Fréttablaðið - 11.01.2003, Blaðsíða 28

Fréttablaðið - 11.01.2003, Blaðsíða 28
28 11. janúar 2003 LAUGARDAGUR Af hverju heitirðu Jón en ekki Magnús? Fjölmargir þættir hafa áhrif á það hvernig menn eignast sín nöfn og í þessari grein eru nokkrir fletir skoðaðir. Sveingveldur, Ólafur Ragnar, Frómráður og fleiri nöfn MANNANÖFN Menn eru ýmist nefndir „út í loftið“ eins og það er kallað, í höfuðið á einhverjum (eða jafnvel einhverju) þá ýmist innan ættar eða í höfuðið á einhverjum fræg- um eða almennar tískusveiflur ráða för. Til dæmis má nefna að stúlkubörnum sem hlutu nafnið Birta fjölgaði áberandi hratt á ár- unum 1996 til 2000. Þá gengur það í sveiflum hvort menn bera tvínefni eða einnefni. Meðal breytinga á nafnvenjum á 20. öld er veruleg fjölgun tvínefna. Séra Pálmi Matthíasson hefur skírt fjölda barna og velt þessum málum mikið fyrir sér. Hann bend- ir á sérkennilega tilhneigingu í þessum efnum. Þegar reglur um hversu mörg nöfn hver og einn má bera voru rýmkaðar fyrir nokkrum árum fjölgaði einnefn- um. „Það var líkt og fólki væri mikið í mun að fá þessa breytingu fram en því hafi svo fylgt ákveð- inn léttir með afleiðingum sem ganga í raun í hina áttina.“ Erfitt er að fullyrða nokkuð í þessum efnum en ætla má að nöfn hafi talsverð áhrif bæði á sjálfs- myndina og einnig viðhorf ann- arra. Þó að nöfn hafi fagurfræði- legt gildi í sjálfu sér er öruggt að áberandi persónur setja mark sitt á eigindir nafna. Í Þjóðskrá er ein- ungis að finna þrjá sem bera nafn- ið Mörður. Má leiða að því líkum að sá alræmdi Mörður í Njálu hafi þar nokkuð að segja því í sjálfu sér er fátt eitt út á nafnið að setja sem slíkt. Hvaða áhrif hafa áberandi einstaklingar í þessum efnum, ef einhver? Gefur fólk börnum sínum nöfn í höfuðið á frægum einstak- lingum eða beinlínis forðast það? Ólafur Ragnar og Ólafur Ragnar Nærtækt er að líta til sjálfs for- setans í þessu sambandi. Í þjóð- skrá er að finna 27 menn sem bera nafnið Ólafur Ragnar. Þar af eru fjórtán fæddir á 8. áratugnum. Segja má að allt frá árinu 1959 hafi árlega einhverjum dreng verið gefið nafnið Ólafur Ragnar allt til ársins 1985. Þá snarhættir það. Eftir það er einungis einum gefið nafnið, árið 1991. Hvað veldur? „Ég veit það svei mér ekki,“ segir Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins. „Hlýtur ekki þjóðhöfðinginn að hafa þar ein- hver áhrif og er það þá ekki bara á sömu forsendum og menn vilja ekki gefa börnum sínum nöfn á borð við Jesús eða eitthvað slíkt?“ Pétur segist reyndar ekki hafa orð- ið var við að neinn einn frægur hefði sérstök áhrif í þá átt að fólk nefndi eftir viðkomandi. „Hvorki Sollu bollu né Dabba dóna ef því er að skipta.“ Og það kemur á daginn að Davíð Oddsson á einungis einn alnafna í Þjóðskrá. Hins vegar er þar að finna fimm sem heita Ingi- björg Sólrún, samsetning sem óneitanlega er sérstök, og þar af eru þrjár fæddar á árunum 1989 til 1992. Ólafur Ragnar Halldórsson, klippari hjá Stöð 2, er fæddur árið 1965 og segir nafn sitt ekkert verra en hvað annað. Hinn frægi nafni hans hefur reyndar haft þau áhrif að hann gengur undir nafn- inu Óli forseti í vinnunni. „Það er góð spurning af hverju fólk hættir að nefna börn sín Ólafur Ragnar árið 1985. Ætli það sé ekki vegna þess að nafni minn Grímsson var orðinn frægur þá - kannski að endemum. Ég hef í sjálfu sér ekk- ert út á hann að setja og kaus hann meira að segja á sínum tíma. En ég færi mjög varlega í þessa sam- setningu núna. Það býður upp á stríðni. Ég slapp því þegar ég var í grunnskóla en þá var Grímsson ekki orðinn mjög áberandi.“ Karl Sjöundi og Freðsvunta Vigdís Finnbogadóttir virðist með framgöngu sinni hvorki hafa haft áhrif til né frá. Staðfestingu þess má finna í gögnum Jóhönnu Björnsdóttur, sem starfaði um ára- tugaskeið hjá Hagstofunni og er mikil áhugakona um nöfn. Nafnið Vigdís virðist standa í stað. Jó- hanna bendir á tískusveiflur sem eru henni minnisstæðar sem eru nöfnin Tara og Gabríel. Um 1990 eru þau fátíð en fjölgar gríðarlega eftir það. Jóhanna hefur engar kenningar um hvers vegna þessi nöfn fari skyndilega að njóta þess- ara vinsælda. Hún hefur gaman af því að velta fyrir sér samsetningu orða og segir frá hjónunum Sveini og Ingveldi sem létu dóttur sína heita Sveingveldi. Jóhanna