í þeim málum þegar hægðist um. Utanlandsferðirnar okkar voru alveg sér á parti, endalaus gleði og kaupæði, Lilla naut þess að fá sér falleg föt og var mjög smekkleg í þeim efnum. Hún var mjög mikill listamaður sem sést vel í málverkunum sem hún málaði undanfarin ár. Á ferðum okkar um landið var myndavélin höfð með og „fótó stopp“ reglulega. Lilla var búin að sjá fjall eða eitthvað sem hún vildi mála eftir. Lilla mín skilur eftir sig stórt skarð í lífi okkar hjónanna sem hefur verið svo náið til margra ára. Við huggum okkur við að Lilla sé laus við allar þrautir og þján- ingar sem gerðu henni lífið erfitt. Við Bragi þökkum fyrir öll árin með þér, kæra vinkona, og vottum börnum og fjölskyldum dýpstu samúð okkar. Er stend ég ein við vatn með veiðistöng og veit að þú er ekki hjá mér lengur. Þó að til þín leiðin sé nú löng þá liggur milli okkar grannur strengur. Það er svo margt sem minnir mig á þig, minningar sem hugur okkar geymir. Þitt skarð er stórt, þó vakir, verndar mig vináttan sem hugur aldrei gleymir. Vináttan og gleðin glöddu lund við gleymdum öllum lífsins vandamálum. Með kaffibolla í hönd var kyrrlát vinnustund að kvöldi til, með prjónum, garni og nálum. Þú varst alltaf gleðigjafi minn, við gengum, veiddum, ferðuðumst og hlógum, í búðarrápi og ferðalögum leyndist lífsgjafinn svo leyndist margt á vatnsbökkum og móum. Og þó að þú sért horfin, hetjan mín, við höldum eftir minninganna safni. Við biðjum engla Guðs að gæta þín. Góða ferð til hans í Jesú nafni. Sjöfn. Morgunblaðið birtir minningargrein- ar alla útgáfudagana. Skil Minningargreinar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is (smellt á reitinn Morgunblaðið í fliparöndinni – þá birtist valkostur- inn „Senda inn minningar/afmæli“ ásamt frekari upplýsingum). Skilafrestur Ef birta á minningar- grein á útfarardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Ef útför hefur farið fram eða grein berst ekki innan hins tiltekna skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber- ist áður en skilafrestur rennur út. Lengd Minningargreinar séu ekki lengri en 2.000 slög (stafir með bil- um - mælt í Tools/Word Count). Ekki er unnt að senda lengri grein. Hægt er að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur, og votta þeim sem kvaddur er virðingu sína án þess að það sé gert með langri grein. Ekki er unnt að tengja viðhengi við síð- una. Myndir Ef mynd hefur birst í tilkynn- ingu er hún sjálfkrafa notuð með minningargrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd er ráð- legt að senda hana á myndamóttöku: pix@mbl.is og láta umsjónarmenn minningargreina vita. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.