Fréttablaðið - 11.01.2003, Blaðsíða 18

Fréttablaðið - 11.01.2003, Blaðsíða 18
Ef fólk vissi hvernig þetta er íraun og veru yrði stríðið stöðvað á morgun. En auðvitað veit fólk það ekki og má ekki vita það. Fréttaritarar skrifa ekki sannleikann og ritskoðun myndi ekki leyfa birtingu hans,“ sagði Lloyd George, forsætisráðherra Bretlands, við C. P. Scott, ritstjóra the Manchester Guardian, þegar fyrri heimsstyrjöldin með öllu sínu blóðbaði hafði staðið í þrjú ár. Þá áttu æskufylkingar Evrópu og Ameríku eftir að úthella blóði sínu á vígvöllunum í eitt ár enn áður en endir var bundinn á stríð- ið til að ljúka öllum stríðum, eins og það var svo ranglega nefnt. Það hefur stundum verið sagt að fyrsta fórnarlambið í hverjum átökum sé sannleikurinn. Hann megi sín oft lítils gegn stjórnvöld- um sem reyna að tryggja stuðning við hernaðinn, þjóðerniskennd sem blossar upp og ýmsa hags- muni sem miða að því að lýsa at- burðum í hagstæðu ljósi sem ekki fer alltaf saman við sannleikann. Á móti þessu eiga fjölmiðlarnir að standa leitandi sannleikans og flytjandi fréttir af atburðum eins og þeir gerðust. Því hefur þó ekki alltaf verið að fagna, hvort sem er vegna ritskoðunar yfirvalda, áherslu á æsifréttir og rómantík stríðsins eða öðrum ástæðum. Frá ævintýraljóma til rit- skoðunar Starf stríðsfréttaritarans hef- ur breyst mikið á þeirri einu og hálfu öld sem liðin er frá því The Times í London sendi William Howard Russell til Krímskagans til að fjalla um stríðið þar. Í þá daga var algengt að stríðsfrétta- ritarar væru fyrrum hermenn og þótti jafnvel ekki athugavert að þeir tækju að sér að stýra her- sveitum lands síns í orrustum og settust svo niður til að skrifa um þær. Þessi beina stríðsþátttaka þeirra datt reyndar fljótlega upp fyrir. Ævintýraljóminn var þó ekki fyrir bí. Þannig var það vinsælt meðal stríðsfréttaritara um alda- mótin 1900 að hernema heilu bæ- ina. Þegar 800 manna bandarísk hersveit hafði læðst varfærnis- lega upp að kúbversku þorpi í spænsk-ameríska stríðinu tók blaðamaðurinn Stephen Crane á móti hermönnum og sagði for- ingja þeirra: „Ég hertók þennan bæ fyrir morgunmat í gær,“ segir í magnaðri bók breska blaða- mannsins Philips Knightley um sögu stríðsfréttaritunar. Kannski engin þörf á fjölmennum her- sveitum þegar fjölmiðlarnir bjóða upp á svo framtakssama blaða- menn. Það er þó umdeilanlegt hversu vel hagsmunum lesenda var borgið. Fjölmiðlar æstu til stríðsins og lýstu því sem hinu mesta ævintýri en minntust minna á það sem aflaga fór. Sölu- tölur blaðanna jukust þó til muna. Á þessum tíma kunnu hermála- yfirvöld stríðsfréttariturum ekki alltaf miklar þakkir og reyndu oft að koma í veg fyrir að þeir gætu aflað frétta eða komið þeim frá sér. Það var hins vegar við upphaf fyrri heimsstyrjaldar sem nokk- urs konar járntjald féll yfir stríðs- fréttaritarana. Harkaleg ritskoð- un var tekin upp. Stríðsfréttarit- arar voru útilokaðir frá átaka- svæðum að mestu, fengu megnið af sínum upplýsingum frá her- málayfirvöldum og þurftu að leggja allar fréttir sínar undir dóm ritskoðenda áður en þær voru birtar. Upplýsingarnar frá hermálayfirvöldum voru ekki beysnar. Fyrrnefndur Knightley segir á einum stað að fréttastjórar hafi verið svo sveltir af fréttum á tímabili