Fréttablaðið - 10.09.2005, Blaðsíða 61
ist að þeim myndi ekki líka minn
partur í myndinni. En þau eru enn
að vitna í myndina, þannig að
þetta fór allt vel.“
Uppeldi þeirra er nú líklegast
mjög ólíkt þínu eigin, þú fluttir til
dæmis um 20 sinnum á fyrstu 15
árum þínum. Þessi saga tekur ör-
lítið á slíku óöryggi á heimilinu,
gastu tengt þig eitthvað við það?
„Ég held reyndar að ég hafi
búið á um 30 mismunandi stöðum
þegar ég var 17 ára,“ leiðréttir
Depp. „Þetta var algjör bilun. Ég
held að það hafi bókað haft mikil
áhrif á mig sem einstakling. Enn
þann dag í dag fæ ég þá tilfinn-
ingu að ég verði að breyta um um-
hverfi og þannig hafa börnin mín
fengið að kynnast þessu örlítið
líka. Við vorum ekki beint synd-
andi í seðlum. Ég bjóst aldrei við
því að enda á þeim stað sem ég er
í dag. Ég gæti enn endað á göt-
unni. Ég er frekar sáttur bara eins
lengi og ég hef loft til að anda og
mat á borðið fyrir mig og fjöl-
skylduna. En ég var nú ekkert að
velta þessu fyrir mér sérstaklega
við gerð þessarar myndar.“
Af Stubbum og illa lyktandi
súkkulaði
Kvikmyndir Tims Burton snerta
flestar á skuggahliðum lífsins,
hvort sem það er í gamni gert eða
alvöru. Með síðustu myndum sín-
um Big Fish og nú þessari virðist
hann þó vera að færa sig örlítið
nær ljósinu. Hann varð pabbi fyr-
ir um tveimur árum síðan og því
auðvelt að ímynda sér að sá sólar-
geisli hafi haft þó nokkur áhrif á
sköpunargáfu hans.
Gæti það verið málið, að Tim sé
að mýkjast við það að hafa loksins
erfingja í lífi sínu?
„Já, og það að horfa á Tele-
tubbies í sjónvarpinu og svona,“
segir Tim kaldhæðnislega. „Þeir
gefa mér bara jákvæðara viðmót
til heimsins. Ég er svo hamingju-
samur maður.“
„Ég er aftur á móti í vandræð-
um vegna þess að börnin mín eru
að verða of gömul fyrir Tele-
tubbies,“ segir Johnny. „Mig
dauðlangar til þess að halda
áfram að horfa á þá. Ætli ég geri
það ekki bara.“
Súkkulaðið í myndinni er mjög
raunverulegt að sjá, hvernig var
það eiginlega að vinna heilu dag-
ana með streymandi súkkulaði-
fljót?
„Eftir nokkra daga var fljótið
byrjað að lykta ansi illa,“ segir
Tim og hlær. „Ég vildi óska að ég
gæti deilt því með þér. Kannski ef
ég fer úr skónum? Nei, lyktin var
miklu verri en táfýla.“
Ólíkt fyrri myndinni þá er að-
eins einn leikari sem leikur alla
Umpalumpana. Af hverju var sú
ákvörðun tekin?
„Það voru þrjár leiðir til þess
að gera þá“, segir Tim. „Að ráða
fullt af dvergum til þess að leika
þá eða tölvuteikna þá alfarið eins
og virðist tíðkast nú til dags. Ég
vildi ekki missa mannlega þáttinn
og því ákvað ég að fjölfalda einn
dverg sem mér fannst líta út eins
og Umpalumpi. Mér fannst það
líka nægilega skrýtið til þess að
það væri í samræmi við sýn höf-
undarins.“
Bættuð þið þá engu við sögu-
þráðinn?
„Það eina sem við bættum inn
í, sem var ekki í bókinni, voru at-
riðin úr æsku Willy Wonka,“ segir
Tim. „Við reyndum að hafa þau í
anda bókarinnar. Dahl er svo stór-
kostlegur rithöfundur að okkur
langaði til þess að ná því. Mér
fannst að ef áhorfandinn fengi
ekki útskýringu á því af hverju
Wonka væri svona sérvitur, þá
yrði hann bara einhver furðufugl.
Mig langaði samt alls ekki að
rústa dularfullt yfirbragð hans.
Það er svo flott við Wonka að mað-
ur er aldrei viss um hvort hann sé
góður eða slæmur.“
„Það var mjög gott að hafa for-
tíð hans með, til þess að móta per-
sónuna,“ bætir Johnny við. „Mér
fannst það virkilega góð viðbót.“
Studdust þið þá ekkert við
gömlu myndina?
„Nei, ekki neitt,“ segir Tim.
„Ég veit að mörgum finnst hún
vera algjör klassík en hún hafði
aldrei þau áhrif á mig. Ég bað
meira að segja leikarana og hand-
ritshöfundinn um að sleppa því að
horfa á gömlu myndina og lesa
bara bókina. Hún var því mjög
viljandi hunsuð.“
Þið völduð Freddie Highmore í
hlutverk Charlies. Þú, Johnny,
vannst með honum áður við gerð
myndarinnar Finding Neverland.
Kom hann ykkur eitthvað á óvart
við gerð þessarar myndar?
„Hann er alveg hreinn og heið-
arlegur,“ segir Depp. „Hann er
bara ljúfasti og venjulegasti pilt-
ur í heimi. Hann hefur ótrúlegan
þroska miðað við ungan aldur. Að
hafa hann á staðnum færir mynd-
ina alveg bókað á æðra plan.“
„Svo hefur hann aldrei þurft að
fara í fangelsi,“ segir Burton
skyndilega og báðir springa úr
hlátri.
Einhver viðbrögð frá fjölskyldu
Roalds Dahl?
„Ég var meira stressaður yfir
því að sýna þeim myndina en
kvikmyndaverinu,“ viðurkennir
Burton. „Vegna þess að þetta er
barnið þeirra, þannig séð. Þau
voru virkilega vingjarnleg, ekkj-
an hans er virkilega góð persóna.“
Hvaða verkefni bíða þín,
Johnny?
„Já, ég er í smá pásu frá því að
skjóta tvær framhaldsmyndir
Pirates of the Caribbean. Það hef-
ur allt gengið mjög vel með þær
myndir og það hefur verið sér-
staklega skemmtilegt starf.
Seinna á þessu ári ætti svo mynd
sem ég lék í um daginn, The
Libertines, að koma út. Ætli það
verði ekki í desember?“
En svona að lokum Tim, hver
væri þinn óska gullni miði?Að
hvaða lokuðu svæði myndir þú
helst vilja fá aðgang?
„Hmm, ég væri til í að vera í
herberginu þegar Britney Spears
fæðir barnið sitt!“
LAUGARDAGUR 10. september 2005 37