hefur farið um land allt og skoðað kirkju- bækur markvisst. Þar kennir ým- issa grasa. „Til dæmis voru bræð- ur austur í sveitum sem hétu Frómráður, Friðgjarn og Dygð- rækir austur í sveitum. Þeir dóu allir ungir og komust aldrei í manntöl,“ segir Jóhanna. „Karl Sjöundi dó ungur líka. Hann mun hafa verið sjöunda barnið eða sjö- undi sonurinn. Einn var látinn heita Á og var hann fermdur undir því nafni en breytti því síðar í Árni og dó undir því nafni. Lofthæna var til og fullyrt var að Freðsvunta hefði verið það einnig en ég hef hvergi rekist á það. Óneitanlega skrýtin nöfn og oft erfitt að gera upp á milli þeirra sumra í þeim efnum. Epephaní hét til dæmis móðir skólasystur minnar.“ Útlönd og stafrófið áhrifa- valdar Séra Pálmi segir miklu minna um tískusveiflur nú en fyrir nokkrum árum. Hann bendir jafn- framt á að sjaldgæf nöfn njóti meiri athygli en hin sem algengari eru, til dæmis Alexander, Telma og Alexandra. Einnig sé áberandi að fólk líti til þess hvernig nöfn hljó- mi í útlöndum, sem rekja megi til áhrifa hnattvæðingarinnar. Pálmi leggur á það áherslu að fólk velti því vandlega fyrir sér hvernig notkun verði. Dæmi eru um hjón sem vildu gefa stúlkubarni sínu nafnið Sif sem millinafn en hurfu frá því þegar presturinn benti þeim á að í eignafalli verður nafn- ið Sifjar - það þótti þeim ekki ganga. Pálmi segir jafnframt ávallt verða hefð fyrir því að gefa nöfn í höfuðið á einhverjum innan fjölskyldunnar. Fólk sem af stafar góðmennska sé einkum áhrifavald- ar í þessum efnum og setji mark sitt á nafn með þeim hætti að fólk vill varðveita þau. Samkvæmt upplýsinum Hag- stofunnar vekur athygli hve nöfn sem standa framarlega í stafrófs- röð eru vinsæl nú um stundir, eink- um hjá drengjum, sem bera þá nöfn eins og Aron, Arnar, Alexand- er og Andri. Hvað ræður þessu? Þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan kom ekkert í ljós sem styður þá kenningu að þeir sem eru framar í stafrófsröð sýni betri námsárang- ur. Júlíus K. Björnsson, forstöðu- maður hjá Námsmatsstofnun, gerði óformlega könnun fyrir Fréttablaðið innan stofnunar sinn- ar en enginn kannaðist við slíkt. „Við gerðum líka smá athugun á einkunnum 10. bekkjar síðasta vors og ekkert slíkt samband kom í ljós. Þetta útilokar auðvitað ekki að áhrifin geti verið til staðar, en gerir það þó frekar ólíklegt.“ Séra Pálmi Matthíasson heyrir oft fólk segja: Ég ætla sko ekki að láta mitt barn vera aftarlega í staf- rófinu! „Þetta á einkum við um þá sem bera nöfn sem eru aftarlega í stafrófsröð. Væntanlega hefur við- komandi orðið fyrir einhverjum óþægindum þess vegna.“ Og ekki verður hjá því litið að stafrófið hefur talsvert um það að segja í hvaða röð fólk er kallað upp bæði í skóla og á öðrum sviðum. Algengustu nöfnin Hagstofan tók saman upplýs- ingar um algengustu nöfn í þjóð- skrá 31. desember auk algengustu nafna sem gefin voru á tímabilinu 1996 til 2000. Sem fyrr eru algeng- ustu nöfnin Jón og Guðrún. Í flokki karla eru tíu algengustu nöfnin (í réttri röð): Jón, Sigurður, Guð- mundur, Gunnar, Ólafur, Einar, Magnús, Kristján, Stefán og Jó- hann. Algengustu kvenmannsnöfn- in eru: Guðrún, Anna, Sigríður, Kristín, Margrét, Helga, Sigrún, Ingibjörg Jóhanna og María. Breytinga má hugsanlega vænta því listar yfir nýlegar nafngiftir eru ekki alveg svo hefðbundnir. jakob@frettabladid.is JÓHANNA BJÖRNSDÓTTIR Sérfræðingur í mannanöfnum og hefur fundið mörg sérkennileg nöfn í kirkjubókum: Karl Sjöundi, Á og Friðgjarn eru þeirra á meðal. HERRA ÓLAFUR RAGNAR GRÍMSSON Einhverra hluta vegna hætti fólk að gefa börnum sínum tvínefnið Ólafur Ragnar árið 1985 með einni undantekningu. Hvað veldur því? TVÍNEFNI KARLA GEFIN Á TÍMABILINU 1996 TIL 2000: Sindri Snær (30) Aron Ingi (28) Andri Snær (24) Arnar Freyr (24) Aron Freyr (21) Andri Már (18) Andri Þór (18) Andri Freyr (17) Bjarki Þór (16) Arnar Ingi (15) TVÍNEFNI KVENNA GEFIN Á TÍMABILINU 1996 TIL 2000: Anna María (18) Sara Lind (17) Eva María (14) Anna Kristín (13) Anna Margrét (12) Birta María (12) Kristín Helga (12) Rebekka Rut (12) Sandra Dögg (12) Harpa Lind (11) SÉRA PÁLMI MATTHÍASSON Segir algengt að fólk líti til þess hvernig nöfn hljóma í útlöndum í tengslum við nafngiftir.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.