að þeir fögnuðu því sem stórfrétt þegar hermálayfirvöld sögðu hermenn hafa átt andvöku- nótt. Þá vissu þeir að eitthvað hefði verið á seyði, en ekki endi- lega hvað. Lesendur fengu engar fréttir af hryllingnum í skotgröfunum og aðstæðum hermanna sinna. Frétt- um af hryllingsverkum andstæð- inganna rigndi þó yfir þá en síðar kom í ljós að margar reyndust rangar eða færðar verulega í stíl- inn. Sumar þeirra áttu þó eftir að birtast aftur í ýmsum gervum í styrjöldum fram eftir allri öld- inni. Þeirra á meðal má nefna sög- una um þýsku hermennina sem ruddust inn á sjúkrahús og myrtu tugi eða hundruð ungabarna. Und- ir lok aldarinnar voru hermenn- irnir orðnir íraskir og fórnar- lömbin kúveisk. Rofar til um stund Víetnamstríðið birtist lesend- um og sjónvarpsáhorfendum í allt öðru ljósi en fyrri stríðsátök. Hryllingur stríðsins, dauði her- manna og þjáningar óbreyttra borgara réðust inn í stofu og eld- hús almennings í fréttatímum, blöðum og tímaritum með mynd- um af limlestu fólki og fréttum af stríðsglæpum, ekki aðeins and- stæðinganna heldur einnig eigin hermanna. Ástæðan var sú að bandaríski herinn tók með mýkri höndum á fjölmiðlum en tíðkast hafði und- anfarna áratugi. Herinn aðstoðaði fréttaritara við að komast á milli staða og veitti þeim ýmislega að- stoð í von um að fá jákvæða um- fjöllun. Þeir voru ekki sáttir við það sem þeir fengu í staðinn enda varð lítt heftur fréttaflutningur- inn til þess að almenningsálitið snerist gegn stríðinu. Þetta var nokkuð sem Bretar ákváðu að hætta ekki á þegar kom að því að vinna Falklandseyjar aftur úr höndum Argentínu- manna. Þeir höfðu lært af reynsl- unni. Yfirvöld ákváðu að engir fréttamenn fengju að fara með hernum á vettvang nema gegn því að gangast undir ritskoðun. Að auki voru valdir sérstaklega til fararinnar þeir fréttamenn sem þóttu líklegir til að fjalla um átök- in með þeim hætti að almenningur yrði fylgjandi herferðinni. Meðan á stríðinu stóð töfðu stjórnvöld birtingu mynda sem sýndu limlestingar og lík. Í staðinn urðu fjölmiðlar að sýna tölvuteikn- ingar sem áttu að sýna gang stríðs- ins en höfðu þann kost fyrir stjórn- völd að sýna ekkert blóð og engar þjáningar. Það, ásamt eindregnum stuðningi áhrifamikilla fjölmiðla, varð til þess að Bretar fylktu sér að baki stjórnvöldum í herförinni til að frelsa eyjarnar. Til marks um eindreginn stuðning sumra fjöl- miðla við stríðið má nefna eina frægustu fyrirsögn úr sögu breska blaðsins Sun. „Gotcha“ (náði þér) stóð stórum stöfum yfir mynd af flaki argentínsks orrustuskips eft- ir að það varð fyrir flugskeyti. Fyrirsögnin minnti meira á íþróttafrétt af stórsigri en atviki þar sem 1.800 sjóliðar voru látnir eða í lífshættu. Í seinni útgáfum blaðsins var svo búið að breyta fyrirsögninni sem fór fyrir brjóst- ið á mörgum. Árangurinn af því að takmarka fjölmiðlaumfjöllun var svo góður að aðrir fetuðu í fótspor Breta. Þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Grenada og Panama var frétta- mönnum haldið utan átakasvæða fyrstu um sinn. Einu fréttirnar frá þessum svæðum komu því frá hermálayfirvöldum. Tölvuleikur í beinni Fréttaflutningur frá Persaflóa- stríðinu 1991 tók að stórum hluta mið af þessum lærdómi stjórn- valda og herstjórnenda. Herinn takmarkaði fjölda þeirra frétta- manna sem fengu aðgang að átakasvæðum, valdi fréttamenn sem skyldu njóta aðstoðar við að komast á milli staða og reyndi eft- ir fremsta megni að stýra fjöl- miðlaumfjölluninni, löngum með góðum árangri. Fréttirnar voru að stórum hluta unnar úr mikilli fjar- lægð frá átökum og minntu löng- um á tölvuleik frekar en stríðsá- tök. Nokkrir fjölmiðlamenn reyndu að vinna sjálfstætt að fréttaöflun þó með misjöfnum árangri væri. Reynt var að takmarka athafnir þeirra eftir megni, þeir voru oft stöðvaðir af hermönnum, hand- teknir og sumum vísað úr landi. Þeir fjölmiðlamenn sem slógu helst í gegn meðan á Persaflóa- stríðinu stóð voru þó menn á borð við Peter Arnett sem fluttu fréttir frá Bagdad og sýndu fram á að loftárásirnar voru mannskæðari og hættulegri óbreyttum borgur- um en gefið hafði verið í skyn utan Íraks. Tvíburaturnarnir og breytt viðhorf Árásirnar á tvíburaturnana í New York og varnarmálaráðu- neytið í Washington höfðu gríðar- leg áhrif á fjölmiðlaumfjöllun eins og gefur að skilja og þjóðar- andinn breyttist. Þess sáust ein- nig skýr merki í verkum sjón- varpsframleiðenda og kvik- myndaiðnaðarins í Hollywood. Sýningu á óheppilegum myndum var frestað, eitt skýrasta dæmið er myndin The Quiet American sem leikarinn Michael Caine þurfti að berjast fyrir að yrði sýnd í kvikmyndahúsum til að hann ætti möguleika á ósk- arsverðlaunum. Myndin þótti óheppileg þar sem hún sýnir bandarísku leyniþjónustuna CIA í neikvæðu ljósi. Þorskar, hvalveiðar og íþróttir Íslendingar hafa ekki skipt sér mikið af hernaðarátökum hingað til, það er helst að þeir hafi farið í stríð um þorskinn. Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands, segir að sér sé ekki kunn- ugt um að þáttur íslenskra fjöl- miðla í umfjölluninni um átökin hafi verið könnuð. Þorskastríðin hafi þó orðið fyrir því að augu margra opnuðust fyrir hlut- drægni erlendra fjölmiðla. „Þessi heilaga kýr og stórmerka stofnun BBC, sem ég vil ekki gera lítið úr, var bullandi hlutdræg í frásögn- inni af þorskastríðunum. Þetta var mjög þörf lexía fyrir menn.“ Í seinni tíð eru það helst hér- lendar íþróttafréttir sem eru hlið- stæðar erlendum stríðsfréttum segir Þorbjörn. „Þetta er einhliða lýsing málsaðila,“ segir Þorbjörn. Fréttir af deilum um hvalveiðar hafi ekki verið jafn hliðstæðar stríðsfréttum að hans mati þar sem skoðanir hafa verið skiptar innanlands. brynjolfur@frettabladid.is 18 11. janúar 2003 LAUGARDAGUR „Þessi heilaga kýr og stórmerka stofnun BBC, sem ég vil ekki gera lítið úr, var bull- andi hlutdræg.“ ,, Fyrsta fórnarlamb átakanna Sannleikurinn hefur stundum verið sagður fyrsta fórnarlambið í hverju stríði. Það má að nokkru til sanns vegar færa enda hafa stjórnvöld löngum reynt að ritskoða fréttir af stríðum sem þau eiga í og stríðsfréttaritarar stundum lýst stríðum í ævintýralegri ljóma en þátttakend- ur þeirra hafa upplifað. LEITAÐ AÐ HRYÐJUVERKAMÖNNUM Fjölmennt herlið er enn í Afganistan til að tryggja stöðugleika í landinu og leita að meðlimum al Kaída. VAKTIN STAÐIN Í KÚVÆT Bretar og Bandaríkjamenn eru að byggja upp hernaðarmátt sinn við Persaflóa. Herstöð Bandaríkjamanna í eyðimörk Kúvæt nefnist New York-bækistöðin.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.